Íþrótta- og tómstundaráð – starfaði til 2022 - og tómstundaráð

Íþrótta- og tómstundaráð – starfaði til 2022

ÍÞRÓTTA- OG TÓMSTUNDARÁÐ

Ár 2014, föstudaginn 28. nóvember var haldinn 216. fundur íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Höfðatorgi og hófst hann kl. 12:10. Viðstaddir: Þórgnýr Thoroddsen formaður, Unnsteinn Jóhannsson, Bjarni Þór Sigurðsson, Tomasz Chrapek, Trausti Harðarson, Kjartan Magnússon og Marta Guðjónsdóttir. Einnig: Hermann Valsson áheyrnarfulltrúi VG, Frímann Ari Ferdinandsson ÍBR, Kári Arnórsson áheyrnarfulltrúi Reykjavíkurráðs ungmenna, Ómar Einarsson sviðsstjóri, Gísli Árni Eggertsson skrifstofustjóri, Steinþór Einarsson skrifstofustjóri og Helga Björnsdóttir skrifstofustjóri sem skrifaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Lagðar fram til kynningar niðurstöður dómnefndar vegna mannvirkja í Úlfarsárdal.

Lögð fram eftirfarandi bókun ráðsins.

Íþrótta- og tómstundaráð óskar verðlaunahöfum í hönnunarsamkeppni um skóla, menningar- og íþróttamiðstöð í Úlfarsárdal til hamingju og þakkar dómnefnd og ráðgjöfum fyrir vel unnin störf. Sviðsstjóri ÍTR, skrifstofustjóri eigna og atvinnuþróunar og fulltrúi borgarlögmanns munu annast nauðsynlega samninga við Knattspyrnufélagið Fram um þeirra aðstöðu í þessari glæsilegu uppbyggingu. Sviðsstjóri ÍTR upplýsi ráðið reglulega um framvindu mála.

2. Lagt fram 9 mánaða uppgjör ÍTR.

3. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá síðasta fundi sbr. liður 2 vegna frjálsíþróttaaðstöðu við Skógarsel.

Íþrótta- og tómstundaráð beinir því til borgarstjórnar að í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2015 verði 70 milljóna króna framlag veitt til framkvæmda við frjálsíþróttavöll Íþróttafélags Reykjavíkur við Skógarsel í samræmi við samning félagsins og borgarinnar frá 20. febrúar 2014.

Vísað til borgarráðs.

4. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og VG frá síðasta fundi sbr. liður 3 vegna leiðakerfis Strætó bs.

Íþrótta- og tómstundaráð felur framkvæmdastjóra íþrótta- og tómstundaráðs í samstarfi við Íþróttabandalag Reykjavíkur og hverfafélögin í borginni að taka út leiðakerfi Strætó Bs. til endurskoðunar í hverfum með hliðsjón af því að tengja íbúabyggð hverfa betur við frístunda- og íþróttaaðstöðu hvers hverfis. Kortlagt verði hvar akstri innan hverfis er ábótavant út frá þeim sjónarmiðum að börn geti komist leiða sinna í íþrótta- og tómstundastarf, þ.m.t. tengingu við skóla. Tillögur verði lagðar fram til úrbóta. Þannig skorar Íþrótta- og tómstundaráð á Strætó bs. að leiðakerfið verði þannig uppbyggt að strætisvagnar stoppi við helstu íþróttamannvirki hverfis og geti íbúar, börn og unglingar þannig ferðast innan hverfis á milli skóla og mannvirkja til frístundaiðkunar, eins og best verður við komið til að tryggja samfellu í dag barna og foreldra.

Strætó bs. stoppi þar af leiðandi við helstu íþróttamannvirki hvers hverfis eins og sundlaugar og íþróttahús, einkum keppnishús, eins og við verður komið. Það er mikilvægt að börn og unglingar geti ferðast örugg um hverfi án aðkomu foreldra eða þriðju aðila og þar gegnir Strætó bs. veigamiklu hlutverki. Mikilvægt er að Strætó sé raunhæfur valkostur í almenningssamgöngum barna - og unglinga og verður einkum að horfa til þess að börn og unglingar þurfi ekki að fara yfir umferðaþungar stofnbrautir til að komast til skipulegs æskulýðsstarfs.

Samþykkt samhljóða.

5. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Framsóknar og flugvallarvina vegna kynningarátaks hverfafélaga og styrkveitinga ráðsins í því sambandi sbr. lið 8 í seinustu fundargerð.

Íþrótta- og tómstundaráð samþykkir að leita til hverfisíþróttafélaganna KR, Fylkis, Fjölnis, Vals, Fram, Þróttar, Ármanns og Víkings saman og ÍR og Leiknis saman, með að setja upp fjölbreytt íþróttakynningarátak fyrir stúlkur á aldrinum 12,13,14 og 15 ára.  Með það markmiði að auka áhuga stúlkna á þessum aldri að stunda íþróttir.  Leitar íþrótta- og tómstundaráð til hverfisíþróttafélaganna að koma með hugmyndir að átaksáætlun sem hægt væri að koma í framkvæmd um miðjan janúar næst komandi.  Íþróttafélögin hafa sjálf val á hvernig þau útfæra átakið hvert fyrir sig en gert er ráð fyrir metnaðarfullu og fjölbreyttu kynningarátaki.  Íþrótta- og tómstundaráð er tilbúið að styrkja hverfisíþróttafélögin hvert og eitt um allt að 1 milljón til að stuðla að áhugaverðu og árangursríku íþróttakynningarátaki fyrir stúlkur á þessum aldri.

Samþykkt að vísa tillögunni til styrkjahóps ÍTR. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks sátu hjá.

Lögð fram eftirfarandi bókun fulltrúa Framsóknar og flugvallarvina:

Alls leggja 72% barna stund á íþróttir á aldrinum 6-9 ára, 75% barna stunda íþróttir á aldrinum 10 til 12 ára svo fellur íþróttaiðkun barna niður í 56% á aldrinum 13-15 ára og er komið í 30% á aldrinum 16-18 ára.  Ef skoðað er munur kynja þá stunda 80% strákar íþróttir á aldrinum 10 til 12 ára og 67% stúlkna.  Þá fellur íþróttaiðkun stráka niður í 61% þegar komið er á aldurinn 13-15 ára og niður í 49% hjá stúlkum. Þegar komið er upp á framhaldsskólastig stunda 57.3% drengja ekki íþróttir og 67% stúlkna stunda ekki íþróttir.  Á framhaldsskólastigi eru 23.8 % stráka sem telja sig í góðu líkamlegu formi og 11.9% stúlkna sem telja sig í góðu líkamlegu formi.

Lögð fram eftirfarandi bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokks:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins styðja fyrirliggjandi tillögu Framsóknarflokksins um íþróttakynningarátak fyrir stúlkur á aldrinum 12-15 ára en hafa efasemdir um þá afgreiðslu að vísa henni til starfshóps um styrkveitingar.

6. Lagt fram svar sviðsstjóra ÍTR dags. 24. nóv. sl. við hluta af fyrirspurn fulltrúa Framsóknar og flugvallarvina vegna íþróttamannvirkja sbr. lið 9 í seinustu fundargerð.

Lögð fram eftirfarandi bókun fulltrúa Framsóknar og flugvallarvina:

Þökkum fyrir góða samantekt yfir íþróttamannvirki í Reykjavík, þ.e. fyrri hluta fyrirspurnar okkar. Seinni hluti fyrirspurnarinnar er enn mikilvægari það er samanburður íþróttamannvirkja Reykjavíkur við stærri bæjarfélög á Íslandi þannig að hægt sé að meta hvernig Reykjavík er að standa sig íþróttamannvirkjalega séð í hverju hverfi fyrir sig í samanburði við stærri bæjarfélög landsins.

7. Lagt fram svar sviðsstjóra ÍTR, dags. 24. nóvember sl., vegna fyrirspurnar fulltrúa Framsóknar og flugvallarvina vegna stúkumála hjá íþróttafélögum.

8. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar dags. 14. nóv. sl. vegna samþykkta borgarráðs um viðræður við KR o.fl. um þróun lóðar á Keilugranda 1.

Lögð fram eftirfarandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Íþrótta- og tómstundaráð skorar á borgarráð og umhverfis og -skipulagsráð að sjá til þess að lóðin Keilugrandi 1 verði skilgreind sem íþrótta- og útivistarsvæði og að hún verði öll nýtt í þágu íþrótta- og æskulýðsstarfsemi í Vesturbænum í samvinnu við Knattspyrnufélag Reykjavíkur.

Frestað.

9. Lagt fram minnisblað SEA dags. 24. október sl. vegna Knattspyrnufélagsins Víkings og Gróðrastöðvarinnar Markar o.fl.

Lögð fram eftirfarandi bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokks:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins styðja viðræður við Knattspyrnufélagið Víking varðandi viðhaldsmál, húsnæðismál, skipulagsmál o.s.frv. eins og samþykkt var í borgarráði 6. nóvember sl., en leggjast eindregið gegn því að lóðarleigusamningur við núverandi lóðarleigjanda við Stjörnugróf 18 verði framlengdur. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja þunga áherslu á að staðið verði við fyrirheit sem Reykjavíkurborg gaf Víkingi í júlí 2008 um stækkun athafnasvæðis félagsins eftir að leigusamningur um lóð við Stjörnugróf 18 rennur út árið 2016. Æskilegt er að úrlausn lóðamála vinnist í góðu samstarfi Víkings, Reykjavíkurborgar, Kópavogsbæjar og Gróðrarstöðvarinnar Markar og starfsemi gróðrarstöðvarinnar verði fundinn nýr staður.

Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina tekur undir bókun Sjálfstæðisflokksins.

10. Lögð fram hugmynd af samráðsvefnum Betri Reykjavík dags. 7. nóv. sl. varðandi snjóframleiðslukerfi í Bláfjöllum.

Samþykkt samhljóða að vísa hugmyndinni til stjórnar skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins og SSH.

kl. 13:23 vék Frímann Ari Ferdinandsson af fundi.

Fundi slitið kl.13:40

Þórgnýr Thoroddsen

Unnsteinn Jóhannsson Bjarni Þór Sigurðsson

Tomasz Chrapek Trausti Harðarson

Kjartan Magnússon Marta Guðjónsdóttir