Borgarstjórn - Borgarstjórn 19.3.2024

Borgarstjórn

Ár 2024, þriðjudaginn 19. mars, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12:07. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Alexandra Briem, Andrea Helgadóttir, Björn Gíslason, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Friðjón R. Friðjónsson, Guðný Maja Riba, Heiða Björg Hilmisdóttir, Helgi Áss Grétarsson, Hildur Björnsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Magnús Davíð Norðdahl, Marta Guðjónsdóttir, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Sabine Leskopf, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Sara Björg Sigurðardóttir, Stefán Pálsson, Unnur Þöll Benediktsdóttir og Þorvaldur Daníelsson.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer umræða um úrbætur á vetrarþjónustu Reykjavíkur. USK22090079

    Borgarfulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Tillögur stýrihóps um úrbætur á vetrarþjónustu hafa skilað miklum árangri en ábendingum vegna vetrarþjónustu hefur fækkað um 70% úr 7.000 í 2.000. Hreinsun húsagatna þegar snjómagn er mikið fer fram á 1-2 dögum í stað 4-5 daga eins og áður. Þjónusta við hjóla- og göngustofnstíga er orðin öflugri sem og hreinsun gatnamóta, strætóskýla og á stofnanalóðum leik- og grunnskóla með aukinni samræmingu og hærri forgangi þessara verkefna. Næsta skref er að skoða tækifæri til að loka hringnum með betri vetrarþjónustu fyrir gangandi og hjólandi byggt á tillögu sem var nýverið samþykkt samhljóða í umhverfis- og skipulagsráði.

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Vetrarþjónusta hefur stórbatnað en auðvitað má alltaf gera betur. Fulltrúi Flokks fólksins sat í stýrihópi um bætta vetrarþjónustu og gekk starf hópsins vel. Áhersla Flokks fólksins var m.a. að tryggja betri þjónustu í húsagötum og bæta viðbragðsflýti. Lögð var áhersla á að reyna að forðast að ryðja snjó og krapa upp á gangstéttir, göngustíga eða fyrir innkeyrslur/innganga híbýla. Ljóst er að betri vetrarþjónusta hefur í för með sér aukinn kostnað. Einn hæsti kostnaðarliðurinn, 50 milljónir, er „eftirlit með vetrarþjónustu“ sem lagt er til að verði stórefld. Ráðnir hafa verið starfsmenn til að sinna eftirlitinu, t.d. fylgjast með verklagi og framgangi og tryggja að þjónustan skili fullnægjandi árangri. Fulltrúi Flokks fólksins styður gott eftirlit enda er það eina leiðin til að sannreyna að framkvæmd og aðferðir séu í samræmi við ákvarðanir. Þó mætti kannski halda að eftir ákveðinn reynslutíma á framkvæmd tillagna vetrarþjónustuhópsins ætti vinnan að ganga eins og smurð vél og samhliða væri hægt að draga úr ströngu eftirliti. En klárt er að þessi mál verða að vera í lagi.

    Fylgigögn

  2. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Borgarstjórn samþykkir að leita samstarfs við að lágmarki fimm grunnskóla í Reykjavík um tilraunaverkefni með svokallaða fimm ára bekki. Markmið tilraunaverkefnisins verði að tryggja aukna tengingu milli leik- og grunnskóla, styðjast við kennsluaðferðir beggja skólastiga og hugsa menntun barna með heildstæðum hætti allt frá unga aldri til loka grunnskólagöngunnar. Fyrirkomulag tilraunaverkefnisins gefi foreldrum kost á að sækja um að skólaganga barna þeirra hefjist við fimm ára aldur í hlutaðeigandi þátttökuskólum, og að henni ljúki á fimmtánda aldursári í stað þess sextánda. Við val á þátttökuskólum verði tekið mið af biðlistum leikskóla og þeir skólar settir í forgang sem staðsettir eru innan hverfa þar sem leikskólavandinn er mestur. Með tilraunaverkefninu megi því samhliða rýma aukinn fjölda leikskólaplássa og bregðast að hluta við biðlistavanda leikskólanna. Tilraunaverkefnið hefjist haustið 2024 og verði endurmetið að ári liðnu. Skóla- og frístundaráð skipi samhliða þriggja manna starfshóp sem fylgi verkefninu eftir og dragi saman niðurstöður eigi síðar en vorið 2025.

    Frestað. MSS24030105

    Fylgigögn

  3. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins:

    Borgarstjórn samþykkir að endurskoða ákvörðun sína frá 7. mars 2023 um að leggja niður Borgarskjalasafn í núverandi mynd og að starfsemi safnsins verði tryggð til framtíðar.

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga borgarfulltrúa Vinstri grænna:

    Borgarstjórn samþykkir að láta ráðast í útreikninga á þeim fjárhagslegu forsendum sem lágu að baki ákvörðun sinni frá 7. mars 2023 um þann sparnað sem kynni að hljótast af niðurlagningu Borgarskjalasafns í ljósi þeirra tillagna sem kynntar hafa verið í samráðsgátt stjórnvalda um breytingu á lögum um opinber skjalasöfn og munu fela í sér verulega hækkun þjónustugjalda til Þjóðskjalasafns. Þegar slík athugun liggur fyrir gætu myndast forsendur til endurmats á ákvörðuninni.

    Breytingartillagan er felld með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn 10 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna. 

    Tillaga Flokks fólksins er felld með með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn 10 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna. ÞON23010028

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Tillaga Flokks fólksins um að endurskoða ákvörðun um niðurlagningu Borgarskjalasafns hefur verið felld. Ástæða niðurlagningar átti að vera sparnaður. Þær forsendur eru brostnar verði frumvarp til laga um breytingu á lögum um opinber skjalasöfn samþykkt. Þá mun þurfa að greiða gjald fyrir sérhvert skjal, móttöku, vörslu og eftirlit. Tilkynning um niðurlagningu safnsins kom sem reiðarslag og vakti reiðiöldu meðal fræðimanna og borgara. Þjónustu- og nýsköpunarsvið réð KPMG til að gera úttektarskýrslu með niðurstöðu sem Flokkur fólksins segir að sé pöntuð. Skýrslan er á köflum bæði ófagleg og ótrúverðug enda liggur fyrir að þessa aðila skortir fagþekkingu á starfsemi héraðsskjalasafna. Sérstaklega er vegið að borgarskjalaverði. Svo virðist sem meirihlutinn sé áfjáður í að losa sig við borgarskjalavörð sem féll í ónáð þegar hún réðst í að gera frumkvæðisathugun í hinu svokallaða braggamáli þar sem fram kom að farið hafði verið á svig við lög. Fleiri hafa bent á tengsl málefna braggans og niðurlagningar Borgarskjalasafns, svosem í pistli Björns Bjarnasonar fyrrum menntamálaráðherra frá 18. febrúar 2023 með yfirskriftinni „Braggi lokar Borgarskjalasafni“. Flutningur gagna safnsins yfir í Þjóðskjalasafn á eftir að verða kostnaðarsamur. Réttast væri að hætta við að leggja niður Borgarskjalasafn og biðja alla þá sem orðið hafa fyrir skaða vegna þeirrar ákvörðunar afsökunar.

    Borgarfulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Ákvörðun um yfirfærslu verkefna Borgarskjalasafns til Þjóðskjalasafns er tekin eftir ítarlega greiningu KPMG og byggir bæði á rekstrarlegum og faglegum sjónarmiðum um skjalavistun. Kom þar til skoðunar fyrirséður kostnaðarauki vegna húsnæðismála, uppbyggingu stafrænna innviða og mannauðs tengt þeim. Þjóðskjalasafn hefur innheimt gjald af þeim sveitarfélögum sem skilað hafa gögnum þangað í stað þess að reka héraðsskjalasöfn. Ekki kemur á óvart að ríkið breyti lögum um opinber skjalasöfn í ljósi þess að fleiri stór héraðsskjalasöfn verði lögð niður. Þannig er eðlilegt að gjaldskrá sé uppfærð en Reykjavíkurborg leggur áherslu á mikilvægi þess að gjaldheimtu sé stillt í hóf. Mikil sóknarfæri eru í stafrænni þróun í skjalavistun hins opinbera og mikilvægt að koma í veg fyrir sóun sem felst í því að byggja upp stafræna innviði á mörgum stöðum hjá hinu opinbera heldur leggja frekar saman krafta sína.

    Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Miðað við hversu illa var staðið að ráðgjöf varðandi niðurlagningu Borgarskjalasafnsins átti aldrei að taka þetta skref. Mat á kostnaði við rekstur þess var einfaldlega rangt og ráðgerður ávinningur því ekki byggður á rökum sem héldu neinu vatni. Það var deginum ljósara að ráðgerður sparnaður hefði aldrei náðst, og sparnaður almennt ólíklega náðst nema með niðurskurði í þeirri mikilvægu starfsemi sem opinbert skjalasafn af þessum toga sinnir og með því að leggja með öllu af menningarlegt hlutverki safnsins. Niðurlagning hefði aldrei átt að vera samþykkt. Sósíalistar kalla eftir áreiðanlegum útreikningum á fyrirsjáanlegum kostnaði við rekstur safnsins gegnum Þjóðskjalasafn og endurskoðun áætlunar um rekstur safnsins í kjölfarið byggðri á niðurstöðu þeirra útreikninga.

    Borgarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Borgarfulltrúi Vinstri grænna lýsir yfir vonbrigðum yfir því að fulltrúar meirihlutaflokkanna hafi ekki treyst sér til að styðja breytingartillögu borgarfulltrúans og sér í lagi í ljósi nýrra upplýsinga, að borgin ráðist í að endurmeta þær fjárhagslegu forsendur sem lágu að baki þess að leggja niður Borgarskjalasafn fyrir ári síðan. Sú niðurlagning var ákveðin í fljótræði og á grunni skýrslu KPMG sem hefur verið gagnrýnd harðlega. Í umræddri skýrslu var staðhæft að gríðarlegur sparnaður hlytist af því að skella í lás á Borgarskjalasafni og henda verkefninu í kjöltuna á Þjóðskjalasafni. Lagafrumvarp sem kynnt hefur verið í samráðsgátt stjórnvalda leiðir í ljós að þær forsendur voru algjörlega óraunhæfar, eins og ítrekað var bent á. Mannsbragur hefði verið á því að skoða málin upp á nýtt í ljósi nýrra upplýsinga.

    -    Kl. 14:10 taka Líf Magneudóttir og Sandra Hlíf Ocares sæti á fundinum og Stefán Pálsson  og Helgi Áss Grétarsson víkja.

    Fylgigögn

  4. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Vinstri grænna:

    Borgarstjórn samþykkir að fela Vinnuskólanum, sem er í yfirstandandi og fyrirhuguðum breytingum, að taka að sér að skapa og skipuleggja sumarstörf fyrir 13-17 ára. Útfærsla þess liggi fyrir sem fyrst svo unnt sé að auglýsa störfin fyrir sumarið 2024.

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Vísað til meðferðar starfshóps um skipulagsbreytingar Vinnuskóla Reykjavíkur MSS24030107

    -    Kl. 14:30 er gert hlé á fundi. 

    -    Kl. 14:50 er fundi framhaldið.

    Fylgigögn

  5. Samþykkt að taka á dagskrá umræðu um rekstur Félagsbústaða.

    -    Kl. 15:00 tekur Dagur B. Eggertsson sæti á fundinum og Sara Björg Sigurðardóttir víkur. 

    -    Kl. 15:27 tekur Kjartan Magnússon sæti á fundinum og Sandra Ocares víkur af fundi.

  6. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:

    Lagt er til að borgarstjórn samþykki að endurskoða rekstrargrundvöll Félagsbústaða þannig að ekki verði gert ráð fyrir því að leigjendur beri aðalábyrgð á fjárhagslegri sjálfbærni þeirra. Reykjavíkurborg verði virkari í að verja leigjendur félagsins, sem eru í viðkvæmri stöðu fyrir, og komi t.a.m. með bein fjárframlög til Félagsbústaða til þess að halda leiguverði stöðugu, eða skoði möguleikann á lengingu í lánum til að lækka greiðslubyrði. Félagsbústöðum í samvinnu við fjármála- og áhættustýringarsvið og velferðarsvið verði falið að útfæra efni tillögunnar. Leitað verði til viðeigandi aðila eftir því sem við á.

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Vísað til meðferðar borgarráðs. MSS24030106

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

    Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Samfélagslegur rekstur sem fær rekstrartekjur að mestu með innheimtu leigu þarf að vera skoðaður útfrá stöðu þeirra sem greiða leiguna. Leigjendum Félagsbústaða eru afar ströng skilyrði sett hvað varðar félagslega og fjárhagslega stöðu og þá þarf að skapa jafn strangan ramma um hversu langt má ganga í hækkun leigu. Viðkvæmir hópar sem lifa við efnislegan skort og teljast í áhættu vegna félagslegrar stöðu þurfa að búa við lágmarks húsnæðis- og afkomuöryggi. Sósíalistar leggja áherslu á það að sá rammi verði ákveðinn og festur í reglur félagsins svo að reksturinn verði tryggður án þess að þurfi að skerða lífskjör viðkvæmustu íbúa borgarinnar umfram það sem þeir þegar búa við.

    Borgarfulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fjárhagsstaða Félagsbústaða er góð þegar litið er til lengri tíma. Þannig námu eignir félagsins í lok árs 2023 tæpum 159 milljörðum króna á sama tíma og skuldir námu tæpum 63 milljörðum. Skuldahlutfallið er því einungis um 39,1%. Tímabundnum vanda, sem fram kemur í ársreikningi vegna ársins 2023 og felur í sér að 400 milljónir vantar upp á til þess að veltufé frá rekstri dugi fyrir afborgunum langtímaskulda, er nauðsynlegt að mæta af festu og ábyrgð þannig að tryggja megi sjálfbærni í rekstri Félagsbústaða til lengri tíma samhliða því sem hlúð er að félagslegu hlutverki Félagsbústaða og efnaminni einstaklingum tryggt áframhaldandi húsnæðisöryggi í formi viðráðanlegs leiguverðs. Tillögur til úrbóta eru væntanlegar frá starfshópi sem skipaður var á síðasta ári af hálfu borgarstjóra. Við val á endanlegri tillögu er mikilvægt að leggja til grundvallar sjálfbærni í rekstri Félagsbústaða á sama tíma og ekki er vegið að hagsmunum leigjenda.

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Flokkur fólksins telur sjálfsagt að endurskoða rekstrargrundvöll Félagsbústaða. Það getur ekki gengið að fátækasta fólkið í borginni eigi að bera aðalábyrgð á fjárhagslegri sjálfbærni Félagsbústaða. Í stefnu Félagsbústaða er gert ráð fyrir fjárhagslegri sjálfbærni, m.ö.o. á fyrirtækið að standa undir sér. Nýlega hefur verið samþykkt að halda hækkunum á gjaldskrám innan við 3,5% og sérstaklega á að horfa til barnafjölskyldna. Barnafjölskyldur sem leigja hjá Félagsbústöðum eru verst settu fjölskyldurnar og þess vegna er hækkun leigu í mótsögn við loforð Reykjavíkurborgar um að halda gjaldskrárhækkunum í skefjum. Í nýlegri könnun um biðlista og leigjendur Félagsbústaða má sjá að stærsti hlutinn eru öryrkjar eða óvinnufærir einstaklingar sem einfaldlega eiga ekki þetta fjármagn. Með hækkandi leigu munu fleiri lenda í vanskilum og mál þeirra send í lögfræðiinnheimtu sem eykur jafnvel kostnaðinn enn frekar. Annað þarf að koma til, s.s. að Reykjavíkurborg komi með bein framlög til Félagsbústaða til þess að halda leiguverði stöðugu. Það er einfaldari aðgerð en að hanna bótakerfi fyrir þennan stóra leigjendahóp sem fyrirfram er vitað að ræður ekki við þessar miklu hækkanir. Það er líka sjálfsagt að fjármála- og áhættustýringarsvið skoði möguleikann á lengingu í lánum til að lækka greiðslubyrði.

    Fylgigögn

  7. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Lagt er til að borgarstjórn samþykki að fela umhverfis- og skipulagssviði að hefja vinnu við endurskoðun á Aðalskipulagi Reykjavíkur með það að markmiði að skipuleggja blandaða byggð í Geldinganesi með áherslu á íbúðauppbyggingu. Við endurskoðunina skal hafa til hliðsjónar þær skipulagshugmyndir sem áður hafa komið fram í hugmyndasamkeppni um svæðið. Umhverfis- og skipulagssviði verði jafnframt falið að hefja aðra þá vinnu sem nauðsynleg er til að gera það mögulegt að úthluta lóðum sem fyrst fyrir fjölbreytta fjölskylduvæna byggð í Geldinganesi á viðráðanlegu verði.

    -    Kl. 17:40 víkur Alexandra Briem af fundinum og Kristinn Jón Ólafsson tekur þar sæti. 

    Tillagan er felld með 14 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna gegn sjö atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins.

    Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS22100020

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Með því að fella tillöguna sýnir meirihlutinn þröngsýni, skammsýni og viljaleysi til að leysa húsnæðisvandann. Það er brýnt að við breytum um stefnu í skipulagsmálum og hverfum frá þeirri ofþéttingarstefnu sem orsakað hefur húsnæðis- og lóðaskortinn í borginni. Sú stefna hefur miðað að því að nær öll uppbygging sé miðsvæðis á dýrum þéttingarreitum og hefur farið hratt út í verðlagið á kaupum og leigu húsnæðis. Geldinganesið er í eigu Reykjavíkurborgar og getur borgin úthlutað þar lóðum á hagstæðu verði. Það er nauðsynlegt að hraða uppbyggingu þar til að leysa þann húsnæðisvanda sem fyrirséður er og mun aukast á næstu misserum. Nauðsynlegt er að fara í gagngera endurskoðun á aðalskipulaginu svo hægt verði að úthluta lóðum í landi í eigu Reykjavíkurborgar á hagkvæmu verði. Mikilvægt er að endurskoðun aðalskipulags verði sett í algjöra flýtimeðferð svo hægt verði að skipuleggja byggð í Geldinganesi og úthluta þar lóðum fyrir fjölmenna fjölskylduvæna byggð sem fyrst.

    Borgarfulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Meirihlutinn leggur áherslu á að auka framboð íbúða í borginni innan Aðalskipulags Reykjavíkur til 2040 en nú þegar eru yfir 3.000 íbúðir í byggingu. Í forgangi eru ný hverfi nálægt uppbyggingu Borgarlínu í hverfum eins og Ártúnshöfða, Vogahverfi og Hlíðarenda. Einnig við Suðurlandsbraut, Laugaveg, Kirkjusand og Snorrabraut auk þéttingar í úthverfum eins og Úlfarsárdal og Grafarvogi. Framundan er síðan skipulagsferli þúsunda íbúða í Keldnalandi. Geldinganes er frábært útivistarsvæði Reykvíkinga sem þarf að hlúa að. Ljóst er að þar til Sundabraut er tilbúin eru forsendur fyrir íbúðabyggð þar engar. Ekki er tímabært að taka ákvörðun um að breyta aðalskipulagi á Geldinganesi enda ekki skipulagslegar forsendur sem styðja við þá ákvörðun. Þá er klárt að uppbygging á Geldinganesi yrði afar kostnaðarsöm í samanburði við uppbyggingu á öðrum stöðum þar sem fyrir eru innviðir.

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins styður þessa tillögu. Ekki er seinna vænna að hefjast handa við skipulagningu framtíðaríbúðasvæðis í Geldinganesi, með hliðsjón af skipulagsvinnu Sundabrautar. Öll uppbygging hefur gengið hægt. Kerfið er svifaseint og hafa fjölmargir verktakar farið annað. Rafrænir ferlar eru ekki tiltækir að fullu þegar sótt er um byggingarleyfi. Núverandi meirihluti er pikkfastur í þéttingu byggðar. Aðrir kostir eru vart ræddir. Flokkur fólksins styður þéttingu byggðar upp að skynsamlegu marki en ekki þegar hún er farin að taka á sig mynd trúarlegrar sannfæringar. Það dugar skammt að karpa um hvort byggt sé mikið eða lítið. Vandinn er að það er ekki byggt nóg. Það er skortur á hagkvæmum íbúðum fyrir fyrstu kaupendur, fyrir efnaminna fólk og fyrir venjulegt fólk. Flokkur fólksins vill þétta byggð þar sem innviðir þola þéttingu og brjóta nýtt land undir byggð fyrir hagkvæmar íbúðir t.d. í suðurhlíðum Úlfarsfells og svæðinu austur af Úlfarsárdal. Kjalarnes kemst í alfaraleið með Sundabraut sem og Geldinganes.

    Fylgigögn

  8. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 7. og 14. mars.

    10. liður fundargerðarinnar frá 7. mars, ráðningarsamningur borgarstjóra, er samþykktur með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn tveimur atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Flokks fólksins og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

    24. liður fundargerðarinnar frá 7. mars, umboð til borgarráðs vegna forsetakosninga 2024, er samþykktur.

    25. liður fundargerðarinnar frá 7. mars, þóknanir kjörstjórna vegna forsetakosninga 2024, er samþykktur.

    26. liður fundargerðarinnar frá 7. mars, kjörstaðir vegna forsetakosninga 2024, er samþykktur.

    11. liður fundargerðarinnar frá 14. mars, framhald tilraunaverkefnisins fyrr í frístund, er samþykktur með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn þremur atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna.

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS24010001

    Borgarfulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun undir 11. lið fundargerðarinnar frá 14. mars: 

    Fulltrúar meirihlutans telja mikilvægt að halda áfram með verkefnið Fyrr í frístund og ekki tefja það enn frekar. Helsta gagnrýni sem verkefnið hefur fengið er stuttur fyrirvari á að hrinda verkefninu í framkvæmd svo að vel takist til. Það er umfangsmikið og mikilvægt að stíga hvert skref vandlega. Kannanir meðal bæði foreldra og starfsfólks sýna að meirihluti þeirra telur að skólabyrjun barna sem taka þátt í þessu verkefni sé mun auðveldari. Það er ávinningur fyrir þau að eiga kost á að kynnast skólarýminu, aðstæðum og hverju öðru áður en formlegt skólastarf hefst. Það er einnig ávinningur að fá meira svigrúm til að innrita börn í leikskóla fyrr en mikilvægt er að hafa í huga að verkefnið er viðamikið og þarf að gefa tíma til að festa það í sessi næstu ár.

    Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun undir 10. lið fundargerðarinnar frá 7. mars og 11. lið fundargerðarinnar frá 14. mars: 

    10. liður fundargerðarinnar frá 7. mars: Hér er lagður fram ráðningarsamningur borgarstjórnar Reykjavíkur við borgarstjóra. Þar kemur fram að laun borgarstjóra skulu vera kr. 2.477.850,- á mánuði miðað við 16. janúar 2024 og taka breytingum í samræmi við launavísitölu. Hér er ekki fjallað um greiðslu sem borgarstjóri fær vegna stjórnarformennsku í Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu, sem er samkvæmt nýjustu upplýsingum kr. 229.151. Fulltrúi Sósíalista telur um há laun að ræða og getur ekki samþykkt þessa tillögu sem felur í sér mun hærri laun en þau sem eru greidd fyrir aðrar ábyrgðarstöður innan borgarinnar, líkt og í vinnu með börnum. 11. liður fundargerðarinnar frá 14. mars: Fulltrúi Sósíalista telur að vinna þurfi launastefnu þar sem sett er fram viðmið um hvað teljist eðlilegur munur á milli hæstu og lægstu launa innan borgarinnar. Fulltrúi Sósíalista getur ekki stutt tillögu um tilraunaverkefnið fyrr í frístund eins og hún er sett fram þar sem enn á eftir að útfæra hana betur. Tekið er undir umsögn framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva skóla- og frístundasviðs sem barst í mars 2023 og athugasemdir frístundaheimila sem tóku þátt í tilraunaverkefninu. Ekki verður séð að tekið hafi verið tillit til þeirra athugasemda. Aðstæður eru ólíkar milli frístundaheimila og biðlistar og mönnunarvandi viðvarandi. Ekki verður séð hvernig á að bæta við börnum án þess að útkljá þann vanda fyrst. Starfsfólk sem vinnur bæði í frístund og skóla á veturna er í fullu starfi í sumarfrístund og starfsfólk sem starfar einungis í skóla mætir til starfa eftir sumarleyfi um leið og kennarar, til að undirbúa skólastarfið. Það starfsfólk hefur sjaldan reynslu af starfi í frístund, sem er gjörólíkt starfi stuðningsfulltrúa og skólaliða í grunnskólum. Ekki er hægt að gera ráð fyrir að fólk vilji skipta um starfsvettvang. Hugmyndin að baki verkefninu er góð en ef það á að takast þá þarf nauðsynlega að taka tillit til athugasemda þeirra sem þekkja til og hafa reynslu af starfi frístundaheimila. Fyrirvarinn þarf að vera góður og undirbúningur og skráning að byrja mun fyrr.

    Borgarfulltrúi Flokks flokksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 21. og 22. lið fundargerðarinnar frá 14. mars:

    Þjónustu- og nýsköpunarsvið sækir um heimild til að hefja verkefnið gagnaverkefni framtíðar og verkefnið uppbygging gagnalandslags. Þjónustu- og nýsköpunarsvið hefur yfirleitt fengið það fjármagn sem það óskar eftir þrátt fyrir ónógar upplýsingar varðandi verkáætlanir og eftirfylgni árangurs. Nú hefur Microsoft innleiðing borgarinnar kostað hátt í milljarð með öllu. Inni í þeim leyfa pakka eru öll Power BI gagnavinnslutól Microsoft. Ríkið hefur verið að nota þessi tól með góðum árangri í nokkur ár og eru grunntól Fjársýslunnar og fleiri stofnana. Af hverju er borgin að leita að öðrum tólum en þeim sem hún er nú þegar að greiða leyfi fyrir og flestir nota? Fyrir 415 milljónir væri hægt að byggja litla blokk. Skortur hefur verið á eftirfylgni og nútíma árangursstjórnun. Forvitnilegt væri að vita hvað hefur áunnist í gagnamálum borgarinnar frá því að skýrsla starfshóps um gagnastefnu og fyrirkomulag gagnamála var lögð fram í ágúst 2017 af forvera þjónustu- og nýsköpunarsviðs. Það virðist vera að stundum sé sviðið að óska eftir fjármagni í verkefni sem sótt hefur verið um áður. Fyrsta skrefið í bættu gagnalandslagi hlýtur því að vera yfirlit og eftirfylgni yfir öll þau verkefni sem þjónustu- og nýsköpunarsvið hefur óskað eftir fjármagni í undanfarin ár. 

    Borgarfulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Fulltrúar meirihlutans vísa þessari gagnrýni alfarið á bug. Öllum fyrirspurnum um stöðu verkefna, nýtingu fjármuna og framvindu hefur verið svarað, ítrekað. Farið hefur verið yfir framvindu stafrænnar umbreytingar margoft, bæði í borgarstjórn, borgarráði og á fundum stafræns ráðs og áður mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs. Aldrei hefur reynst steinn yfir steini í þessum síítrekuðu dylgjum fulltrúa Flokks fólksins. Eins eru gögn um ársreikninga og ársskýrslur þjónustu- og nýsköpunarsviðs aðgengilegar. Það er óboðlegt að vegið sé að fagmennsku og starfsheiðri þeirra sem fást til að starfa við stafræna þjónustuumbreytingu hjá borginni og er þeim borgarfulltrúum sem tekið hafa þátt í þessum linnulausa rógburði ekki til sóma.

    Fylgigögn

  9. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 15. mars, mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 14. mars, menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 8. mars, skóla- og frístundaráðs frá 11. mars, stafræns ráðs frá 13. mars, umhverfis- og skipulagsráðs frá 6. og 13. mars og velferðarráðs frá 31. janúar, 7. febrúar og 6., 8. og 13. mars. MSS24010034

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 11. mars og 25. lið fundargerðar stafræns ráðs frá 13. mars:

    3. liður fundargerðar skóla- og frístundaráðs: Flokkur fólksins lagði til að Reykjavíkurborg semdi við Hljóðbókasafnið fyrir hönd allra skólanna í Reykjavík svo það opnist aðgengi fyrir alla nemendur en ekki bara þá sem hafa fengið greiningu. Tillögunni var vísað til skóla- og frístundaráðs þar sem á henni var gerð breyting og þar með var tillagan orðin tillaga meirihlutans. Hvergi kemur fram í hinni breyttu tillögu að hún hafi átt uppruna sinn í Flokki fólksins. Þetta er gagnrýnivert. 25. liður fundagerðar stafræns ráðs: Flokki fólksins finnst ályktunartillaga meirihlutans afar veikburða en þar kemur fram gagnrýni á Flokk fólksins vegna þess að flokkurinn leggur fram margar fyrirspurnir til þjónustu- og nýsköpunarsviðs. Þetta eru einmitt fyrirspurnir sem stafrænt ráð ætti að vera að leggja fram til að sinna hlutverki sínu. Stafrænt ráð á ekki að vera eins og gamaldags stimpilsskrifstofa sem stimplar áfram gagnrýnislaust alla pappíra sem frá þjónustu- og nýsköpunarsviði koma. Um svörin er það að segja að þau eru stuttaraleg og innihaldslaus. Of oft er sagt að upplýsingar liggi ekki fyrir. Er ekki vandinn einfaldlega sá að gagnavinnsla borgarinnar er ekki langt á veg komin þrátt fyrir alla þá milljarða sem sviðið er búið að fá undanfarin ár?

    Fylgigögn

  10. Hafnað með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn 10 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins að taka á dagskrá tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um tafarlausa afléttingu trúnaðar á skýrslu innri endurskoðunar um samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur, stjórnarhætti og miðlun upplýsinga.

    Borgarfulltrúi Vinstri grænna situr hjá við afgreiðslu málsins. 

    -    Kl. 18:40 víkur Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir af fundinum. 

Fundi slitið kl. 18:49

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Líf Magneudóttir

Magnús Davíð Norðdahl

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarráð 19.3.2024 - Prentvæn útgáfa