Íþrótta- og tómstundaráð – starfaði til 2022 - og tómstundaráð

Íþrótta- og tómstundaráð – starfaði til 2022

ÍÞRÓTTA- OG TÓMSTUNDARÁÐ

Ár 2016, föstudaginn 29. apríl var haldinn 244. fundur íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur.  Fundurinn var haldinn í Hofi  og hófst kl. 12:07. Viðstaddir: Þórgnýr Thoroddsen formaður, Eva Einarsdóttir, Tomasz Chrapek, Kjartan Magnússon, Marta Guðjónsdóttir og Trausti Harðarson.

Einnig:  Hermann Valsson áheyrnarfulltrúi VG, Steinþór Einarsson skrifstofustjóri, Ómar Einarsson sviðsstjóri og Helga Björnsdóttir skrifstofustjóri sem skrifaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar dags. 24. febrúar sl. með tillögu frá fundi borgarstjórnar og Reykjavíkurráðs ungmenna 23. febrúar sl. um afþreyingarmiðstöð við Rauðavatn.

Samþykkt að fá fulltrúa Reykjavíkurráðs ungmenna á fund ráðsins og kynna tillöguna.

2. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar dags. 24. febrúar sl. með tillögu frá fundi borgarstjórnar og Reykjavíkurráðs ungmenna 23. febrúar sl. um lægri aðgangseyri í sundlaugar.

Samþykkt að fá fulltrúa Reykjavíkurráðs ungmenna á fund ráðsins og kynna tillöguna.

3. Lagðar fram styrkumsóknir frá Tennisdeild Víkings og Hafna- og mjúkboltafélagi Reykjavíkur.

Frestað.

4. Lögð fram dagskrá norrænnar vinabæjarráðstefna í Bergen 27.-29. sept.

5. Lagt fram afrit af bréfi Glímufélagsins Ármanns dags. 5. apríl sl. vegna aðstöðumála fimleikadeildar og frjálsíþróttadeildar.

Lögð fram eftirfarandi bókun fulltrúa Framsóknar- og flugvallarvina:

Mikil og brýn þörf ríkir fyrir fjölgun búningsklefa og bættri aðstöðu fyrir íþróttaiðkendur hjá Glímufélagi Ármanns. Óviðunandi er að börn og unglingar sem stunda fimleika og aðrar íþróttir hjá félaginu þurfi að nýta hverja geymsluna, fundarherbergi og skrifstofur sem búningsklefa til að geta haft fataskipti og geymt sín föt á meðan æfingum stendur þar sem allt of lítið er að búningsklefum eru við byggingu íþróttafélagsins.

kl. 12:20 kom Dóra Magnúsdóttir á fundinn.

6. Lagt fram bréf Glímufélagsins Ármanns dags. 14. apríl sl. vegna skíðaskála félagsins í Bláfjöllum.

7. Lögð fram að nýju eftirfarandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá síðasta fundi:

Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur beinir þeim tilmælum til umhverfis- og skipulagssviðs að við yfirstandandi hönnun íþróttamannvirkja í Grafarholti-Úlfarsárdal verði gert ráð fyrir aðstöðu fyrir líkamsræktarstöð í þágu íbúa hverfisins. Líkamsræktarstöðin verði í góðum tengslum við væntanlega sundlaug og aðra íþróttastarfsemi á svæðinu. Unnið verði að málinu í góðri samvinnu við Knattspyrnufélagið Fram og m.a. kannað hvort félagið hafi hug á að taka að sér rekstur stöðvarinnar.

Samþykkt að vísa tillögunni til stýrihóps um uppbyggingu mannvirkja í Úlfarsárdal og óska eftir umsögn.

8. Lagt fram bréf Taflfélags Reykjavíkur dags. 26. apríl sl. vegna fjárhagsvanda félagsins.

Frestað.

9. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar dags. 26. apríl sl. þar sem óskað er eftir umsögn um tillögu um aukið samstarf milli Reykjavíkurborgar og frjálsra félagasamtaka um hreinsunarstarf.

Lögð fram eftirfarandi umsögn ráðsins:

Íþrótta- og tómstundaráð er jákvætt gagnvart tillögunni. Sjálfsagt er að skoða málið og stofna til slíks samstarfs ef að borgin sér hag sinn í því.

Lögð fram eftirfarandi bókun fulltrúa Framsóknar- og flugvallarvina:

Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina tekur undir tillögu fulltrúa Sjálfstæðisflokksins og vill benda á að t.d. mætti færa verkefni við hreinsun og viðhalds s.s. fúavörn á girðingum knattvalla/battavalla við grunnskólana í verkefni sem gæti fallið undir þessa tillögu. Þá gætu knattspyrnudeildir hverfisíþróttafélagana t.d. hreinsað og þrifið reglulega knattvelli/battavelli við skóla viðkomandi hverfis, körfuknattleiksdeildir hreinsi og þrífi reglulega körfuknattleiksvelli við skóla hverfisins og fl. 

Fundi slitið kl. 13:10. 

Þórgnýr Thoroddsen

Eva Einarsdóttir Dóra Magnúsdóttir

Tomasz Chrapek Marta Guðjónsdóttir Kjartan Magnússon Trausti Harðarson