Öldungaráð - Fundur nr. 73

Öldungaráð

Ár 2023, miðvikudaginn 11. janúar var haldinn 73. fundur öldungaráðs Reykjavíkurborgar. Fundurinn var haldinn í ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 10.03. Fundinn sátu Sara Björg Sigurðardóttir, Geir A. Guðsteinsson, Jóhann Birgisson, Ingibjörg Óskarsdóttir, Haraldur Sumarliðason og Eva Kristín Hreinsdóttir. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan í 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar varðandi fjarfundaheimild: Unnur Þöll Benediktsdóttir, Birna Hafstein og Ingibjörg Sverrisdóttir. Einnig sátu fundinn Anna Sigrún Baldursdóttir og Anna Kristinsdóttir. 
Elísabet Pétursdóttir ritaði fundargerð. 

Þetta gerðist:

 1. Lagt fram fundardagatal öldungaráðs vor 2023. MSS22060166

  Fylgigögn

 2. Lögð fram drög að þingsályktunartillögu um aðgerðaráætlun um þjónustu við eldra fólk 2023 – 2027.
  Samþykkt að fela formanni öldungaráðs í samráði við fulltrúa ráðsins, að gera drög að umsögn í samræmi við umræðu fundarins

  Fylgigögn

 3. Fram fer kynning á Húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar uppfærsla 2022. MSS22020087

  Öldungaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

  Öldungaráðið vill þakka fyrir greinagóða kynningu á húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar og tekur undir mikilvægi þess að vinna að auknum og bættum búsetuúrræðum fyrir eldra fólk. Í þróun eru 564 íbúðir, 138 eru í byggingu, byggðar hafa verið 465 en engar eru með samþykkt deiliskipulag þannig er óvíst hvenær þær rísa. Telur ráðið að brýnt sé að horfa lengra fram í tímann en nú er gert og setja fram langtímaáætlun um uppbyggingu íbúða fyrir þriðja æviskeiðið, þar sem horft er til félagslegrar blöndunar íbúa í fjölbreyttum húsnæðiskostum samhliða AR2040. Samkvæmt mannfjöldaspá Hagstofu Íslands stendur þjóðin frammi fyrir sömu áskorunum og nágrannalöndin okkar en hlutfall 65 ára og eldri mun aukast samhliða hækkandi lífaldri. Borgin er stödd á sínu mesta uppbyggingarskeiði og liggja tækifæri meðfram samgönguásum Borgarlínu til að skilgreina uppbyggingasvæði fyrir þennan hóp, í blandaðri byggð við önnur æviskeið, nálægt grænum svæðum, íþrótta- og frístundastarfi og fjölbreyttri verslun- og þjónustu. Öldungaráðið vill að aðgreindar séu upplýsingar um fjölda hjúkrunarrýma, frá öðrum tegundum íbúða fyrir eldra fólk í áætluninni.

  -    Kl. 11. 27 víkur Unnur Þöll Benediktsdóttir af fundinum og aftengist fjarfundarbúnaði. 

  Fylgigögn

 4. Öldungaráð leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Í ársskýrslum Félagsbústaða síðustu þrjú árin kemur fram fjöldi nýrra úthlutana skiptist á milli fimm ólíkra tegunda húsnæðis;  Almennt félagslegt leiguhúsnæði, Þjónustuíbúðir aldraðra, Húsnæði fyrir fatlað fólk, Húsnæði fyrir heimilislausa og að lokum, áfangaheimili. Öldungaráð hefur áhuga á að vita hversu margir 67 ára og eldri hafa fengið úthlutað húsnæði af tegund Almennt félagslegt leiguhúsnæði, síðustu 3 árin? Hversu margir aðilar og á hvaða aldri hafa fengið úthlutað skilgreindum þjónustuíbúðum fyrir 67 ára og eldri? Ef aðrir en 67 ára og eldri fá úthlutuðum þjónustuíbúðum, sem skilgreindar eru sérstaklega fyrir þennan aldur, hvernig er tryggt að það halli ekki 67 ára og eldri? Jafnframt er óskað upplýsinga um þann fjölda eldra fólks sem er á biðlista eftir þjónustuíbúðum og félagslegu húsnæði? MSS23010106

  Vísað til umsagnar velferðarsviðs og Félagsbústaða.

 5. Öldungaráð leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Sterkur er máttur heilsueflingar en fyrir utan líkamlegan og andlegan ávinning sem hlýst af hreyfingu þá vegur félagslegi þátturinn þungt í því að sporna gegn meinsemd 21. aldar - einmanaleikanum. Rannsóknir sýna fram á að markviss og skipulögð heilsuefling gerir fólki kleift að búa lengur heima hjá sér, hefur þannig forvarnargildi fyrir einstaklinginn, eflir bæði líkamlega og andlega heilsu sem eykur lífsgæði þeirra sem taka þátt. Öldungaráð Reykjavíkurborgar hefur áhuga á að vita umfang styrkja tengt heilsueflingu eldra fólks í borginni. Hvaða íþróttafélög fá styrki frá borginni til heilsueflingar eldra fólks í hverfum borgarinnar? Hversu há er upphæðin árlega síðustu fjögur árin og hve mikil hefur þátttakan verið yfir árið.   Þá hefur öldungaráðið áhuga á að vita hversu há upphæð Reykjavíkurborg styrkir sundleikfimi á ári síðustu fjögur árin eftir sundlaugum og hver þátttakan hefur verið. Að lokum hefur öldungaráðið áhuga á að vita hvort borgin styrki aðra tegundir heilsueflingar en þeirra sem íþróttafélög sinna. Ef svo er, hvaða heilsuefling er það, hvar er hún stunduð og hvað er upphæðin há? MSS23010107

  Vísað til umsagnar menningar-, íþrótta- og tómstundasviðs. 

Fundi slitið kl. 12.11

Sara Björg Sigurðardóttir Geir A. Guðsteinsson

Haraldur Sumarliðason Eva Kristín Hreinsdóttir

Ingibjörg Sverrisdóttir Jóhann Birgisson

Ingibjörg Óskarsdóttir Birna Hafstein

PDF útgáfa fundargerðar
73. fundur öldungaráðs frá 11. janúar 2023