Íbúaráð Breiðholts - Fundur nr. 42

Íbúaráð Breiðholts

Ár 2023, miðvikudaginn, 8. nóvember, var haldinn 42. fundur íbúaráðs Breiðholts. Fundurinn var haldinn í Suðurmiðstöð og hófst kl. 16.38. Eftirtaldir fulltrúar voru viðstaddir: Sara Björg Sigurðardóttir, Ágústa Ýr Þorbergsdóttir, Ásta Björg Björgvinsdóttir, Frank Úlfar Michelsen, Helgi Áss Grétarsson og Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir. Fundinn sátu einnig Jóhannes Guðlaugsson og Heimir Snær Guðmundsson sem ritaði fundargerð

Þetta gerðist:

 1. Lögð fram drög að umsögn íbúaráðs Breiðholts, dags. 8. nóvember 2023, um tillögu sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs um að færa starfsemi félagsmiðstöðvarinnar Hundraðogellefu, ásamt umsagnarbeiðni skóla- og frístundasviðs, dags. 11. október 2023. SFS23090172
  Samþykkt.
  Slembivalinn fulltrúi situr hjá við afgreiðslu málsins. 

  Fulltrúi Samfylkingar, Framsóknar, Sjálfstæðisflokks, íbúasamtaka og foreldrafélaga leggja fram svohljóðandi bókun:

  Starfsemi félagsmiðstöðvarinnar 111 gegnir lykilhlutverki í lífi margra ungmenna í Hólabrekku- og Fellaskóla og mikilvægt að vanda til verka þegar stefnt er að aukinni samnýtingu húsnæðis hjá borginni. Starfsemin þjónustar viðkvæman hóp barna og ungmenna. Í starfinu felst sérstaða fram yfir önnur hverfi en meirihluti barna í hverfinu eru með fjölbreyttan tungumála- og menningabakgrunn. Mikilvægt er að börn sem búa við brothætt bakland og efnahagslegan ójöfnuð hafi öruggan samastað, sérstaklega þau börn sem eru hvorki í skipulögðu íþrótta- né tómstundastarfi. Félagsmiðstöðvar í Breiðholti vinna framúrskarandi starf í málefnum barna af erlendum uppruna og eru leiðandi í virku forvarnastarfi, bregðast við hópamyndun og leggja sig til við að bjóða börnum sem ekki eru félagslegri virkni upp á faglegt frístundastarf, óformlegt nám þar sem er unnið er með valdeflingu og þeim gefin umgjörð, tækifæri til að standa jafnfætis öðrum börnum. Íbúaráðið vill að horft verði til fleiri þátta en einungis húsnæðis og nýtingu mannvirkja og kallar eftir þverfaglegri sviðsmyndagreiningu til að meta betur hvaða afleiðingar það hefur á unglingamenninguna í hverfinu við að skipta upp félagsmiðstöðinni í einn eða báða skóla eða halda henni í hlutlausu húsnæði. Mikilvægt er að finna farsæla lausn sem fyrst með hagsmuni barna í hverfinu að leiðarljósi.
   

  Fylgigögn

 2. Fulltrúi Sjálfstæðisflokks leggur fram svohljóðandi tillögu um verklag til að koma í veg fyrir efnissöfnun frá framkvæmdum nálægt íbúabyggð:

  Lagt er til að íbúaráð Breiðholts samþykki að beina því til umhverfis- og skipulagsráðs komi upp skýru verklagi í því skyni að koma í veg fyrir efni og úrgangur frá framkvæmdum geti staðið um langa hríð nálægt íbúðabyggð, líkt og hefur átt sér stað á horni Árskóga og Álfabakka í S-Mjódd á þessu ári en þar hafa háir haugar af möl og grjóti valdið íbúum og öðrum tjóni. MSS23110004

  Greinargerð fylgir tillögunni.  
  Frestað.

  Fylgigögn

 3. Fulltrúi Sjálfstæðisflokks leggur fram svohljóðandi tillögu um umferðaröryggi og vegtengingar við nýtt húsnæði Garðheima:

  Lagt er til að íbúaráð Breiðholts samþykki að beina því til umhverfis- og skipulagsráðs að tryggja að umferð vélknúinna ökutækja að nýopnuðum Garðheimum verði gerð greiðari og öruggari, t.d. með því að tengja betur saman Álfabakka og Reykjanesbraut með aðrein og frárein. Að lágmarki leggur íbúaráðið til að merkingar fyrir alla vegfarendur til og frá Garðheimum verði gerðar eins glöggar og kostur er. MSS23110005

  Greinargerð fylgir tillögunni. 
  Frestað. 

  Íbúaráð Breiðholts leggur fram svohljóðandi bókun:

  Íbúaráð Breiðholts ákveður að fresta meðferð þessarar tillögu en hyggst við fyrsta mögulega tækifæri fá þar til bæran aðila frá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar til að kynna uppbyggingu atvinnuhúsnæðis í Suður-Mjódd og hvernig fyrirhugað er að stýra umferð á svæðinu og tryggja umferðaröryggi fyrir alla vegfarendur, bæði til skemmri og lengri tíma.

  Fylgigögn

 4. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 17. október 2023, vegna auglýsingar á tillögu að breytingu á hverfisskipulagi Breiðholts, hverfi 6.2 Seljahverfi, vegna lóðarinnar nr. 17 við Öldusel, Ölduselsskóli. USK23080222

  Fulltrúi foreldrafélaga og slembivalinn fulltrúi leggja fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúi foreldrasamfélagsins lýsir yfir óánægju með breytingu á hverfisskipulagi Breiðholts vegna lóðar nr. 17 við Öldusel, sem hefur verið valin fyrir stækkun leikskólans Seljakots undir formerkjum Ævintýraborgarinnar. Enn og aftur er verið að ganga á græn svæði í hjarta Seljahverfis og heppilegra hefði verið að velja annan stað fyrir Ævintýraborgina. Umrætt svæði er mikilvægt útivistarsvæði íbúa og er hluti af Seljadalnum, svæðið er mikið nýtt af íbúum sem og leik- og grunnskólum hverfisins. Á svæðinu eru leiktæki m.a.- aparóla sem er mikið notuð og einnig er svæðið hluti af frisbígolfvelli sem er mjög vinsæll. Breytingin er metin sem óveruleg breyting í samræmi við ákvæði 2. Mgr. 43 gr en ekki verulega skv. 1. mgr .skipulagslaga nr123/210.

  Fulltrúi Sjálfstæðisflokks leggur fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins telur ástæðu til að kanna betur kosti og galla fyrirliggjandi tillögu að breytingu á hverfisskipulagi Breiðholts, hverfi 6.2 Seljahverfi, vegna lóðarinnar nr. 17 við Öldusel, Ölduselsskóli. Ástæða er til að þakka fulltrúa foreldrafélagsins í íbúaráði Breiðholts fyrir sínar ábendingar um efnið. 

  Fylgigögn

 5. Lagt fram bréf mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu, dags. 6. október 2023, um niðurstöður í Hverfið mitt 2022-2023. MSS22020075
  Frestað.

  Fylgigögn

 6. Fram fer umræða um málefni hverfisins. MSS22090034
  Frestað.

 7. Lögð fram greinargerð Mörtu Wieczorek, dags. 18. október 2023 vegna verkefnisins Fjölskylduhátíð í tilefni 15 ára afmælis skólans. MSS22040019

 8. Lögð fram greinargerð Foreldrafélags Ölduselsskóla, ódags., vegna verkefnisins Jólaföndur Ölduselsskóla. MSS22040019

 9. Lagðar fram til afgreiðslu umsóknir í Hverfissjóð Reykjavíkurborgar. MSS22040019

  Samþykkt að veita Sverri Sigmundssyni styrk að upphæð kr. 105.000 vegna verkefnisins GETTÓ – betur.

  Samþykkt að veita Önnu Karen Þóroddsdóttur styrk að upphæð kr. 75.000 vegna verkefnisins Halloween 2023.

  Samþykkt að veita Foreldrafélagi Breiðholtsskóla styrk að upphæð kr. 125.000 vegna verkefnisins Jólaföndur Breiðholtsskóla.

  Samþykkt að veita Foreldrafélagi Ölduselsskóla styrk að upphæð kr. 125.000 vegna verkefnisins Jólaföndur Ölduselsskóla.

  Öðrum umsóknum hafnað eða afgreiðslu frestað. 

  Þessi liður fundarins var lokaður með vísan til 7. gr. samþykktar fyrir íbúaráð Reykjavíkurborgar. 

  Fylgigögn

 10. Íbúaráð Breiðholts leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

  Fyrir liggur að efni og úrgangur frá framkvæmdum hefur verið safnað í stóran haug af hálfu verktaka á byggingalóð á horni Árskóga og Álfabakka í Suður-Mjódd, íbúum í næsta nágrenni til mikils ama. Er haugurinn á hæð við nokkurra hæða blokk. Mikill óþrifnaður hefur fylgt þessu fyrir íbúana en mold, sandur og ryk fýkur yfir íbúabyggðina í næsta nágrenni við hauginn. Íbúaráð Breiðholts beinir þeirri fyrirspurn til umhverfis- og skipulagssviðs hvort söfnun á efni og úrgangi með þessum hætti sé leyfileg, hvaða reglur gilda um slíkt, hvort gefið hafi verið formlegt leyfi fyrir efnissöfnuninni á umræddum reit, hvernig eftirliti sé háttað með framgöngu verktaka og hvort kannað hafi verið hvort þetta sé umhverfismatskyld framkvæmd í ljósi þeirra áhrifa sem efnissöfnin hefur á nærliggjandi íbúa? MSS23110061

  Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

Fundi slitið kl. 18.22

Sara Björg Sigurðardóttir Ásta Björg Björgvinsdóttir

Helgi Áss Grétarsson Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir

Ágústa Ýr Þorbergsdóttir Frank Úlfar Michelsen

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð íbúaráðs Breiðholts 8. nóvember 2023