Forsætisnefnd
Ár 2019, fimmtudaginn 28. nóvember, var haldinn 264. fundur forsætisnefndar. Fundurinn var haldinn í Tjarnarbúð í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12:55. Viðstödd voru Pawel Bartoszek, Sabine Leskopf, Marta Guðjónsdóttir, Alexandra Briem og Valgerður Sigurðardóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Elín Oddný Sigurðardóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir starfsmenn og embættismenn sátu fundinn: Helga Björk Laxdal og Bjarni Þóroddsson sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
-
Lögð fram drög að dagskrá fundar borgarstjórnar 3. desember 2019.
Forsætisnefnd óskar eftir að eftirtalin mál verði tekin á dagskrá sem sérstakir dagskrárliðir með vísan til samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar:
a) Tillaga að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2020; síðari umræða, sbr. 1. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 5. nóvember 2019
b) Fimm ára áætlun Reykjavíkurborgar 2020-2024; síðari umræða, sbr. 2. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 5. nóvember 2019 R19010084 -
Lagt fram bréf mannréttindastjóra, dags. 13. nóvember 2019, sbr. samþykkt aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks frá 7. nóvember 2019 á drögum að uppfærðri samþykkt fyrir nefndina, ásamt fylgiskjölum. R19020099
Samþykkt.
Vísað til borgarstjórnar.Fylgigögn
-
Lagt fram bréf mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu, dags. 8. nóvember 2019, þar sem tilkynnt er um afgreiðslu mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs á tillögu um heildstætt átak gegn fordómum og hatursorðræðu sem vísað var til ráðsins á sameiginlegum fundi borgarstjórnar og fjölmenningarráðs þann 30. apríl 2019. R19050087
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að ferðakostnaður og kolefnisfótspor kjörinna fulltrúa verði birtur opinberlega, sbr. 36. lið fundargerðar borgarráðs frá 21. nóvember 2019. R19110216
Vísað til umsagnar skrifstofu borgarstjórnar og þjónustu- og nýsköpunarsviðs og óskað eftir kostnaðarmati og tímasettri áfangaskiptingu fyrir 1. apríl 2020.Lögð fram svohljóðandi bókun áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Flokkur fólksins lagði í september til að borgarfulltrúar, embættismenn og starfsmenn miðlægrar stjórnsýslu borgarinnar sem farið hafa erlendis á kostnað borgarinnar kolefnisjafni flugferðir með því að planta trjám og birti afrakstur sinn á opinberu vefsvæði og/eða greiði eðlilega upphæð til t.d. Kolviðar eða Skógræktarfélaga. Tillögunni var vísað frá. Rökin vegna frávísunar voru þau að þetta væri nú þegar í gangi. Þá sátu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hjá við afgreiðslu tillögu Flokks fólksins. Flokkur fólksins hefur óskað eftir að fá að sjá alla skráningu um kolefnisjöfnun en ekki fengið. Það er mat Flokks fólksins að allt tal meirihlutans um loftlagsmál og mikilvægi þess að draga úr útblæstri sé mikið í nösum meirihlutans frekar en að alvara sé þar að baki. Það er mikilvægt að orð og verk fari saman hjá þessum meirihluta eins og öðrum. Sífellt er verið að boða að draga úr kolefnissporum en ferðalög meirihlutans til útlanda telja tugi milljóna á ári. Fulltrúa Flokks fólksins finnst að horfa þurfi á þetta allt í samhengi. Ekki dugar einungis að vilja loka á einkabílinn eins og meirihlutinn vill en halda áfram að menga með öðrum hætti. Flokkur fólksins hefur ekki atkvæðarétt í forsætisnefnd en fagnar að sjálfsögðu tillögunni ef alvara er að baki henni þ.e.a.s.
Fulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata og áheyrnarfulltrúi Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Fulltrúar meirihlutans árétta að tillögu Flokks Fólksins sem um ræðir var vísað frá með vísun í samþykktir umhverfis- og heilbrigðisráðs frá 22. ágúst 2018 þar sem umhverfis og skipulagssviði er falið að útfæra kolefnisjöfnun starfsfólks á ferðalögum innanlangs og utan og frá 16. október 2018 að útfæra tillögu um loftslagsskóga, og samþykkt borgarstjórnar um sama mál. Í tillögu Flokks fólksins virðist verið að setja persónulega ábyrgð á kjörna fulltrúa og starfsmenn á kolefnisjöfnun þegar þeir fara í ferðalög á vegum borgarinnar. Sú tillaga sem hér er til umræðu er ekki þannig fram sett en ekki getur talist sanngjarnt að þau sem þurfa að ferðast vinnu sinnar vegna beri persónuleag ábyrgð á kolefnisjöfnun sem því fylgir. Hins vegar árétta fulltrúar meirihlutans yfirlýsta stefnu borgarinnar um kolefnisjöfnun og sinn einbeitta vilja að draga úr losun kolefnis í andrúmsloftið.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 22. nóvember 2019, við fyrirspurn forseta borgarstjórnar um kostnað vegna starfsaðstöðu borgarfulltrúa, sbr. 8. lið fundargerðar forsætisnefndar frá 11. nóvember 2019. R19100309
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Kostnaðurinn er svimandi hár. Hálfur milljarður fer í húsnæðiskostnað við skrifstofur í Tjarnargötu og í ráðhúsi. Skrifstofukosnaður er 32,2 milljónir fyrir kjörna fulltrúa sem er mjög há upphæð. Nær væri að borgarfulltrúar leigðu hver og einn skrifstofu á skrifstofuhóteli með öllum aðbúnaði fyrir minni pening.
Fulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata ásamt áheyrnarfulltrúa Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Fulltrúar meirihlutans árétta að í þessu svari er samantekinn kostnaður við rekstur ráðhúss og skrifstofu borgarfulltrúa, og eru 80% af þeim kostnaði innri leiga. Þó er sjálfsagt að endurskoða fyrirkomulagið þannig að það nýtist öllum sem best.
Fylgigögn
-
Lögð fram svör fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 22. nóvember 2019, og skrifstofu borgarstjórnar, dags. 25. nóvember 2019, við fyrirspurn forseta borgarstjórnar um kostnað við hvern fund borgarstjórnar, sbr. 9. lið fundargerðar forsætisnefndar frá 13. september 2019. R19090152
Forsætisnefnd ásamt áheyrnarfulltrúum leggur fram svohljóðandi bókun:
Forsætisnefnd þakkar fyrir framlagt svar. Óskað er eftir sérstakri sundurliðun á kostnað við fundi borgarstjórnar eftir kl. 18:00 á daginn.
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Hrikalegar tölur birtast okkur hér. Kostnaður sem er algjörlega óþarfur. Meirihlutinn rígheldur í þá skoðun að byrja borgarstjórnarfundi kl. 14:00 í stað þess að láta þá byrja kl. 10:00 á morgnana. Meðaltals kostnaður við hvern fund er 850.000 kr. vegna yfirvinnu og fl. Í svarinu kemur fram að haldnir hafi verið 20 fundir og er kostnaðurinn þá orðinn 17 milljónir. Veitingar eru 40% af þeirri upphæð. Það sjá allir í hendi sér að þarna eru miklir fjárhagslegir hagsmunir í húfi og mikil tækifæri til sparnaðar. Sú tillaga hefur marg oft komið fram og er ótrúlega einföld. Byrja fundi fyrr.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúi Flokks fólksins á ekki orð yfir þeim kostnaði sem einn borgarstjórnarfundur kostar. Meðalkostnaður fyrir hvern fund á kjörtímabilinu er ca. 850.000.- vegna veitinga fyrir borgarstjórn, vegna útsendinga á vef Reykjavíkurborgar og í útvarpi og vegna yfirvinnu húsvarða í Ráðhúsi frá kl. 18.00. Borgarfulltrúi hefur rætt við tæknimenn um þessi mál og ber flestum saman að þessi upphæð er ekki eðlileg. Tæknihlutinn er að taka stærstan hluta af þessari upphæð. Gæði útsendinga eru auk þess léleg, hljóð og mynd fer ekki saman. Ef borið er saman við útsendingar Alþingis má sjá gríðarlegan mun. Hér þarf að skoða málin ofan í kjölinn og auðvitað finna aðra leið. Þessa upphæð mætti lækka um helming í það minnsta hvað varðar tæknilegu málin. Borgarfulltrúi gerir þá kröfu að þeir sem annast þessi mál taki þetta til gaumgæfilegrar athugunar, geri verðkönnun og samanburð sem þarf til að finna ódýrari leiðir. Útboð þarf að vera á öllum kostnaðarþáttum að sjálfsögðu jafnvel þótt áætlun um kostnað nái ekki viðmiði innkaupareglna.
Fulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata ásamt áheyrnarfulltrúa Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Fulltrúar meirihlutans árétta að ekki var tekin afstaða á þessum fundi til þeirrar hugmyndar að byrja fundi fyrr. Af öllum kostnaðarliðum sem má skoða nánar vilja fulltrúar meirihlutans ekki endilega leggja áherslu á það að spara kostnað við það opna lýðræðislega samtal sem fram fer á fundum borgarstjórnar. Sjálfsagt er þó að rýna kostnað við borgarstjórnarfundi. Þess vegna er fyrirspurnin lögð fram, af okkar frumkvæði.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins:
Lagt er til að allur ferðakostnaður, þ.e. allur kostnaður við dagpeninga, hótel, ferðalög og annað upphald, sem og kolefnisfótspor vegna utanferða vegna vinnu verði birt á hvern embættismann í árshlutauppgjörum hvers sviðs fyrir sig og samandregið á ársgrundvelli og sett inn á vef Reykjavíkurborgar. R19110405
Frestað.
- Kl. 13:43 víkur Elín Oddný Sigurðardóttir af fundi.
-
Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um að fengið verði mat hjá ráðuneyti um ýmis álitaefni tengd siðareglum og skyldu borgarfulltrúa til að fara eftir þeim sbr. 9. lið fundargerðar forsætisnefndar frá 11. október 2019 og 6. liður fundargerðar forsætisnefndar frá 15. nóvember sl. Í fyrri fundargerðum misritaðist heiti tillögunnar og er það leiðrétt hér með. R18060129
Fylgigögn
Fundi slitið klukkan 13:47
Pawel Bartoszek Sabine Leskopf
Alexandra Briem Marta Guðjónsdóttir
PDF útgáfa fundargerðar
forsaetisnefnd_2811.pdf