Íþrótta- og tómstundaráð – starfaði til 2022 - og tómstundaráð

Íþrótta- og tómstundaráð – starfaði til 2022

ÍÞRÓTTA- OG TÓMSTUNDARÁÐ
Ár 2005, fimmtudaginn 22. september var haldinn 15. fundur íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn á Fríkirkjuvegi 11 og hófst kl. 11:35. Viðstaddir voru: Anna Kristinsdóttir formaður, Ingvar Sverrisson, Svandís Svavarsdóttir, Magnús Már Guðmundsson, Kjartan Magnússon og Benedikt Geirsson. Jafnframt sátu fundinn Frímann Ari Ferdinardsson, Gísli Helgason, Ómar Einarsson og Helga Björnsdóttir sem skrifaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð seinasta fundar.

2. Lagt fram að nýju sbr. 12. fundur liður 18. bréf Önnu M. Guðjónsdóttur dags. 19. maí sl. f.h. stjórnkerfisnefndar með drögum að niðurstöðum starfshóps um upplýsingamiðlun, samráð og þátttöku.
Frestað.

3. Lögð fram greinargerð Björns Vilhjálmssonar dags. í september vegna Leonardo verkefnisins #GLTotal Counselling#GL.

4. Lögð fram svohljóðandi tillaga sjálfstæðismanna.
Íþrótta- og tómstundaráð leggur til við borgarráð að gerður verði samningur við Íþróttafélagið Leikni í Breiðholti um stuðning borgaryfirvalda um starf íþróttafulltrúa á vegum félagsins. Samningurinn taki mið að þeim samningum, sem þegar hafa verið gerðir við önnur hverfisíþróttafélög í borginni.

Lögð fram svohljóðandi tillaga sjálfstæðismanna.
Íþrótta- og tómstundaráð leggur til við borgarráð að hafinn verði undirbúningur að nýbyggingu félagshúss fyrir íþróttafélagið Leikni. Framkvæmdastjóra er falið að vinna að þarfagreiningu ásamt skipulagslegri og byggingafræðilegri úttekt vegna hússins í samráði við stjórn félagsins.
Tillögurnar felldar með 4 atkvæðum gegn 2.

Fulltrúar Reykjavíkurlistans lögðu fram svohljóðandi tillögu:
Íþrótta- og tómstundaráð felur formanni og framkvæmdastjóra að ganga til viðræðna við Knattspyrnufélagið Leikni Breiðholti um framtíðarsýn varðandi uppbyggingu íþróttamannvirkja, félagsaðstöðu og innra starf félagsins.
Lögð verði fram tillaga um verkefnið eigi síðar en um mánaðarmótin nóv.-des. 2005.
Samþykkt samhljóða.

Fulltrúar R-listans lögðu fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúar Reykjavíkurlistans telja að vinna með fulltrúum Leiknis þurfi að fara fram um framtíðarsýn varðandi uppbyggingu mannvirkja og innra starfs félagsins og því ekki rétt að samþykkja einstaka framkvæmd á þessu stigi. Á þeim forsendum eru tillögur D-listans felldar og tillaga R-listans samþykkt.
Jafnframt telur íþrótta- og tómstundaráð að sérstaklega þurfi að huga að öflugum valkostum fyrir börn og unglinga á svæðinu í ljósi sérstakra félagslegra aðstæðna í hverfinu.

5. Lagt fram að nýju bréf Knattspyrnufélagsins Víkings dags. 17. ágúst sl. vegna grasvalla.
Jafnframt lögð fram umsögn forstöðumanns þjónustudeildar ÍTR dags. 7. sept. 2005.
Fulltrúar Sjálfstæðismanna lögðu fram eftirfarandi bókun:
Ljóst er að knattspyrnuvellir og æfingasvæði KR þarfnast meiri háttar viðhalds. Aðalvöllur KR þarfnast endurnýjunar og viðhalds vegna drenvandamála. Miklar slitskemmdir eru á æfingasvæðum félagsins á Húsvelli og Flyðru og töluverðar skemmdir á æfingasvæðinu við Starhaga. Ljóst er að vegna mikillar notkunar og álags þarf að endurnýja a.m.k. 850 fermetra svæði. Í þessu sambandi er minnt á að æfingasvæði KR hafa ekki verið stækkuð á yfirstandandi kjörtímabili þrátt fyrir fyrirheit R-listans um slíkt fyrir borgarstjórnarkosningar 2002. Á kjörtímabilinu hafa borgarfulltrúar sjálfstæðismanna hins vegar ítrekað lagt fram tillögur um stækkun æfingasvæða KR með það að markmiði að félaginu verði tryggð framtíðaraðstaða fyrir þá starfsemi, sem það sinnir í þágu barna- og unglingastarfs sem og almenningsíþrótta. Tillögur þessar hafa hlotið seinlega afgreiðslu í borgarkerfinu og er ljóst að R-listinn skortir pólitískan vilja til að hrinda þeim í framkvæmd.
Ljóst er að æfingasvæði Víkings er slitið og þarfnast meiri háttar viðhalds og einnig þarfnast aðalvöllur nokkurra viðgerða. Talið er að fjárþörf vegna viðhalds á æfingasvæði nemi 4-5 milljónum króna í haust og 3-4 milljónum króna haustið 2006. Jafnframt er ljóst að ef gervigrasvöllur í Víkinni yrði nothæfur sumarið 2006, væri unnt að láta staðbundnar lagfæringar á svæðinu duga að sinni og spara þannig umtalsverða fjármuni. Í þessu sambandi er minnt á tillögu sjálfstæðismanna um að gervigrasvöllur í Víkinni verði tilbúinn til notkunar á árinu 2006. Þessa tillögu felldu fulltrúar R-listans á fundi íþrótta- og tómstundaráðs 8. september sl. Sjálfstæðismenn skora á R-listann að endurskoða afstöðu sína í þessu máli, tryggja fé til gervigrasvallargerðar í Víkinni í fjárhagsáætlun ársins 2006 og sjá þannig til þess að Víkingur standi jafnfætis öðrum knattspyrnufélögum í Reykjavík, sem öll munu hafa gervigrasvelli á félagssvæðum sínum á næsta ári.

- kl. 11:55 vék Kjartan Magnússon af fundi.

Fulltrúar Reykjavíkurlistans lögðu fram eftirfarandi bókun:
Ítrekaðar tillögur og bókanir D-lista um uppbyggingu íþróttamannvirkja bera sterkan keim af kosningaham þeim sem frambjóðendur D-lista eru nú komnir í. Af þessu má sjá að innantóm og illa ígrundið loforð eru það sem koma skal í kosningabaráttu. Fulltrúar Reykjavíkurlistans hafa unnið markvisst eftir langtímaáætlunum um nýtingu fjármuna skattgreiðenda varðandi uppbyggingu í málaflokknum og munu gera það áfram, því ábyrg fjármálastjórn og skynsöm uppbygging í sátt við borgarbúa hefur verið og verður áfram leiðarljós Reykjavíkurlistans.

6. Fjárhagsáætlun vegna ársins 2006. Fjármálastjóri og sviðsstjóri fóru yfir og kynntu fjárhagsáætlunina.

7. Lagt fram yfirlit vegna frístundaheimila.

- kl. 12:30 vék Ómar Einarsson af fundi.
- kl. 12:35 vék Ingvar Sverrisson af fundi.

6. Lagt fram að nýju bréf jafningjafræðslunnar dags. 13. júní sl. vegna starfsemi veturinn 2005 – 2006.
Á fundinn kom Markús H. Guðmundsson og kynnti starfsemina.

Fundi slitið kl. 13:05.

Anna Kristindóttir

Svandís Svavarsdóttir Magnús Már Guðmundsson
Benedikt Geirsson