Íþrótta- og tómstundaráð – starfaði til 2022 - og tómstundaráð

Íþrótta- og tómstundaráð – starfaði til 2022

ÍÞRÓTTA- OG TÓMSTUNDARÁÐ

Ár 2011, föstudaginn 19. ágúst var haldinn 142. fundur íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsinu og hófst kl. 11.05. Mættir: Eva Einarsdóttir formaður, Diljá Ámundadóttir, Eva Baldursdóttir, Kjartan Magnússon og Marta Guðjónsdóttir. Ennfremur: Bragi Þór Bjarnason fjármálastjóri, Steinþór Einarsson skrifstofustjóri, Gísli Árni Eggertsson skrifstofustjóri, Ómar Einarsson framkvæmdastjóri og Helga Björnsdóttir skrifstofustjóri sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar dags. 28. júlí sl. vegna bréfs UMFÍ um 2. Landsmót fyrir 50 ára og eldri.

2. Lagt fram bréf Skautafélagsins Bjarnarins dags. 28. júní sl. vegna aksturs í Grafarvogi vegna íþróttaæfinga.

3. Lagt fram bréf fjármálaskrifstofu Reykjavíkurborgar dags. 8. júlí og 10. ágúst sl. vegna tíma og verkáætlunar vegna fjárhagsáætlunar 2012 og fimm ára áætlunar 2012 – 2016.
Á fundinn mætti Halldóra Káradóttir og fór yfir vinnulag vegna fjárhagsáætlunargerðar.

- Kl. 11.15 komu Soffía Pálsdóttir skrifstofustjóri, Geir Sveinsson og Hermann Valsson á fundinn.
- Kl. 11.20 kom Bjarni Þór Sigurðsson á fundinn.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Með bréfi dags. 20. júní síðastliðinn sendi framkvæmdastjóri ÍTR fjármálastjóra Reykjavíkurborgar afkomuviðvörun með válista vegna ársútkomu 2011. Í umræddu plaggi kemur fram að útlit sé fyrir að veruleg frávik verði á fjárhagsáætlun ársins þar sem ýmsir tekjuliðir séu undir áætlun en útgjaldaliðir yfir áætlun. Þar sem uggvænlegar upplýsingar koma fram í umræddu minnisblaði varðandi fjárhag ÍTR, hefði verið eðlilegt að upplýsa Íþrótta- og tómstundaráð tafarlaust um efni þess, t.d. á síðasta reglulega fundi ráðsins fyrir sumarfrí, sem haldinn var 24. júní eða fjórum dögum eftir að framkvæmdastjóri ÍTR sendi blaðið frá sér. Er með ólíkindum að minnisblaðið hafi ekki verið lagt fram á fundinum 24. júní en ráðið sent í sumarfrí og framlagningu upplýsinganna þannig seinkað um tvo mánuði. Rétt er að minna á að íþrótta- og tómstundaráð hefur ríkar eftirlitsskyldur og ber að fylgjast grannt með fjármálum sviðsins á hverjum tíma. Vandséð er hvernig ráðið á að sinna því hlutverki sínu þegar mikilvægum upplýsingum um hættumerki í fjármálum er haldið frá því mánuðum saman. Er þetta langt í frá eina dæmið um óstjórn meirihluta Samfylkingar og Besta flokksins í stjórnsýslu og fjármálum borgarinnar. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins átelja slík vinnubrögð harðlega.

4. Lagt fram yfirlit um framkvæmdir og viðhald við íþróttamannvirki. Á fundinn kom Rúnar Gunnarsson frá Framkvæmda- og eignasviði og sagði frá stöðu framkvæmda.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi tillögu:
Íþrótta- og tómstundaráð samþykkir að kannaðir verði möguleikar á því að setja upp vatnsrennibraut við Vesturbæjarlaug. Óskað er eftir greinargerð frá Framkvæmdasviði með upplýsingum um hvernig best væri að koma slíkri rennibraut fyrir við laugina ásamt kostnaðaráætlun.
Samþykkt.

- Kl. 12.30 vék Steinþór Einarsson af fundi.

5. Lagt fram sex mánaða uppgjör ÍTR.

6. Rætt um viðbragðsáætlun vegna kynferðisáreittni í æskulýðs-, tómstunda- og íþróttastarfi.
Vísað til framkvæmdastjóra.
Lögð fram eftirfarandi bókun:
Íþrótta- og tómstundaráð vill leggja ríka áherslu á og telur brýnt að vinna við viðbragðsáætlun hefjist sem fyrst og unnið verði eftir henni.

7. Lögð fram viðhorfskönnun meðal erlendra ferðamanna í Laugardalslaug í júlí sl.
Ráðið þakkar fyrir frumkvæði Leone Tinganelli við gerð þessarar könnunar.

8. Lagðar fram niðurstöður Fjölmenningaþings.
Á fundinn kom Anna Kristinsdóttir mannréttindastjóri og kynnti niðurstöðurnar.

9. Lagt fram bréf stjórnkerfisnefndar dags. 18. ágúst sl. með ósk um umsögn vegna samþykkta fyrir íþrótta- og tómstundaráð og skóla- og frístundaráð.
Frestað.

10. Lagt fram minnisblað um fjölda umsókna á frístundaheimili og stöðu ráðninga starfsmanna á frístundaheimili.

11. Fulltrúar sjálfstæðismanna lögðu fram eftirfarandi tillögu:
Íþrótta- og tómstundaráð samþykkir að efna til viðræðna milli borgaryfirvalda, Íþróttabandalags Reykjavíkur og Lögreglunnar í Reykjavík vegna bílastæðavanda við keppnisleikvanga íþróttafélaganna í borginni. Framkvæmdastjóra ÍTR er falið að setja starfshóp á laggirnar með með fulltrúum frá þessum aðilum, sem kortleggi vandamálið og komi með tillögur til úrbóta. Skoðað verði sérstaklega að heimila lagningu bifreiða á opnum svæðum nálægt íþróttaleikvöngum við sérstakar aðstæður, þ.e. meðan á fjölsóttum íþróttaleikjum stendur. Í starfi hópsins verði rík áhersla lögð á samráð og samvinnu við öll hverfisíþróttafélög borgarinnar. Stefnt skal að því að hópurinn skili áliti ásamt tillögum til úrbóta fyrir 1. janúar nk.
Tillagan felld með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingar og Besta flokksins gegn þremur atkvæðum sjálfstæðismanna.

Fundi slitið kl. 14.30

Eva Einarsdóttir

Diljá Ámundadóttir Eva Baldursdóttir
Bjarni Þór Sigurðsson Kjartan Magnússon
Geir Sveinsson Marta Guðjónsdóttir