Íþrótta- og tómstundaráð – starfaði til 2022 - og tómstundaráð

Íþrótta- og tómstundaráð – starfaði til 2022

ÍÞRÓTTA- OG TÓMSTUNDARÁÐ

Ár 2013, föstudaginn 25. okt. var haldinn 194. fundur íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Höfðatorgi og hófst hann kl. 11:15. Viðstaddir: Eva Einarsdóttir formaður, Eva Baldursdóttir, Diljá Ámundadóttir, Marta Guðjónsdóttir og Óttar Guðlaugsson. Einnig: Hermann Valsson áheyrnarfulltrúi, Ómar Einarsson framkvæmdastjóri og Helga Björnsdóttir skrifstofustjóri sem skrifaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Viðhorfskönnun meðal starfsmanna Reykjavíkurborgar. Á fundinn kom Margrét Grétarsdóttir mannauðsráðgjafi og kynnti niðurstöðunar.

Kl. 11:55 kom Kjartan Magnússon á fundinn.

Lögð fram eftirfarandi bókun fulltrúa Besta flokksins og Samfylkingar:
Í Viðhorfskönnun meðal starfsmanna Reykjavíkurborgar sem lögð var fyrir fyrr á þessu ári er ánægjulegt að sjá að starfsfólk ÍTR er almennt ánægt í starfi og hefur mikinn metnað til að sinna því vel. Jákvætt er að sjá af svörum fólks að starfsmenn virðast búa yfir miklum metnaði, starfsandinn er nokkuð góður, ímyndin er góð sem og frumkvæði en gera þarf betur þegar kemur að vinnuálagi, jafnræði og jafnrétti í starfi. Vera kann að örar skipulagsbreytingar og búferlaflutningar sviðsins, einkum innan skrifstofu ÍTR, hafi leitt til þess að starfsánægja hafi dvínað og starfsfólk fundið fyrir óöryggi í starfinu sínu. Gera þarf betur við þann hóp starfsfólks með þeim leiðum sem færar eru. Mikilvægt er í þjónustustörfum við borgarbúa á borð við þau sem ÍTR sinnir, einkum við börn og ungmenni, að starfsfólki líði vel og finni að starf þeirra sé metið að verðleikum. Íþrótta- og tómstundaráði finnst nauðsynlegt að tekið verði á vinnuálagi starfsmanna en viðvarandi verkefni er að tryggja að álag í starfi verði ásættanlegt. Efla þarf ákveðna þætti á starfstöðum sviðsins til að standa góðan vörð um starfsánægju og stuðla að því að fólki líði vel í vinnunni, þannig að ekki komi niður á fagmennsku og gæðum í störfum ÍTR. Þannig felur ráðið sviðsstjóra að nýta allar færar leiðir til að efla enn frekar mannauð sviðsins en sú vinna er nú hafin innan borgarinnar.

Lögð fram eftirfarandi bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Ljóst er að þær öru og miklu skipulagsbreytingar sem orðið hafa á kjörtímabilinu hafa komið niður á starfsánægju starfsmanna og aukið vinnuálagið. Þetta sýnir að mikilvægt er þegar slíkar breytingar eiga sér stað séu vel undirbúnar og gerðar í góðu samstarfi við alla aðila.

2. Lagt fram fundarboð vegna fundar með íþróttafélögum 6. nóv. n.k.

3. Lagt fram bréf Stokkhólmsborgar með boð um þátttöku í höfuðborgarráðstefnu norðurlanda um íþróttamál í maí 2014.

4. Lagt fram bréf Lyftingafélags Reykjavíkur dags. 14. okt. sl. með beiðni um húsaleigustyrk.
Samþykkt að óska eftir umsögn ÍBR.

5. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar dags. 11. okt. sl. vegna styrkumsóknar frá Skáksambandi Íslands vegna Reykjavíkurskákmóts 4.-12. mars 2014 en umsóknin var lögð fyrir borgarráð 10. okt sl. og vísað til íþrótta- og tómstundaráðs.
Frestað.

6. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra ÍTR dags. 21. okt. sl. vegna samninga við Skátasamband Reykjavíkur og KFUM og KFUK.

7. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar dags. 10. okt. sl. þar sem tillögu frá fundi borgarstjórnar og Reykjavíkurráðs ungmenna 8. okt. sl. um aukið starf fyrir 16 ára og eldri er vísað til meðferðar íþrótta- og tómstundaráðs og skóla- og frístundaráðs.
Frestað.

8. Lagt fram að nýju bréf framkvæmdastjóra ÍTR dags. 7. okt. sl. vegna íþróttasala grunnskóla.
Jafnframt lagt fram bréf sviðsstjóra SFS dags. 18. okt. sl. vegna samþykktar skóla- og frístundaráðs á málinu.
Tillaga sú sem fram kemur í bréfi framkvæmdastjóra ÍTR samþykkt með 3 atkvæðum Besta flokksins og Samfylkingar. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sátu hjá.

9. Lagt fram bréf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs dags. 17. okt. sl. vegna Klifur- og hjólabrettagarða í Skerjafirði.

10. Rætt um fjárhagsáætlun ÍTR sem var lögð fyrir borgarráð í dag.

11. Lögð fram eftirfarandi fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Óskað er eftir ýtarlegum upplýsingum um notkun dekkjakurls á íþróttavöllum í Reykjavík en borist hafa athugasemdir frá foreldrum barna í íþróttastarfi vegna óhreininda, sem hljótast af notkun kurlsins, og hugsanlegrar hættu af óæskilegum efnum, sem kunna að leynast í því. Meðal annars er óskað eftir upplýsingum um hve margir íþróttavellir í Reykjavík innihalda slíkt gúmmíkurl, hvernig sé staðið að viðhaldi þeirra og viðbótum á efninu og hvort það sé umhverfisvottað. Einnig er óskað eftir upplýsingum um áætlaðan endingartíma umræddra íþróttavalla og hvort til greina komi að flýta endurnýjun yfirborðs þeirra í ljósi málsins.

Fundi slitið kl. 12.40

Eva Einarsdóttir
Eva Baldursdóttir Diljá Ámundadóttir
Kjartan Magnússon Marta Guðjónsdóttir
Óttar Guðlaugsson