Íþrótta- og tómstundaráð – starfaði til 2022 - og tómstundaráð

Íþrótta- og tómstundaráð – starfaði til 2022

ÍÞRÓTTA- OG TÓMSTUNDARÁÐ

Ár 2010, föstudaginn 26. nóvember var haldinn 124. fundur íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn Bæjarhálsi 1 og hófst kl. 11.10. Viðstaddir: Diljá Ámundadóttir formaður, Eva H. Baldursdóttir, Hilmar Sigurðsson, Ragnar Hansson, Marta Guðjónsdóttir og Geir Sveinsson. Einnig: Hermann Valsson áheyrnarfulltrúi, Steinþór Einarsson skrifstofustjóri íþróttamála, Soffía Pálsdóttir skrifstofustjóri tómstundamála, Ómar Einarsson framkvæmdastjóri og Gísli Árni Eggertsson skrifstofustjóri sem skrifaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Kynning á starfsemi sem heyrir undir skrifstofu íþróttamála. Á fundinn komu forstöðumenn sundlauga og íþróttahúsa, fylgdu eftir kynningunni og svöruðu fyrirspurnum.

- Kl. 11.25 vék Hermann Valsson af fundi.
- Kl. 11.30 kom Drífa Baldursdóttir á fundinn.

2. Lagt fram bréf íþróttafélagsins Fylkis dags. 25. nóv. sl. varðandi framkvæmdir við stúku félagsins.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram svofellda bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins óska eftir því að undirbúningur verði hafinn við byggingu áhorfendastúku við Fylkisvöll, í því skyni að fullnægja skilyrðum Knattspyrnusambands Íslands fyrir leiki í efstu deild. Metin verði væntanlegt umfang og áfangaskipting framkvæmda og kostnaðaráætlun unnin.

3. Lögð fram að nýju tillaga Sjálfstæðisflokks v/Úlfarsársdals með breytingum, samanber fundargerð 117. fundar:
Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur beinir því til borgarráðs að haldið verði áfram framkvæmdum á íþróttasvæði Fram í Grafarholti/Úlfarsárdal með það að markmiði að gervigrasvöllur verði tekinn þar í notkun á árinu 2011.
Samþykkt.

4. Lagt fram yfirlit yfir styrkbeiðnir.
Skipað í vinnuhóp vegna afgreiðslu styrkja: Eva H. Baldursdóttir og Ragnar Hansson frá meirihluta og Hermann Valsson og Geir Sveinsson frá minnihluta.

5. Lagt fram bréf mannréttindastjóra Reykjavíkurborgar dags. 4. nóv. sl. þar sem vísað er til umsagnar íþrótta- og tómstundaráðs tillögu í mannréttindaráði um samskipti leik- og grunnskóla og trúar- og lífsskoðunarhópa.
Lögð fram svofelld tillaga meirihlutans að umsögn:
I. Inngangur
Þann 3. nóvember síðastliðinn samþykkti Mannréttindaráð að senda tillögur sínar um samskipti trúar- og lífsskoðunarhópa og grunnskóla, leikskóla og frístundaheimila til umsagnar ráðsins. Íþrótta- og tómstundaráð hefur nú tekið tillögurnar til skoðunar. Eftirfarandi er umsögn ráðsins um tillögurnar og hvernig þær koma við starfsemi Íþrótta- og tómstundasviðs. Þá verður lögð fram breytingartillaga til að taka af allan vafa um hvernig reglurnar muni taka til starfsemi frístundaheimila, komi til samþykktar þeirra í Mannréttindaráði.

II. Tillögur og breytingartillaga:
Íþrótta- og tómstundaráð hefur nú kynnt sér tillögur Mannréttindaráðs. Tillögurnar taka aðeins til starfsemi ÍTR hvað varðar rekstur frístundaheimila. Hafa verður í huga að frístundamiðstöðvar og félagsmiðstöðvar eru þar utanskildar, sem og önnur starfsemi ÍTR.
Íþrótta- og tómstundaráð leggur nú til svohljóðandi breytingartillögu á fyrstu málsgrein b- lið tillagna til að tryggja skýrleika hvað varðar starfsemi ÍTR:
Trúar- og lífsskoðunarfélög skuli ekki stunda starfsemi innan veggja leik- og grunnskóla borgarinnar á skólatíma né heldur á starfstíma frístundaheimila.
Með breytingartillögunni er tekin af allur vafi um að tillögur Mannréttindiráðs gildi á starfstíma frístundaheimila.
III. Umsögn
Að viðbættri breytingartillögu þykir ÍTR rétt að veita stutta umsögn um hvernig framkomnar reglur muni taka til frístundaheimila. Eitt af markmiðum frístundaheimilanna allt frá upphafi hefur verið að börnin kynnist sínu nærumhverfi og þeim tómstundatilboðum sem standa börnum til boða í þeirra hverfi. Mörg barnanna sem dvelja á frístundaheimilum ÍTR taka þátt í íþrótta- og tómstundastarfi af ýmsum toga hjá margvíslegum aðilum. Foreldrar annast alfarið skráningu í þau tilboð og upplýsa starfsmenn frístundaheimilisins ef senda á barn í einhvers konar tómstundastarf innan þess tíma sem þau dvelja á heimilinu. Þetta á við um þátttöku barna í starfi á vegum trúar- og lífsskoðunarhópa sem og íþrótta- og æskulýðsstarfs eða tónlistar eða listastarfs. Framangreint hefur í för með sér að starfsmenn frístundaheimila koma börnum í sitt tómstundastarf eftir frístund, á sama hátt og áður, sama hvaða nafni sú tómstund nefnist. Þá er jafnvel lagt til, ef hugur stendur til, að sérstakur liður í tillögunum verði settur upp á sama hátt og varðandi leik- og grunnskóla, en sérákvæði er að finna neðar í tillögum sem er ekki að finna um frístundaheimilin. Það væri ennfremur til hagræðingar fyrir þá sem hyggjast beita reglunum, þeirra sem eiga að sjá um framkvæmd reglanna og íbúa Reykjavíkur þ.e. þjónustuþegann. Þá verður að lokum að árétta að ofangreint er aðeins umsögn en ekki efnisleg afgreiðsla ráðsins.“

Umsögnin samþykkt með 4 atkvæðum meirihlutans gegn 3 atkvæðum minnishlutans.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram svofellda bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lýsa yfir andstöðu við fram komna tillögu mannréttindaráðs og telja skýrslu Mennta- og Leikskólasviðs frá 2007 um samstarf kirkju og skóla vera afar góðan ramma um samstarf þessara aðila. Þar segir orðrétt í niðurstöðum: „Samskipti leik- og grunnskóla við trúar- og lífsskoðunarhópa einkennist af skilningi og virðingu fyrir hlutverki hvors annars. Stofnanir eru meðvitaðar um ólíkar forsendur fyrir starfi hvors annars og virða þau lög, reglur og samþykktir sem í gildi eru fyrir þessar stofnanir og samfélagið í heild.“ Tillögur að reglum mannréttindaráðs um samskipti skóla og trúfélaga eru í heild sinni hið furðulegasta mál og kemur öllum er fjallað hafa um á óvart. Í fyrsta lagi endurspeglar tillaga meirihluta mannréttindaráðs ekki umburðarlyndi eða jafnræði heldur einkennist hún af miðstýringu og boðvaldi. Í öðru lagi eru þessar róttæku reglur aðeins unnar á grundvelli 22 kvartana sem hafa borist mannréttindaskrifstofu úr skólakerfi sem þjónar rúmlega 20.000 nemendum. Í þriðja lagi eru samvinna og samstarf við skóla og trúfélög engin sem vekur furðu í ljósi þess að ein af rökum þessara breytinga hefur verið að skerpa þurfi á starfsreglum svo sátt megi nást um samstarf skóla og t.d. kirkju. Því hefði á auðveldan hátt hefði verið hægt að vanda betur til verka með því að ná fram víðtækri samstöðu við foreldra, kennara og starfsmenn skóla, nemendur, fræðimenn, þjóðkirkju og trúar- og lífsskoðunarfélög með það að markmiði að leggja mat á hvort ástæða sé til þess að endurmeta samstarf trúar- og lífsskoðunarfélaga við grunnskóla og leikskóla í Reykjavík. Í fjórða lagi má skilja tillöguna sem svo að hún takmarki eða útiloki að íþrótta og tómstundarfélög almennt geti kynnt starfsemi sína í skólum og frístundarheimilum sem væri afar óæskilegt. Í fimmta lagi gengur sú hugsun í tillögunni um boð og bönn gegn þeirri hugmyndafræði sem búið er að innleiða í skólasamfélagið í mörg ár, að skólinn haldi sínu sjálfstæði sem ekki verði takmarkað og tryggt er að þar fari fram fræðsla um kristin fræði jafnt sem önnur trúarbrögð og að stofnanir, félög og fyrirtæki í hverju hverfi vinni náið með skólasamfélaginu. Tillögurnar nú útiloka einn lykilþátttakanda í þessu mikilvæga samstarfi og fela í sér vantraust á starfsfólk skólanna, sem hingað til hefur verið treyst til að virða mörk skóla og samstarfsaðila. Dæmin um samstarf stofnana og starfsemi trúar- og lífskoðunarhópa á skólatíma eru fjölmörg og uppbyggileg og fela ekki í sér trúboð. Dæmi eru um að skólar brautskrái elstu nemendur við hátíðlega athöfn í kirkju sem er í næsta húsi, að starfsmenn kirkju komi og kynni fyrir leikskólabörnum hvað er að gerast í kirkjunni á daginn þegar þau sjá reglulega líkfylgd frá leiksvæði sínu og samstarf kirkju og skóla um nafnlaus framlög til að greiða niður matargjöld barna sem eiga um sárt að binda. Með tillögum meirihluta Samfylkingar og Besta flokksins verður allt slíkt samstarf bannað. Fjölmörg önnur dæmi eru um persónuleg, vinaleg og félagsleg tengsl kirkju og skóla auk þess sem tengsl kristinnar trúar og íslenskrar menningar hafa um aldir verið svo samofin að erfitt er og óæskilegt að skapa gjá þar á milli.

6. Lagðar fram skýrslur um sumarstörf ungmenna 2010 og Vítamín, virkninámskeið í Hinu Húsinu fyrir atvinnulaus ungmenni.

7. Minnihlutinn lagði fram svofellda tillögu:
ÍTR beinir því til borgarráðs að veittur verði styrkur til KFUM og K til að unnt verði að ljúka byggingu svefnskála í Vatnaskógi. Framkvæmdir hófust haustið 2007 og hefur Reykjavíkurborg þegar veitt styrk til verksins en vegna áfalla í efnahagslífi hafa aðrar leiðir við fjármögnun þess að nokkru leyti brugðist. Verkið er þó vel á veg komið en töluverð vinna eftir innanhúss. Hinn nýi svefnskáli mun fullnægja öllum kröfum eldvarna- og heilbrigðiseftirlits en eldra húsnæði mun að einhverju leyti vera ábótavant hvað slíkar kröfur varðar. Á hverju ári dvelja þúsundir barna og ungmenna í Vatnaskógi og taka þátt í uppbyggilegu æskulýðsstarfi.
Frestað.

8. Lögð fram svofelld bókun meirihlutans vegna bókana Kjartans Magnússonar og Hermanns Valssonar á síðasta fundi:
Við kunnum fullrúum Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks bestu þakkir fyrir samstarf við gerð fjárhagsáætlunar í íþrótta- og tómstundarmálum Reykjavíkur á undanförnum vikum. Við upphaf vinnu við fjárhagsáætlun var ljóst að koma þurfti til niðurskurðar á þjónustu Reykjavíkurborgar til að mæta að hluta 4,5 milljarða króna gati. Í Íþrótta- og tómstundaráði var frá upphafi sett rík krafa á sparnað til að mæta fjárhagsramma en lögð áhersla á að vinna málið í opinni samvinnu allra í ráðinu. Sú mikla vinna var leidd örugglega áfram af stjórnendum ÍTR og er þeim og öllum starfsmönnum sérstaklega þakkað fyrir sína góðu vinnu. Til að ná þeim markmiðum sem þurfti, var eðlilega litið til allra þátta í starfsemi ÍTR og hverjum steini velt við. Í þeirri vinnu sem nú er að klárast hefur ríkulegt tillit verið tekið til skoðana og hugmynda sem upp hafa komið og reynt af fremsta megni að koma til móts við megin sjónarmið í ráðinu. Á síðasta fundi ráðsins var upplýst að farið yrði í að finna lausnir á þeim verkefnum sem enn stóðu útaf. Má þar nefna að leita lausna svo viðmiðið í áætlunum sé 3.000 pláss á frístundaheimilum, halda í horfinu með sumarstörf og starf fyrir 10-12 ára börn, ásamt fleiru. Þessi mál hafa nú verið leyst. Samhliða þessu hefur ÍTR farið nýjar leiðir við fjárveitingar í íþróttamálum borgarinnar undir traustri stjórn ÍBR. Við gerum okkur fulla grein fyrir mikilvægi starfs á vegum ÍTR og forvarnagildi íþrótta- og tómstundastarfs. Í starfi meirihluta ÍTR hefur verið haft að leiðarljósi í vinnu við fjárhagsáætlun að fara vel með almannafé, mæta sem flestum sjónarmiðum, vernda þá sem minna mega sín í samfélaginu og reyna að halda eftir föngum í frábæra íþrótta og tómstundastarfsemi í borginni, samhliða því að leita skynsamra leiða milli niðurskurðar og gjaldkrárhækkana. Framundan er stefnumótandi vinna í öllum málaflokkum við gerð 5 ára áætlunar Reykjavíkurborgar og óskum við eftir áframhaldandi góðri samvinnu allra í Íþrótta- og tómstundaráði við þá vinnu.

Fundi slitið kl. 13.20

Diljá Ámundadóttir
Eva H. Baldursdóttir Kjartan Magnússon
Hilmar Sigurðsson Geir Sveinsson
Ragnar Hansson Marta Guðjónsdóttir