Íþrótta- og tómstundaráð – starfaði til 2022 - og tómstundaráð

Íþrótta- og tómstundaráð – starfaði til 2022

ÍÞRÓTTA- OG TÓMSTUNDARÁÐ

Ár 2011, mánudaginn 18. apríl var haldinn 137. fundur íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn á Höfðatorgi og hófst kl. 9.15. Mættir: Eva Einarsdóttir formaður, Diljá Ámundadóttir, Björk Vilhelmsdóttir, Einar Örn Benediktsson, Björn Gíslason, Geir Sveinsson og Marta Guðjónsdóttir. Jafnframt: Hermann Valsson áheyrnarfulltrúi, Ingvar Sverrisson ÍBR, Steinþór Einarsson skrifstofustjóri, Soffía Pálsdóttir skrifstofustjóri, Ómar Einarsson framkvæmdastjóri og Helga Björnsdóttir skrifstofustjóri sem skrifaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Kynnt fyrirliggjandi tillaga í borgarráði að hefja skuli sameiningu Leikskólasviðs og Menntasviðs og að þau verkefni sem nú er á skrifstofu tómstundamála áÍþrótta- og tómstundasviði verði hluti af sameinuðu sviði.
Lögð fram eftirfarandi tillaga Sjálfstæðisflokks:
Þar sem fyrirliggjandi tillaga hefur hvorki hlotið eðlilega umfjöllun hjá viðkomandi fagráði né í stjórnkerfisnefnd, óska fulltrúar Sjálfstæðisflokks eftir því að afgreiðslu málsins verði frestað þar til sú umræða hefur farið fram og álit stjórnkerfisnefndar liggur fyrir. Að auki verði leitað eftir umsögnum hjá Starfsmannafélagi ÍTR, Samtökum félagsmiðstöðva á Íslandi, Reykjavíkurráði ungmenna, ÍBR, Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar og forstöðumönnum frístundamiðstöðva ÍTR.
Frestað.
Lögð fram eftirfarandi bókun Sjálfstæðisflokks:
Engin umræða eða fagleg vinna hefur átt sér stað í fagráðinu né stjórnkerfisnefnd um þessar breytingar en engar upplýsingar eða samtöl liggja fyrir. Meirihluti Besta flokks og Samfylkingar ætlaði að keyra þessar breytingar í gegn án nokkurrar umræðu í fagráðunum. Ekkert var minnst á þessar breytingar á fundi ÍTR og menntaráðs á miðvikudag, þrátt fyrir að þær hafi þá verið ákveðnar og sviðsstjórar upplýstir um fyrirætlanir meirihlutans. Áfram er gengið harkalegast að skólakerfinu og tómstundastarfi barna og uppsagnir yfirmanna setja viðkvæmar sameiningar í enn meira uppnám en áður og nóg var nú samt. Á þessum tímapunkti þurfa skóla og frístundaheimili sem standa í sameiningu á allri þeirri stoðþjónustu sem til staðar er að halda. Fundurinn nú, sem er aukafundur að ósk minnihluta ÍTR, upplýsti íþrótta- og tómstundaráð lítið sem ekkert en ljóst er að meirihlutinn heldur áfram að stunda flaustursleg og óvönduð vinnubrögð sem á endanum gera ekkert nema að skaða og trufla þau störf sem starfsmenn sviðsins sinna. Í 2. gr. samþykktar íþrótta- og tómstundaráð segir m.a. íþrótta- og tómstundaráð mótar stefnu í íþrótta- og tómstundamálum barna í borginni og tekur ákvarðanir og gerir tillögur til borgarráðs um verksvið þess en íþrótta- og tómstundaráð hefur ekkert unnið með þessar breytingar. Á fundinum fengust engar skriflegar upplýsingar né voru kynnt drög að nýrri samþykkt sameinaðs ráðs þrátt fyrir að meirihlutinn ætli að afgreiða málið í borgarstjórn á morgun. Fyrirliggjandi tillögur meirihlutans um sameiningar skóla í Reykjavík hafa liðið fyrir vond og ólýðræðisleg vinnubrögð, auk þess sem ekkert liggur fyrir um nákvæmlega hvaða hagræðingu þær skila. Til að mótmæla þessu söfnuðust um 12.000 áskoranir, auk þess sem rúmlega 90#PR þeirra umsagna sem bárust voru neikvæðar. Þessi miklu og afdráttarlausu viðbrögð eru ekki síst því að kenna hversu illa var að verkinu staðið, hversu lítið samráðið var og hve takmarkaður faglegur grundvöllur var. Farið er af stað án nokkurrar stefnu eða framtíðarsýnar. Allt þetta hefur kallað á átök í stað sáttar. Það sama er að segja um þær stjórnkerfisbreytingar sem nú hafa verið kynntar á lokametrum þessarar vinnu. Um þær hefur engin umræða verið, hvorki á vettvangi fagráða, borgarráðs né stjórnkerfisnefndar auk þess sem engin greining liggur fyrir um þann ávinning sem þessar breytingar skila. Um það er ekki deilt að kerfisbreytingar eru nauðsynlegar og fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa ítrekað bent á að á sama tíma og meirihlutinn sker niður í grunnþjónustu við borgarbúa, hækkar skatta og virðist fyrirmunað að ná nokkurri sátt um mikilvæga þætti í starfsemi borgarinnar, sé ekki gengið af festu og yfirsýn til þess að lækka kostnað við kerfið sjálft. Í ráðhúsinu virðist sá vilji hins vegar ekki til staðar og sú staðreynd að stjórnkerfisnefnd, sem ábyrgð ber á tillögum og innleiðingu slíkra breytinga hefur ekki verið boðuð til fundar í tvo mánuði lýsir þessum vinnubrögðum vel. Þessar tillögur nú eru því framlagðar án nokkurrar heildarhugsunar um það hvernig spara eigi og hvers vegna það er t.d. talið farsælt að sameina alla þjónustu vegna menntunar og frístundar barna og ungmenna í eitt svið, á meðan svið sem tengjast framkvæmdum, skipulagi og samgöngum og fleiru starfa enn samkvæmt óbreyttu skipulagi. Þessi forgangsröðun meirihlutans vekur spurningar og er vond, en því miður verst fyrir borgarbúa. Aðför að skólum og tómstundastarfi borgarinnar heldur áfram.

Lagðar fram eftirfarandi fyrirspurnir Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna:
Eftirfarandi spurningar eru lagðar fram og óskað er eftir svörum við þeim fyrir lok þessa mánaðar.
1. Óskað er eftir skriflegri greinargerð meirihluta ÍTR um faglegar forsendur og ávinning af breytingu.
2. Óskað er eftir skriflegum umsögnum forstöðumanna frístundamiðstöðva ÍTR og starfsmönnum þeirra,forstöðumönnum frístundaheimila, samtökum félagsmiðstöðva á Íslandi, starfsmannafélagi ÍTR.
3. Við hverja og hvaða fagaðila var haft samráð við ákvarðanir á þessum breytingum?
4. Við breytingar á sviðunum 2005 var talið mikilvægt af ólíkum aðilum að aðstoðarsviðsstjóri yrði ráðinn vegna stærðar og umfangs sviðsins auk þess sem leikskólaþjónustuþáttur sviðsins fékk þannig aukið vægi. Hvernig verður stjórnskipulagi háttað á nýju sviði sem 5000 starfsmenn starfa hjá?
5. Hvernig tryggja á að sá stutti tími sem framundan er til undirbúnings viðkvæmra sameininga leikskóla og grunnskóla og grunnskóla og frítstundaheimila verði ekki í uppnámi vegna stjórnkerfisbreytinga
6. Hvaða aðrar stjórnkerfisbreytingar, t.d. á hörðu sviðunum eru í uppsiglingu?
7. Hvenær og hvar ákvörðun var tekin um þessar breytingar á mennta-, leikskóla-, og íþrótta- og tómstundasviði. Óskað er eftir nákvæmum erindisfærslum um málið.
8. Umsögn mannauðstjóra borgarinnar um málið og hans aðkomu að því í aðdraganda þess.
9. Óskað er eftir skriflegri lýsingu frá borgarstjóra hvernig haga eigi sameiningu sviðanna.
10. Óskað er eftir nákvæmri útfærslu á kostnaði þess að sameina auk áætlaðrar hagræðingar.
11. Hvaða faglegu sjónarmið og rök liggja að baki tillögunni?
12. Hver eru viðhorf starfsmanna Íþrótta- og tómstundaráðs til breytinganna? Óskað er eftir fundargerðum af þeim fundum með starfsfólki sem þessar breytingar voru ræddar og kynntar.
13. Hve margir starfsmenn Íþrótta- og tómstundasviðs munu flytjast yfir til Menntasviðs?
14. Munu einhverjir af núverandi starfsmönnum þessara þriggja sviða ekki fá sambærileg störf og þeir gegna í dag fyrir þessar stjórnkerfisbreytingar? Hvaða störf breytast?
15. Hvenær er áætlað að sameinað svið sé að fullu tilbúið og breytingum lokið?
16. Hvernig verður nægjanleg lýðræðisleg aðkoma tryggð að fyrirhuguðu ráði sem stýrir um 30 af 50 milljarða útgjöldum borgarinnar?
17. Vísað er til viðtala við ráðgjafa vegna þessara breytinga. Hvar liggur sú vinna og hvar hefur hún verið kynnt. Óskað er eftir niðurstöðu þess.
kl. 10.25 var gert stutt fundarhlé.
kl. 10.30 vék Ingvar Sverrisson af fundi.

Fundi slitið kl. 10.40.

Eva Einarsdóttir
Diljá Ámundadóttir Björk Vilhelmsdóttir
Einar Örn Benediktsson Björn Gíslason
Geir Sveinsson Marta Guðjónsdóttir