Íþrótta- og tómstundaráð – starfaði til 2022 - og tómstundaráð

Íþrótta- og tómstundaráð – starfaði til 2022

ÍÞRÓTTA- OG TÓMSTUNDARÁÐ

Ár 2011, föstudaginn 9. september var haldinn 144. fundur íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Laugardalshöll og hófst kl. 11.00. Viðstaddir: Eva Einarsdóttir formaður, Eva Baldursdóttir, Stefán Benediktsson, Karl Sigurðsson, Marta Guðjónsdóttir, Geir Sveinsson og Kjartan Magnússon. Jafnframt sátu fundinn: Hermann Valsson áheyrnarfulltrúi, Steinþór Einarsson skrifstofustjóri, Ómar Einarsson framkvæmdastjóri og Gísli Árni Eggertsson skrifstofustjóri sem skrifaði fundargerð. Fundurinn var jafnframt starfsdagur ráðsins um stefnumótun, fjármál og rekstur.

Þetta gerðist:

1. Lagt fram bréf borgarstjóra dags. 6. sept. sl. varðandi skipan í íþrótta- og tómstundaráð. Karl Sigurðsson, Ásvallagötu 40, tekur sæti í ráðinu í stað Diljár Ámundadóttur.

2. Lagt fram bréf borgarstjóra dags. 7. sept. sl. varðandi skipan skóla- og frístundasviðs sem tekur til starfa 1. september n.k. og breytingar í stjórnsýslu og rekstri því tengdar.

3. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram svofellda tillögu.
Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur leggur til við borgarráð að Reykjavíkurborg leysi til sín leigulóðina Keilugranda 1, eigi síðar en þegar núverandi lóðarleigusamningur rennur út 1. janúar 2016 og ráðstafi henni í þágu íþrótta- og æskulýðsstarfsemi í Vesturbænum. Jafnframt verði kannaðir möguleikar á því hvort unnt sé að ná samkomulagi við núverandi lóðar-leigjanda um afhendingu lóðarinnar áður en umræddur samningur rennur út.

Greinargerð:
Borgarráð ákvað á fundi sínum hinn 12. nóvember 1965 að leigja Sölusambandi íslenzkra fiskframleiðenda lóð 7.192 fm. lóð við Eiðsgranda (nú Keilugranda 1) undir fiskiðnaðarhús. Lóðarleigusamningur vegna málsins var undirritaður í apríl 1967 og rennur sá samningur út 1. janúar 2016. Fiskiðnaður er ekki lengur stundaður í húsinu en núverandi eigandi þess er Landsbankinn. Fyrri leigjandi lóðarinnar hafði uppi áform um að breyta landnotkun lóðarinnar í því skyni að hefja þar stórtæka uppbyggingu fjölbýlishúsa. Íbúar í Grandahverfi hafa hins vegar verið afar ósáttir við slíkar uppbyggingarhugmyndir, allt frá því þær komu fram í ársbyrjun 2003. Hafa þeir m.a. bent á að Grandahverfi sé nú þegar eitt þéttbýlasta hverfi borgarinnar og að stórt fjölbýlishús á reitnum yrði í ósamræmi við þá byggð sem fyrir er. Forsenda uppbyggingar á umræddum stað er sú að borgaryfirvöld samþykki deiluskipulag fyrir reitinn. Slíkt skipulag liggur þó ekki fyrir en þær tilraunir, sem gerðar hafa til að samþykkja það hafa runnið út í sandinn, þar sem einfaldlega hefur ekki verið stuðningur fyrir stórfelldri uppbyggingu á reitnum. Íbúar í hverfinu myndu flestir fagna því ef horfið yrði frá hugmyndum um þétta byggð á lóðinni en þess í stað ákveðið að ráðstafa henni í þágu íþrótta- og æskulýðsstarfsemi í hverfinu. Er það kunnara en frá þurfi að segja að mikill skortur er á íþróttaæfingasvæði í Vesturbænum, ekki síst vegna mikillar fjölgunar í barna- og unglingastarfi Knattspyrnufélags Reykjavíkur á undanförnum árum. Aukin íþróttaiðkun almennings er fagnaðarefni enda löngu viðurkennt að íþróttir hafa mikið forvarnargildi í baráttunni gegn vímuefnum og offitu svo eitthvað sé nefnt. Það segir sig þó sjálft að íþróttafélög borgarinnar, sem búa við þrengsli á æfingasvæðum sínum, geta ekki tekið við stórauknum fjölda þátttakenda nema einnig verði hugað að auknu athafnarými. Er því ekki nema eðlilegt að borgaryfirvöld horfi með velvilja til óska íþróttafélaga um aukið rými, svo þau geti betur sinnt mikilvægu hlutverki sínu í þágu heilsueflingar og heilbrigðis borgarbúa. Hugmyndir um að umrædd lóð verði nýtt í þágu íþrótta- og æskulýðsstarfsemi í Vesturbænum hafa verið til umræðu allt frá árinu 2004 þegar Kjartan Magnússon borgarfulltrúi flutti tillögur um það í íþrótta- og tómstundaráði og hverfisráði Vesturbæjar að málefni umræddrar lóðar yrðu skoðuð sérstaklega í því skyni að bæta úr brýnni þörf á svæði til íþróttaiðkunar. Á síðasta kjörtímabili óskaði íþrótta- og tómstundaráð eftir því við borgarráð að kannaðir yrðu möguleikar á að Reykjavíkurborg leysti til sín umrædda lóð af skipulagsástæðum með það að markmiði að hún myndi í framtíðinni nýtast í þágu íþrótta- og æskulýðsstarfs í Vesturbænum. Með því að samþykkja fyrirliggjandi tillögu myndi íþrótta- og tómstundaráð hnykkja á áður markaðri stefnu sinni vegna umræddrar lóðar með því að leggja beinlínis til að Reykjavíkurborg leysi hana til sín eigi síðar en þegar núgildandi lóðarleigusamningur rennur út og ráðstafi henni síðan í þágu íþrótta- og æskulýðsstarfsemi.

Frestað.

4. Starfsdagur. Rætt um starfsemi ÍTR ásamt starfs- og fjárhagsáætlun.

Kl. 13.45 vék Stefán Benediktsson af fundi
Kl. 14.15 vék Eva Baldursdóttir af fundi

Fundi slitið kl. 15.30

Eva Einarsdóttir

Geir Sveinsson Karl Sigurðsson
Kjartan Magnússon Marta Guðjónsdóttir