Mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð - Fundur. nr. 1

Mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð

Ár 2022, fimmtudaginn 30. júní var haldinn 1. fundur, mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs. Fundurinn var haldinn í Tjarnarbúð og hófst kl. 13.04. Fundinn sátu: Magnús Davíð Norðdahl, Árelía Eydís Guðmundsdóttir, Sabine Leskopf, Þorvaldur Daníelsson, Friðjón R. Friðjónsson, Trausti Breiðfjörð Magnússon og Helga Þórðardóttir. Einnig sat fundinn Anna Kristinsdóttir.

Elísabet Pétursdóttir ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

 1. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar dags. 23. júní 2022, um stofnun mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs á fundi borgarstjórnar þann 21. júní s.l. MSS22060044

  Mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð leggur fram svohljóðandi bókun:

  Með nýjum meirihlutasáttmála var samþykkt að sameina ofbeldisvarnarnefnd og mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð sem og að leggja niður stýrihóp um kynjaða fjárhags- og starfsáætlun. Nýstofnað mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð skuldbindur sig að tryggja að öllum þeim verkefnum sem unnið hefur verið að verði fylgt eftir af krafti. Nú sem aldrei fyrr þarf að útrýma ofbeldi og efla jafnrétti, bæði allra kynja og jafnrétti í víðara samhengi.

  Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Flokkur fólksins hefur áhyggjur af að með þessari breytingu, þ.e. að leggja niður ofbeldisvarnarnefnd og setja málaflokkinn undir mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð, áður mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð. Við óttumst að verið sé að gengisfella málaflokkinn. Málaflokknum um ofbeldi er nánast fórnað fyrir málaflokkinn um stafræna vegferð sem nú fær sitt eigið ráð. Eitthvað þurfi því til að fylla í skarðið í mannréttinda- og ofbeldisvarnarráði og þótti þá greinilega í lagi að smella ofbeldismálunum þar inn. Enda þótt segi í greinargerð með tillögunni að þeim sem setið hafa í ofbeldisvarnanefnd verði tryggð aðkoma að störfum hins nýja ráðs þá er það nokkuð annað en að sitja í sérstakri nefnd um ofbeldismál. Ekki kemur fram hvort einhver sérstakur fjárhagslegur ávinningur sé af þessari breytingu.

  Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúar sósíalista styðja mikilvægi þess að málefni mannréttinda- og ofbeldisvarna fái aukið vægi í borginni. Fulltrúar sósíalista lögðu ásamt öðrum fulltrúum á borgarstjórnarfundi fram breytingartillögu um að samþykkt yrði að stofna mannréttindaráð en hafa hlutverk, verkefni og málefni ofbeldisvarnarnefndar í óbreyttri mynd. Því var hafnað. Ofbeldisvarnarnefnd sem hefur starfað skipaði fagaðila frá Stígamótum, Samtökum um kvennaathvarf, Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu og Embætti landlæknis. Nú er ofbeldisvarnarnefnd lögð niður, en ógert er að tryggja aðkomu þeirra faglegu samráðsfulltrúa sem áður áttu meirihluta sæta í henni. Sömuleiðis voru heimildir nefndarinnar víðar, afar skýrar og einnig tilgangur hennar. Ekki er skýrt hvernig aðkoma þeirra verður tryggð sem er miður.

  Fylgigögn

 2. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar dags. 23. júní 2022, um kosningu sjö fulltrúa og sjö til vara í mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð á fundi borgarstjórnar þann 21. júní. Magnús Davíð Norðdahl var kosinn formaður mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs. MSS22060044 

  Lagt er til að Árelía Eydís Guðmundsdóttir verði varaformaður mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs.

  Samþykkt. 

  Fylgigögn

 3. Lagt fram fundadagatal mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs ágúst – desember 2022. MSS22060205

  Fylgigögn

 4. Lögð fram svohljóðandi tillaga mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs um úttekt á stöðu ofbeldisvarnarmála hjá Reykjavíkurborg:

  Mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð leggur til að framkvæmd verði úttekt á stöðu ofbeldisvarnarmála hjá Reykjavíkurborg. Slík úttekt miðar að því að fá heildstæða sýn á stöðu ofbeldisvarna hjá Reykjavíkurborg í víðu samhengi, ekki síst með hvaða hætti er staðið að gerð og miðlun fræðsluefnis. Framkvæmd úttektar skal ákveðin og útfærð nánar í samráði við mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu og æskilegt að henni verði lokið eigi síðar en í árslok 2022. MSS22060211 

  Samþykkt.

  Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

  Mikilvægt er að tryggja aðkomu þeirra sem hafa orðið fyrir ofbeldi í úttektinni. Að í undirbúningum sé rætt við fólk sem hefur reynslu af og orðið fyrir ofbeldi. Þannig væri hægt að fá yfirsýn yfir helstu birtingarmyndir ofbeldis. Þetta myndi auka gæði úttektarinnar og tryggja að niðurstöður séu sem næst gildum niðurstöðum.

  Fylgigögn

 5. Lögð fram svohljóðandi tillaga mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs:

  Mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð leggur til að framkvæmd verði úttekt á kynþáttafordómum og birtingarmyndum þeirra innan stofnana Reykjavíkurborgar. Tillagan er í samræmi við aðgerð nr. 40 í Aðgerðaáætlun Reykjavíkurborgar gegn ofbeldi 2022-2024, að sporna gegn kynþáttafordómum og vinna að viðhorfsbreytingu. Framkvæmd úttektar skal ákveðin og útfærð nánar í samráði við mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu og æskilegt að henni verði lokið eigi síðar en í árslok 2022. MSS22060212 

  Samþykkt.

  Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

  Mikilvægt er að tryggja aðkomu þeirra sem hafa orðið fyrir kynþáttafordómum að úttektinni. Að í undirbúningnum sé rætt við fólk sem hefur reynslu af og orðið fyrir fordómum vegna litarhafts. Þannig væri hægt að fá yfirsýn yfir helstu birtingarmyndir kynþáttafordóma hérlendis. Þetta myndi auka gæða úttektarinnar og tryggja að niðurstöður séu sem næst gildum niðurstöðum.

  Fylgigögn

 6. Fram fer umræða um innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna hjá Reykjavíkurborg. MSS22060213

  Mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð leggur fram svohljóðandi bókun:

  Mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð telur mikilvægt að hafinn verði sem fyrst undirbúningur að innleiðingu barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna inn í stjórnsýslu borgarinnar undir hatti verkefnisins Barnvænna sveitarfélaga í samræmi við góðan árangur annarra sveitarfélaga í því samhengi.

  Samþykkt að senda bókun mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs til borgarráðs til upplýsingar.

 7. Fram fer umræða um stöðu mannréttinda út frá nýföllnum dómi hæstaréttar Bandaríkjanna um þungunarrof. MSS22060214 

  Mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð leggur fram svohljóðandi bókun:

  Mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð harmar nýfallinn dóm Hæstaréttar Bandaríkjanna um þungunarrof. Dómurinn felur í sér mikla afturför og skerðir réttindi kvenna til þess að stjórna eigin lífi og líkama. Dómurinn er áminning til okkar allra að taka mannréttindum ekki sem gefnum hlut og að baráttunni er aldrei lokið. 

 8. Fram fer umræða um skotárás á hinsegin samfélagið í Osló þann 25. júní s.l. MSS22060215

  Mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð leggur fram svohljóðandi bókun:

  Mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð er slegið vegna frétta af árás á hinsegin samfélagið í Osló um síðastliðna helgi. Hugur ráðsins er með öllum þeim sem eiga um sárt binda vegna árásarinnar og ekki síður hinsegin samfélaginu sem heild um víða veröld. Mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð áréttar að óheimilt er að mismuna fólki vegna kynhneigðar, kynvitundar, kyntjáningar eða kyneinkenna. Framlag hvers og eins skal ávallt metið að verðleikum án tillits til kynhneigðar, kynvitundar, kyntjáningar eða kyneinkenna. Árásin á hinsegin samfélagið í Osló var árás á mannréttindi okkar allra og brýnt að við gefum hvergi eftir í þeirri baráttu.

 9. Fram fer kynning á verkefnum mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu. MSS22060207

  Mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð leggur fram svohljóðandi bókun:

  Mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð leggur áherslu á fjölbreytilegar tegundir mannréttinda, ekki síst þeirra réttinda sem um er fjallað í alþjóðasamningi Sameinuðu þjóðanna um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. Í því samhengi telur ráðið rétt að unnið verði áfram að því á vettvangi Reykjavíkurborgar að taka á þeim vanda sem fátækt er í íslensku samfélagi. Ákvarðanir og stefnumörkun í ólíkum málaflokkum þurfa ætíð að taka mið af sjónarhorni fátæktar í samfélaginu og hvernig megi ráða bót á þeim vanda.

  Halldóra Dýrleifar Gunnarsdóttir, Svandís Anna Sigurðardóttir og Tómas Ingi Adolfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið. Joanna Marcinkowska tekur sæti með rafrænum hætti.

 10. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Flokks fólksins um dagskrá mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs:

  Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að tekin verði markvisst á dagskrá mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs málefni barna, eldra fólks og öryrkja en málefni þessara hópa hafa ekki verið nægilega til umfjöllunar í ráðinu á síðasta kjörtímabili. Mannréttindi varða okkur öll og huga þarf að mannréttindum í öllum hópum. Huga má meira að fátæku fólki í tengslum við mannréttindi en fátækir eru stækkandi hópur. Nefna má öryrkja sem þola mega skerðingar og ná þeir iðulega ekki endum saman. Sveitarfélagi er sem dæmi ekki skylt að fylgja almannatryggingarlögum þegar kemur að skerðingum og getur því gert mikið til að bæta kjör þeirra með því að taka sjálfstæða ákvörðun í þeim efnum. Skoða þarf mannréttindaþáttinn hjá börnum sem glíma við röskun eða fötlun af einhverju tagi og dæmi eru um að sumum er gert að stunda nám þar sem þau eru ekki meðal jafningja vegna skorts á sértæku skólaúrræði. Einnig leggur fulltrúi Flokks fólksins það til að ráðið fjalli sérstaklega um biðlista barna í skólaþjónustu borgarinnar en á honum bíða nú 2.011 börn. Það heyrir til mannréttinda að börn sem glíma við vanlíðan, kvíða, vitsmunaþroskavanda eða talmeinavanda fái stuðning við hæfi og án þess að þurfa að bíða eftir henni svo mánuðum skiptir.

  Greinagerð fylgir tillögunni. MSS22060240
  Frestað.

  1. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Flokks fólksins um mælingu á innleiðingu þjónustustefnu:

   Tillaga Flokks fólksins um mælingu á innleiðingu þjónustustefnu. Til er stefna sem heitir Þjónustustefna borgarinnar en hún var samþykkt í nóv. 2016 og aðgerðaáætlun í sept. 2017. Fulltrúi Flokks fólksins telur að margt í stefnunni sé ekki framkvæmt eða fylgt eftir. Eina leiðin til að komast að því hvaða hlutum hennar er ekki fylgt eftir, er að mæla árangur þátta svo sem hversu fljótt er leyst úr erindum o.s.frv. Þjónustustefnan er með átta áttavita. Flokkur fólksins myndi sérstaklega vilja láta mæla a.m.k. helming þeirra ef ekki alla: Hér eru fjórir af átta áttavitum sem mikilvægt er að mæla: Við komum fram við viðskiptavini af virðingu, við leitum lausna og leiða í þágu viðskiptavina.við vísum engum erindum frá, við sinnum viðskiptavinum fljótt og vel. Ef mæla á áttavitana með trúverðugum hætti þarf að spyrja notendur þjónustunnar. Þetta þarf að gera af hlutlausum aðila. Kannski er ekkert til sem heitir algert hlutleysi en í það minnsta þarf að fá til verksins einhverja sem hafa engar tengingar við borgina nema að taka við þóknuninni fyrir könnunina. MSS22060241

   Frestað.    

    1. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Flokks fólksins um aðgengismál fatlaðra: 

     Flokkur fólksins leggur til að mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð geri athugun á aðgengismálum fatlaðra. Fulltrúa Flokks fólksins finnst aðgengismál fatlaðra enn í nokkrum ólestri í Reykjavík og merkingar í samræmi við það. Flokkur fólksins leggur til að farið verði í skipulagða úttekt í miðborginni á hvaða staðir það eru þar sem ekki er hægt að koma við hjólastól og þar sem hættur leynast fyrir sjónskerta svo fátt eitt sé nefnt. Fatlað fólk á að hafa sömu réttindi og ófatlaðir sem þýðir að fatlaðir eiga að hafa aðgengi að sömu stöðum og ófatlaðir. Flokkur fólksins telur að aldrei sé hægt að sætta sig við þá stöðu að aðeins ákveðnir staðir séu fyrir fatlað fólk. Fulltrúa Flokks fólksins finnst að mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð ætti að beita sér af krafti til að koma aðgengismálum í fullnægjandi horf. Setja þarf í þetta aukið fjármagn og setja málaflokkinn sjálfan í mun meiri forgang en verið hefur. Árlega er veitt í málaflokkinn 69 milljónum. Þessa upphæð þarf að hækka til að hægt sé að gera átak í aðgengismálum. Borgin þarf einnig að skoða að gera kröfur til stofnana og fyrirtækja í borginni um að hafa aðgengismál í lagi. Sé það ekki, þá þarf að koma til hvatning af einhverju tagi og jafnvel einhvers konar þrýstingur. MSS22060242

     Frestað.

    2. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Flokks fólksins um fjölda íbúaráða í Breiðholti: 

     Flokkur fólksins leggur til að í Breiðholti verði tvö íbúaráð í stað eins. Hér er um að ræða eitt stærsta hverfið í Reykjavík sem samanstendur í raun af 4 svæðum/hverfum. Þau eru dreifð á stórt landsvæði. Lagt er jafnframt til að tillögunni verði vísað til stýrihóps um endurskipulagningu og framtíðarskipan fyrir íbúaráð sem mun skoða samþykktina um íbúaráð með tilliti til þessarar tillögu. Rökin eru ekki síst þau að í svo stóru hverfi þar sem mikill og góður fjölbreytileiki ríkir geti verið erfitt að uppfylla væntingar allra hverfisbúa og því veitir ekki af tveimur íbúaráðum. MSS22060243

     Frestað.

    Fundi slitið klukkan 16:15

    Magnús Davíð Norðdahl Árelía Eydís Guðmundsdóttir

    Sabine Leskopf Þorvaldur Daníelsson

    Friðjón R. Friðjónsson Helga Þórðardóttir

    Trausti Breiðfjörð Magnússon