Endurskoðunarnefnd - Fundur nr. 275

Endurskoðunarnefnd

Ár 2023, mánudaginn 8. maí var haldinn 275. fundur endurskoðunarnefndar Reykjavíkurborgar. Fundurinn var haldinn að Guðrúnartúni 1, 105 Reykjavík og hófst kl. 13:09. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum: Einar S. Hálfdánarson, Sigrún Guðmundsdóttir og Sunna Jóhannsdóttir. Fundarritari var Hallur Símonarson

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning á innri endurskoðunarúttekt Áhætturáðgjafar Deloitte  hjá Strætó fyrir árið 2022. IER22110075

    Sif Einarsdóttir hjá Áhætturáðgjöf Deloitte tekur sæti á fundinum undir þessum lið ásamt Jóhannesi Svavari Rúnarssyni framkvæmdastjóra Strætó bs.

    Frestað

    -    Kl. 13:47 tekur Lárus Finnbogason sæti á fundinum

  2. Lagt fram bréf innri endurskoðanda Reykjavíkurborgar um eftirfylgniúttekt með aðgangsstýringum upplýsingakerfa á fjármála- og áhættustýringarsviði Reykjavíkurborgar dags. 5. þ.m. og í kjölfarið fer fram kynning á eftirfylgniúttektinni. IER22110042

    Ingunn Ólafsdóttir, Arnar Freyr Guðmundsson og Stefán Viðar Grétarsson hjá Innri endurskoðun og ráðgjöf taka sæti á fundinum undir þessum lið. Halldóra Káradóttir, Lilja Gunnarsson og Þórhildur Ósk Halldórsdóttir hjá fjármála- og áhættustýringarsviði taka sæti á fundinum með fjarfundabúnaði.

    Fylgigögn

  3. Lagt fram bréf innri endurskoðanda Reykjavíkurborgar um eftirfylgniúttekt með aðgangsstýringum upplýsingakerfa á skrifstofu upplýsingatækniþjónustu á þjónustu- og nýsköpunarsviði Reykjavíkurborgar dags. 5. þ.m. og í kjölfarið fer fram kynning á eftirfylgniúttektinni. IER22110042

    Ingunn Ólafsdóttir, Arnar Freyr Guðmundsson og Stefán Viðar Grétarsson hjá Innri endurskoðun og ráðgjöf taka sæti á fundinum undir þessum lið ásamt Ólafi Óskari Egilssyni hjá þjónustu- og nýsköpunarsviði.

    Fylgigögn

  4. Lögð fram að nýju bókun Einars S. Hálfdánarsonar sem lögð var fram á 273. fundi endurskoðunarnefndar 24. f.m. dags. við umræðu um ársreikning Reykjavíkurborgar fyrir árið 2022 og færð í trúnaðarbók: IER22110076

    Að mínu mati gefur það ekki rétta mynd af afkomu Reykjavíkurborgar að nota meir en 20 milljarða hækkun á matsverði fasteigna sem borgin notar til að sinna lögbundnum skyldum sínum til að breyta stórfelldu tapi í mikinn hagnað í samstæðureikningi borgarinnar. Borginni er skylt lögum samkvæmt að gera samstæðuársreikning. Þess í stað setur borgin fram svokölluð samantekin reikningsskil. Það telst óheimilt og er án nokkurrar stoðar í lögum settum af Alþingi. Reykjavíkurborg er eining tengd almannahagsmunum. Þá er borgin aðili sem stærðar vegna ber að setja fram ýtarlega ársskýrslu skv. VI. kafla ársreikningalaga. Mikið skortir á að borgin uppfylli lagaskyldur sínar að þessu leyti. Að mínu mati er þannig ekki gerð fullnægjandi grein fyrir atriðum sem mikilvæg eru við mat á fjárhagslegri stöðu borgarinnar og afkomu á reikningsárinu. Ekki heldur fyrir þróuninni í starfsemi hennar og fjárhagslegri stöðu í fortíð, nútíð og framtíð. Sama á við áhættustýringu og áhættuþætti sem máli skipta við mat á eignum og skuldum, fjárhagsstöðu og rekstrarafkomu og fjármögnunar- og lausafjáráhættu í rekstri borgarinnar. Ég tel og að skýringar skýrslunnar á frávikum frá rekstraráætlun séu ófullnægjandi. Að lokum má nefna umfjöllun um ófjárhagslegan árangur, þ.m.t. upplýsingar um umhverfismál, t.d. kolefnisspor samstæðu borgarinnar og þróun þess.

  5. Fram fer umræða um ársreikning Reykjavíkurborgar fyrir árið 2022 IER22110076

    Endurskoðunarnefnd leggur fram svohljóðandi bókun:

    Í fréttatilkynningu Reykjavíkurborgar vegna skekkju í ársreikningi fyrir árið 2022 sem var lagður fram með fyrirvara um breytingar til fyrri umræðu í borgarstjórn þriðjudaginn 2. maí og verður tekinn til seinni umræðu 9. maí segir meðal annars: „Við endurskoðun reyndust verðbætur í sjóðstreymi oftaldar um 2.492 m.kr. og lántaka vantalin um sömu fjárhæð. Er hér um áfallnar verðbætur á verðtryggð skuldabréf á útgáfudegi að ræða sem lagðar voru við verðbætur í sjóðstreymi í stað færslu á ný lán. Leiðréttingin hefur áhrif á niðurstöðu veltufjár frá rekstri og fjármögnunarhreyfingar í sjóðstreymi. Áhrif á rekstrar- og efnahagsreikning eru engin. Að mati nefndarinnar er nauðsynlegt að bregðast við þeirri skekkju sem reyndist vera í ársreikningi Reykjavíkurborgar og kom fram við rýni fulltrúa í endurskoðunarnefnd eftir framlagningu hans í borgarráði. Endurskoðunarnefnd óskaði eftir og fékk kynningu á málinu á fundi sínum hinn 4. þ.m. og telur nú rétt að fjármála- og áhættustýringarsvið greini skriflega ástæður þess að skekkja varð í sjóðstreymi. Endurskoðunarnefnd óskar eftir því að greiningin verði lögð fyrir endurskoðunarnefnd hið fyrsta.  Jafnframt telur nefndin nauðsynlegt að strax verði gerð úttekt á innra eftirliti við vinnuferli við gerð reikningsskila.

    -    Kl. 16:20 víkur Einar S. Hálfdánarson af fundi

  6. Lögð fram drög að bréfi endurskoðunarnefndar með tillögu til Borgarstjórnar Reykjavíkur um val á endurskoðunarfyrirtæki. IER22110079

    Bréf endurskoðunarnefndar er samþykkt og vísað til borgarráðs

    Fylgigögn

Fundi slitið kl. 16:40

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð endurskoðunarnefndar 8. maí 2023