Borgarstjórn - Borgarstjórn 16.5.2023

Borgarstjórn

Ár 2023, þriðjudaginn 16. maí, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12:06. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Magnea Gná Jóhannsdóttir, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Alexandra Briem, Árelía Eydís Guðmundsdóttir, Björn Gíslason, Einar Þorsteinsson, Heiða Björg Hilmisdóttir, Helgi Áss Grétarsson, Hjálmar Sveinsson, Kjartan Magnússon, Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, Kristinn Jón Ólafsson, Líf Magneudóttir, Magnús Davíð Norðdahl, Marta Guðjónsdóttir, Pawel Bartoszek, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Sabine Leskopf, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Skúli Helgason, Trausti Breiðfjörð Magnússon og Þorkell Sigurlaugsson.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

 1. Fram fer umræða um græna stíginn. MSS23050094

  Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Græni stígurinn er metnaðarfull hugmynd úr svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins sem gengur út á að tengja saman útivistarsvæðin í græna treflinum með samfelldum göngu- og hjólastíg, sem yrði raunveruleg samgönguæð fyrir hjólafólk, örugg og þægileg yfirferðar. Markmiðin með honum eru að auka útivist, bæta lýðheilsu og bæta samgöngur fyrir gangandi og hjólandi auk þess að festa græna trefilinn í sessi. Á vettvangi svæðisskipulagsnefndar höfuðborgarsvæðisins hefur verið ráðist í vinnu við frumgreiningu á legu stígsins og fleiri álitaefnum honum tengdum. Stefnt er að því að ljúka þeirri vinnu um mánaðamótin og verða niðurstöðurnar í kjölfarið sendar til sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Verði ákveðið að ráðast í verkefnið er unnt að áfangaskipta því, t.d. með því að merkja fyrst þær leiðir sem færar eru í dag og bæta malbikuðum stígum í áföngum þar sem það á við. Huga þarf að vatnsvernd og náttúruvernd og halda árekstrum við reiðleiðir í lágmarki. Þetta eru spennandi áform sem fróðlegt verður að sjá þróast áfram á næstu misserum.

  Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins styðja og fagna áformum um að efla útivistarsvæði en náttúruvernd og græn svæði í Reykjavík hafa átt undir högg að sækja undanfarin ár. Því er mikilvægt að styðja við og standa vörð um þau svæði sem eftir eru og bæta þjónustu við þau eins og með uppbyggingu stígakerfis. Þó þarf jafnframt að gæta þess að hönnun stígsins falli vel að umhverfi sínu hverju sinni. Í því skyni taka borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sérstaklega undir mikilvægi þess að huga að vatnsvernd og að skörun við reiðleiðir verði haldið í algjöru lágmarki.

  Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Sósíalistar vilja að tryggt sé að allir íbúar Reykjavíkur hafi aðgang að grænum og náttúrulegum svæðum, bæði nú og í framtíðinni. Náttúran er eitt af fáu sem við nútímamanneskjur getum notið án þess að þurfa að borga aðgangseyri. Hún stuðlar að bættri heilsu og vellíðan þeirra sem fá hennar notið í ríkum mæli. Í ljósi þess að lífslíkur láglaunafólks, og þá sérstaklega kvenna, hafa verið að lækka viðvarandi síðan árið 2014 er bráðnauðsynlegt að tryggja öllum almenningi góðan aðgang að slíkum svæðum og náttúru í höfuðborginni. Græni stígurinn og græni trefillinn eru ágæt samvinnuverkefni á vettvangi sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu sem ættu að stuðla að þessu. Sósíalistar styðja það að búið verði sem best um þau svæði og þau tryggð til framtíðar svo þau geti nýst sem flestum sem best, en einnig þarf að tryggja að græn svæði séu í göngufjarlægð í öllum hverfum borgarinnar, með sérstakri áherslu á þau þéttbýlustu.

  Fylgigögn

 2. Fram fer umræða um skýrslu innviðaráðuneytisins: Nýi Skerjafjörður – áhrif byggðar og framkvæmda á flug- og rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar. Umræður um 2. og 3. mál fara fram saman. USK23040041

  Samþykkt með 14 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins að umræðu um dagskrárliðina verði lokið eftir tvo klukkutíma með vísan til 2. mgr. 25. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar.
  Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

  -    Kl. 16:15 víkur Aðalsteinn Haukur Sverrisson af fundinum og Þorvaldur Daníelsson tekur þar sæti. 

  Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

  Í lokaorðum nýútkominnar skýrslu innviðaráðuneytisins um áhrif fyrirhugaðrar byggðar og framkvæmda í Skerjafirði á flug- og rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar segir: „Starfshópnum var falið að vinna flugfræðilega rannsókn á fyrirhugaðri byggð í Skerjafirði auk áhrifa hennar og tilheyrandi framkvæmda á flug- og rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar. Nauðsynlegt hefði verið að vinna ítarlega rannsókn á aðstæðum og notkun á Reykjavíkurflugvelli til þess að uppfylla beiðni um flugfræðilega rannsókn. Að teknu tilliti til þess tímaramma sem til vinnunnar var ætlaður er hins vegar ljóst að rannsóknin var að mestu takmörkuð við rýni á fyrirliggjandi gögnum.“ Í skýrslunni má einnig finna ábendingar um margvíslegar ítarlegar rannsóknir sem fram þyrftu að fara til að fá gleggri mynd af áhrifum viðbótarbyggðar á flug- og rekstraröryggi vallarins. Auk þess er getið um ýmsa þætti sem ekkert hafa verið rannsakaðir, eða sem rannsaka þyrfti betur. Það er því ljóst að frekari rannsókna er þörf og skýrslan því ekki tæmandi. Stjórnmálamönnum sem taka ákvarðanir á grundvelli skýrslna á borð við þá sem hér um ræðir ber að túlka slíka heimild af heilindum og láta öryggissjónarmið njóta vafans. Umræða um þetta mál hefur því miður sýnt að hvorki borgarstjóri né formaður borgarráðs hafa í hyggju að túlka skýrsluna af slíkum heilindum.

  Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Það er ánægjulegt að skýrsla starfshóps innviðaráðherra og allra hagaðila skuli leiða til þeirrar niðurstöðu að uppbygging geti hafist í Nýja Skerjafirði að teknu tilliti til mótvægisaðgerða vegna áhrifa byggðarinnar á vindafar. Reykjavíkurborg, Isavia og Innviðaráðuneytið skila sameiginlegri tilkynningu um niðurstöðuna og hafist verður handa við að færa flugvallargirðingu og jarðvegsskipti á svæðinu. Ástæðulaust er að samþykkja tillögu Sjálfstæðisflokks um að Reykjavíkurborg leggist í sérstaka rannsókn á vindamælingum Veðurstofunnar við Hlíðarenda. Innviðaráðuneytið hefur þegar falið Isavia og Veðurstofunni að vinna úr þeim gögnum sem vísað er til og því er tillögunni vísað frá.

  Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Það er mat sérfræðingahóps sem fenginn var til að meta áhrif byggðar á flug- og rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar að byggðin muni að óbreyttu þrengja að og skerða nothæfi Reykjavíkurflugvallar vegna breytinga á vindafari. Fram kemur að frekari rannsókna er þörf. Mótvægisaðgerðir liggja á borðinu, þær eru margar og sumar umfangsmiklar. Lækka þarf hús og staura og gera fleiri breytingar til að gefa flugvellinum nægjanlegt rými svo hann sé nothæfur. Sníða þarf hverfið með sérstökum hætti í kringum flugvöllinn. Til að velja myndlíkingu verður hverfið með eins konar kyrkingaról svo það ógni ekki flugöryggi. Þetta er erfitt mál vegna þess að það mun kannski ekki finnast staður fyrir flugvöllinn sem er jafngóður eða betri og Vatnsmýrin. Væri Landspítalinn ekki þarna og þau rök sem lúta að sjúkraflugi þar sem hver mínúta skiptir máli væru færri rök almennt séð fyrir að flugvöllurinn ætti yfir höfuð að vera í miðri borg. Á meðan staðan er svona snúin hefði átt að hinkra með þessa vegferð að nýjum Skerjafirði. Bæði flugvöllurinn og hverfið líða fyrir þessar þröngu stöðu. Nú er verið að finna einhverjar málamiðlanaleiðir, finna leiðir til að flugvöllur og þétt byggð geti lifað saman í sátt og samlyndi. 

  Fylgigögn

 3. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

  Lagt er til að farið verði í ítarlegri rannsóknir á áhrifum nýrrar byggðar í Skerjafirði á flug- og rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar sbr. niðurstöður nýútkominnar skýrslu um það málefni sem ber heitið Nýi Skerjafjörður – áhrif byggðar og framkvæmda á flug- og rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar. Skýrslan kveður á um ábendingar um margvíslegar ítarlegar rannsóknir sem fram þyrftu að fara til að fá gleggri mynd af áhrifum viðbótarbyggðar á flug- og rekstraröryggi vallarins. Í lokaorðum skýrslunnar staðhæfa skýrsluhöfundar að þeim hafi ekki gefist tími til að vinna annað meginverkefni sitt, að gera flugfræðilega rannsókn og því nauðsynlegt að slík rannsókn verði unnin á fullnægjandi hátt.

  Greinargerð fylgir tillögunni. USK23040041

  Umræða um tillöguna fer fram samhliða umræðu um 2. mál á dagskrá fundarins. 

  Samþykkt með fjórtán atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins að umræðu um dagskrárliðina verði lokið eftir tvo klukkutíma með vísan til 2. mgr. 25. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar. Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

  Tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins er vísað frá með fjórtán atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna gegn sjö atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins.
  Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins. Fram fer nafnakall. 

  Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Meðal þess sem fram kemur í skýrslu sérfræðingahópsins sem fenginn var til að meta áhrif byggðar á flug- og rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar að frekari rannsókna væri þörf. Orðrétt segir í skýrslunni: „Ekki er hægt að fullyrða, án frekari rannsókna, að byggðin hafi slík áhrif á aðstæður fyrir flug á Reykjavíkurflugvelli að þörf sé á að hætta við byggingarhugmyndir í nýja Skerjafirði.“ Það ætti að vera sjálfsagt að fylgja öllum ábendingum og hvatningu um rannsóknir sem fram koma í skýrslunni. Skýrsluhöfundar geta í raun ekkert fullyrt af eða á í þessum efnum og gætt er að tala ekki of skýrt þótt skýrt sé sagt að byggð „hafi áhrif á flug- og rekstraröryggi, að óbreyttu.“ Þetta er spurning um orðalag og allt er þetta túlkunaratriði. Á að rannsaka hvort byggð hafi slík áhrif að ekki sé þörf á að hætta við byggð eða rannsaka hvort byggð hafi slík áhrif að þörf sé á hætta við byggð? Auðvitað vill enginn taka á þessu mikla ábyrgð. Hvað sem þessu líður þá eru til ýmis rannsóknargögn sem ekki hefur verið unnið úr sem vert væri að skoða nánar hvort sem þau styðja að flugvellinum standi mikil eða lítil ógn af umræddri byggð.

  Fylgigögn

 4. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Vinstri grænna:

  Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir, með vísun til margvíslegra umhverfisverndarstefna borgarinnar, aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum og stöðu höfuðborgarinnar sem ferðamannastaðar, að beina því til stjórnar Faxaflóahafna að endurskoða samning hafnarinnar við fyrirtækið Hval hf. um hafnaraðstöðu fyrir hvalveiðiskip félagsins, segja honum upp eða sjá til þess að hvalveiðiskipunum verði fundinn annar staður en í miðri gömlu höfninni í Reykjavík sem er miðstöð ferðamennsku og hvalaskoðunar. MSS23050095

  Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar:

  Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir, með vísun til margvíslegra umhverfisverndarstefna borgarinnar, aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum og stöðu höfuðborgarinnar sem ferðamannastaðar, að beina því til stjórnar Faxaflóahafna að skoða hvort hægt verði að finna annan stað fyrir hvalveiðiskip fyrirtækisins Hvals hf. en í miðri gömlu höfninni í Reykjavík sem er miðstöð ferðamennsku og hvalaskoðunar. 

  Breytingartillagan er samþykkt. 
  Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 
  Tillagan er samþykkt svo breytt.
  Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

  Borgarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:

  Reykjavíkurhöfn vex fiskur um hrygg sem vinsæll viðkomustaður ferðafólks, iðandi af lífi og með fjölbreyttu úrvali af haftengdri afþreyingu. Það er því löngu orðið tímabært að finna hvalveiðiskipunum annan viðlegukant en í gömlu höfninni, þar sem þau taka pláss frá vaxandi atvinnustarfsemi í m.a. ferðamennsku. Ekkert er því til fyrirstöðu að finna þeim annan stað en í hjarta Reykjavíkur og jafnvel gætu þau farið aftur í höfn eiganda síns í Hvalfirði. Það er ánægjulegt að borgarstjórn hafi tekið undir tillögu Vinstri grænna og að ríkur vilji sé til þess að finna hvalveiðiskipunum annan stað þar til þau verða að lokum óþörf enda eru hvalveiðar ómannúðleg tímaskekkja og þær ber að banna með öllu.

  Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Í ljósi þess sem hefur komið fram um starfsemi Hvals hf. telja fulltrúar Sósíalista mikilvægt að brugðist sé við. Matvælastofnun (MAST) hefur tekið saman skýrslu vegna eftirlits við veiðar á langreyðum við Ísland árið 2022. Þar kemur fram að veiðar á stórhvelum samræmist ekki markmiðum laga um velferð dýra. Í ljósi þess finnst Sósíalistum eðlilegt að samningi Faxaflóahafnarinnar við fyrirtækið Hval hf. um hafnaraðstöðu fyrir hvalveiðiskip félagsins verði sagt upp. Þannig séu send skýr skilaboð um að slík starfsemi sé ekki velkomin innan okkar borgarmarka. Tillaga Vinstri grænna felur í sér að beina því til stjórnar Faxaflóahafna að endurskoða samning hafnarinnar við fyrirtækið Hval hf. um hafnaraðstöðu fyrir hvalveiðiskip félagsins. Honum verði þannig sagt upp eða séð til þess að hvalveiðiskipunum verði fundinn annar staður en í miðri gömlu höfninni í Reykjavík sem er miðstöð ferðamennsku og hvalaskoðunar. Fulltrúar Sósíalista telja að segja eigi upp samningnum í stað þess að finna honum annan stað. Í framlagðri breytingartillögu meirihlutans er einungis lagt til að hvalveiðiskipunum verði fundinn annar staður. Sósíalistar hefðu viljað ganga lengra og telja mikilvægt að bregðast við því þegar fyrirtæki sem nýtur aðstöðu innan borgarinnar gerist uppvíst að brotum og fylgir ekki markmiðum laga. 

  Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Borgarfulltrúi Flokks fólksins tók þessari tillögu Vinstri grænna um að segja upp samning Hvals hf. um hafnaraðstöðu fyrir hvalveiðiskip félagsins í Reykjavík sem lið í að gera Hvali hf. erfitt fyrir að veiða hval. En í raun er tilgangurinn að vernda ferðamenn sem heimsækja höfnina og sem, margir hverjir, fordæma þessar veiðar. Borgarfulltrúi Flokks fólksins skilur vel tilfinninguna að baki tillögunni en hefur ekki svo miklar áhyggjur af ferðamönnunum heldur frekar hvölunum sem lenda í netum Hvals hf. í ljósi umræðu um hvernig veiðum kann að vera háttað. Á meðan hvalveiðiskip liggja í Reykjavíkurhöfn eru þau alla vega ekki á veiðum og ef höfninni verður lokað fyrir hvalveiðiskip Hvals þá færi Hvalur annað með skipin, t.d. í Hvalfjörðinn og hvalveiðar halda áfram. Ferðamenn eru auk þess út um allt, líka í Hvalfirði en vissulega í minna mæli. Ef við viljum hindra hvalveiðar er kannski best að þessi skip verði bundin sem rækilegast við bryggju um aldur og ævi. Ef tillagan er samþykkt er hér vissulega um skýra yfirlýsingu að ræða og mun Flokkur fólksins því styðja þessa tillögu.

  Fylgigögn

 5. Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi tillögu:

  Lagt er til að borgarstjórn samþykki að Reykjavíkurborg tryggi gjaldfrjálsan strætó á þeim leiðum sem ganga innan borgarinnar á kjördag. Þetta á við þá daga þegar alþingis-, forseta- og borgarstjórnarkosningar eiga sér stað. Einnig gildi þetta ef þjóðaratkvæðagreiðsla á sér stað. Þau sem greiða atkvæði utan kjörfundar skuli einnig eiga rétt á gjaldfrjálsum strætó á kjörstað. Reykjavíkurborg kynni fyrir íbúum með góðum fyrirvara þær leiðir sem verða gjaldfrjálsar.

  Greinargerð fylgir tillögunni. MSS23050096
  Umræður um 5., 6. og 7. mál fara fram saman. 
  Tillagan er felld með þrettán atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn fjórum atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

  Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:

  Mikilvægt er að tryggja að gjaldtaka standi ekki í vegi fyrir því að almenningssamgöngur séu nýttar á kjördag. Með því að hafa ókeypis í strætó og akstursþjónustu er tryggt að öll þau sem noti strætó og akstursþjónustu komist á kjörstað án þess að þurfa að greiða fyrir. Það þarf að taka hindranir út sem koma í veg fyrir að fólk komist á kjörstað. Um stjórnarskrárvarinn rétt er að ræða og borgin ætti að gera allt sem í hennar valdi stendur til að tryggja hann. Í tillögunum var lagt til að Reykjavík tryggði gjaldfrjálsan Strætó innan sinna marka á kjördag. Borgin getur fyrir sitt leyti samþykkt slíkt, eins og gert var um síðustu áramót þegar næturstrætó var settur á laggirnar. Fyrir það mun Reykjavíkurborg greiða 51 milljón króna. Kostnaður vegna tillögu Sósíalista væri mun lægri en vegna næturstrætó. Samfélagslegi ávinningurinn er þar fyrir utan mjög mikill. Ef kjörnir fulltrúar trúa á lýðræðið mun samfélagið í heild sinni græða á því að allir þjóðfélagshópar komist að kjörstað. Auk þess voru tvær aðrar tillögur lagðar fram. Önnur snerist um að borgarstjórn beindi því til stjórnar Strætó að tryggja gjaldfrjálsar samgöngur um allt höfuðborgarsvæðið. Sú þriðja að akstursþjónusta fatlaðs fólks yrði gjaldfrjáls á kjördag.

  Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Reykjavíkurborg hefur lagt mikla áherslu á að bæta aðgengi íbúa að kjörstað. Það hefur verið gert með því að fjölga kjörstöðum til að tryggja að þar sem því verði við komið séu borgarbúar í góðu göngufæri við kjörstað og ættu helst ekki að þurfa á bíl eða strætisvagni að halda til að nýta atkvæðisréttinn.

  Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst sjálfsagt að samþykkja tillögu um að frítt verði í strætó í Reykjavík á kjördag. Skoða mætti fleiri daga þar sem frítt yrði í strætó. Fargjald strætó er of hátt og hefur vegna þess heilmikinn fælingarmátt. Strætó hefur ekki beinlínis tekist að laða að nýjan farþegahóp og þetta gæti verið liður í kynningarátaki Strætó bs.

  Borgarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Tillögur Sósíalistaflokksins eru frábærar og geta orðið til þess að auka kosningaþátttöku og jafna aðstöðumun fólks til að taka þátt í lýðræðissamfélagi. Reykjavíkurborg hefur nú þegar gefið frítt í Strætó á stórviðburðum, t.d. á Menningarnótt, og stjórnvöldum er í lófa lagið að ráðast í að bjóða frítt í strætó á kjördag og leggja sitt af mörkum í að efla lýðræðið og kynna kjósendur fyrir dásemdum hagkvæmra almenningssamgangna. Það er dapurlegt að meirihluti borgarstjórnar hafi ekki þessa sýn og felli þessar góðu og mikilvægu samfélagstillögur.

  Fylgigögn

 6. Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi tillögu:

  Lagt er til að borgarstjórn samþykki að beina því til stjórnar Strætó að samþykkja gjaldfrjálsan Strætó á kjördag. Þetta á við þá daga þegar alþingis-, forseta- og sveitastjórnarkosningar eiga sér stað. Einnig gildi þetta ef þjóðaratkvæðagreiðsla á sér stað. Þau sem greiða atkvæði utan kjörfundar skuli einnig eiga rétt á gjaldfrjálsum Strætó á kjörstað. Strætó kynni fyrir notendum með góðum fyrirvara að þessi þjónusta sé í boði.

  Greinargerð fylgir tillögunni.
  Umræður um 5., 6. og 7. mál fara fram saman. 
  Tillagan er felld með þrettán atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn fjórum atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS23050096

  Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Reykjavíkurborg hefur lagt mikla áherslu á að bæta aðgengi íbúa að kjörstað. Það hefur verið gert með því að fjölga kjörstöðum til að tryggja að þar sem því verði við komið séu borgarbúar í góðu göngufæri við kjörstað og ættu helst ekki að þurfa á bíl eða strætisvagni að halda til að nýta atkvæðisréttinn.

  Fylgigögn

 7. Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi tillögu:

  Lagt er til að borgarstjórn samþykki að afnema gjaldtöku á ferðum í akstursþjónustu fatlaðs fólks á kjördag. Þetta á við þá daga þegar alþingis-, forseta- og borgarstjórnarkosningar fara fram. Þau sem greiða atkvæði utan kjörfundar skulu einnig eiga rétt á gjaldfrjálsri akstursþjónustu á kjörstað. Reykjavíkurborg kynni ákvörðunina með góðum fyrirvara þannig að notendum sé ljóst að þjónustan sé í boði.

  Greinargerð fylgir tillögunni. MSS23050096
  Umræður um 5., 6. og 7. mál fara fram saman. 
  Tillagan er felld með þrettán atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn fjórum atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

  -    Kl. 17:55 víkur Alexandra Briem af fundinum og Elísabet Guðrúnar Jónsdóttir tekur þar sæti. 

  Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Í framtíðarsýn velferðarstefnu borgarinnar kemur fram að þjónusta borgarinnar eigi að stuðla að góðri líðan íbúa og því að við upplifum að Reykjavík sé fyrir okkur öll. Það er því sjálfsagt að farið verði í könnun á því hvort hindranir séu til staðar, og þá hverjar, sem torvelda fólki að nýta kosningarétt sinn. Hvort sem það sé vegna fatlana eða félagslegrar stöðu, með tilliti til þátta eins og fjárhags, uppruna og aldurs, og svo framvegis. Rétt er að farið verði í slíka könnun á vegum stafræns ráðs, sem fer með ábyrgð á lýðræðismálum og getur, ef í ljós koma hindranir, lagt til aðgerðir til að bæta þar úr eftir því sem mögulegt er. 

  Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Flokkur fólksins styður tillögu um að afnema gjaldtöku á ferðum í akstursþjónustu fatlaðs fólks á kjördag. Þetta á við þá daga þegar alþingis-, forseta- og borgarstjórnarkosningar fara fram eins og segir í tillögunni. Skoða mætti fleiri hátíðisdaga sem yrðu fríir. Þau sem greiða atkvæði utan kjörfundar ættu sannarlega einnig eiga rétt á gjaldfrjálsri akstursþjónustu á kjörstað. Öll vitum við hvað skerðingar eru miklar hjá þeim sem fá örorkubætur. Minnt er á niðurstöður rannsóknar Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands sem unnin var fyrir Öryrkjabandalag Íslands um bágborinn fjárhag fjölmargra öryrkja. Einnig má nefna rannsókn Vörðu fyrir Öryrkjabandalag Íslands frá 2021 sem sýndi sláandi niðurstöður um erfiða fjárhagsstöðu stórs hóps fatlaðs fólk. Sjálfsagt er að létta þessum hópi róðurinn t.d. með gjaldfrjálsri akstursþjónustu á ákveðnum dögum, tyllidögum.

  Fylgigögn

 8. Fram fer umræða um úrbætur á starfsaðstöðu nemenda og kennara í Laugarnesskóla. MSS23050097

  Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Í of mörg ár hafa nemendur og starfsfólk Laugarnesskóla unnið í heilsuspillandi starfsumhverfi vegna myglu, rakaskemmda og leka. Ekki hefur verið hægt að kenna í mörgum rýmum vegna viðhaldsframkvæmda. Nemendur hafa ítrekað þurft að skipta um stofur meðan plástrað er yfir myglu og rakaskemmdir. Starfsfólk hefur hrökklast úr starfi vegna veikinda tengdum myglu. Skólayfirvöld hafa margsinnis óskað eftir úrbótum við Reykjavíkurborg sem er vel kunnugt um stöðuna. Nýlega barst borgarfulltrúum ályktun frá fulltrúum starfsfólks Laugarnesskóla sem segir komið að þolmörkum. Laugarnesskóli er löngu sprungin og nemendum hefur fjölgað hratt undanfarin ár og mun fjölga mikið. Sífelldar afsakanir berast vegna tafanna. Viðkvæðið er alltaf að verið sé að „stilla upp“ fyrir framkvæmdir og fleiru er kennt um. Iðnaðarmenn hafa ekki sést í marga mánuði. Til stóð að setja gáma sl. haust en ekkert varð af því. Gámar eru besta lausnin í þessum aðstæðum. Ekki er búið að gera deiliskipulag að nýrri viðbyggingu og endanleg ákvörðun um viðbyggingu verður ekki tekin fyrr en í júní. Deiliskipulag er margra mánaða ferli. Á meðan bíða nemendur og starfsfólk. Það er almenn töf á öllum framkvæmdum og með ólíkindum að það taki tvö ár að undirbúa viðgerðir á húsinu á sama tíma og húsnæðið er heilsuspillandi.

  Fylgigögn

 9. Umræðu um húsaleigumarkaðinn í Reykjavík er frestað. MSS23050098

  Fylgigögn

 10. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

  Borgarstjórn Reykjavíkur skorar á Alþingi og ríkisstjórn að sjá til þess að framkvæmdir við breikkun Vesturlandsvegar á Kjalarnesi, frá Vallá að Hvalfjarðargöngum, verði boðnar út sem fyrst. Um er að ræða eitt brýnasta verkefni í þágu umferðaröryggis á höfuðborgarsvæðinu. Umræddur vegarkafli er hættulegur en breikkun vegarins og aðskilnaður akreina mun draga verulega úr slysahættu á honum.

  Samþykkt með 14 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna gegn sjö atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins að fresta afgreiðslu tillögunnar. 
  Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS23050100

  Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Við hörmum að fulltrúar Framsóknarflokks, Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar kjósi, í krafti meirihluta atkvæða, að taka liði 9 og 12 af dagskrá fundarins. Undir fyrrnefnda liðnum átti að taka fyrir tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins vegna útboðs á síðari áfanga við breikkun Vesturlandsvegar á Kjalarnesi. Um er að ræða mikilvægt hagsmunamál Kjalnesinga og eitt brýnasta verkefni í þágu umferðaröryggis á höfuðborgarsvæðinu. Sú ákvörðun meirihlutaflokkanna að fresta meðferð tillögunnar sýnir áhugaleysi þeirra á að flýta brýnum framkvæmdum í þágu umferðaröryggis í Reykjavík.

  Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

  Borgarfulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar mótmæla því harðlega að borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokks leggi ítrekað fram bókanir um meint harðræði og gerræðisleg vinnubrögð þegar dagskrárliðum er frestað á fundum borgarstjórnar. Frestun dagskrárliða er í fullu samræmi við ákvæði sveitarstjórnarlaga, gildandi samþykktir og samkomulag allrar borgarstjórnar, nema Sjálfstæðisflokksins. Samkomulagið miðar að því að gera borgarstjórn að fjölskylduvænni vinnustað með því að tryggja að borgarstjórnarfundir standi ekki lengur en í 7-8 klst. í hvert sinn. Það er miður að borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins reyni að standa í vegi fyrir breytingum sem færa borgarstjórn í átt að nútímanum og eru í beinu samræmi við ítrekaðar óskir borgarfulltrúa úr öllum flokkum. Það er jafnframt miður að stöðugt sé tönnlast á því að komið sé í veg fyrir umræðu og afgreiðslu mála á vettvangi borgarstjórnar en ekkert er fjær lagi, enda sjá allir sem fylgjast með borgarstjórnarfundum að þar fer fram opin umræða um mörg dagskrármál allra flokka. Meirihluti borgarstjórnar óskar þess heitt og innilega að borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík komi með í þá vegferð borgarstjórnar að gera borgarstjórn að fjölskylduvænni vinnustað þar sem sameinast er um opna og vandaða umræðu í stað þess að strá fræjum samsæriskenninga um gerræði og valdníðslu. Munum að traust til okkar allra endurspeglast í þeirri umræðu sem við stjórnum sjálf.

  Fylgigögn

 11. Umræðu um þróunarverkefnið kveikjum neistann í Reykjavík er frestað. MSS23050099

  Fylgigögn

 12. Samþykkt með 14 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna gegn sjö atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins að fresta umræðu um málefni Ljósleiðarans ehf. 
  Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS23010191

  Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Við hörmum að fulltrúar Framsóknarflokks, Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar kjósi, í krafti meirihluta atkvæða, að taka liði 9 og 12 af dagskrá fundarins. Undir fyrrnefnda liðnum átti að taka fyrir tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins vegna útboðs á síðari áfanga við breikkun Vesturlandsvegar á Kjalarnesi. Um er að ræða mikilvægt hagsmunamál Kjalnesinga og eitt brýnasta verkefni í þágu umferðaröryggis á höfuðborgarsvæðinu. Sú ákvörðun meirihlutaflokkanna að fresta meðferð tillögunnar sýnir áhugaleysi þeirra á að flýta brýnum framkvæmdum í þágu umferðaröryggis í Reykjavík.

  Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

  Borgarfulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar mótmæla því harðlega að borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokks leggi ítrekað fram bókanir um meint harðræði og gerræðisleg vinnubrögð þegar dagskrárliðum er frestað á fundum borgarstjórnar. Frestun dagskrárliða er í fullu samræmi við ákvæði sveitarstjórnarlaga, gildandi samþykktir og samkomulag allrar borgarstjórnar, nema Sjálfstæðisflokksins. Samkomulagið miðar að því að gera borgarstjórn að fjölskylduvænni vinnustað með því að tryggja að borgarstjórnarfundir standi ekki lengur en í 7-8 klst. í hvert sinn. Það er miður að borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins reyni að standa í vegi fyrir breytingum sem færa borgarstjórn í átt að nútímanum og eru í beinu samræmi við ítrekaðar óskir borgarfulltrúa úr öllum flokkum. Það er jafnframt miður að stöðugt sé tönnlast á því að komið sé í veg fyrir umræðu og afgreiðslu mála á vettvangi borgarstjórnar en ekkert er fjær lagi, enda sjá allir sem fylgjast með borgarstjórnarfundum að þar fer fram opin umræða um mörg dagskrármál allra flokka. Meirihluti borgarstjórnar óskar þess heitt og innilega að borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík komi með í þá vegferð borgarstjórnar að gera borgarstjórn að fjölskylduvænni vinnustað þar sem sameinast er um opna og vandaða umræðu í stað þess að strá fræjum samsæriskenninga um gerræði og valdníðslu. Munum að traust til okkar allra endurspeglast í þeirri umræðu sem við stjórnum sjálf.

 13. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 11. maí. MSS23010001

  7. liður fundargerðarinnar, viðauki við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2023, er borinn upp í fjórum liðum: 
  Liður nr. 1 í viðaukanum, flutningur fjárheimilda milli sviða, er samþykktur.
  Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins.
  Liður nr. 7 í viðaukanum, styrkur úr miðborgarsjóði til Miðborgarinnar Reykjavíkur, er samþykktur.
  Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins.
  Liður nr. 11 í viðaukanum, innri leiga fasteigna, áhalda og tækja og leiga gatna, er samþykktur.
  Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins.
  Viðaukinn er að öðru leyti samþykktur. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. FAS23010016

  8. liður fundargerðarinnar, breytingar á gjaldskrá Sigluness fyrir árið 2023, er samþykktur með 20 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins. FAS23050017
  9. liður fundargerðarinnar, tillaga um val á ytri endurskoðunarfyrirtæki 2023-2027, er samþykktur. FAS23050018
  Borgarfulltrúi Flokks fólksins situr hjá við afgreiðslu málsins.

  Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun undir 8. lið fundargerðarinnar: 

  Fulltrúar Sósíalista geta ekki samþykkt rúmlega 25% hækkun á námskeiðagjaldi fyrir börn. Þessi tillaga er tilkomin vegna niðurskurðartillögu meirihluta borgarstjórnar sem var lögð fram í desember 2022 við fjárhagsáætlun fyrir árið 2023. Þá var lagt til að loka Siglunesi og sá meirihlutinn fram á að ná þannig að spara 23 milljónir fyrir árið 2023. Í ljósi mótmæla var hætt við að loka Siglunesi og lagt til að gjaldskrár hækki, námskeið styttist og tímaskeið námskeiða breytist og almennum starfsmönnum verði fækkað um einn sem leiðir til fækkunar á plássum í námskeiðum. Fulltrúar Sósíalista árétta að ekki á skera niður í þjónustu við börn og ungmenni og slíkt kostar til lengra tíma litið. Námskeiðin í Siglunesi hafa reynst börnum vel og ef borgarstjórn þarf að leita leiða til hagræðingar má byrja á launum borgarfulltrúa. Hægt hefði verið að spara 29 milljónir á þessu ári ef grunnlaun borgarfulltrúa og varaborgarfulltrúa hefðu ekki tekið hækkunum í takt við þróun á launavísitölu en slíkt á sér stað tvisvar sinnum á ári, þar sem laun miða við breytingar á launavísitölu en launin eru há til að byrja með. Tryggja þarf að Siglunes verði opið áfram og aðgengilegt börnum og ungmennum óháð efnahagslegri stöðu.

  Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. og 8. lið fundargerðarinnar: 

  Liður 1: A-hlutinn er undirstaðan og bakhjarl B-hluta fyrirtækja ef þau þurfa fjárhagslegan stuðning. Samþykkt var tilboð í tvo verðtryggða skuldabréfaflokka fyrir samtals 3,2 milljarða króna að nafnvirði. Borgin hefur þegar selt skuldabréf fyrir um 4,1 milljarð og dregið 3 milljarða á langtímalánalínu hjá Íslandsbanka – samtals 7 milljarða. Útboðið nú gekk vonum framar enda þótt Reykjavíkurborg fengi töluvert verri kjör en ríkið og þurfi að borga hærri raunvexti en það. Framundan eru miklar lántökur til að geta greitt af lánum. Það er verðbólga og vaxtahækkanir og ganga þarf þess vegna röskar fram í að draga úr fjárfestingum sem ekki snúa að grunnþjónustu og hagræði verulega í rekstri miðlægrar stjórnsýslu svo draga megi úr lántökuþörf. Liður 8: Fulltrúi Flokks fólksins getur ekki glaðst yfir þessari tillögu borgarstjóra og meirihlutans. Lagt er til að þjónusta Sigluness verði dregin saman. Og til viðbótar á að hækka gjaldskrá um rúm 25%. Halda mætti að hér væri komin matarhola fyrir borgarsjóð í erfiðri fjárhagsstöðu. Það eru aðeins tvær vikur síðan viðauki við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2023 sýndi að halda ætti starfi Sigluness áfram. Ljóst er að skera á rösklega utan af starfseminni og er óvissa um tímalengd námskeiða og almennt um framtíð Sigluness. 

  Fylgigögn

 14. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 12. maí, menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 5. maí, skóla- og frístundaráðs frá 8. maí og umhverfis- og skipulagsráðs frá 10. maí. MSS23010061

  Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 8. lið fundargerðar menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs: 

  Fulltrúi Flokks fólksins óskaði upplýsinga um gestakomur í Húsdýragarðinn. Þakkað er fyrir svarið. Ekki kemur á óvart að gestakomur eru mun fleiri yfir sumartíma en vetrartíma. Yfir sumarið eru þær rúmlega 130 þúsund en frá september-desember 2022 eru þær tæplega 30 þúsund. Fulltrúi Flokks fólksins veltir því upp hvað sé hægt að gera betur til að laða gesti að Fjölskyldu- og húsdýragarðinum yfir vetrartímann. Sem dæmi mætti skoða að hafa meiri  afþreyingu innandyra en margt annað kemur til greina. Um jól mætti  bjóða upp á jólaleg skemmtiatriði til að laða að. Einnig væri vert að kynna Fjölskyldu- og húsdýragarðinn betur t.d. fyrir nýjum Íslendingum. Einnig að bjóða upp á fleiri valmöguleika með aðgangseyri og afslátt á honum. Efnalítið fólk á oft ekki auka krónu til að leyfa sér að heimsækja Fjölskyldu- og húsdýragarðinn. Umfram allt þarf að stefna að því Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn verði fullur af fólki allt árið um kring.

  Fylgigögn

Fundi slitið kl. 19:03

Magnea Gná Jóhannsdóttir Árelía Eydís Guðmundsdóttir

Trausti Breiðfjörð Magnússon

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð borgarstjórnar 16.5.2023 - Prentvæn útgáfa