Íþrótta- og tómstundaráð – starfaði til 2022 - og tómstundaráð

Íþrótta- og tómstundaráð – starfaði til 2022

ÍÞRÓTTA- OG TÓMSTUNDARÁÐ

Ár 2006, föstudaginn 24. nóvember var haldinn 40. fundur íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn á Fríkirkjuvegi 11 og hófst kl. 09:00. Viðstaddir voru: Björn Ingi Hrafnsson formaður, Björn Gíslason, Bolli Thoroddsen, Benedikt Geirsson, Stefán Jóhann Stefánsson, Sigrún Elsa Smáradóttir og Þorleifur Gunnlaugsson. Jafnframt sátu fundinn: Anna Sigríður Ólafsdóttir, Reynir Ragnarsson, Gísli Árni Eggertsson skrifstofustjóri, Soffía Pálsdóttir skrifstofustjóri tómstundamála, Ómar Einarsson sviðsstjóri og Helga Björnsdóttir skrifstofustjóri sem skrifaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Lagt fram bréf skrifstofustjóra tómstundamála dags. 22. maí sl. vegna stöðu mála á frístundaheimilum.

2. Lagt fram yfirlit yfir afgreiðslutíma sundstaða um jól og áramót.

3. Lagt fram bréf sviðsstjóra dags. 20. nóvember sl. vegna fyrirspurnar frá síðasta fundi um þjónustusamninga.

4. Lagt fram bréf sviðsstjóra ÍTR dags. 21. nóvember sl. vegna breytinga á gjaldskrám sundstaða og frístundaheimila 1. janúar n.k.
Fjármálastjóri ÍTR kynnti forsendur frá Fjármálasviði Reykjavíkurborgar við hækkun gjaldskrár.

Fulltrúi Vinstri grænna óskaði bókað:
Fjölskyldurnar í borginni bera nú þegar umtalsverðan kostnað af hádegismat og frístundaheimilum en það er skoðun Vinstri grænna að afleggja beri þessar gjaldtöku með öllu enda hafa verið lagðar fram tillögur þess efnis í borgarstjórn nú þegar. Efnahagsleg aðgreining barna hefur aukis umtalsvert og eru fyrirhuguð frístundakort skref í þá veru að draga úr þeirri aðgreiningu. Af þessum tölum getur fulltrúi Vinstri grænna ekki stutt fyrirhugaða gjaldskrárhækkun enda munum við áfram leggja fram tillögur í þá veru að draga úr gjaldtöku fyrir grunnþjónustu í borginni, þar með talin frístundaheimili. Slíkt á að fjármagna úr sameiginlegum sjóðum þannig að öll börn sitji við sama borð.

Fulltrúar Samfylkingar óskuðu bókað:
Ekki verður annað séð en að hækkun á gjaldskrám upp á 8,8#PR fyrir frístundaheimili sé talsvert hærri en hægt er að réttlæta miðað við almennar verðlagshækkanir. Með þessu er verið að rýra kaupmátt fjölskyldna í borginni og það getum við ekki fellt okkur við.

Samþykkt með 4 atkvæðum gegn 1 og samþykkt að vísa erindinu til borgarráðs.

Fulltrúar Framsóknar og Sjálfstæðismanna óskuðu bókað:
Í starfs- og fjárhagsáætlun ÍTR er gert ráð fyrir 8,8#PR meðalhækkun gjaldskrár í starfsemi sundlauga. Er það miðað við verðlagsforsendur fjármálasviðs Reykjavíkurborgar, þar sem framlög borgarsjóðs eru verðbætt sem nemur 3#PR og almenn útgjöld um 8,8#PR. Sviðinu er nauðsynlegt að fjármögnun sem byggir á sértekjum til að standa undir raunverulegum kostnaðarauka.
Í breytingum á gjaldskrá sundstaða er leitast við að hvetja börn og unglinga til aukinnar þátttöku með lækkun gjaldskrár um 20#PR, og þess að hækkun verði fremur hjá þeim sem kaupa stök skipti fremur en árskort.
Gjöld í frístundaheimili fylgja almennum verðlagshækkunum og verður tímagjald pr. klukkustund 125.50 kr. eftir breytingu miðað við 65 tíma á mánuði, en sambærilegt gjald í Kópavogi er 158 kr., í Garðabæ 238 kr., í Hafnarfirði 171 kr., í Mosfellsbæ 185 kr. og á Seltjarnarnesi 220 kr. Má því ljóst vera að þessi þjónusta er hvergi ódýrari á höfuðborgarsvæðinu og nýtur sívaxandi vinsælda hjá barnafjölskyldum í borginni.

5. Lögð fram tillaga starfshóps um innleiðingu Frístundakortsins:

Íþrótta- og tómstundaráð leggur til að tekið verði upp nýtt styrkjakerfi, Frístundakort, vegna þátttöku barna og unglinga í æskulýðs-, íþrótta- og menningarstarfi í borginni. Markhópur Frístundakortsins er aldurshópurinn 6 - 18 ára en innleiðing þess verði unnin í nánu samráði ÍTR við félög og samtök í borginni sem hagsmuna hafa að gæta varðandi frístundastarfsemi fyrir þennan aldurshóp.

Útfærsla Frístundakortsins tekur mið af eftirfarandi:

? Frístundakortið verði innleitt í þremur áföngum og hefst sá fyrsti haustið 2007 og er þá miðað við 12.000.- króna framlag. Annar áfangi hefst 1. janúar 2008 og er þá miðað við 25.000.- króna framlag á árinu. Með þriðja áfanga lýkur innleiðingu frá og með 1. janúar árið 2009 og er þá miðað við 40.000.- króna framlag á því ári.

? Miðað er við að nýting styrkjanna verði allt að 65#PR árið 2007 en 70#PR að meðaltali fyrir markhópinn í heild árin 2008 - 2009 og er fjárhagsramminn byggður á því viðmiði.

? Gengið er út frá því nú að fjárhagsrammi í hverjum hinna þriggja áfanga verði árið 2007 kr. 180 milljónir, árið 2008 kr. 400 milljónir og árið 2009 kr. 640 milljónir.

? Stefnt er að því að öll skráning í starfsemi og umsýsla Frístundakortsins fari fram með rafrænum hætti á rafrænu Reykjavík en skipaður hefur verið sérfræðingahópur á vegum ÍTR vegna þessarar útfærslu.

? Auglýst verði eftir samstarfsaðilum á vettvangi frístunda- og menningarstarfs í borginni. Þeir aðilar sem þátt vilja taka í hinu nýja styrktarkerfi gerast aðilar að formlegum samningi þar sem skilyrði og gæðaviðmið eru útlistuð.

? Við innleiðingu Frístundakortsins og útfærslu viðmiða í samningum við aðila verður þess sérstaklega gætt að:
• nýtt styrktarkerfi leiði til aukins jöfnuðar í aðgengi að frístundastarfi
• ekki verði óeðlilegar hækkanir á gjaldskrám eða öðrum kostnaði við þátttöku
• fagleg gæði og viðmið í starfsemi gjaldi ekki fyrir aukna þátttöku

? Sett verði fram lýðfræðilegt módel byggt á hverfaskiptingu borgarinnar þar sem mælikvarðar og viðmið varðandi þátttöku og gæði í starfseminni eru könnuð og áhrif hins nýja styrkjakerfis metin.

Starfshópur kjörinna fulltrúa sem skipaður var á fundi ÍTR 10. nóv. sl. mun hafa yfirumsjón með innleiðingu Frístundakortsins ásamt embættismönnum ÍTR.

Samþykkt samhljóða.

6. Lögð fram eftirfarandi tillaga Samfylkingar og Vinstri grænna:
Með hliðsjón af starfsáætlun ÍTR í málefnum innflytjenda og fólks af erlendum uppruna og þeim upplýsingum sem fram hafa komið hjá Íþrótta- og tómstundasviði, í fjölmiðlum og víðar samþykkir íþrótta- og tómstundaráð að fela framkvæmdastjóra sviðsins að efna til sérstaks samráðs við íþróttafélög í þeim hverfum þar sem fjöldi innflytjenda er mestur í því skyni að koma í veg fyrir aðgreiningu og tryggja að börn af erlendum uppruna geti til jafns á við önnur börn nýtt sér þá þjónustu sem ÍTR fjármagnar eða styrkir. Haft verði jafnframt samráð við hverfisráð um þetta verkefni. Óskað er eftir því að framkvæmdastjóri skili tillögum um fyrstu aðgerðir í þessa veru sem hægt verði að vinna eftir strax í byrjun næsta árs.
Greinargerð fylgdi tillögunni.

Samþykkt og vísað til starfshóps ÍTR um innleiðingar frístundakorts.

7. Lagt fram bréf borgarráðs dags. 16. nóvember sl. þar sem vísað er til umsagnar íþrótta- og tómstundaráðs tillögu um að stuðla að jöfnum möguleikum kynjanna til íþróttaiðkunar.
Vísað til sviðsstjóra ÍTR.

8. Lögð fram skýrsla um aðgengismál í mannvirkjum ÍTR.

9. Lögð fram áfangaskýrsla um stöðu tilraunaverkefnis í Grafarvogi um aukna samfellu skóla og frístundastarfs í Grafarvogi.

10. Lagt fram bréf fjármálastjóra ÍTR dags. 21. nóvember sl. vegna 9 mánaða uppgjörs ÍTR og útkomuspá 2006.
Fjármálastjóra var þakkað fyrir gott starf hjá ÍTR, en hann er að láta af störfum í næstu viku.

11. Á fundinn kom Atli Steinn Árnason forstöðumaður Gufunesbæjar og kynnti hugmyndir um frístundamiðstöð á svæði Gufunesbæjar.

12. Á fundinn mættu fulltrúar Framsýni ehf. og kynntu hugmyndir sínar um Útivistarmiðstöð í Nauthólsvík.

- kl. 11:10 vék Anna Sigríður Ólafsdóttir af fundi.
- kl. 11:25 vék Reynir Ragnarsson af fundi.

13. Á fundinn komu fulltrúar Skíðasambandsins og kynntu hugmyndir um Skíðahús.

- kl. 11:30 vék Þorleifur Gunnlaugsson af fundi og Hermann Valsson kom í hans stað.

Fundi slitið kl. 12:00.

Björn Ingi Hrafnsson

Bolli Thoroddssen Björn Gíslason
Benedikt Geirsson Sigrún Elsa Smáradóttir
Stefán Jóhann Stefánsson Hermann Valsson