Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð - Fundur nr. 108

Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð

Ár 2024, föstudaginn 23. febrúar var haldinn 108. fundur menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs. Fundurinn var haldinn í Borgartúni 14, Hofi og hófst kl. 09:04. Viðstödd voru: Skúli Helgason formaður, Kristinn Jón Ólafsson, Kjartan Magnússon, Sabine Leskopf, Stefán Pálsson og Erling Jóhannesson áheyrnarfulltrúi BÍL.   Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir tók sæti á fundinum með rafrænum hætti. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Eiríkur Björn Björgvinsson, Helga Friðriksdóttir, Alberta Albertsdóttir og Helga Björnsdóttir sem skrifaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning á Listahátíð í Reykjavík  MIR24020057

    Vigdís Jakobsdóttir listrænn stjórnandi Listahátíðar í Reykjavík tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

     

    Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Listahátíð í Reykjavík miðlar listsköpun í hæsta gæðaflokki frá öllum heimshornum og gæðir menningarborgina lífi. Fagnaðarefni er að sjá áherslur á málefni líðandi stundar eins og inngildingu og að hugað sé að því að listir og menning séu ekki forréttindi fárra heldur réttur allra, auk þess sem að aðgengi fyrir öll og virðing fyrir umhverfinu eru sett í forgang. Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð hlakkar til að njóta komandi listahátíðar með íbúum öllum.

  2. Lagt fram minnisblað um afgreiðslutíma sundstaða ásamt tillögu um opnun á rauðum dögum, dags. 19. febrúar 2024. – MÍR2420058

     Samþykkt.

     

    Fulltrúar Samfylkingar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Þjónusta verður aukin í sundlaugum borgarinnar á almennum frídögum í ár sérstaklega á stórhátíðum eins og jólum og páskum. Verulega fækkar þeim dögum þar sem sundlaugarnar eru lokaðar frá því sem var á síðasta ári. Lokunardögum fækkar í Breiðholtslaug, Dalslaug, Grafarvogslaug og Árbæjarlaug úr 13 dögum í 2-3 og í Sundhöll og Vesturbæjarlaug úr 9 dögum í 1. Áfram verður lokað 1 dag í Laugardalslaug eins og verið hefur. Á móti kemur að opnunartíminn er styttur á einstökum rauðum dögum og lokunum vegna viðhalds lauganna fjölgar um þrjá. Þar með mun áfram verða mætt hagræðingarkröfu ársins. Samandregið tvöfaldast opnunartíminn um jólin – fer úr 93 klst í 219 og um páskana fjölgar tímum um fjórðung. Þá verður gerð sú breyting að þá daga sem einhverjar laugar eru lokaðar verða bara 2 lokaðar en 5 opnar – sem á að koma í veg fyrir að það verði of mikið álag á hverja laug eins og dæmi voru um sl. jól. Breytingarnar taka gildi frá og með páskahátíðinni í mars næstkomandi og er með þeim verið að koma til móts við ábendingar sundlaugargesta og starfsfólks varðandi fyrirkomulagið á síðasta ári.

     

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa gert athugasemdir við miklar lokanir sundlauga í eystri hverfum borgarinnar í tengslum við stórhátíðir. Dalslaug og Grafarvogslaug voru t.d. lokaðar í fimm daga um jól og áramót. Í janúar óskuðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins eftir því að betur yrði staðið að þjónustu lauganna í framtíðinni enda ljóst að sundlaugarferðir eru sjálfsagður hluti af hátíðarhaldi margra. Fulltrúarnir fagna fyrirætlunum um að betur verið staðið að opnun sundlauga í framtíðinni í tengslum við stórhátíðir, sem yfirmenn menningar-, íþrótta- og tómstundasviðs kynntu á fundinum. Einnig hvetja Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins fulltrúa meirihluta Samfylkingarinnar, Pírata, Viðreisnar og Framsóknar til að láta ekki hér staðar nema heldur halda áfram og falla frá allri styttingu á afgreiðslutíma sundstaða, og benda á að með því að láta af útgáfu og dreifingu hins árlega bæklings um húsnæðisuppbyggingu í Reykjavík mætti spara a.m.k. tæpar 14 milljónir. Þá væri meirihlutinn langt komin með að ná sparnaðarmarkmiðum sínum án þess að skera niður þjónustu við íbúa.

     

    • kl. 09:50 tekur Birkir Ingibjartsson sæti á fundinum með rafrænum hætti.
    • kl. 10:00 víkur Helga Friðriksdóttir af fundi.

    Fylgigögn

  3. Lagt fram bréf sviðsstjóra menningar- og íþróttasviðs dags. 13. febrúar 2024 varðandi skipun fulltrúa í innkaupanefnd Listasafn Reykjavíkur. MIR2420056

     Samþykkt.

    • kl. 10:00 víkur Birkir Ingibjartsson af fundi og Pawel Bartoszek tekur sæti á fundinum.

    Fylgigögn

Fundi slitið kl. 10:13

Skúli Helgason Pawel Bartoszek

Kristinn Jón Ólafsson Sabine Leskopf

Kjartan Magnússon Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir

Stefán Pálsson

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð menningar- íþrótta- og tómstundaráðs frá 23. febrúar 2024