Endurskoðunarnefnd
ENDURSKOÐUNARNEFND
Ár 2022, miðvikudaginn 20. apríl var haldinn 246. fundur endurskoðunarnefndar Reykjavíkurborgar. Fundurinn var haldinn með fjarfundarbúnaði og hófst kl. 13:04. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði, með vísan til heimilda í 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar varðandi fjarfundaheimild, Lárus Finnbogason, Sigrún Guðmundsdóttir, Einar S Hálfdánarson og Sunna Jóhannsdóttir.
Fundarritari var Hallur Símonarson.
Þetta gerðist:
1. Fram fer kynning á drögum að ársreikningi Reykjavíkurborgar og samstæðu fyrir árið 2021 ásamt fylgigögnum IE21080015
Halldóra Káradóttir, Gísli Hlíðberg Guðmundsson, Sigurrós Ásta Sigurðardóttir, Erik Tryggvi Bjarnason, Fjóla Þorgerður Þorgeirsdóttir, Sturla Jónsson Theodór S Sigurbergsson og Bjarni Már Jóhannesson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.
Samþykkt með atkvæðum Lárusar Finnbogasonar, Sigrúnar Guðmundsdóttur og Sunnu Jóhannsdóttur að formaður gangi frá umsögn til borgarráðs í samræmi við drög sem liggja fyrir á fundinum.
Lögð fram svohljóðandi bókun Einars Sveins Hálfdánarsonar:
Að mínu mati er „samstæðureikningur“ Reykjavíkurborgar ekki í samræmi við 61. grein sveitastjórnarlaga, sbr. lög um ársreikninga og 5. kafla reglugerðar nr. 696/2019 um framsetningu og innihald ársreikninga og samstæðureikninga. Innviðaráðuneytið hefur staðfest þennan skilning minn með svari sínu til Alþingis. Framlagning samantekinna reikningsskila í stað samstæðuársreiknings á sér því ekki neina lagastoð. Vísast til þingskjals 626-302. máls á 152. löggjafarþingi 2021–2022 hvað varðar þessu alvarlegu ágalla. Tekjufærsla vegna matsbreytingar fjárfestingaeigna í samstæðuársreikningi að fjárhæð kr. 20.521.219.000 vegna eigna sem notaðar eru til að efna lögbundnar skyldur sveitarfélagsins er ekki í samræmi við alþjóðlegan skilning á efni alþjóðlegra reikningsskilastaðla. Og noti dótturfélag í samstæðu aðrar matsaðferðir í eigin ársreikningi en móðurfélagið skulu unnin ný reikningsskil fyrir dótturfélagið, sbr. 75. gr. ársreikningalaga, þar sem matsaðferðir eru í samræmi við reikningsskil samstæðu. Vísast jafnframt til bréfs Eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga, dags. 3. desember 2021, til borgarstjórnar Reykjavíkurborgar um þetta efni. Að lokum tel ég að tölulega útlistun á meintum kostnaðarauka borgarinnar, að fenginni aðstoð ríkisins, til sveitarfélaganna vanti algerlega í skýringu nr. 56. um heimsfaraldur af völdum COVID-19. Án slíks útreiknings er ekki hægt að gera sér glögga grein fyrir áhrifum COVID-19 á rekstur borgarinnar. Get ég því ekki að öllu leyti tekið undir umsögn endurskoðunarnefndar Reykjavíkurborgar.
Lögð fram svohljóðandi bókun Lárusar Finnbogasonar, Sigrúnar Guðmundsdóttur og Sunnu Jóhannsdóttur:
Einar lýsir hér sinni skoðun á reikningsskilum Reykjavíkurborgar. Við getum ekki tekið undir sjónarmið í bókun Einars og vísum m.a. í niðurstöðu ytri endurskoðenda og álit reikningsskilaráðs nr. 1/2020 þar sem fram kemur að það gefi „glögga mynd að færa fjárfestingareignir við gangvirði óháð því hver tilgangur með eignarhaldi eignanna er“. Að okkar mati er ársreikningur Reykjavíkurborgar gerður í samræmi við ákvæði laga og reglugerða sem um reikningsskil gilda sem og svör reikningsskila og upplýsinganefndar sveitarfélaga sbr. bréf dags. 8. sept. 2021 og desember 2021. Við teljum því að ársreikningurinn sé tilbúinn til afgreiðslu eins og fram kemur í umsögn endurskoðunarnefndar til borgarráðs.
2. Fram fer kynning á skýrslum ytri endurskoðenda; Endurskoðunarskýrsla 2021 dags. 22. þ.m. og skýrsla um ábendingar og athugasemdir vegna innra eftirlits og fjárhagsupplýsinga vegna endurskoðunar á ársreikningi 2021 dags. 22. þ.m.. IE21080015
Halldóra Káradóttir, Gísli Hlíðberg Guðmundsson, Sigurrós Ásta Sigurðardóttir, Erik Tryggvi Bjarnason, Fjóla Þorgerður Þorgeirsdóttir, Sturla Jónsson Theodór S Sigurbergsson og Bjarni Már Jóhannesson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.
3. Lögð fram beiðni stýrihóps um mótun almennrar eigandastefnu Reykjavíkurborgar gagnvart B hluta félögum og byggðasamlögum sem Reykjavíkurborg á aðild að dags. 9. þ.m. ásamt drögum að umsögn endurskoðunarnefndar dags. í dag. IE22040012
Umsögnin samþykkt og vísað til stýrihóps um mótun eigandastefnu Reykjavíkurborgar
4. Lögð fram til kynningar eftirfylgni Innri endurskoðunar og ráðgjafar með úttekt; Grunnskólar Reykjavíkur - úthlutun fjárhagsramma og rekstur dags. 6. þ.m. IE21010006
Guðjón Hlynur Guðmundsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði.
5. Önnur mál – gerð grein fyrir aðkomu fulltrúa í endurskoðunarnefnd að B hluta félögum frá síðasta fundi endurskoðunarnefndar:
Rýnifundur hjá Orkuveitu Reykjavíkur dags. 7. apríl vegna ársreiknings og endurskoðunar (fjarfundur).
Fundi slitið kl. 16:09
Lárus Finnbogason
Sigrún Guðmundsdóttir Einar S Hálfdánarson
Sunna Jóhannsdóttir
PDF útgáfa fundargerðar
Endurskoðunarnefnd 20.04.2022 - prentvæn útgáfa