Íþrótta- og tómstundaráð – starfaði til 2022 - og tómstundaráð

Íþrótta- og tómstundaráð – starfaði til 2022

ÍÞRÓTTA- OG TÓMSTUNDARÁÐ

Ár 2010, föstudaginn 7. maí var haldinn 111. fundur íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn á Bæjarhálsi 1 og hófst kl. 11.10. Viðstaddir: Kjartan Magnússon formaður, Valgerður Sveinsdóttir, Björn Gíslason, Sigfús Ægir Árnason, Sóley Tómasdóttir, Oddný Sturludóttir og Stefán Jóhann Stefánsson. Jafnframt: Egill Örn Jóhannsson áheyrnarfulltrúi, Steinþór Einarsson skrifstofustjóri og Ómar Einarsson framkvæmdastjóri sem skrifaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar dags. 25. mars sl. vegna tillögu um sköpunarmiðstöð fyrir ungmenni sem samþykkt var að vísa til íþrótta- og tómstundaráðs á fundi borgarstjóra, borgarfulltrúa og Reykjavíkurráðs ungmenna 23. mars sl. Jafnframt lögð fram fundargerð fundar borgarfulltrúa með Reykjavíkurráði ungmenna 23. mars sl. Einar Karl Gunnarsson og Daníel Gylfason flutningsmenn mættu á fundinn ásamt Eygló Rúnarsdóttur.
Íþrótta- og tómstundaráð samþykkti eftirfarandi bókun:
Íþrótta- og tómstundaráð þakkar Einari Karli Gunnarssyni og Daníel Gylfasyni, fulltrúum í Reykjavíkurráði ungmenna, fyrir kynningu á tillögu um sköpunarmiðstöð fyrir ungmenni í umsjón ungmenna. Tillögunni er vísað til vinnu á vegum Íþrótta- og tómstundasviðs vegna framtíðarfyrirkomulags ungmennastarfs í borginni þar sem m.a. verða metnir tiltækir húsnæðiskostir fyrir slíka starfsemi.
Fulltrú Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúi Vinstri grænna ítrekar vonbrigði sín vegna ákvörðunar meirihluta borgarráðs á sínum tíma um að loka Austurbæ. Austurbær byggði á nákvæmlega sömu hugmynd og hér er kynnt og sorglegt með eindæmum að því metnarðarfulla starfi hafi verið hætt þrátt fyrir varnaðarorð og hörð mótmæli ungmenna og fulltrúa Vinstri grænna. Vandséð er að hægt verði að endurvekja starfið með jafn hagkvæmum hætti á öðrum stað. Fulltrúi Vinstri grænna lýsir þó fullum stuðningi við hugmynd ungmennaráðsins og telur brýnt að henni verði hrint í framkvæmd hið fyrsta.

2. Lagt fram bréf sviðsstjóra velferðarsviðs, fræðslustjóra og framkvæmdastjóra ÍTR dags. 6. maí sl. vegna skólasels í Keilufelli.
Samþykkt að ÍTR taki áfram þátt í rekstri skólasels í Keilufelli.

3. Lagt fram bréf foreldrafélags Austurbæjarskóla dags. 30. apríl sl. vegna hugmynda um félagsaðstöðu við Austurbæjarskóla.
Íþrótta- og tómstundaráð samþykkti eftirfarandi bókun:
ÍTR þakkar foreldrafélagi Austurbæjarskóla fyrir fram komnar hugmyndir um húsnæði fyrir starf fyrir börn, unglinga og ungt fólk í hverfinu. Málið hefur verið til skoðunar á Íþrótta- og tómstundasviði og Menntasviði og er nú beðið eftir greinargerð frá Framkvæmda- og eignasviði um hugsanlega nýtingu húsnæðisins og kostnað við endurbætur. ÍTR samþykkir að skoða jafnframt fleiri kosti í þessu skyni m.a. á Klambratúni.

4. Lagt fram bréf skipulags og byggingarsviðs dags. 3. maí sl. vegna aðstöðu fyrir Kayakklúbbinn við Geldinganes.
Samþykkt að óska eftir kostnaðarmati Framkvæmda- og eignsviðs.

5. Lagt fram bréf karatedeildar Leiknis dags. 30. apríl sl. vegna aðstöðu fyrir félagið í Breiðholti.
Vísað til framkvæmdastjóra, skrifstofustjóra íþróttamála og ÍBR.

6. Lagt fram bréf Orms Arnarssonar dags. 30. apríl sl. vegna hugmynda um hjólreiðavang í Skálafelli.
Samþykkt að vísa erindinu til stjórnar skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins og framkvæmdastjóra ÍTR.

7. Lagt fram minnisblað framkvæmdastjóra ÍTR, skrifstofustjóra íþróttamála og forstöðumanns Laugardalslaugar dags. 5. maí sl. vegna Laugabóls og fimleikahúss Ármanns.

8. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lögðu fram eftirfarandi tillögu vegna lóðarinnar að Keilugranda 1.
Íþrótta- og tómstundaráð óskar eftir því við borgarráð að kannaðir verði möguleikar á að Reykjavíkurborg leysi til sín lóðina Keilugranda 1 af skipulagsástæðum með það að markmiði að hún muni í framtíðinni að hluta til eða að öllu leyti nýtast í þágu íþrótta- og æskulýðsstarfs í Vesturbænum.
Frestað.

Kl. 12.40 vék Egill Örn Jóhannsson af fundi.

9. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lögðu fram eftirfarandi tillögu:
ÍTR felur framkvæmdastjóra ráðsins að skoða leiðir í samráði við Velferðarráð til að hækka framlag borgarinnar inn á Frístundakortið til þeirra barna- og unglinga sem illa standa fjárhagslega og þurfa á frekari aðstoð að halda. Jafnframt felur ráðið framkvæmdastjóra að láta kanna hvort mögulegt sé að tengja Frístundakortið bankakerfinu og gera fólki þar með kleift að greiða innheimtureikninga fyrir íþróttir og aðrar frístundir með kortinu að hluta eða öllu leyti. Þá skal og kannað hvort hægt sé að koma því við að mögulegt sé að greiða inn á frístundakort t.d. með gjafabréfi.
Samþykkt samhljóða.
Fulltrúar Samfylkingar lögðu fram eftirfarandi bókun:
Að sjálfsögðu samþykkir Samfylkingin þessar góðu tillögur um breytingar á frístundakortinu, enda er þær að finna í nýsamþykktri barnastefnu okkar, ,,Ungu Reykjavík“. Það er merkileg tilviljun að meirihlutinn skuli leggja þetta til einum sólarhring eftir að Samfylkingin kynnti nákvæmlega sömu tillögur á fundi með íþróttafélögunum og fulltrúum meirihlutans. Það hlýtur að teljast áhyggjuefni fyrir Reykvíkinga að hugmyndaleysi stjórnmálamanna sé slíkt að þeir grípi til þess ráðs að skreyta sig með hugmyndum úr stefnuskrám annarra flokka rétt fyrir kosningar.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lögðu fram eftirfarandi gagnbókun:
Tillaga sú sem hér var samþykkt er í samræmi við umræður um þetta mál innan ÍTR og víðar í borgarkerfinu í langan tíma. Fulltrúar Samfylkingarinnar telja að hér sé verið að flytja þeirra eigin hugmyndir, en svo er ekki.
Fulltrúar Samfylkingar lögðu fram eftirfarandi gagnbókun:
Það er einnig merkileg tilviljun að þrátt fyrir, að því er virðist, yfirlýstan og einbeittan vilja meirihlutans til að breyta Frístundakortinu hefur ekkert gerst á kjörtímabilinu, fyrr en Samfylkingin tók hugmyndirnar upp á sína arma og setti í sína barnastefnu.

Fundi slitið kl. 13.00.

Kjartan Magnússon

Valgerður Sveinsdóttir Björn Gíslason
Sigfús Ægir Árnason Stefán Jóhann Stefánsson
Sóley Tómasdóttir Oddný Sturludóttir