Íþrótta- og tómstundaráð – starfaði til 2022
ÍÞRÓTTA- OG TÓMSTUNDARÁÐ
Ár 2010, þriðjudaginn 9. mars var haldinn 106. fundur íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsinu og hófst kl. 12:40. Viðstaddir: Kjartan Magnússon formaður, Valgerður Sveinsdóttir, Björn Gíslason, Sigfús Ægir Árnason, Oddný Sturludóttir, Sóley Tómasdóttir og Stefán Jóhann Stefánsson. Jafnframt: Haraldur Egilsson áheyrnarfulltrúi, Ingvar Sverrisson ÍBR, Ómar Einarsson framkvæmdastjóri, Steinþór Einarsson skrifstofustjóri, Soffía Pálsdóttir skrifstofustjóri og Helga Björnsdóttir skrifstofustjóri sem skrifaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Kynning á drögum að samningi um Egilshöllina.
Lögð fram eftirfarandi bókun fulltrúa Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks mæla með því við borgarráð að gengið verði til samninga um aukin afnot af Egilshöll fyrir Ungmennafélagið Fjölni og önnur íþróttafélög borgarinnar, sem og aðstöðu fyrir frístundastarf í þágu fatlaðra barna og ungmenna.
Lagt er til að samningsdrögunum verði vísað til borgarráðs.
Samþykkt með 4 atkvæðum Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna sátu hjá.
Lögð fram eftirfarandi bókun fulltrúa Vinstri grænna:
Fulltrúi Vinstri grænna telur ekki ráðlegt að ganga til samninga vegna Egilshallar á þeim forsendum sem hér hafa verið settar fram. Starfsemin í húsnæðinu er allra góðra gjalda verð, brýnt er að áfram verði aðstaða til frístundastarfs á vegum borgarinnar og Fjölnis, en samningur til svo langs tíma getur vart talist réttlætanlegur við þær aðstæður sem nú ríkja í samfélaginu.
Lögð fram eftirfarandi bókun fulltrúa Samfylkingar:
Þær upplýsingar sem fyrir liggja um rekstur og framtíðaraform varðandi Egilshöll eru ófullnægjandi og að hluta til rangar. Miðað við hluta fyrirliggjandi upplýsingar virðist borgin ætla að taka yfir allan, eða svo til allan rekstur Egilshallarinnar. Þess vegna væri fyllsta ástæða fyrir borgarráð að skoða þessi mál ofan í kjölinn, t.d. með aðstoð Innri endurskoðunar borgarinnar.
2. Rætt um fimleikaaðstöðu í Norðlingaholti.
Lögð fram eftirfarandi bókun fulltrúa Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks mæla með því við borgarráð að gengið verði til samninga um leigu á húsnæði í Norðlingaholti vegna aðstöðu fyrir fimleika og aðrar inniíþróttir fyrir austurhluta borgarinnar sem og frístundaheimili og félags- og tómstundastarf fyrir íbúa í Norðlingaholti.
Lagt er til að erindinu verði vísað til borgarráðs.
Samþykkt með 4 atkvæðum fulltrúa Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Fulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingar sátu hjá.
3. Rætt um fyrirhugaðar framkvæmdir Golfklúbbs Reykjavíkur við Korpu.
Lögð fram eftirfarandi bókun Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks mæla með því að gengið verði til samninga við Golfklúbb Reykjavíkur um breytingar á fyrri samningum um stækkun golfvallar við Korpúlfsstaði.
Lagt er til að erindinu verði vísað til borgarráðs.
Samþykkt með 4 atkvæðum Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Fulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingar sátu hjá.
4. Lögð fram eftirfarandi bókun fulltrúa Vinstri grænna:
Þau mál sem hér hafa verið til umræðu á fundinum varða útgjöld á þessu ári upp á 115 milljónir króna umfram það sem samþykkt var í fjárhagsáætlun borgarinnar fyrir árið 2010. Þá er rétt að benda á að borgarfulltrúar Vinstri grænna lögðu fram breytingartillögur milli umræðna um fjárhagsáætlunina sem varðaði sömu upphæð og snéri að bættri þjónustu á vegum borgarinnar í þágu barna og ungmenna. Meðal annars var þar lagt til að starf fyrir börn í 5.-7. bekk yrði elft um alla borg, að fjöldi barna á hvern starfsmann í frístundaheimilum héldist óbreyttur og að atvinnumál ungs fólks yrðu elfd. Þessum tillögum var hafnað af meirihluta borgarstjórnar sem nú kýs að verja sambærilegri upphæð í mannvirki og stækkun golfvallar. Fulltrúi Vinstri grænna hefur mikla samúð með þeirri starfsemi sem hér um ræðir, telur brýnt að áfram verði börnum og ungmennum gert kleift að iðka sem flestar íþróttagreinar og að starfsemi frístundaheimila og félagsmiðstöðva sé við sómasamlegar aðstæður. Vinstri græn hafa því lagt til að aukinn kraftur verði settur í framkvæmdir við Norðlingaskóla þannig að börn og unglingar þar fái sómasamlega aðstöðu til framtíðar. Rekstri borgarinnar er þröngur stakkur sniðinn um þessar mundir. Ekki er útséð um að hagræðingarkrafa á menntasvið geri grunnskólum borgarinnar kleift að veita lögbundna grunnþjónustu, grunnupphæð fjárhagsaðstoðar á velferðarsviði hefur ekki fylgt vísitöluþróun og svona mætti lengi telja. Við slíkar aðstæður verður því miður eitthvað undan að láta.
Lögð fram eftirfarandi bókun fulltrúa Samfylkingarinnar:
Því er fagnað að unnið hafi verið að því að bæta íþrótta- og tómstundaaðstöðu barna og ungmenna í Grafarvogi og Norðlingaholti eftir langvarandi stöðnun á kjörtímabilinu. Samningarnir bera með sér að meirihlutinn telur sig vera undir mikilli pressu við að reka af sér slyðruorðið í aðdraganda kosninga. Á það verður að benda að 50 milljónir til stækkunar golfvallar telst varla mæta markmiðum borgarstjórnar um að forgangsraða takmörkuðu fjármagni borgarinnar í þágu velferðar barna og ungmenna. Á þessum aukafundi stjórnar ÍTR eru til umfjöllunar skuldbindingar borgarinnar til 25 ára og sem nema um 15 milljörðum króna án þess að samningar og nægjanleg gögn liggja fyrir. Það er fyllsta ástæða fyrir borgarráð að fara gaumgæfilega yfir alla samningana.
Lögð fram fram eftirfarandi bókun fulltrúa Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks.
Íþrótta- og tómstundaráð hefur á þessum fundi vísað til borgarráðs samningsgerð vegna íþróttamannvirkja sem nýtast munu til hreyfingar og íþróttaiðkunar fyrir fjölmarga borgarbúa. Í tilviki Egilshallar er um að ræða áframhaldandi notkun mannvirkisins í þágu Fjölnis sem og annarra íþróttafélaga borgarinnar auk frístundaaðstöðu fyrir fötluð börn og ungmenni. Skv. samningnum verða m.a. tryggð aukin afnot fyrir knattspyrnu, skautaiðkun, fimleika og aðrar inniíþróttir. Með leigu á húsnæði í Norðlingaholti yrði bætt úr langvarandi skorti á íþróttaaðstöðu fyrir iðkun fimleika og annarra inniíþrótta í austurhluta borgarinnar og húsnæði tryggt fyrir frístundaheimili og félags- og tómstundastarf fyrir íbúa í hverfinu. Á kjörtímabilinu hafa ýmsir aðrir kostir verið til skoðunar, m.a. bygging sérstaks fimleikahúss en ljóst er að kostnaður við slíka byggingu næmi milljörðum króna og því yrði slíkur leigusamningur hagstæður fyrir borgina. Rétt er að minna á að í Norðlingaholti er nú hæst hlutfall barna í hverfum borgarinnar en við skipulag hverfisins var ekki gert ráð fyrir neinni íþróttaaðstöðu fyrir utan skólaíþróttahús Norðlingaskóla. Á síðasta kjörtímabili undirritaði þáverandi borgarstjóri samning við Golfklúbb Reykjavíkur um stækkun Golfvallarins við Korpúlfsstaði og er nú verið að mæla með að sá samningur verði efndur.
Fundi slitið kl. 13:45.
Kjartan Magnússon
Valgerður Sveinsdóttir Björn Gíslason
Sigfús Ægir Árnason Sóley Tómasdóttir
Stefán Jóhann Stefánsson Oddný Sturludóttir