Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð - Fundur nr. 105

Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð

Ár 2024, föstudaginn 12. janúar var haldinn 105. fundur menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs. Fundurinn var haldinn í Borgartúni 14, Hofi og hófst kl. 09:00. Viðstödd voru: Skúli Helgason formaður, Andrea Jóhanna Helgadóttir varamaður fyrir Stefán Pálsson, Birna Hafstein varamaður fyrir Ragnhildi Öldu Vilhjálmsdóttur, Kjartan Magnússon, Kristinn Jón Ólafsson, Pawel Bartoszek og Sabine Leskopf.  Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Eiríkur Björn Björgvinsson, Steinþór Einarsson og Helga Björnsdóttir sem skrifaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram svohljóðandi tillaga meirihluta Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar:

    Lagt er til að settur verði á fót stýrihópur sem hafi það hlutverk að móta tillögur um aðgerðir til að auka þátttöku barna og ungmenna á Kjalarnesi í skipulögðu íþrótta – og frístundastarfi þar með talið listnámi.   Leitað verði skýringa á því hvers vegna færri börn og ungmenni nýta frístundastyrkinn á Kjalarnesi en flestum öðrum hverfum borgarinnar.  Hópurinn verði skipaður þremur fulltrúum menningar-,íþrótta- og tómstundaráðs, tveimur frá meirihluta og einum frá minnihluta.  Að auki starfi með hópnum fulltrúi frá íbúasamtökum Kjalarness, íbúaráði Kjalarness, Ungmennafélagi Kjalarness og Klébergsskóla auk starfsfólks menningar- og íþróttasviðs.  Leitað verði ráðgjafar og hugmynda frá öðrum sviðum og stofnunum borgarinnar eftir þörfum. Stýrihópurinn skili niðurstöðum sínum fyrir 1. maí 2024.

    Greinargerð fylgir tillögunni:

    Samþykkt.  MIR24010004

     

    Fulltrúar meirihluta Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Frístundastyrkurinn hefur löngu sannað gildi sitt sem verkfæri til að stuðla að þátttöku barna og ungmenna í skipulögðu frístundastarfi. Gögn sýna að í flestum hverfum er nýtingin á bilinu 80-90% en á því eru nokkrar undantekningar einkum í Breiðholti, Miðborg og Kjalarnesi þar sem nýtingin er á bilinu 60-70%. Sérstakt verkefni hefur verið í gangi í Breiðholti til að auka virkni barna og ungmenna og hér er lagt til að farið verði í aðgerðir á Kjalarnesi til að auka þátttöku þeirra í íþróttum, listnámi og öðru skipulögðu frístundastarfi. Sérstaklega verði hugað að leiðum til að örva stúlkur til þátttöku en þær hafa mun síður nýtt styrkinn en strákar á Kjalarnesi svo munar heilum 15 prósentustigum. Tillagan gerir ráð fyrir stofnun stýrihóps sem leggi fram tillögur eigi síðar en 1. maí næstkomandi.

    Fylgigögn

  2. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar dags. 5. desember 2023 þar sem vísað er til meðferðar menningar- og íþróttasviðs erindi menningar- og viðskiptaráðuneytisins dags. 4. desember 2023 þar sem kallað er eftir þátttöku sveitarfélaga vegna vinnu við tilnefningu sundlaugarmenningar á skrá UNESCO.  MSS23120022.

    Sviðsstjóra falið að vinna minnisblað vegna málsins.

    Fylgigögn

  3. Fram fer umræða um afgreiðslutíma sundstaða. MSS24010093

    Fulltrúar meirihluta Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Þjónusta sundlauga borgarinnar er fyrsta flokks og á heimsmælikvarða ef horft er til gæða, opnunartíma og verðlags. Sundlaugarnar eru að meðaltali opnar 356 daga á árinu og sú vinsælasta Laugardalslaug alla daga ársins fyrir utan einn, þ.e. jóladag sem er jafnframt eini dagur ársins þar sem allar sundlaugarnar eru lokaðar. Á öðrum hátíðisdögum eru a.m.k. þrjár og oftast fjórar sundlaugar opnar í borginni. Þetta er betri þjónusta en önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu bjóða og sömuleiðis betri en í nágrannalöndunum, t.d. Kaupmannahöfn og Stokkhólmi. Öllum ábendingum um þjónustuna er þó vel tekið og kemur vel til greina að skoða breytta útfærslu á opnunartímanum á hátíðisdögum, svo fremi sem breytingar rúmast innan fjárhagsramma sviðsins. Meirihluti ráðsins felur sviðsstjóra að leggja fram á allra næstu vikum tillögur að breytingum sem falli betur að óskum sundlaugagesta sem og útfærslu á hugmyndum sem ræddar hafa verið í ráðinu undanfarið um breytingar á gjaldskrám og tekjuöflun.

     

    Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Varðandi umræðu um gjaldtöku af eldri gestum lauganna þá vill fulltrúi Sósíalista benda á að ekki borgi sig að taka upp aðferðir við gjaldtöku sem letji þau sem eru í fátækari endanum af þeim hópi, því að það sé hópur sem þurfi að hvetja fremur en hitt til þess að halda lýðheilsu hans á háu stigi. Þar sé fólk sem getur verið mjög lúið eftir langa vinnuævi og sundiðkun besta leiðin til þess að stunda holla hreyfingu og félagsskap, og stuðla þannig að líkamlegri og andlegri hreysti. Sjálfsagt sé að taka gjald fyrir útgáfu korts og að endurnýja þurfi með framvísun skilríkja árlega. Þó gjald sé kallað hóflegt þýðir það að þó ekki að það sé í raun hóflegt fyrir alla enda eðli flatra gjalda að þau bíta harðar í lægri tekju- og eignahópum. Allar aðgerðir sem gera eldri borgarbúum erfiðara um að sinna heilbrigði mun sömuleiðis bíta samfélagslegu kerfin harðar annarsstaðar, ekki eigi að gera það erfitt eða niðurlægjandi að halda sér við holla hreyfingu fyrir þau sem sannarlega þurfa mest á henni að halda.

     

  4. Fram fer kynning á framgangi vinnu við sameiningu sviða.

  5. Lagt fram svar sviðsstjóra dags. 9. janúar 2024 við fyrirspurn Vinstri grænna á fundi menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs 5. janúar 2024 liður 3 um afdrif tillögu um mótun heildarstefnu um hlutverk skólasafna í Reykjavík. MSS23030136

     

    Fylgigögn

Fundi slitið kl. 09:45

Skúli Helgason Kristinn Jón Ólafsson

Pawel Bartoszek Sabine Leskopf

Kjartan Magnússon Birna Hafstein

Andrea Helgadóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð menningar- íþrótta- og tómstundaráðs frá 12. janúar 2024