Íþrótta- og tómstundaráð – starfaði til 2022
ÍÞRÓTTA- OG TÓMSTUNDARÁÐ
Ár 2009, miðvikudaginn 11. mars var haldinn 84. fundur íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsinu hófst kl. 16:00. Viðstaddir:
Kjartan Magnússon formaður, Valgerður Sveinsdóttir, Björn Gíslason, Sigfús Ægir Árnason og Sóley Tómasdóttir. Einnig sátu fundinn: Egill Örn Jóhannesson áheyrnarfulltrúi, Ingvar Sverrisson ÍBR, Ómar Einarsson framkvæmdastjóri, Steinþór Einarsson skrifstofustjóri íþróttamála, Soffía Pálsdóttir skrifstofustjóri tómstundamála, Bragi Þór Bragason fjármálstjóri og Helga Björnsdóttir skrifstofustjóri sem skrifaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Lagt fram bréf ÍBR dags. í dag þar sem tilkynnt er að Ingvar Sverrisson verði áheyrnarfulltrúi ÍBR á fundum íþrótta- og tómstundaráðs og Frímann Ari Ferdinandsson til vara.
2. Lagt fram yfirlit um hlutfall karla og kvenna í stjórnunarstörfum hjá ÍTR.
Lögð fram eftirfarandi bókun fulltrúa Vinstri grænna og Samfylkingar:
Fulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingar þakka fyrir framlagða greiningu á kynjahlutföllum meðal stjórnenda Íþrótta- og tómstundasviðs. Tölurnar sýna berlega afar skökk kynjahlutföll meðal stjórnenda á sviðinu, þar sem konur eru með mjög lágt hlutfall æðstu stjórnenda, þó hlutfallið hækki þegar neðar dregur í skipuritið. Brýnt er að stjórnmálafólk, sem og æðstu stjórnendur á sviðinu séu meðvituð um þessa skekkju og að tekið verði tillit til hennar við ráðningar í framtíðinni.
3. Lagt fram yfirlit um aðsókn á sundstaði janúar - febrúar 2009.
4. Lögð fram eftirfarandi tillaga Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks:
Íþrótta- og tómstundaráð leggur til við framkvæmda- og eignaráð Reykjavíkurborgar að samrekinn leikskóli og grunnskóli fyrir 1. - 4. bekk ásamt frístundaheimili taki til starfa í Úlfarsárdal í ágúst 2010. Í því felst spennandi tækifæri í sveigjanleika á milli skólastiga og samþættingu skóla- og frístundastarfs. Í því skyni verði sem fyrst hafin bygging húsnæðis við Úlfarsbraut 118-120 sem hugsuð var sem framtíðarhúsnæði leikskóla í hverfinu. Byggingin er hönnuð sem 5-6 deilda leikskóli á 5360 m2 lóð og hentar því einnig vel fyrir starfsemi yngstu bekkja grunnskóla.
Á fyrsta starfsári skólans er reiknað með um 40-50 börnum á leikskólaaldri og svipuðum fjölda grunnskólabarna í 1. – 4. bekk. Gert er ráð fyrir því að skólinn „eldist” með börnunum, þ.e. árlega bætist við bekkur í skólann, jafnhliða því sem börnin verða eldri.
Sambærileg tillaga verður lögð fram í menntaráði/leikskólaráði.
Samþykkt.
- kl. 16:20 kom Oddný Sturludóttir á fundinn.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi F-listans óskuðu bókað:
Fulltrúarnir fagna því að leiðarljós samþættingar skóla- og frístundastarfs verði í heiðri haft í nýjum leik- og grunnskóla í Úlfarsárdal. Minnt er á skólastefnu fyrir nýja skóla í Úlfarsárdal sem samþykkt var í menntaráði þann 11. febrúar árið 2008, þar sem sköpun var rauður þráður skólastarfs. Eins fagna fulltrúarnir því að tillögu þeirra um að náið samráð við foreldra hafi verið haft við undirbúnings málsins. Fulltrúarnir ítreka þó þá skoðun sína að leitað hefði átt allra leiða til að skólahald hefði getað hafist haustið 2009 í bráðabirgðahúsnæði. Það er mikilvægt fyrir uppbyggingu hverfisins og félagsauð þess að skólinn taki sem fyrst til starfa, enda skólinn hjarta hvers samfélags. Eins vilja fulltrúarnir leggja áherslu á að hugað verði að félagslegum aðstæðum þeirra grunnskólanemenda sem búsettir verða í Úlfarsárdal og þurfa að sækja skóla í öðru hverfi. Skólayfirvöld og ÍTR eru hvött til að vinna í nánu samstarfi við foreldra til að svo megi verða.
5. Lagt fram bréf fjármálastjóra Reykjavíkurborgar vegna endurskoðunar á fjárhagsáætlun borgarinnar fyrir árið 2009.
Framkvæmdastjóri fór yfir vinnu sviðsins við fjárhagsáætlun.
Lögð fram eftirfarandi bókun Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokk.
Ráðið þakkar stjórnendum og starfsfólki Íþrótta- og tómstundasviðs fyrir hina miklu vinnu, sem lögð hefur verið af mörkum við endurskoðun fjárhagsáætlunar 2009. Ljóst er að sett markmið við endurskoðun fjárhagsáætlunar hafa náðst um að hagræða í samræmi við samþykkta fjárhagsáætlun og sameiginlega vilja borgarstjórnar um að standa vörð um grunnþjónustu Reykjavíkurborgar í samræði við aðgerðaráætlun borgarstjórnar frá 7. október sl.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúi Vinstri grænna tekur undir þakkir til stjórnenda og starfsfólks Íþrótta- og tómstundaviðs vegna þeirrar vinnu sem farið hefur fram að undanförnu. Fulltrúinn telur að sjálfsögðu brýnt að hagræða þar sem því verður við komið, en er þó ekki eins viss og fulltrúar meirhlutans um að sú hagræðing sem hér um ræðir komi ekki til með að bitna á starfsfólki og þjónustu sviðsins við borgarbúa. Það er staðföst trú Vinstri grænna að þá sé hagkvæmara að skila fjárhagsáætlun borgarinnar með halla, en hagræða með kostnaðarsömum afleiðingum fyrir borgina og fólkið sem í henni býr.
- kl. 16:45 kom Stefán Jóhann Stefánsson á fundinn.
Fulltrúar Samfylkingar lögðu fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúar Samfylkingarinnar í ÍTR þakka stjórnendum og starfsmönnum ÍTR fyrir gott starf við endurskoðun fjárhagsáætlunar. Það blasir við að náið samráð við grasrótina er albesta leiðin til að ná ásættanlegri niðurstöðu sem víðtækust sátt getur ríkt um. Ekki liggja fyrir nægilega nákvæm gögn til að fulltrúarnir geti tekið afstöðu til einstakra efnisþátta en fulltrúi Samfylkingarinnar í aðgerðarhópi borgarráðs mun fylgja málinu eftir á vettvangi borgarráðs.
- kl. 17:05 vék framkvæmdastjóri af fundi.
6. Lögð fram eftirfarandi tillaga Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks:
Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur leggur til við framkvæmda- og eignaráð að gerð verði breyting á framkvæmdaáætlun íþrótta- og tómstundamála fyrir árið 2009. Með þessari breytingu verði tryggt að ráðist verði í eftirfarandi framkvæmdir:
• Lagning grasæfingavallar Fram við Úlfarsá sem nýtast mun íþrótta- og æskulýðsstarfi í Grafarholti og Úlfarsárdal.
• Hönnun vegna nýs íþróttahúss, grasæfingasvæðis og keppnisvallar Fram í Úlfarsárdal verði fram haldið. Þessi vinna byggist á samkomulagi Fram og Reykjavíkurborgar frá maí 2008.
• Lokið verði við fyrsta áfanga frístundamiðstöðvar í Gufunesbæ í Grafarvogi.
• Lagning nýs æfingavallar fyrir Fylki á íþróttasvæði félagsins við Fylkisveg í Árbæjarhverfi.
• Byggingu félagshúss Leiknis við Austurberg verði lokið og gengið frá lóð.
• Hönnun vegna nýs íþróttahúss Íþróttafélags Reykjavíkur í Syðri-Mjódd verði fram haldið. Viðaukasamningur hefur verið gerður við ÍR um hönnun umrædds húss o.fl., sem byggist á samkomulagi félagsins og Reykjavíkurborgar frá apríl 2008.
• Gervigrasvöllur Víkings í Stjörnugróf lagður.
• Gervigrasvöllur Þróttar í Laugardal endurnýjaður og önnur íþróttamannvirki félagsins endurbætt.
• Valbjarnarvöllur, heimavöllur Þróttar, lagfærður og umhverfi lagfært; stúka, girðingar o.fl.
• Vatnsrennibraut Laugardalslaugar endurnýjuð.
• Viðhald og endurbætur fari fram á mannvirkjum í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum.
• Nýtt og stærra grasæfingasvæði Knattspyrnufélags Reykjavíkur við Starhaga í Vesturbæ.
• Áframhald verði á lagningu sparkvalla og körfuknattleiksvalla víðs vegar um borgina.
Samþykkt. Fulltrúi Vinstri grænna sat hjá.
6. Lögð fram skýrsla um fjárhagsútkomu ÍTR 2008.
7. Lögð fram eftirfarandi tillaga formanns.
Íþrótta- og tómstundaráð felur framkvæmdastjóra að kanna tiltæka kosti við uppbyggingu og rekstur líkamsræktarstöðvar við Breiðholtslaug. Skoðað verði með hvaða hætti sé unnt að koma slíkri starfsemi á vegum einkaaðila fyrir þannig að hún verði í góðum tengslum við sundlaugina og aðra íþróttastarfsemi á svæðinu. Ljóst er að mikill áhugi er fyrir því í Breiðholti að líkamsræktarstöð verði starfsrækt í tengslum við sundlaugina með svipuðum hætti og gert hefur verið með góðum árangri við aðrar sundlaugar.
Samþykkt.
Fundi slitið kl. 17:45.
Kjartan Magnússon
Valgerður Sveinsdóttir Björn Gíslason
Sigfús Ægir Árnason Sóley Tómasdóttir
Oddný Sturludóttir Stefán Jóhann Stefánsson