No translated content text
Mannréttindaráð
Ár 2011, 20. desember, var haldinn 84. fundur mannréttindaráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 15.15. Fundinn sátu Margrét Sverrisdóttir, Margrét Kristín Blöndal, Bjarni Jónsson, SJÓN, Þórey Vilhjálmsdóttir, Björn Gíslason, og Elín Sigurðardóttir. Jafnframt sátu fundinn Anna Kristinsdóttir og Jóna Vigdís Kristinsdóttir sem var fundarritari.
Þetta gerðist
1. Vinna við styrkjahandbók kynnt.
2. Lögð fram fundaráætlun ráðsins fyrir fyrri hluta ársins 2012 og hún samþykkt.
3. Lagðar fram tillögur vegna þjónustu við innflytjendur 2012.
Eftirfarandi tillögur samþykktar samhljóða:
Tillaga 1.
Lagt er til að ráðinn verði pólskumælandi ráðgjafi innflytjenda í 100#PR starf. Ráðgjafinn heyri undir mannréttindaskrifstofu en verði staðsettur á þjónustuskrifstofu á Höfðatorgi. Samhliða verði stofnað sérstakt símanúmer þar sem veittar verða upplýsingar um þjónustu Reykjavíkurborgar á pólsku. Ráðningin verði til reynslu í eitt ár.
Tillaga 2.
Lagt er til að ráðinn verði ráðgjafi innflytjenda í 100#PR starf. Ráðgjafinn heyri undir mannréttindaskrifstofu en verði staðsettur á Mannréttindaskrifstofu Íslands og þjónustumiðstöðvum Reykjavíkurborgar. Ráðgjafinn veiti ráðgjöf til innflytjenda og fræðslu til starfsmanna þjónustumiðstöðva um hvernig best megi þjónusta innflytjendur m.a. um túlkaþjónustu. Ráðningin verði til reynslu í eitt ár.
4. Tillaga frá Betri Reykjavík um mannréttindi útigangsfólk. Lögð fram tillaga um stofnun starfshóps um skilgreiningu mannréttinda útigangsfólks og fíkla í Reykjavík. Tillagan samþykkt samhljóða.
5. Lögð fram umsögn mannréttindaráðs til borgarráðs varðandi Atvinnustefnu Reykjavíkurborgar.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Lögð hefur verið fram atvinnustefna núverandi meirihluta sem virðist vera unnin án nokkurs samráðs við hin almenna borgarbúa eða pólitíska fulltrúa borgarbúa í borgarstjórn. Aðeins einn borgarfulltrúi hefur komið að verkinu, sem endurspeglar því aðeins hluta þeirra sjónarmið sem eiga að ráða för í svo mikilvægri stefnumótun. Á sínum tíma samþykkti borgarstjórn að þessi stefna skyldi unninn af þverpólitískum hópi borgarfulltrúa, en án nokkurrar heimildar borgarstjórnar setti núverandi meirihluti þessa vinnu í þann farveg að hún hefur einungis verið í höndum eins kjörins fulltrúa, Dags B. Eggertssonar. Þau drög að atvinnustefnu sem nú eru til umræðu eru því hvorki fullunnin né vel unnin. Að auki er með hreinum ólíkindum að meirihlutinn skuli einungis bjóða fagráðunum að koma með umsögn um fyrirliggjandi drög þessa eina borgarfulltrúa í stað þess að kalla fagráðin til ráðgjafar og samráðs á fyrstu stigum þessarar vinnu. Fulltrúar minnihlutans lögðu fram tillögu í borgarstjórn um að borgarfulltrúar allra flokka myndu í sameiningu setjast yfir þau drög sem fyrir liggja og koma þeim í þann búning sem málefninu og borgarstjórn sæmir, svo náðst gæti góð sátt um verkefnið Þá tillögu felldi meirihlutinn sem verður því einn og óstuddur að bera ábyrgð á svo ólýðræðislegum og óvönduðum vinnubrögðum.
Fulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar óska bókað:
Fulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar fagna heildstæðri atvinnustefnu fyrir Reykjavík þar sem lagður er góður grunnur að framtíðarstefnu í þessum málaflokki. Að öðru leyti er vísað til þeirra ábendinga sem fram koma í umsögn mannréttindaráðs.
Fulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:
Atvinnustefna Reykjavíkur er að mörgu leyti áhugaverð lesning og er þörfin fyrir slíka stefnu ekki dregin í efa. Fulltrúi Vinstri grænna tekur að fullu undir þær athugasemdir sem koma fram í umsögn mannréttindaráðs um stefnuna. Fulltrúi Vinstri grænna furðar sig þó á því hversu atvinnustefna Reykjavíkur er afmörkuð við atvinnulíf hins almenna vinnumarkaðar án þess að fjallað sé um mikilvægi menntunar og velferðar sem undirstöðu öflugs atvinnulífs. Lítið sem ekkert er fjallað um hlutverk Reykjavíkurborgar sem atvinnurekenda, en þar leynast mörg tækifæri sem gætu stuðlað að bættri heilsu og menntun til framtíðar auk þess að efla atvinnuþátttöku í Reykjavík. Eins vantar kafla í stefnuna á borð við „Barna- eða fjölskylduborgin“ eða „fjölbreytileikaborgin“. Ekki er séð að tekið hafi verið nægilegt tillit til mannréttindastefnu borgarinnar við vinnslu atvinnustefnunnar, en mikilvægt er að áætlanir borgarinnar rími saman. Það vantar einnig tillögulega að fjalla um ábyrgð Reykjavíkurborgar gagnvart minnihlutahópum s.s fötluðum og innflytjendum auk þess sem kynjasjónarmið hafa ekki verið samþætt inn í stefnuna. Þá hefði fulltrúi VG óskað þess að jafn mikilvæg stefnumótun og atvinnustefna fyrir Reykjavík hefði verið unnin líkt og aðrar mikilvægar stefnumótanir borgarinnar í starfshópi skipaðan fulltrúum frá öllum flokkum þar sem kynjasjónarmiða hefði verið gætt. En í mannréttindastefnu borgarinnar sem samþykkt var einróma í borgarstjórn þann 16. Maí 2006 kemur eftirfarandi fram í grein 2.1; „Við skipan í nefndir, stjórnir og ráð skal hafa að markmiði að hlutföll kynjanna séu semjöfnust. Jafnræði kynjanna skal einnig hafa að leiðarljósi þegar valdir eru fulltrúar í vinnuhópa til undirbúnings stefnumótunar og meiriháttar ákvarðana.“ Fulltrúi Vinstri grænna telur í það minnsta brýnt að stefnan verði rýnd út frá kynja- og mannréttindasjónarmiðum og bindur vonir við að hún fái samfélagslegri blæ, þar sem gert er ráð fyrir fjölbreyttari áherslum og styrkari innviðum sem m.a. tekur til menntunar og velferðar.
6. Lögð fram aðgerðaráætlun í jafnréttismálum í tengslum við Evrópusáttmála um jafna stöðu kvenna og karla og hún samþykkt samhljóða.
Fundi slitið kl. 16.38
Margrét Sverrisdóttir
Björn Gíslason Margrét Kristín Blöndal
Þórey Vilhjálmsdóttir Bjarni Jónsson
Elín Sigurðardóttir SJÓN