Íþrótta- og tómstundaráð – starfaði til 2022 - og tómstundaráð

Íþrótta- og tómstundaráð – starfaði til 2022

ÍÞRÓTTA- OG TÓMSTUNDARÁÐ

Ár 2016, fimmtudaginn 17. mars var haldinn 241. fundur íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Tindstöðum og hófst kl. 12:10. Viðstaddir: Þórgnýr Thoroddsen formaður, Eva Einarsdóttir, Dóra Magnúsdóttir, Kjartan Magnússon, Marta Guðjónsdóttir, og Trausti Harðarson. Einnig: Benóný Harðarson varamaður fyrir Hermann Valsson áheyrnarfulltrúa VG, Steinþór Einarsson skrifstofustjóri, Ómar Einarsson sviðsstjóri og Helga Björnsdóttir skrifstofustjóri sem skrifaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram að nýju eftirfarandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokk:

Íþrótta- og tómstundaráð beinir þeim tilmælum til borgarráðs að gervigrasvöllurinn í Safamýri verði endurnýjaður og svart úrgangsdekkjakurl (SBR) fjarlægt úr yfirborði hans, óháð því hvort Knattspyrnufélagið Fram haldi áfram starfsemi í hverfinu eða ekki. Verði völlurinn settur á áætlun um endurnýjun gervigrasvalla.

Samþykkt samhljóða,

2. Lögð fram að nýju eftirfarandi ályktunartillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokks:

Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur telur mikilvægt að íþróttasvæði verði áfram rekið í Safamýri í þágu íþróttastarfs barna og ungmenna í Háaleitishverfi, óháð því hvort Knattspyrnufélagið Fram hættir starfsemi í hverfinu. 

Samþykkt samhljóða.

3. Lagt fram að nýju bréf verkefnastjóra Þjónustumiðstöðvar Vesturbæjar, verkefnastjóra Þjónustumiðstöðvar Miðborgar og Hlíða, framkvæmdastjóra og deildastjóra Frístundamiðstöðvarinnar Frostaskjóls og deildarstjóra Frístundamiðstöðvarinnar Kamps dags. 11. febrúar sl. með ósk um styrk vegna aukinnar áhættuhegðunar barna.

Vísað til skoðunar sviðsstjóra.

kl. 12:20 kom Tomasz Chrapek á fundinn.

4. Lögð fram að nýju tillaga formanns íþrótta- og tómstundaráðs vegna 17. júní frá síðasta fundi. 

Lagt er til að hafnar verði viðræður við Menningar- og ferðamálasvið og Höfuðborgarstofu um skipulagningu dagskrár 17. júní. Enn fremur að þjóðhátíðarnefnd ÍTR verði lögð niður samhliða þeirri yfirfærslu.

Samþykkt með 4 atkvæðum meirihluta Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og VG gegn 3 atkvæðum minnihluta fulltrúa Framsóknar og flugvallarvina og Sjálfstæðisflokks.

Lögð fram eftirfarandi bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja rétt að skipulagning og umsjón hátíðarhalda vegna þjóðhátíðar 17. júní verði ekki flutt frá íþrótta- og tómstundaráði. ÍTR hefur annast hátíðarhöldin áratugum saman með góðum árangri og er því til staðar dýrmæt þekking og reynsla á málinu innan sviðsins. Litið hefur verið svo á að með því að fela ÍTR umsjón hátíðarhaldanna væri lögð áhersla á tengsl þeirra við æsku borgarinnar og þátttöku íþrótta- og æskulýðsfélaga í þeim. Undanfarin ár hefur hins vegar markvisst verið dregið úr umfangi hátíðarhaldanna 17. júní og er nú svo komið að í ár er einungis gert ráð fyrir 9,5 m. króna fjárveitingu til þeirra. Umrætt framlag hefur sennilega aldrei verið jafnlágt og er það lýsandi fyrir metnaðarleysi núverandi borgarstjórnarmeirihluta gagnvart hátíðarhöldum þjóðhátíðar 17. júní.

Lögð fram eftirfarandi bókun fulltrúa Framsóknar- og flugvallarvina:

Þjóðhátíðarnefnd hefur starfaði frá 1944 en var lögð niður í árslok 1982 og tók þá Æskulýðs- og tómstundaráð við af henni. Frá 1983 hafa Æskulýðs- og tómstundaráð og frá 1986 Íþrótta- og tómstundaráð séð um allan undirbúning og framkvæmd 17. júní hátíðarhaldanna í Reykjavík. Íþróttaviðburðir, íþróttasýningaratriði og æskulýðsfélög hafa verið í hávegum höfð á 17.júní frá upphafi til dagsins í dag. Framsóknar og flugvallarvinum finnst nauðsynlegt að Þjóðhátíðarhátíð 17.júní og Þjóðhátíðarnefnd sé í hávegum höfð innan Reykjavíkurborgar. Undanfarin ár hefur fjárframlag Reykjavíkurborgar til að halda 17.júní farið úr rúmlega 40.milljónum niður í 9,5 milljónir og síðustu ár hefur um helmingur fjárframlagsins farið í að greiða öðrum sviðum borgarinnar fyrir sína þjónustu s.s. þrif á götum og fleira sem ekki var áður tekið af sjóðum Þjóðhátíðarnefndar. Fyrir rúmlega tveimur árum viðraði borgarstjóri að færa til 17.júní hátíð í Reykjavík og halda upp á daginn 19.júní. Má af þessu öllu meta að vernda þurfi Þjóðhátíðarhöldin 17.júní í Reykjavík, Þjóðhátíðarnefnd og tengingar hátíðarhaldanna við íþróttir og æskulýðsstarf.

Lögð fram eftirfarandi bókun fulltrúa meirihluta:

Meirihluti Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata vilja koma því á framfæri að með þessari tillögu er verið að skoða hvort verkefnið eigi betur heima á Höfuðborgarstofu, þar sem samlegðaráhrif og fagþekking á viðburðastjórnun er mikil. Með því að fara í þessar aðgerðir væri verið að efla daginn fremur en að draga úr honum.

5. Lagt fram bréf sviðsstjóra ÍTR dags. 14. mars vegna fyrirspurnar fulltrúa Framsóknar og flugvallarvina á síðasta fundi um málefni Fram.

6. Lagt fram bréf sviðsstjóra ÍTR dags. 14. mars vegna fyrirspurnar fulltrúa Framsóknar og flugvallarvina frá síðasta fundi um Rey-Cup.

7. Lagt fram bréf sviðsstjóra dags. 14. mars vegna fyrirspurnar fulltrúa Framsóknar og flugvallarvina frá síðasta fundi um Reykjavíkurmaraþon.

8. Lagt fram bréf Blaksambands Íslands dags. 22. febrúar sl. með ósk um styrk vegna Evrópukeppni smáþjóða í blaki í Laugardalshöll 20.-22. maí n.k.

Frestað.

9. Lagt fram bréf Sundfélagsins Ægis dags. 15. febrúar sl. með ósk um stuðning vegna sundnámskeiðs í sumar í skólalaug Ölduselsskóla.

Frestað.

10. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar dags. 7. mars sl. vegna bréfs ÍBR dags. 18. febrúar sl. vegna samstarfssamnings milli ÍBR F.h. íþróttafélaganna í borginni og Reykjavíkurborgar.

Borgarráð fól ÍTR að gera drög að samningi og leggja fyrir borgarráð til samþykktar.

11. Lögð fram skýrsla frístundamiðstöðva um 16+ verkefni á árinu 2015.

12. Lagt fram bréf Golfklúbbs Brautarholts dags. 2. mars sl. með ósk um stuðning við barna- og unglingastarf og framkvæmdir við völlinn.

Vísað til gerðar fjárhagsáætlunar.

13. Lagt fram bréf Skátasambands Reykjavíkur dags. 25. febrúar sl. með ósk um stuðning vegna útilífsnámskeiða skáta.

14. Lagt fram bréf Íþróttafélags Aspar dags. 9. mars sl. með ósk um styrk

Vísað til gerðar fjárhagsáætlunar.

15. Lagt fram afrit af bréfi sviðsstjóra ÍTR dags. 1. mars sl. til sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu vegna uppgjörs skíðasvæðanna 2015.

16. Lagt fram afrit af bréfi SFS dags. 25. febrúar sl. um reglur um kynningar- og auglýsingar í skólum.

17. Breyting á þjóðhátíðarnefnd.  Dóra Einarsdóttir hættir í nefndinni og hennar sæti tekur Tomasz Chrapek. 

18. Rætt um ýmis mál hjá ÍTR.

19. Lögð fram eftirfarandi fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins óska eftir því að íþrótta- og tómstundaráð taki til umfjöllunar tillögu borgarstjóra um að ákveðnu bifreiðaumboði verði mögulega úthlutað 24 þúsund fermetra lóð í Syðri-Mjódd enda ljóst að slík úthlutun myndi hafa áhrif á hugmyndir Íþróttafélags Reykjavíkur um framtíðarnýtingu svæðisins í þágu íþrótta- og æskulýðsmála í Breiðholti.

20. Lögð fram eftirfarandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

ÍTR beinir því til borgarráðs að 17 ára unglingum standi til boða störf hjá ÍTR í sumar enda full þörf fyrir starfskrafta þeirra við ýmis störf í tengslum við starfsemi sviðsins.

Frestað.

Fundi slitið kl. 14:00.

Þórgnýr Thoroddsen

Eva Einarsdóttir Dóra Einarsdóttir

Tomasz Chrapek Marta Guðjónsdóttir Kjartan Magnússon Trausti Harðarson