Borgarstjórn
Ár 2023, þriðjudaginn 21. nóvember, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12:06. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Magnea Gná Jóhannsdóttir, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Alexandra Briem, Andrea Jóhanna Helgadóttir, Björn Gíslason, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Einar Þorsteinsson, Friðjón R. Friðjónsson, Heiða Björg Hilmisdóttir, Hildur Björnsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Kjartan Magnússon, Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, Magnús Davíð Norðdahl, Marta Guðjónsdóttir, Pawel Bartoszek, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Sabine Leskopf, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Skúli Helgason, Stefán Pálsson og Þorvaldur Daníelsson.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
-
Fram fer umræða um náttúruhamfarir í Grindavík og afleiðingar þeirra. MSS23110093
Borgarstjórn leggur fram svohljóðandi bókun:
Borgarstjórn Reykjavíkur sendir bæjarstjórn Grindavíkur og Grindvíkingum öllum innilegar samstöðukveðjur vegna þeirra alvarlegu atburða sem hafa átt sér stað í Grindavík og óvissunnar sem nú ríkir. Borgarstjórn lýsir jafnframt yfir þakklæti sínu í garð starfsfólks almannavarna, björgunarsveita og Grindvíkinga sjálfra sem unnið hafa sleitulaust að því að tryggja öryggi íbúa. Borgarstjórn býður starfsfólk Grindavíkurbæjar velkomið í Ráðhús Reykjavíkur og lýsir yfir eindregnum vilja til þess að aðstoða við þau brýnu verkefni sem framundan eru.
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir að ráðast í eftirfarandi aðgerðir í því skyni að bæta almenningssamgöngur í borginni: Sérstök aðgerðaáætlun verði gerð þar sem fram komi hvenær einstakir hlutar hennar komast til framkvæmda ásamt kostnaðarmati, tímasetningum og ábyrgðaraðilum. Miðað skal við að ráðist verði í fyrstu aðgerðir samkvæmt áætluninni á árinu 2024. 1. Forgangsakreinar. Framkvæmdir vegna lagningar forgangsreina fyrir strætó verði hafnar að nýju í Reykjavík á árinu 2024. Áhersla verði lögð á umferðarþunga staði þar sem strætisvagnar verða helst fyrir töfum. 2. Umferðarljósaforgangur. Forgangur strætisvagna verði tryggður með innleiðingu snjalltækni á umferðarljósum. 3. Biðskýli og skiptistöðvar. Ráðist verði í átak við úrbætur á biðskýlum og skiptistöðvum. Upphituð biðskýli verði sett upp á fjölförnum biðstöðvum. Umbætur verði gerðar á skiptistöðvum, m.a. verði séð til þess að þær verði opnar kvölds og morgna á meðan strætisvagnar ganga og farþegum tryggður aðgangur að þrifalegu salerni. 4. Greiðslukerfi. Núverandi greiðslukerfi verði skipt út fyrir hraðvirkt og notendavænt kerfi í samvinnu við aðra eigendur Strætó bs. 5. Vagnafloti. Endurnýjun vagnaflota Strætó bs. verði hraðað í samvinnu við aðra eigendur Strætó bs. 6. Leiðakerfi. Núverandi leiðakerfi verði endurskoðað og gerðar á því nauðsynlegar úrbætur sem fyrst í samvinnu við aðra eigendur Strætó bs. Í þeirri vinnu verði efnt til víðtæks samráðs við ýmsa aðila um æskilegar úrbætur á leiðakerfinu. Til dæmis núverandi farþega Strætó, vagnstjóra, íþróttafélög, foreldrafélög í grunnskólum, foreldrafélög í leikskólum, ungmennaráð sem og félög stúdenta í framhaldsskólum og háskólum í borginni. Á grundvelli þessarar vinnu verði ráðist í umbætur á leiðakerfinu.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi breytingatillögu:
Borgarstjórn ítrekar stuðning sinn við samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins og hvetur til þess að uppfærslu hans verði hraðað. Borgarstjórn fagnar nýju leiðaneti Strætó sem þróað var í víðtæku samráði og gerir ráð fyrir stóreflingu þjónustu og tíðni Strætó samhliða tilkomu Borgarlínu. Hvetur borgastjórn til þess að það komist hratt og vel til framkvæmda sem fyrst samhliða undirbúningi og framkvæmdum samgöngusáttmálans þar sem eðlileg aðkoma ríkisins að rekstri öflugra almenningssamgangna verði skilgreind. Borgarstjórn samþykkir jafnframt að unnin verði áætlun um frekari forgangsakreinar Strætó og viðbragðsaðila og forgang Strætó og viðbragðsaðila á ljósum innan Reykjavíkur þar sem slíkt er ekki þegar fyrir hendi. Þessum forgangsreinum og forgangi á ljósum yrði hrint í framkvæmd samhliða eða í aðdraganda framkvæmda hinna mikilvægu forgangsakreinum og forgangs sem samgöngusáttmálinn felur í sér á lykilleiðum. Borgarstjórn lýsir einnig yfir ánægju með að ný skref verði stigin í betrumbótum á greiðslukerfi Strætó á þessu ári og hvetur til að innleiðingu þess verði flýtt, ásamt endurnýjun og orkuskiptum í vagnaflota fyrirtækisins. Borgarstjórn samþykkir einnig að framfylgt verði áætlun um endurbætur á biðskýlum innan Reykjavíkur sem samgöngusáttmálinn nær ekki yfir, m.a. í samræmi við fyrirliggjandi heildargreiningu um bætt aðgengi að biðstöðvum og tillögu að fjárfestingaáætlun fyrir árið 2024.
Atkvæðagreiðslu var frestað og fór hún fram þegar búið var að afgreiða alla liði á dagskrá fundarins. MSS23100021
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja til að breytingatillögu Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar verði vísað frá. Frávísunartillagan er felld með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn átta atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Flokks fólksins og Vinstri grænna.
Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins.Breytingatillaga Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar er samþykkt með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn átta atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Flokks fólksins og Vinstri grænna.
Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins.Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins er samþykkt svo breytt með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins.Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Við mótmælum harðlega málsmeðferð meirihluta borgarstjórnar varðandi tillögu Sjálfstæðisflokksins um aðgerðaáætlun í almenningssamgöngum. Í stað þess að taka tillöguna til afgreiðslu kemur meirihlutinn sér undan því að taka afstöðu til hennar með fyrirvaralausum flutningi og afgreiðslu á svokallaðri breytingatillögu. Ekki er um breytingatillögu að ræða heldur nýja tillögu sem felur í sér allt annan texta og önnur málefni en eru í tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Einnig er hlutum snúið á haus. Í upphaflegri tillögu Sjálfstæðisflokksins er lagt til að Klappinu, núverandi greiðslukerfi Strætó bs. verði skipt út fyrir hraðvirkt og notendavænt kerfi en í „breytingatillögu“ meirihlutans er lýst yfir ánægju með Klappið og hvatt til þess að innleiðingu þess verði flýtt. Meirihlutanum er að sjálfsögðu frjálst að leggja fram eigin tillögu um almenningssamgöngur. Hins vegar er óheiðarlegt og ekki í samræmi við góða stjórnsýslu að leggja fram slíka tillögu undir því yfirskini að um breytingatillögu sé að ræða þegar umræddar tillögur eru svo ólíkar og raun ber vitni. Lítum við svo á að meirihlutinn hafi því í raun fellt umrædda tillögu Sjálfstæðisflokksins og þær aðgerðir sem hún felur í sér.
Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:
Mikilvægt er að efla núverandi almenningssamgöngur. Í breytingatillögu Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar við tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um aðgerðaáætlun um almenningssamgöngur er fjallað um samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins og hvatt til þess að uppfærslu hans verði hraðað. Ýmsar úrbætur má finna í samgöngusáttmálanum en áætlun gengur út frá því að fjármagna eigi samgöngubætur með vegtollum eða veggjöldum og Sósíalistar leggjast gegn slíkri gjaldtöku. Sósíalistar ítreka mikilvægi þess að strax verði hafist handa við að laga þjónustu Strætó bs. og að borgin setji fram skýr viðmið um hvernig því verði náð fram.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Flokks fólksins getur tekið undir þessar tillögur um almenningssamgöngur. Úrbætur eru brýnar. Það hefur komið vel út að Strætó aki á forgangsakreinum og leggja þarf áherslu á staði með mikinn umferðarþunga þar sem strætisvagnar verða helst fyrir töfum. Sama má segja um umferðarljós þannig að forgangur strætisvagna verði tryggður á umferðarljósum með innleiðingu snjalltækni. Almennt er mikilvægt að taka umferðarljósakerfið rækilega í gegn, núverandi kerfi er ekki að virka nógu vel. Ítrekað hefur verið rætt um biðskýli og skiptistöðvar og hefur Flokkur fólksins lagt fram tillögur um m.a. að hraða verði viðhaldi og endurbyggingu. Aðstaða í sumum þeirra er til skammar. Skiptistöðvar verða að vera opnar á meðan vagnar ganga og að sjálfsögðu vera upphitaðar og með fullnægjandi salernisaðstöðu. Flokkur fólksins hefur ítrekað rætt um Klappkerfið sem nú er að mestu viðurkennt að hafi ekki gengið nógu vel. Nú þarf helst að skipta því út fyrir hraðvirkt og notendavænt kerfi í samvinnu við aðra eigendur Strætó bs. Vagnar hafa eitthvað verið endurnýjaðir en það verkefni er viðvarandi. Til að fleiri noti þjónustuna er brýnt að gera úrbætur á leiðakerfi og auka ferðatíðni.
Fylgigögn
-
Fram fer umræða um skýrslu ÖBÍ réttindasamtaka um húsnæðismál fatlaðs fólks. MSS23110129
Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:
Sósíalistar vitna í lokaorð skýrslu ÖBÍ réttindasamtaka um húsnæðismál fatlaðs fólks: „Allir eiga rétt á lífskjörum sem nauðsynleg eru til verndar heilsu og vellíðan þeirra sjálfra og fjölskyldu þeirra. Telst þar til fæði, klæði, húsnæði, læknishjálp og nauðsynleg félagsleg þjónusta, svo og réttur til öryggis vegna atvinnuleysis, veikinda, fötlunar, fyrirvinnumissis, elli eða annars sem skorti veldur og menn geta ekki við gert.“ Svo hljóðar 25. gr. Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna frá 1948 og ein af grunnstoðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Með lögfestingu samningsins myndi fatlað fólk njóta mannréttinda og mannfrelsis til fulls og til jafns við annað fólk. Mikilvægt er að vanda vel til verka með fullfjármögnuðum aðgerðum í samræmi við viðmið samningsins. Að hafa öruggt þak yfir höfuðið er ekki munaður fyrir suma heldur grundvallarmannréttindi allra. Greining skýrslunnar gefur til kynna að fatlað fólk standi hallari fæti á húsnæðismarkaði en ófatlað. Fatlað fólk er ólíklegra til að eiga eigið húsnæði og á erfiðara með að fá húsnæði á almennum leigumarkaði. Þá takmarkar óaðgengilegt umhverfi og mikill fjöldi óaðgengilegra íbúða húsnæðisúrval fatlaðs fólks.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Skýrslan sem er hér til umræðu sýnir niðurstöðu rannsóknar í húsnæðismálum fatlaðs fólks. Konur með fötlun sem auk þess eru einstæðar mæður hafa það verst. Lítið sem ekkert hefur verið gert í húsnæðismálum fatlaðs fólks í rúman áratug eða síðan skýrsla um húsnæðismál kom út árið 2010. Hátt leiguverð spilar hér inn í. Um 11% öryrkja leigja hjá Félagsbústöðum og Brynju samkvæmt könnunni. Af þeim sem höfðu verið á biðlista eftir félagslegu húsnæði höfðu tæp 60% verið þar í þrjú ár eða lengur. Húsnæðisvandi eins og hann leggur sig leysist ekki fyrr en framboð verður nægjanlegt. Hér bera sveitarfélög stærstu ábyrgðina. Byggja þarf mun meira og samkvæmt hugmyndafræði algildrar hönnunar. Flokkur fólksins hefur lagt til að skipaður verði starfshópur til að gera úttekt á búsetuhögum og búsetuúrræðum öryrkja í Reykjavík og sérstaklega á leigumarkaðinum. Í skýrslunni ÖBÍ 2023 kemur fram að 27% svarenda með 75% örorkumat greiða á bilinu 51-75% útborgaðra launa í rekstur á húsnæði. Að auki greiða 12% svarenda í sama hópi meira en 75% útborgaðra launa í rekstur á húsnæði. Sú staða er óviðunandi með öllu og samræmist ekki markmiðum fjármálaáætlunar í húsnæðismálum um greiðslugetu leigjenda.
Fylgigögn
-
Fram fer umræða um um kostnað Reykjavíkurborgar við ráðgjafarkaup. MSS23100131
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Tugir milljóna fara ár hvert í ráðgjafarkaup af öllu tagi. Sama má segja um ýmis verkkaup. Ráðgjafarkaup eru frá innlendum jafnt sem erlendum ráðgjafarfyrirtækjum. Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur lagt til að Reykjavíkurborg dragi úr aðkeyptri ráðgjafar- og verkefnavinnu. Aðkeypt ráðgjöf á aðeins að koma til ef hana er ekki hægt að sækja úr mannauði starfsmanna Reykjavíkurborgar. Haldbær rök þurfa að liggja fyrir vegna kaupa á rándýrum ráðgjöfum. Reykjavíkurborg er stærsti vinnustaður landsins og hefur á að skipa fjölda sérfræðinga sem ráðnir eru einmitt vegna sinnar sérfræðimenntunar, sérþekkingar og reynslu. Flokkur fólksins hefur ítrekað vakið máls á óheyrilegum kostnaði sem fer í aðkeypta ráðgjöf með tilheyrandi kostnaðarsömum skýrslum og verkefnakaupum. Þjónustan er gjarnan keypt frá sömu ráðgjafarfyrirtækjunum. Dæmi eru um að fengnir hafi verið hámenntaðir verkfræðingar til að annast ólíklegustu verkefni, sum jafnvel einföld og léttvæg. Í fjölda ára hafa stórar upphæðir farið í áskriftir af ráðgjöf frá erlendum ráðgjafarfyrirtækjum. Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill fá þessa samninga endurskoðaða með það að leiðarljósi að segja þeim upp enda óvíst hver sé ávinningurinn af þeim. Velta þarf við hverri krónu ef borgin á að geta siglt út úr þeim ógöngum sem hún er nú í og gert það í samræmi við framlagðar fjármálaáætlanir fjármálasviðs borgarinnar.
Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:
Vakin er athygli á því að frá árinu 2018 til apríl 2023 hafa samtals 101.636.735 króna verið greiddar til eins ráðgjafarfyrirtækis. Þá hefur borgin einnig leitað ráðgjafar hjá öðrum. Mikilvægt er að leita rágjafar um ýmis málefni en hér er þó um háa upphæð að ræða. Ráðgjafarvæðing stjórnmálanna virðist hafa farið vaxandi, ekki einungis hérlendis heldur einnig erlendis, þar sem leitað er í síauknum mæli til utanaðkomandi fyrirtækja og greiningaraðila um pólitíska stefnumótun.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Borgarstjórn samþykkir að svohljóðandi málsgrein bætist við 27. grein samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar: „Við það skal miðað að fyrirspurn sé svarað eigi síðar en fjórum vikum eftir að hún er lögð fram og bókuð í fundargerð. Takist ekki að svara fyrirspurninni innan þess frests, skal gera skriflega grein fyrir því, svo og hver ástæðan er og hvenær vænta megi svars.“
- Kl. 16:00 víkur Björn Gíslason af fundinum og Helgi Áss Grétarsson tekur þar sæti.
Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar forsætisnefndar.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS23040017Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Réttur kjörinna fulltrúa til upplýsinga er mjög ríkur. Allar upplýsingar ber að veita fljótt og vel. Árum saman hefur hins vegar verið óviðunandi dráttur á svörum við fyrirspurnum borgarfulltrúa. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja ekkert því til fyrirstöðu að afgreiða fyrirliggjandi tillögu í stað þess að vísa henni til nefndar enda eru margir mánuðir síðan tillagan var fyrst lögð fyrir borgarstjórn.
Fylgigögn
-
Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 9. og 16. nóvember.
2. liður fundargerðar borgarráðs frá 16. nóvember; tillögur vegna skýrslu starfshóps um betri rekstur og afkomu bílahúsa Bílastæðasjóðs, er samþykktur með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn þremur atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við atkvæðagreiðsluna. MSS23010001Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun undir 2. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. nóvember:
Lagðar eru fram ýmsar tillögur sem snúa að bílastæðahúsum borgarinnar. Mikilvægt er að þau séu aðlaðandi þannig að hægt sé að minnka þörf fyrir bílastæði í borgarlandi. Þá þarf einnig að bæta almenningssamgöngur til þess að minnka þörf á bílastæðum. Það þarf þó að tryggja nægileg stæði fyrir hreyfihamlaða við götu, svo hægt sé að komast ferða sinna á sem bestan hátt. Ein tillagan sem er lögð fram hér snýr að því að skoða nánar möguleika á útvistun rekstrar bílahúsa að hluta eða í heild og mótun viðskiptamódels fyrir slíkt útboð. Sósíalistar leggjast gegn útvistun á þjónustu bílastæðahúsanna.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. nóvember:
Starfshópur hefur skilað skýrslu með tillögum er snúa að bílastæðahúsum borgarinnar. Í skýrslunni kemur fram að nýting bílastæðahúsa er léleg eða 27% að meðaltali. Þess vegna er aðalatriðið að bæta nýtingu þeirra. Sérstaklega er áríðandi að þau nýtist að nóttu sem ekki er raunin nú. Markmiðið hlýtur að vera að koma bílum af götu ef kostur er. Margar tillögur skýrslunnar miða að því að draga úr notkun bílastæðahúsa enn frekar svo sem að hætta að gefa afslátt ef lagt er lengi og jafnvel hækka gjaldið sem er ekki ástæða til þegar nýting er svo lítil. Gjaldskrárhækkanir hafa mikinn fælingarmátt. Betra væri að leggja áherslu á að einfalda aðgengi að bílastæðahúsunum og hafa þau aðlaðandi. Hafa þyrfti þjónustu á staðnum sem auðvelt er að sækja ef ökumann vantar aðstoð eða leiðbeiningar. Um það eru reyndar nokkrar tillögur komnar frá Flokki fólksins. Það verður að horfast í augu við að bílum er ekki að fækka heldur fjölga. Almenningssamgöngur eru aðeins kostur fyrir afmarkaðan hóp og eru ástæður fyrir því fjölmargar. Fulltrúa Flokks fólksins hugnast ekki útvistun af þjónustu af þessu tagi. Hætta er á að þjónusta verði enn verri.
Fylgigögn
-
Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 17. nóvember, menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 10. nóvember, skóla- og frístundaráðs frá 13. nóvember, stafræns ráðs frá 8. nóvember, umhverfis- og skipulagsráðs frá 15. nóvember og velferðarráðs frá 15. nóvember. MSS23010061
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 11., 12. og 13. gr. fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 13. nóvember:
Borgarfulltrúi Flokks fólksins er afar ósáttur við hvernig tillögur eru meðhöndlaðar í skóla- og frístundaráði. Ekkert er gætt að hvort þær gagnist skólayfirvöldum, foreldrum eða börnum borgarinnar. Á fundi 13. nóvember sl. var þremur tillögum kastað fyrir róða. Tvær þeirra varða upplýsingagjöf og hafa engan kostnað í för með sér. Sú fyrri er tillaga um að skólayfirvöld boði kennara til fundar til að ræða og kynnast þróunarverkefninu Kveikjum neistann og í kjölfarið verði það skoðað hvort áhugi sé á að innleiða það í einhverja skóla Reykjavíkur t.d. í tilraunaskyni. Tillaga var einnig um að senda bréf til foreldra í samráði við skólasamfélagið vegna aukins hnífaburðar barna og ungmenna líkt og það sem menntasvið Kópavogsbæjar sendi foreldrum. Þriðja tillagan var að strætókort handa nemendum í grunnskólum Reykjavíkurborgar taki mið af bæði lögheimili og búsetuheimili barns og að börn sem sæki skóla í öðru skólahverfi en lögheimili af einhverjum ástæðum eigi einnig rétt á strætókorti. Börn hafa kannski þurft að skipta um skóla vegna eineltis og sækja þá skóla í öðru hverfi. Þessar þrjár tillögur hlutu ekki náð fyrir ráðinu og er það í raun alveg óskiljanlegt.
Fylgigögn
- Fundargerð forsætisnefndar frá 17. nóvember
- Fundargerð menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 10. nóvember
- Fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 13. nóvember
- Fundargerð stafræns ráðs frá 8. nóvember
- Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 15. nóvember
- Fundargerð velferðarráðs frá 15. nóvember
Fundi slitið kl. 17:06
Magnea Gná Jóhannsdóttir Magnús Davíð Norðdahl
PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 21.11.2023 - Prentvæn útgáfa