Íþrótta- og tómstundaráð – starfaði til 2022
ÍÞRÓTTA- OG TÓMSTUNDARÁÐ
Ár 2012, fimmtudaginn 22. mars var haldinn 159. fundur íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Höfðatorgi og hófst kl. 13.40. Mættir: Eva Einarsdóttir formaður, Eva Baldursdóttir, Karl Sigurðsson, Stefán Benediktsson, Marta Guðjónsdóttir og Geir Sveinsson. Jafnframt: Drífa Baldursdóttir, varaáheyrnarfulltrúi, Steinþór Einarsson skrifstofustjóri, Ómar Einarsson framkvæmdastjóri, Gísli Árni Eggertsson skrifstofustjóri, Bragi Þór Bjarnason fjármálastjóri og Helga Björnsdóttir skrifstofustjóri sem skrifaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Hanna Borg Jónsdóttir kynnti meistararitgerð sína um mannréttindi barna í íþróttum og svaraði fyrirspurnum.
Íþrótta- og tómstundaráð vill þakka Hönnu Borg Jónsdóttur fyrir greinargóða og áhugaverða kynningu á M.A. ritgerð sinni; Mannréttindi barna í íþróttum. Innlegg hennar er mikilvægt fyrir þróun og stefnumótun Reykjavíkurborgar, ÍTR og ÍBR í íþróttummálum og getur gagnast íþróttahreyfingunni í heild sinni. Þá kom fram að íþróttalögin mætti bæta í átt að aukinni mannréttindavernd barna í íþróttum t.a.m. með lögbundinni fræðslu þjálfara og hvetur Íþrótta- og tómstundaráð og menntamálaráðuneytið að taka slíkar breytingar til skoðunar.
Kl. 14.15 kom Kjartan Magnússon á fundinn.
2. Óskar Dýrmundur Ólafsson hverfisstjóri Þjónustumiðstöðvar Breiðholts og Lára S. Baldursdóttir verkefnastjóri kynntu verkefnið Bætt þjónusta í Breiðholti.
3. Lögð fram umsögn FER dags. 22. feb. sl. vegna Hraunbergs 12.
4. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá síðasta fundi vegna Breiðholtslaugar sbr. 6. liður.
Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur samþykkir að hafinn verði undirbúningur að byggingu húsnæðis fyrir líkamsræktarstöð við Breiðholtslaug. Útfærðir verði möguleikar á samstarfi við einkaaðila um fjármögnun verkefnisins og rekstur stöðvarinnar, líkt og gert hefur verið með góðum árangri í tengslum við nokkrar sundlaugar á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Framkvæmdastjóri ÍTR leggi tillögur um fyrirkomulag verkefnisins fyrir ráðið þar sem m.a. verði gert ráð fyrir því að samstarfsaðili verði valinn í viðurkenndu ferli að undangenginni auglýsingu. Í tengslum við þessa vinnu verði auglýst eftir hugmyndum frá íbúum um framtíðarfyrirkomulag líkamsræktarstöðvarinnar og Breiðholtslaugar og við þróun verkefnisins verði lögð áhersla á að samtvinna rekstur íþróttamannvirkja við Austurberg með það að markmiði að efla enn frekar íþróttastarfsemi, æskulýðsstarf og mannlíf í Breiðholti.
Lögð fram eftirfarandi bókun fulltrúa Besta flokksins og Samfylkingar:
Tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokks um útboð við Breiðholtslaug fjallar um verkefni sem þegar hefur verið sett í gang af meirihluta Besta flokks og Samfylkingar og er undirbúningurhafinn hjá Íþrótta- og tómstundasviði í samstarfi við Framkvæmda- og eignasvið, eins og fram kemur í bréfi framkvæmdastjóra ÍTR til Skipulags- og byggingasviðs dags. 16. nóvember sl. og bréfi Skipulags- og byggingasviðs dags. 12. desember sl. vegna aðstöðumála fyrir líkamsrækt við Breiðholtslaug.Fagnar þó meirihlutinn stuðningi fulltrúa Sjálfstæðisflokks við þær tillögur sem var raunar fjallað um á starfsdegi sem haldinn var fyrir mánuði síðan. Það felast mikil lífsgæði í þeirri tengingu að hafa líkamsrækt og sundlaug staðsettar í nánasta umhverfi í nálægð við fjölbrautarskólann í Breiðholti, Leikni, ÍR og íþróttahúsið austurbergi sem getur skapað frábær samlegðaráhrif lífsgæða og lýðheilsu. Tillögunni er því vísað til frekari skoðunar hjá framkvæmdastjóra ÍTR, Framkvæmda- og eignasviðs, Skipulags- og byggingasviðs og Innkaupaskrifstofu.
Lögð fram eftirfarandi bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Á 84. fundi íþrótta- og tómstundaráðs, 11. marz 2009, lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins fram tillögu um uppbyggingu og rekstur líkamsræktarstöðvar við Breiðholtslaug. Tillagan var samþykkt einróma af fulltrúum allra flokka og hefur verið unnið að málinu síðan og ýmsir möguleikar skoðaðir í góðri samvinnu íþrótta- og tómstundasviðs og framkvæmda- og eignasviðs Reykjavíkurborgar. Í ljósi þessa er ótrúlegt að nú, þegar allt útlit er fyrir að þetta góða starf beri ávöxt, skuli fulltrúar Samfylkingar og Besta flokksins rjúka til og halda því fram í opinberri bókun að umrætt mál, sé runnið undan rifjum þessara flokka. Sú tillaga Sjálfstæðisflokksins, sem hér er til umfjöllunar er sett fram í því skyni að greiða fyrir framgangi málsins og er vel hægt að fallast á að henni verði vísað til áframhaldandi úrvinnslu framkvæmdastjóra ÍTR, framkvæmda- og eignasviðs, skipulags- og byggingarsviðs og innkaupaskrifstofu.
5. Lagt fram að nýju bréf fjármálaskrifstofu Reykjavíkurborgar dags. 5. mars sl. vegna skila á gögnum í mars vegna undirbúnings fjárhagsáætlunar 2013-2017.
Lögð fram drög að áherslum og forgangsröðun í íþrótta- og tómstundamálum 2013 – 2017.
Framkvæmdastjóra falið uppfæra drögin skv. þeim ábendingum sem fram komu á fundinum og kynna fyrir Fjármálaskrifstofu Reykjavíkurborgar.
6. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi tillögu:
Íþrótta- og tómstundaráð óskar eftir því við Framkvæmda- og eignasvið að mörkum verði komið fyrir á tveimur æfingavöllum fyrir barna- og unglingastarf, sem eru á félagssvæði Íþróttafélagsins Leiknis við Austurberg, þ.e. vestan og austan megin við gervigrasvöll félagsins. Alls er um fjögur mörk að ræða.
Frestað.
7. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi tillögu:
Íþrótta- og tómstundaráð óskar eftir því við Framkvæmda- og eignasvið að úttekt verði gerð á ásigkomulagi nýbyggingar Leiknishússins við Austurberg. Komið hafa fram gallar á húsinu, sem rétt er að séu metnir sem fyrst með tilliti til þess að um nýbyggingu er að ræða og þeir lagfærðir. T.d. þarf að skoða leka á vesturhlið hússins og frágang á þaki, veggjum, svölum og gluggum.
Frestað.
Fundi slitið kl. 16.25
Eva Einarsdóttir
Eva Baldursdóttir Karl Sigurðsson
Stefán Benediktsson Kjartan Magnússon
Marta Guðjónsdóttir Geir Sveinsson