Íþrótta- og tómstundaráð – starfaði til 2022 - og tómstundaráð

Íþrótta- og tómstundaráð – starfaði til 2022

ÍÞRÓTTA- OG TÓMSTUNDARÁÐ

Ár 2014, föstudaginn 28. mars var haldinn 203. fundur íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Höfðatorgi og hófst hann kl. 11:05. Viðstaddir: Eva Baldursdóttir varaformaður, Ragnar Hansson varamaður fyrir Evu Einarsdóttur, Bjarni Þór Sigurðsson og Björn Gíslason. Einnig: Steinþór Einarsson skrifstofustjóri, Gísli Árni Eggertsson skrifstofustjóri, Ómar Einarsson sviðsstjóri og Helga Björnsdóttir skrifstofustjóri sem skrifaði fundargerð.  

Þetta gerðist:

1. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra dags. 7. mars sl. vegna bréfs UMFÍ til sveitastjórna og aðildarfélaga UMFÍ um unglingalandsmót 2017.

2. Lagt fram bréf ÍBR dags. 26. mars sl. vegna erindis UMFÍ um landsmót.

Kl. 11:10 komu Hermann Valsson, Diljá Ámundadóttir, Kjartan Magnússon og Jarþrúður Ásmundsdóttir varamaður  fyrir Mörtu Guðjónsdóttir á fundinn.

3. Lagt fram bréf borgarráðs dags. 27. mars sl. þar sem fram kemur að borgarráð hafi samþykkt lengri opnunartíma í frístund fatlaðra framhaldsskólanema í Hinu Húsinu vegna verkfalls framhaldsskólakennara.

Á fundinn komu Markús H. Guðmundsson og Rósa Björk Sigurðardóttir frá Hinu Húsinu og kynntu starfsemi fyrir fatlaða framhaldsskólanema í Hinu Húsinu. Þau lýstu áhyggjum sínum af húsnæðisskorti undir starfsemina.

Vísað til sviðsstjóra til skoðunar.

Lögð fram eftirfarandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Íþrótta- og tómstundaráð samþykkir að leita leiða til að bæta úr húsnæðisvanda frístundaþjónustu fatlaðra framhaldsskólanema í Hinu húsinu. 29 einstaklingar nýta nú þessa þjónustu og starfsmenn eru 15. Útlit er fyrir að í haust fjölgi nemendum um 8-10. Ljóst er að núverandi húsnæðisaðstaða, sem er að mestu í kjallara Hins hússins, rúmar ekki þennan fjölda með góðu móti auk þess sem húsnæðið hentar ekki nægilega vel fyrir þá sérhæfðu og fjölbreytilegu þjónustu, sem fatlaðir framhaldsskólanemar þarfnast. Þá samþykkir ÍTR að sem fyrst verði óskað eftir viðræðum við ríkisvaldið um sameiginlegan rekstur umræddrar þjónustu og að skoðaðir verði í því skyni möguleikar á samnýtingu á hentugu húsnæði í framhaldsskóla fyrir hana. 

Frestað.

4. Lagðar fram styrkumsóknir til íþrótta- og tómstundaráðs utan umsóknartíma.  Samþykkt að óska eftir nánari upplýsingum varðandi umsóknir.

5. Lagt fram minnisblað starfshóps um tennismál dags. 26. mars sl. 

Vísað til umfjöllunar hjá skrifstofu eigna og atvinnuþróunar.

6. Rætt um stefnu í íþróttamálum 2012-2020.  Sviðsstjóri sagði frá þeirri vinnu sem fram hefur farið vegna stefnunnar.

7. Lögð fram eftirfarandi tillaga fulltrúa fulltrúa Besta flokksins og Samfylkingar:

Í 4. gr. samþykktar fyrir íþrótta- og tómstundaráð segir m.a.: „Íþrótta- og tómstundaráð getur heimilað setu áheyrnarfulltrúa á fundum ráðsins með málfrelsi og tillögurétt samkvæmt nánari ákvörðun ráðsins“. Íþrótta- og tómstundaráð samþykkir að fulltrúi úr Reykjavíkurráði ungmenna verði heimiluð seta sem áheyrnarfulltrúi í íþrótta- og tómstundaráði til loka þessa kjörtímabils.  Í kjölfar þeirra reynslu verði skilgreind umgjörð um aðkomu Reykjavíkurráðs að fundum ráðsins í samráði við Reykjavíkurráð ungmenna. 

Samþykkt samhljóða.

Lögð fram eftirfarandi bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Á sameiginlegum fundi borgarfulltrúa og fulltrúa Reykjavíkurráðs ungmenna fyrir þremur árum, 12. apríl 2011, lögðu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fram tillögu um að sú breyting yrði gerð á samþykktum borgarinnar að Reykjavíkurráði ungmenna yrði heimilað að skipa áheyrnarfulltrúa með málfrelsi og tillögurétt í íþrótta- og tómstundaráð. Samþykkt var samhljóða að vísa tillögunni til borgarráðs. Þegar hvergi bólaði á úrlausn málsins gripu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins til þess ráðs að flytja tillögur í íþrótta- og tómstundaráði og skóla- og frístundaráði, 25. maí 2012, 25. janúar 2013 og 6. febrúar 2013, um að Reykjavíkurráðinu yrði boðið að skipa áheyrnarfulltrúa í þessi ráð. Í öllum þessum ráðum hefur málið verið tafið hvað eftir annað af fulltrúum borgarstjórnarmeirihlutans. Á fundi skóla- og frístundaráðs 5. marz sl. gagnrýndu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins harðlega þá töf, sem einkennt hefur málið. Ánægjulegt er að sjá að brugðist hafi verið við þeirri gagnrýni og nú loks samþykkt að heimila setu áheyrnarfulltrúa Reykjavíkurráðs ungmenna í íþrótta- og tómstundaráði . Sem fyrr leggja fulltrúar Sjálfstæðisflokksins áherslu á að sú aðkoma verði ekki tímabundin heldur varanleg og munu áfram vinna að því að samþykktum skóla- og frístundaráðs og íþrótta- og tómstundaráðs verði breytt í samræmi við það. Vinnubrögðin í þessu máli, sem m.a. koma í ljós með þriggja ára töf á afgreiðslu upphaflegrar tillögu, sýna annars vegar óvirðingu meirihluta Samfylkingar og Bjartrar framtíðar/Besta flokksins gagnvart Reykjavíkurráði ungmenna og hins vegar lélega verkstjórn meirihlutans í nefndum og ráðum Reykjavíkurborgar.

Lögð fram eftirfarandi gagnbókun fulltrúa Besta flokksins:

Í ljósi þess að í bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í ÍTR er vísað í meirihluta Samfylkingar og Besta flokksins/Bjartrar framtíðar vilja fulltrúar Besta Flokksins ítreka að þeir voru kosnir í borgarstjórn af lista Besta Flokksins. Fulltrúar Besta flokknum sitja enn í umboði Besta flokksins og munu einnig klára þetta kjörtímabil sem borgarfulltrúar Besta flokksins, eins og þeir voru kosnir til.

Sérbókun fulltrúa Besta flokksins, Diljá Ámundadóttur og Ragnars Hanssonar:

Einnig vilja Diljá Ámundadóttir og Ragnar Hansson, fulltrúar Besta flokksins í ÍTR, koma því á framfæri að þau eru einnig hluti af hlaðvarpsstöðinni Alvarpið, sem kemur þó ekki Besta flokknum, Bjartri framtíð, né Sjálfstæðisflokknum við að neinu leiti.

8. Lagt fram að nýju bréf skrifstofu borgarstjórnar dags. 13. mars sl. vegna umsóknar Fylkis um stúkubyggingu.

Jafnframt lagt fram minnisblað sviðsstjóra ÍTR dags. 26. mars sl. 

Björn Gíslason vék af fundi undir þessum lið. 

Lögð fram að nýju eftirfarandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavík styður ósk Íþróttafélagsins Fylkis um styrkveitingu vegna kaupa á sætum í áhorfendaaðstöðu félagsins við Fylkisveg. Með slíkri styrkveitingu er unnt að tryggja að umrædd áhorfendaaðstaða komi að fullum notum á þessu ári og að ásýnd þess verði umræddu hverfi og Reykjavíkurborg til sóma. 

Tillagan er felld með 4 atkvæðum Besta flokksins og Samfylkingar.

Lögð fram eftirfarandi tillaga Besta flokksins og Samfylkingar:

Íþrótta- og tómstundaráð mælir með því við borgarráð að Fylki verði veittar 4. m.kr. viðbótarstyrkur til kaupa á sætum í áhorfendastúku félagsins. Í viðræðum framkvæmdastjóra ÍTR við Fylki, hefur komið fram fyrirheit frá KSÍ um 2 m.kr. styrk vegna sætanna auk þess sem ÍTR fær yfirráð yfir þeim sætum sem tekin verða niður. 

Samþykkt samhljóða.

9. Lögð fram eftirfarandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Íþrótta- og tómstundaráð samþykkir að skoða tiltæka kosti í því skyni að koma á fót ungmennahúsi miðsvæðis í Reykjavík. Slíkt hús verði ætlað ungmennum á framhaldsskólaaldri þar sem þau geti sinnt tómstundum og afþreyingu í vímuefnalausu umhverfi. Áhersla verði lögð á að virkja Reykjavíkurráð ungmenna og ungmennaráðin í Reykjavík við stefnumótun á starfi hússins og starfrækslu þess. M.a. verði gert ráð fyrir að sérstök hússtjórn stýri starfi hússins og að fulltrúar í hana verði tilnefndir af Reykjavíkurráðinu. Sérstaklega verði athugað hvernig hægt verði að samþætta starfsemi ungmennahúss þeirri starfsemi, sem nú fer fram í Hinu húsinu.

Frestað.

10. Lögð fram eftirfarandi fyrirspurn fulltrúa sjálfstæðisflokksins:

Í síðasta tölublaði Reykjavíkur-Vikublaðs kemur fram í viðtali við formann íþrótta- og tómstundaráðs að viðræður séu hafnar milli íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur  og bæjaryfirvalda á Seltjarnarnesi um byggingu fimleikahúss á Seltjarnarnesi. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa ekki verið upplýstir um umræddar viðræður og er því óskað eftir ýtarlegum upplýsingum um þær. M.a. er óskað eftir upplýsingum um samningsmarkmið Reykjavíkurborgar í viðræðunum og að öll tiltæk gögn um þær verði lögð fram á næsta fundi ráðsins. 

Fundi slitið kl. 12:55.

Eva Baldursdóttir

Diljá Ámundadóttir Ragnar Hansson

Bjarni Þór Sigurðsson Kjartan Magnússon

Jarþrúður Ásmundsdóttir Björn Gíslason