Íþrótta- og tómstundaráð – starfaði til 2022 - og tómstundaráð

Íþrótta- og tómstundaráð – starfaði til 2022

ÍÞRÓTTA- OG TÓMSTUNDARÁÐ

Ár 2002. Föstudaginn 19. apríl var haldinn 304. fundur íþrótta- og tómstundaráðs. Fundurinn var haldinn á Fríkirkjuvegi 11 og hófst kl. 12:10. Viðstaddir voru: Steinunn V. Óskarsdóttir formaður, Ingvar Sverrisson, Sigrún Elsa Smáradóttir, Snorri Hjaltason og Kjartan Magnússon. Jafnframt Ómar Einarsson framkvæmdastjóri og Gísli Árni Eggertsson aðstoðarfram-kvæmdastjóri. Fundarritari: Helga Björnsdóttir skrifstofustjóri.

Þetta gerðist:

1. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra dags. 18. apríl sl. varðandi embættisfærslur sem borist hafa skrifstofu ÍTR.

2. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra ÍTR dags. 9. apríl sl. varðandi skipulag félagsmiðstöðva- og tómstundastarfs í borgarhluta 2.

3. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra dags. 8. apríl sl. varðandi styrkumsókn vegna starfrækslu sumarnámskeiða í miðborginni.

4. Lagt fram að nýju bréf framkvæmdastjóra ÍTR dags. 6. apríl sl. varðandi starfsreglur á sumarnámskeiðum.

5. Lagt fram að nýju bréf framkvæmdastjóra ÍTR dags. 4. apríl sl. vegna fyrirliggjandi styrkbeiðna íþróttafélaga vegna framkvæmda.

6. Formaður lagði fram eftirfarandi tillögu og bókun: Íþrótta- og tómstundaráð samþykkir að styrkja Knattspyrnufélag Reykjavíkur, Knattspyrnufélagið Fram og Íþróttafélagið Fylki vegna framkvæmda við gervigrasvelli á svæðum félaganna. Framkvæmdastjóra verði falið að ganga til samninga við félögin.

Íþrótta- og tómstundaráð samþykkir að styrkja Ungmennafélagið Fjölni vegna framkvæmda við íþróttavelli félagsins við Dalhús. Íþrótta- og tómstundaráð felur jafnframt framkvæmdastjóra að taka upp viðræður við félagið um möguleika á framkvæmdum við æfingavelli fyrir knattspyrnu í Grafarvogi.

Íþrótta- og tómstundaráð samþykkir að styrkja Knattspyrnufélagið Víking vegna framkvæmda við íþróttahús og bað- og búningsklefa. Vísað til framkvæmdastjóra.

ÍTR ítrekar þá afstöðu sína að íþróttastarf í Breiðholti taki mið af samstarfsyfirlýsingu þeirri sem ÍR og Leiknir undirrituðu í sept. 1999 og yfirlýsingu sama efnis frá maí 2000. Framkvæmdastjóra ÍTR er falið að fara yfir hugmyndir um nýtingu íþróttamannvirkja í Breiðholti og gera grein fyrir málinu á næsta fundi ÍTR. Þá verði einnig teknar fyrir beiðnir ÍR varðandi stuðning.

Önnur erindi hljóta ekki stuðning að þessu sinni en verða skoðuð við gerð næstu fjárhagsáætlunar. Samþykkt samhljóða. S.H. vék af fundi undir afgreiðslu mála Ungmennafélagsins Fjölnis.

Fulltrúar sjálfstæðismanna lögðu fram eftirfarandi tillögu: Sjálfstæðismenn samþykkja fyrirliggjandi tillögur en leggja jafnframt til að framkvæmdastjóra ÍTR verði falið að ganga til viðræðna við Víking um frekari styrk vegna stúkubyggingar.

Formaður Steinunn Valdís Óskarsdóttir lagði fram eftirfarandi frávísunartillögu: Í ljósi stefnumörkunar ÍTR varðandi stúkubyggingar sem samþykkt var af öllum fulltrúum í íþrótta- og tómstundaráði þann 31. ágúst sl. er lagt til að tillögunni verði vísað frá. Samþykkt með þremur atkvæðum fulltrúa R-listans. 7. Lagt fram bréf dags. 9. apríl sl. frá foreldrum ungmenna sem taka þátt í Evrópumóti í fimleikum. Óskað er eftir styrk vegna þátttöku í mótinu. Erindið hlýtur ekki stuðning.

8. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra dags. 18. apríl sl. vegna viðræðna við fulltrúa knattspyrnudeildar KR vegna aðstöðumála o.fl.

9. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra ÍTR dags. 17. apríl sl. vegna samstarfs KR og Gróttu vegna handknattleiksdeilda félaganna, sunddeildar KR o.fl.

10. Lagt fram bréf framkvæmdatjóra ÍBR dags. 4. apríl sl. varðandi áheyrnarfulltrúa frá ÍBR á fundi íþrótta- og tómstundaráðs. Áheyrnarfulltrúi ÍBR verður Reynir Ragnarsson og til vara Frímann Ari Ferdinandsson.

11. Lagt fram bréf Hjalta Hjaltasonar dags. 15. apríl sl. varðandi breytingar á pylsuvagni við Vesturbæjarlaug. Formaður lagði fram eftirfarandi bókun: Íþrótta- og tómstundaráð gerði á sínum tíma ekki athugasemdir við að pylsuvagn við Vesturbæjarlaug væri fluttur til og staðsettur þar sem hann er nú. Íþrótta- og tómstundaráð gerir ekki athugasemdir við núverandi staðsetningu og fyrirkomulag veitingasölu á þessum stað en leggur áherslu á að ef gerðar verði breytingar á núverandi söluskála verði tekið tillit til fyrri ábendinga sem hafa komið fram. Þá er einnig nauðsynlegt að tekið verði mið af tillögum um viðbyggingar við Vesturbæjarlaug vegna æfinga- og kennslulaugar og líkamsræktarstöðvar. Samþykkt samhljóða.

12. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra dags. 19. apríl sl. varðandi samstarf við Knattspyrnufélagið Þrótt vegna alþjóðlegrar knattspyrnuhátíðar, Rey-Cup. Samþykkt.

13. Kjartan Magnússon með fyrirspurn um stöðu mála varðandi jaðaríþróttir. Aðstoðarframkvæmdastjóri er með málið í vinnslu.

14. Kjartan Magnússon með fyrirspurn um sparkvelli í Vesturbænum. Sjálfstæðismenn lögðu fram eftirfarandi tillögu: Íþrótta- og tómstundaráð felur framkvæmdastjóra að kanna hvaða möguleikar eru á því að koma upp sparkvöllum í gamla Vesturbænum. Samþykkt samhljóða. Formaður Steinunn Valdís Óskarsdóttir lagði fram eftirfarandi bókun: Sjálfsagt er að skoða alla möguleika enn og aftur um staðsetningu sparkvalla í Vesturbæ. Fyrir liggur kortlagning sparkvalla og möguleika á nýjum svæðum, en ljóst er að lítið er um lausar lóðir í Vesturbænum undir sparkvelli. Bent er á að landfylling í Ánanaustum mun í framtíðinni leysa mál varðandi útivistarsvæði í Vesturbænum.

Kjartan Magnússon lagði fram eftirfarandi bókun: Rétt er að benda á að landfylling út frá Eiðisvík yrði langt utan þess svæðis sem hingað til hefur verið skilgreint sem gamli Vesturbærinn. Þá er ekki gert ráð fyrir að framkvæmdir við umrædda landfyllingu hefjist fyrr en á tímabilinu 2012-2024. Sjálfstæðismenn vilja freista þess að bæta mun fyrr en það úr þeirri brýnu þörf, sem er fyrir sparkvelli í gamla Vesturbænum og tryggja að börn og ungmenni úr hverfinu komist á slíka velli án þess að þurfa að fara yfir miklar umferðargötur.

Formaður Steinunn Valdís Óskarsdóttir lagði fram eftirfarandi bókun: Á það skal bent að á þessum fundi var samþykkt að styrkja KR til að byggja gervigrasvöll á svæði sínu. Einnig er gert ráð fyrir að litlum æfingavelli KR verði breytt í svokallaðan battavöll. Það er því bæði leyst úr bráðavanda KR varðandi æfingasvæði en jafnframt litið til framtíðar með áformum um nýtt svæði við Eiðisgranda.

Kjartan Magnússon lagði fram eftirfarandi bókun: Framkvæmdir þær á KR-svæðinu, sem samþykktar voru á fundinum, eru góðra gjalda verðar. Hins vegar hefur verið sýnt fram á að mun lægra hlutfall barna og ungmenna norðan Hringbrautar stundar íþróttir en börn og ungmenni sunnan hennar. Á síðustu áratugum hefur hver sparkvöllurinn á fætur öðrum, horfið úr gamla Vesturbænum og er nú svo komið að enginn er eftir. Þetta hefur komið mjög niður á iðkendafjölda íþrótta á svæðinu. Foreldrar ungra barna eru tregir að senda þau yfir Hringbraut til að iðka íþróttir. Besta leiðin til að snúa þessari óheillaþróun við er að skapa að nýju viðunandi aðstæður til iðkunar útiíþrótta í gamla Vesturbænum.

Fundi slitið kl. 13:30.

Steinunn V. Óskarsdóttir

Ingvar Sverrisson Sigrún Elsa Smáradóttir
Snorri Hjaltason Kjartan Magnússon