Íþrótta- og tómstundaráð – starfaði til 2022 - og tómstundaráð

Íþrótta- og tómstundaráð – starfaði til 2022

ÍÞRÓTTA- OG TÓMSTUNDARÁÐ

Ár 2005, þriðjudaginn 26. apríl var haldinn 9. fundur íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn á Fríkirkjuvegi 11 og hófst kl.12:15. Viðstaddir voru: Anna Kristinsdóttir formaður, Ingvar Sverrisson, Magnús Már Guðmundsson, Kjartan Magnússon og Benedikt Geirsson. Jafnframt sátu fundinn Frímann Ari Ferdinardsson, Agnar Freyr Helgason, Ómar Einarsson sviðsstjóri og Helga Björnsdóttir skrifstofustjóri sem skrifaði fundargerð.


Þetta gerðist:

1. Lagt fram að nýju sbr. 10. lið fundargerðar íþrótta- og tómstundaráðs frá 15. apríl sl. bréf sviðsstjóra ÍTR dags. 12. apríl sl. ásamt drögum að samstarfssamningi milli Reykjavíkurborgar og ÍBR og drögum að samstarfssamningi milli ÍTR og íþróttafélaga.
Samþykkt samhljóða að mæla með því við borgarráð að það staðfesti samningana fyrir sitt leyti.

Fulltrúar sjálfstæðismanna lögðu fram eftirfarandi bókun:
Árið 1999 lögðu fulltrúar sjálfstæðismanna í íþrótta- og tómstundaráði fram tillögur um úttekt á rekstri og aðstæðum íþróttafélaga í Reykjavík, úttekt á því hvaða íþróttagreinar búi við skert starfskilyrði og endurskoðun á styrkjakerfi Reykjavíkurborgar gagnvart íþróttafélögunum. Í framhaldi af þessum tillögum var skipaður vinnuhópur á vegum ÍTR og ÍBR, sem skilaði af sér skýrslunni „Skipulag íþróttastarfs í Reykjavík á nýrri öld. Framtíðarsýn til ársins 2010.“ Í upphafi þeirrar skýrslu er vitnað til þessara tillagna sjálfstæðismanna þegar gerð er grein fyrir tilurð verkefnisins. Í umræddri skýrslu var bent á fjölmargar leiðir til þess að bæta íþrótta- og æskulýðsstarf í Reykjavík. M.a. var lagt til að styrkjakerfi Reykjavíkurborgar gagnvart íþróttafélögunum verði endurskoðað með það að markmiði að í stað fyrra fyrirkomulags, komi kerfi þjónustusamninga við íþróttafélögin.
Umrædd skýrsla var samþykkt einróma í ÍTR árið 2000 og var það skilningur sjálfstæðismanna að full sátt væri um málið meðal borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks og R-lista og í framhaldinu yrði gengið í það af hálfu Reykjavíkurborgar að fylgja niðurstöðum skýrslunnar eftir og gera þjónustusamninga við íþróttafélögin. Seinagangurinn í þessu máli hefur hins vegar verið með ólíkindum sem sést best á því að fyrst nú, árið 2005, þegar helmingur þess tímabils er liðinn sem umræddri stefnumótunarskýrslu er ætlað að ná til, virðist R-listinn vera að landa málinu. Ber R-listinn fulla ábyrgð á ótrúlegum drætti þessa máls en á síðustu misserum hafa fulltrúar sjálfstæðismanna margsinnis óskað eftir að gengið yrði frá þjónustusamningum við íþróttafélögin og flutt tillögu þar að lútandi.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins fagna því af heilum hug að nú virðist loks hilla undir farsæla lausn málsins. Enn á þó eftir að koma í ljós hvaða upphæðir munu fylgja umræddum samstarfssamningum og hvort íþróttafélögin telja sér fært að fullnægja ákvæðum samninga í því ljósi. Mikilvægt er því að línur skýrist sem fyrst varðandi fjármálahlið málsins. Í umræðum um komandi þjónustusamninga, sem staðið hafa um árabil, hefur t.d. þung áhersla verið lögð á það af hálfu íþróttafélaganna að teknir verði inn kostnaðarliðir vegna viðhaldsmála og skrifstofurekstrar. Í ljósi þess að íþróttafélögin munu taka á sig miklar skyldur vegna stórviðhalds, bókhaldsvinnu, uppgjörsmála og annars skrifstofurekstrar samkvæmt fyrirliggjandi drögum að samningum, óska sjálfstæðismenn eftir því að fjármagn komi á móti frá Reykjavíkurborg vegna þessara kostnaðarliða.

Fulltrúar Reykjavíkurlistans lögðu fram eftirfarandi bókun:
Reykjavíkurlistinn hefur frá árinu 1994 lyft grettistaki í uppbyggingu íþróttamannvirkja og innra starfi íþróttafélaga.
Þeir samstarfssamningar sem lagðir eru fyrir hér í dag við íþróttafélög borgarinnar eru enn einn vitnisburðurinn um faglega vinnu við aðkomu borgarinnar í íþróttamálum.
Á þeirri braut verður áfram unnið.

2. Samþykkt að skipa vinnuhóp til að skilgreina verkefni og fyrirkomulag funda íþrótta- og tómstundaráðs.
Formaður íþrótta- og tómstundaráðs, sviðsstjóri ÍTR og Kjartan Magnússon skipi hópinn.

Fundi slitið kl. 13:10.

Anna Kristinsdóttir

Ingvar Sverrisson Magnús Már Guðmundsson
Kjartan Magnússon Benedikt Geirsson