Íþrótta- og tómstundaráð – starfaði til 2022 - og tómstundaráð

Íþrótta- og tómstundaráð – starfaði til 2022

ÍÞRÓTTA- OG TÓMSTUNDARÁÐ

Ár 2016, föstudaginn 25. nóvember var haldinn 254. fundur íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn á skrifstofu Ungmennafélagsins Fjölnis í Egilshöllinni og hófst kl. 12:10. Viðstödd voru: Þórgnýr Thoroddsen formaður, Eva Einarsdóttir, Tomasz Chrapek, Dóra Magnúsdóttir, Marta Guðjónsdóttir og Trausti Harðarson. Einnig: Hermann Valsson áheyrnarfulltrúi VG, Frímann Ari Ferndinandsson ÍBR, Steinþór Einarsson skrifstofustjóri, Ómar Einarsson sviðsstjóri og Helga Björnsdóttir skrifstofustjóri sem skrifaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Formaður Fjölnis Jón Karl Ólafsson kynnti starfsemi félagsins ásamt Guðmundi Gunnarssyni framkvæmdastjóra. Jafnframt sátu fundinn stjórnarmennirnir

- Kl. 12:18 tekur Kjartan Magnússon sæti á fundinum.

- Kl. 12:40 víkur Þórgnýr Thoroddsen af fundi og Eva Einarsdóttir tekur við fundarstjórn.

Lögð fram eftirfarandi bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins þakka Ungmennafélaginu Fjölni fyrir að starfrækja öflugt íþrótta- og æskulýðsstarf í Grafarvogi í næstum þrjá áratugi. Forsvarsmönnum Fjölnis er jafnframt þakkað fyrir frábært samstarf við borgaryfirvöld og kynningu hér á fundinum á stöðu íþróttamála í hverfinu og sýn félagsins til framtíðar. Ljóst er að kröfur til starfsemi Fjölnis munu aukast á næstu árum, ekki síst í ljósi væntanlegrar íbúafjölgunar vegna fyrirhugaðrar stækkunar Bryggjuhverfis og hugmynda um aukna íbúabyggð víðar í Grafarvogi. Á undanförnum árum hafa fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í íþrótta- og tómstundaráði Reykjavíkur (ÍTR) flutt margar tillögur um að bæta aðstöðu Ungmennafélagsins Fjölnis til að sinna íþróttastarfi fyrir börn og unglinga í Grafarvogi. Ákveðin tímamót urðu 9. nóvember 2012 þegar ÍTR samþykkti tillögu Sjálfstæðisflokksins um að leitað yrði leiða til að bæta úr aðstöðuvanda Fjölnis fyrir inni-íþróttagreinar og viðræður teknar upp við félagið í því skyni. Í framhaldi af þeirri tillögu lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins til að jafnframt yrði efnt til viðræðna milli Reykjavíkurborgar og ríkisvaldsins um samstarf um byggingu íþróttahúss sem samnýtt yrði í þágu íþróttastarfs Fjölnis og Borgarholtsskóla. Stórum áfanga var náð árið 2015 þegar glæsilegur fimleikasalur var tekinn í notkun við Egilshöll. Um hríð hefur legið fyrir tilboð frá rekstraraðila Egilshallar um að bæta öðrum íþróttasal við húsið. Ljóst er að slík bygging yrði stórt framfaraskref enda myndi hún bæta úr aðstöðuskorti Fjölnis vegna handknattleiks- og körfuboltaiðkunar. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins óska eftir því að sem fyrst verði gengið til samninga um byggingu þess salar og afnot hans í þágu barna- og unglingastarfs Fjölnis.

Lögð fram eftirfarandi bókun fulltrúa Framsóknar- og flugvallarvina:

Þökkum formanni og framkvæmdastjóra Fjölnis fyrir góða kynningu. Ungmennafélagið Fjölnir er klárlega eitt lang stærsta íþróttafélag Reykjavíkurborgar og er Grafarvogur barnstærsta hverfi borgarinnar með um 20% fjölda barna og unglinga borgarinnar en auk þess er Grafarvogur stærsta póstnúmer innan borgarinnar með yfir 18 þúsund íbúa. Fjölnir heldur úti knattspyrnudeild, handknattleiksdeild og körfuknattleiksdeild sem allar hafa meistaraflokka sem eru með þeim fremstu á Íslandi sem er einstakt innan íþróttafélaga. Fimleikadeild og sunddeild félagsins hafa einnig vera að skipa sér undanfarið með þeim fremstu á landsvísu en báðar þessar deildir starfa í raun án hverfislandamæra og er mikil fjöldi Reykvíkinga að æfa hjá þeim sem búa í öðrum hverfum borgarinnar. Frjálsíþróttadeild félagsins vinnur ofuröflugt starf bæði í Grafarvogi frá mjög faglegu barna og unglingastarfi yfir í almenningsíþróttir fullorðna en einnig hefur Karatedeild félagsins verið undanfarin ár verið að vaxa bæði í fjölda og árangri að eftir sé tekið. Skákdeild Fjölnis er eins og aðrar deildir Fjölnis að skipta sér sem ein af þeim stærstu á landsvísu. Klárlega margfalt fjölmennari og umfangsmeiri starfssemi hjá Ungmennafélaginu Fjölnir en flestum ef ekki öllum öðrum íþróttafélögum innan Reykjavíkurborgar. Klárt mál að Fjölnir stendur fyrir miklu, góðu og faglegu starfi og öðrum til fyrirmyndar.

2. Lagt fram bréf sviðsstjóra dags. 22. nóv. sl. vegna fyrirspurnar fulltrúa Framsóknar- og flugvallarvina frá 7. október sl. varðandi aðstöðumál Ungmennafélagsins Fjölnis.

Lögð fram eftirfarandi bókun fulltrúa Framsóknar- og flugvallarvina:

Það er ánægjulegt að heyra að hér sé staðfest að borgarstjóri stefni með málið „byggingu á fjölnota íþróttahús fyrir Grafarvogsbúa“ inn á borgarráðsfund 1.desember nk. og þar til samþykktar til framkvæmda.

3. Lagt fram bréf sviðsstjóra dags. 16. nóv. sl. vegna aðstöðumála Knattspyrnufélagsins Þróttar.

4. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra dags. 16. nóvember sl. vegna bogfimivallar.

5. Lagt fram bréf sviðsstjóra ÍTR dags. 16. nóvember sl. vegna þátttökugjalda í starfi í Hinu Húsinu.

6. Skipað í nefnd vegna styrkja. Samþykkt að Eva Einarsdóttir, Trausti Harðarson, Hermann Valsson og Björn Gíslason sitji í nefndinni.

7. Lagt fram bréf ÍR dags. 11. nóvember sl. vegna málefna Breiðholts.

8. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar dags. 17. nóvember sl. vegna fimleikahúss á Seltjarnarnesi – samstarf.

Lögð fram eftirfarandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja mikilvægt að fram fari þarfagreining á aðstöðu fyrir fimleikaíþróttir í vesturhluta borgarinnar. Í þeirri vinnu verði m.a. skoðað hver sé ákjósanlegasta staðsetning fimleikahúss m.t.t. gönguleiða barna í Vesturbænum og tengingar við strætisvagnaleiðir.

Frestað.

9. Lagt fram bréf Íshokkísambands Íslands dags. 14. maí sl. vegna Skautahallarinnar í Laugardal.

- Kl. 14:00 víkja Dóra Magnúsdóttir og Tomasz Chrapek af fundi.

10. Lagt fram 9 mánaða uppgjör ÍTR.

11. Lagt fram minnisblað fjármálaskrifstofu Reykjavíkurborgar til borgarráðs dags. 11. nóv. sl. vegna fjárhagsáætlunar 2012.

12. Lögð fram tillaga að gjaldskrá starfsstaða ÍTR 2017.

Fundi slitið kl. 14.00

Eva Einarsdóttir

Marta Guðjónsdóttir Kjartan Magnússon

Trausti Harðarson