Íþrótta- og tómstundaráð – starfaði til 2022
ÍÞRÓTTA- OG TÓMSTUNDARÁÐ
Ár 2011, föstudaginn 9. desember var haldinn 151. fundur íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum og Laugardalshöll og hófst kl. 13.15. Mættir: Eva Einarsdóttir formaður, Diljá Ámundadóttir, Stefán Benediktsson, Eva Baldursdóttir, Kjartan Magnússon, Geir Sveinsson og Marta Guðjónsdóttir. Jafnframt: Hermann Valsson áheyrnarfulltrúi, Tómas Ó. Guðjónsson, Þorkell Heiðarsson, og Sigrún Thorlacíus frá Fjölskyldu- og húsdýragarðinum, Gísli Árni Eggertsson skrifstofustjóri, Steinþór Einarsson skrifstofustjóri, Ómar Einarsson framkvæmdastjóri og Helga Björnsdóttir skrifstofustjóri sem skrifaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn skoðaður undir leiðsögn starfsmanna.
2. Fundi framhaldið í Laugardalshöll.
Málefni Fjölskyldu- og húsdýragarðsins rædd.
kl. 14:25 vék Hermann Valsson af fundi og Sóley Tómasdóttir kom í hans stað.
kl. 14:25 komu Helga Björnsdóttir og Gísli Árni Eggertsson á fundinn.
Starfsmönnum Fjölskyldu- og húsdýragarðsins var þakkað fyrir góða kynningu. Samþykkt að kanna húsnæðismál garðsins og husanlega samstarfsaðila. Framkvæmdastjóra einnig að setja af stað hugmyndavinnu um framtíðarsýn.
3. Lögð fram að nýju tillaga sjálfstæðismanna frá síðasta fundi liður 7 vegna umferðaröryggis við Hlíðarenda.
Íþrótta- og tómstundaráð óskar eftir því við Framkvæmda- og eignasvið að umferðaröryggi verði aukið á Hlíðarenda, sem er hvort tveggja í senn, fjölfarinn akvegur og bifreiðastæði fyrir íþróttamannvirki Knattspyrnufélagsins Vals. Mikil umferð gangandi og hjólandi vegfarenda er um bílastæðið, ekki síst barna og unglinga, sem sækja æfingar og kappleiki á vegum félagsins. Æskilegt er að Hlíðarendi verði skilgreindur sem 30 kílómetra svæði og á götunni verði settar niður tvær hraðahindranir, önnur þegar komið er inn á svæðið en hin nokkru nær húsunum.
Samþykkt að vísa tillögunni til Framkvæmda- og eignasviðs og Umhverfis- og samgöngusviðs.
4. Lögð fram að nýju tillaga sjálfstæðismanna frá síðasta fundi liður 10 varðandi Vesturbæjarlaug.
Frestað.
5. Lagt fram svar framkvæmdastjóra ÍTR dags. 5. desember sl. vegna fyrirspurnar sjálfstæðismanna á síðasta fundi sbr. liður 11 vegna fjármála.
Lögð fram eftirfarandi bókun sjálfstæðismanna:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lýsa yfir furðu og vonbrigðum vegna þeirrar ákvörðunar meirihluta Samfylkingar og Besta flokksins að verðbæta ekki framlög til íþróttafélaga í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2012. Mörg íþróttfafélög í Reykjavík eiga nú við mikla rekstrarerfiðleika að stríða þar sem framlög til þeirra hafa staðið í stað frá árinu 2009 og ekki verið verðbætt. Á sama tíma hafa flestir kostnaðarliðir félaganna hækkað verulega, t.d. laun og orkukostnaður. Þá hefur mikil fjölgun orðið í barna- og unglingastarfi flestra íþróttafélaga á undanförnum árum, sem hefur einnig leitt til enn frekari hækkunar á rekstrarkostnaði. Í svari framkvæmdastjóra ÍTR kemur fram að það hefði kostað Reykjavíkurborg 20 milljónir króna að verðbæta styrki vegna íþróttastarfs félaga í Reykjavík, miðað við árið 2010, þar af sex milljónir vegna launa íþróttafulltrúa, sem gegna afar mikilvægu hlutverki í barna- og unglingastarfi félaganna. Á sama hátt hefði það kostað 26 milljónir króna að verðbæta styrki til íþróttafélaganna vegna húsaleigu- og æfingastyrkja. Þá má ætla að aukin útgjöld íþróttafélaga, sem eiga og reka sín eigin mannvirki, verði um 11,6 milljónum króna hærri á árinu 2012 en þau voru árið 2008 vegna mikilla hækkana á orkugjöldum. Þessi félög eru Fram, Fylkir, ÍFR, Íþróttabandalag Reykjavíkur, Íþróttafélag Reykjavíkur, Knattspyrnufélag Reykjavíkur, Valur, Víkingur auk nokkurra minni félaga. Íþróttahreyfingin hefur sýnt Reykjavíkurborg mikinn skilning í efnahagsþrengingum síðustu ára og brugðist vel við óskum borgarinnar um aukna starfsemi vegna mikillar fjölgunar í barna- og unglingastarfi þrátt fyrir að framlög hafi staðið í stað og þannig lækkað um tugi prósenta að raungildi. Íþróttafélögin hafa ítrekað bent á að þau hafi ekki lengur svigrúm til að halda úti óbreyttri starfsemi nema umrædd framlög verði verðbætt að einhverju leyti. Borgarstjóri og formaður borgarráðs hafa lýst yfir því að fjárhagsáætlun 2012 beri þess merki að Reykjavíkurborg sé komin út úr óveðrinu og vöxtur sé hafinn á ný. Það styður þessa skoðun að fjölmargir liðir fjárhagsáætlunar 2012 hækka verulega, m.a. vegna þess að þeir eru verðbættir að fullu, auk þess sem framlög eru veitt til nýrra gæluverkefna meirihlutans. Á sama tíma kýs meirihlutinn hins vegar að hundsa ítrekaðar óskir íþróttafélaganna um verðbætur á umræddum framlögum. Slík forgangsröðun sýnir betur en margt annað metnaðarleysi meirihluta Besta flokksins og Samfylkingarinnar í íþrótta- og tómstundamálum.
6. Lagt fram 9 mánaða uppgjör ÍTR.
7. Lögð fram fimm ára áætlun.
Lögð fram eftirfarandi bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna:
Það er óásættanlegt að fimm ára áætlun sé lögð fyrir íþrótta- og tómstundaráð í fyrsta skipti í dag, löngu eftir að hún er lögð fram og fyrri umræða hefur þegar farið fram í borgarstjórn. Undirbúningur og vinnubrögð vegna fimm ára áætlunar eru óásættanleg með öllu. Áætlunin endurspeglar á engan hátt áherslur fagráða eða fagsviða, hvorki pólitískt né faglega enda ráðin ekki tekið nokkurn þátt í gerð hennar. Fulltrúar minnihlutans gagnrýna harðlega stefnu- og metnaðarleysi meirihlutans hvað þetta varðar, enda eiga borgarbúar heimtingu á að vita hvert stefnt verði og hver hin pólitíska sýn núverandi meirihluta er.
Fundi slitið kl. 16.30.
Eva Einarsdóttir
Eva Baldursdóttir Stefán Benediktsson
Diljá Ámundadóttir Kjartan Magnússon
Marta Guðjónsdóttir Geir Sveinsson