Íþrótta- og tómstundaráð – starfaði til 2022 - og tómstundaráð

Íþrótta- og tómstundaráð – starfaði til 2022

ÍÞRÓTTA- OG TÓMSTUNDARÁÐ

Ár 2006, föstudaginn 8. desember var haldinn 41. fundur íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Laugum og hófst kl. 10:00. Viðstaddir voru: Björn Ingi Hrafnsson formaður, Björn Gíslason, Marta Guðjónsdóttir, Benedikt Geirsson, Stefán Jóhann Stefánsson, Sigrún Elsa Smáradóttir og Hermann Valsson. Jafnframt sátu fundinn: Anna Sigríður Ólafsdóttir, Steinþór Einarsson skrifstofustjóri íþróttamála, Gísli Árni Eggertsson skrifstofustjóri, Soffía Pálsdóttir skrifstofustjóri tómstundamála og Helga Björnsdóttir skrifstofustjóri sem skrifaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Lagt fram bréf íþróttafulltrúa ÍR dags. 24. nóvember sl. varðandi tilraunaverkefni í júdó í Efra-Breiðholti.
Vísað til sviðsstjóra ÍTR.

2. Lögð fram greinargerð skrifstofustjóra sviðsstjóra um yfirlit yfir styrkumsóknir.
Frestað til næsta fundar.

3. Lagt fram bréf sviðsstjóra ÍTR dags. 28. nóv. sl. varðandi samning við Kennaraháskóla Íslands um rekstur íþróttahúss KHÍ.
Samþykkt og vísað til sviðsstjóra ÍTR til afgreiðslu.

4. Lagt fram bréf sviðsstjóra ÍTR dags. 15. nóvember sl. vegna erindis Ingimundar Sveins Péturssonar frá 28. ágúst sl. til íþrótta- og tómstundaráðs.

5. Lagt fram bréf Foreldrafélags Foldaskóla dags. 9. nóvember sl. varðandi sparkvöll í Foldahverfi.
Vísað til sviðsstjóra ÍTR og Framkvæmdasviðs.

6. Lagt fram bréf sviðsstjóra ÍTR og skrifstofustjóra mannvirkjaskrifstofu Framkvæmdasviðs dags. 5. des. sl. vegna sparkvalla.

7. Lagt fram bréf Sundfélagsins Ægis dags. 30. nóv. sl. varðandi 80 ára afmæli félagsins og alþjóðlegs sundmóts í Reykjavík.
Samþykkt að veita styrk að fjárhæð kr. 130.000 vegna erindisins.

8. Lagt fram bréf borgarráðs dags. 1. desember sl. ásamt tillögu borgarráðsfulltrúa Samfylkingar um Reykjavíkurtjörn.
Vísað til sviðsstjóra ÍTR.

9. Lagt fram minnisblað skrifstofustjóra tómstundamála dags. 6. des. 2006 um frístundaheimili.
Fulltrúar Samfylkingar lögðu fram eftirfarandi tillögu:
Við leggjum til að unnið verði að því að samræma gjaldtöku þeirra sem nýta sér hlutavistun á frístundaheimilum, þannig að foreldrar greiði aðeins fyrir þann hluta vistunar sem þeir semja um.

Greinargerð.
Nýverið var ákveðið að bjóða foreldrum barna sem verið hafa á biðlista eftir plássi á frístundaheimili hlutavistun þar sem unnt var að koma því við. Jafnframt var ákveðið að foreldrar sem nýttu sér þetta úrræði greiddu aðeins fyrir þann hluta sem þeir nýttu. Nú hefur komið í ljós að foreldrar hafa verið að nýta sér aðeins hluta vistunar, en greiða fyrir fulla vistun. Þarna er komið upp ójafnræði þar sem foreldrar geta verið að greiða mjög mismunandi gjald fyrir sömu þjónustu og hafa foreldrar lýst yfir óánægju sinni með þetta. Þetta hlýtur að þurfa að laga og því leggjum við til að hafin verði vinna í þá veru.
Frestað.

10. Fulltrúar Samfylkingar, Frjálslyndra og Vinstri grænna lögðu fram eftirfarandi fyrirspurn:

Hvernig hafa fjárhæðir styrkja til íþróttafélaganna í Reykjavík þróast frá
1990, sundurgreint eftir árum og félögum?
a) Rekstrarstyrkir, þ.m.t. æfinga- og húsaleigustyrkir
b) Framkvæmdastyrkir
c) Aðrir styrkir
Hvernig hefur iðkendafjöldi þróast á sama tímabili, eftir árum, félögum, kyni
og íþróttagreinum?

11. Lögð fram áfangaskýrsla um stöðu tilraunaverkefnis í Grafarvogi um aukna samfellu skóla og frístundastarfs í Grafarvogi.
Á fundinn kom Jónas Sigurðsson verkefnisstjóri og kynnti skýrsluna.

Fulltrúar Samfylkingar, Frjálslyndra og Vinstri grænna lögðu fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúar Samfylkingar, Frjálslyndra og Vinstri grænna lýsa yfir mikilli ánægju með þá vinnu sem farið hefur fram í tenglsum við tilraunaverkefnið um aukna samfellu skóla og frístundastarfs í Grafarvogi.

- Kl. 10:40 vék Björn Ingi Hrafnsson af fundi.
- Kl. 10:50 kom Frímann Ari Ferdinardsson á fundinn.

Fundi slitið kl. 11:30.

Benedikt Geirsson
Björn Gíslason Marta Guðjónsdóttir
Sigrún Elsa Smáradóttir Stefán Jóhann Stefánsson
Hermann Valsson