Borgarstjórn - 3.1.2023

BORGARSTJÓRN

Ár 2022, þriðjudaginn 3. janúar, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12:00. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Alexandra Briem, Árelía Eydís Guðmundsdóttir, Einar Þorsteinsson, Friðjón R. Friðjónsson, Heiða Björg Hilmisdóttir, Helgi Áss Grétarsson, Hildur Björnsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Jórunn Pála Jónasdóttir, Kjartan Magnússon, Kolbrún Baldursdóttir, Kristinn Jón Ólafsson, Líf Magneudóttir, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Magnús Davíð Norðdahl, Marta Guðjónsdóttir, Sabine Leskopf, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Skúli Helgason, Trausti Breiðfjörð Magnússon og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1.    1. liður fundargerðar forsætisnefndar frá 30. desember, dagskrá borgarstjórnar, er staðfestur með tólf atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn fimm atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins víkur af fundinum við afgreiðslu málsins. MSS22010058

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Kjartans Magnússon og Marta Guðjónsdóttir, leggja fram svohljóðandi bókun:

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins mótmæla harðlega þeirri ákvörðun fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar að banna að umræða um málefni Ljósleiðarans, dótturfyrirtæki Orkuveitu Reykjavíkur, yrði á dagskrá tveggja undanfarinna borgarstjórnarfunda, 20. desember og 3. janúar. Slíkt bann er gróft brot á ákvæðum 27. greinar sveitarstjórnarlaga og 34. greinar samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar, sem kveður á um þann rétt borgarfulltrúa, að tekið verði á dagskrá borgarstjórnarfundar hvert það málefni sem varðar hagsmuni sveitarfélagsins. Meirihlutinn hefur enga heimild til að hafna því að löglega framborið mál sé sett á dagskrá borgarstjórnarfundar. Engin fordæmi eru fyrir slíku umræðubanni í Borgarstjórn Reykjavíkur. Með því gerist meirihlutinn sekur um valdníðslu og einræðistilburði.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Friðjón R. Friðjónsson, Helgi Áss Grétarsson og Birna Hafstein, leggja fram svohljóðandi bókun:

Laumuspil og leyndarhyggja hafa einkennt vinnubrögð borgarstjórnarmeirihlutans í málinu. Borgarfulltrúar og stjórnarmenn meirihlutans í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur hafa hvað eftir annað að neitað að tjá sig um málefni Ljósleiðarans þrátt fyrir að umfangsmiklar og upplýsandi umræður hafi átt sér stað síðan í september um kaup þessa dótturfyrirtækis Orkuveitur Reykjavíkur á stofnneti Sýnar og þjónustusamning milli fyrirtækjanna. Ljóst er að umrædd ákvörðun er mikils háttar enda um að ræða margra milljarða kaup og fjárfestingu utan skilgreinds starfssvæðis Orkuveitu Reykjavíkur. Mikilvægt er að fram fari umræða á vettvangi borgarstjórnar um þennan viðskiptasamning og þá stefnubreytingu sem hann hefur í för með sér fyrir Ljósleiðarann, Orkuveitu Reykjavíkur og Reykjavíkurborg. Tilgangurinn með umræðubanni er greinilega sá að koma í veg fyrir umræðu sem meirihlutanum finnst óþægileg, þ.e. um stórfellda lántöku Ljósleiðarans og áhrif hennar á fjárhagsáætlanir Reykjavíkurborgar og Orkuveitunnar. Þá er ljóst að borgarstjóri og aðrir borgarfulltrúar meirihlutans reyna að firra sig ábyrgð á málinu en varpa henni þess í stað á stjórn Orkuveitu Reykjavíkur eftir því sem kostur er.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

Ákaflega mikilvægt er að borgarstjórn ræði málefni fyrirtækja í eigu borgarinnar eftir því sem aðstæður krefjast hverju sinni. Í því samhengi er þó rétt að umræðunni sé valin hentug tímasetning, sem meðal annars getur ráðist af sérstökum aðstæðum hjá viðkomandi fyrirtæki og/eða viðkvæmri stöðu þeirra tilteknu mála sem eftir atvikum stendur til að ræða og varða umrætt fyrirtæki. Borgarfulltrúar eiga vissulega rétt á að tekið verði á dagskrá borgarstjórnar hvert það málefni sem sérstaklega varðar hagsmuni sveitarfélagsins eða verkefni þess en mikilvægt er að hafa í huga að það er borgarstjórn sjálf með aðkomu forsætisnefndar sem hefur um það endanlegt vald hvaða mál verða tekin á dagskrá fundar. Þrátt fyrir að það geti verið um að ræða mál sem á undir verksvið borgarstjórnar, þ.e. varðar hagsmuni sveitarfélagsins eða verkefni þess, getur málum verið þannig háttað að ekki verður hjá því komist að fresta umræðunni eða jafnvel taka ákvörðun um að umræða fari fram fyrir luktum dyrum. Er því talið rétt að málefni Ljósleiðarans verði rædd við fyrsta tækifæri um leið og þverpólitískur rýnihópur borgarráðs hefur lokið störfum.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Samningur hefur verið gerður milli Ljósleiðarans og Sýnar. Hann verður staðfestur af forstjóra OR og stjórn Ljósleiðarans. Flokkur fólksins á fulltrúa í hinum svokallaða rýnihóp Reykjavíkurborgar sem er varaborgarfulltrúi Flokks fólksins situr í. Oddviti Flokks fólksins hefur ekki fengið aðgang að gögnum málsins og hefur einnig varaborgarfulltrúanum verið sagt að hún megi hvorki sýna oddvita sínum gögn né ræða við hann um það sem fram fer í rýnihópnum. Þetta stenst engan skoðun enda eru kjörnir fulltrúar allir innherjar auk þess sem oddviti og varaborgarfulltrúi leysa hvorn annan af í forföllum á fundum ráða og nefnda  og í borgarstjórn. En slík er leyndin yfir þessu máli sem sannarlega vekur upp ákveðna tortryggni. Flokkur fólksins styður þá almennu reglu að öll mál sem lúta að sveitarfélaginu á að vera hægt að setja á dagskrá borgarstjórnar og skal þá meta ef nauðsynlegt er að fundur verði lokaður til að tryggja trúnað/leynd.  Borgarfulltrúar utan  meirihlutans verða að fá allar upplýsingar til að geta sinnt sínu lögboðna starfi. Þessi leynd gagnvart kjörnum fulltrúum samræmist augljóslega ekki sveitarstjórnarlögum og samþykktum borgarinnar. Flokkur fólksins vonar að mjög fljótt verði upplýst um allt sem snýr að þessum samningum.

2.    Fram fer umræða um fyrirkomulag snjóruðnings í Reykjavík. MSS23010056

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Undanfarinn hálfan mánuð hafa Reykvíkingar kynnst getuleysi borgaryfirvalda gagnvart þeirri grunnskyldu að tryggja að götur borgarinnar séu sæmilega færar og að fólk komist til og frá heimilum sínum. Tugþúsundir Reykvíkinga hafa lent í miklum vandræðum vegna ófærðar í húsagötum á meðan götur voru almennt orðnar greiðfærar í nágrannasveitarfélögunum. Tekið skal fram að starfsmenn Reykjavíkurborgar eða verktakar, sem sinna snjómokstri, hafa staðið sig vel. Hins vegar sannast ítrekað að pólitískt skipulag og verkstjórn snjóruðnings er óviðunandi í borginni. Þegar þörfin var sem mest dagana eftir 16. desember sl. voru 22 snjóruðningstæki að störfum í Reykjavík, 20 í Hafnarfirði, 20 í Kópavogi og 10 í Garðabæ. Slíkar tölur sýna metnaðarleysi borgarstjóra í málaflokknum enda búa 56% fleiri íbúar í Reykjavík en í Hafnarfirði, Kópavogi og Garðabæ til samans. Eftir umræður um snjóruðning á fundi borgarstjórnar 20. desember sl. voru vonir bundnar við að lært yrði af klúðrinu og staðið yrði betur að verki eftir mikla snjókomu á þriðja degi jóla, sem spáð var með löngum fyrirvara. Þær vonir brugðust. Á þriðjudag upplýsti yfirmaður vetrarþjónustu í Reykjavík að sami fjöldi snjóruðningstækja myndi sinna snjómokstri og áður eða um 20 tæki. Augljóst er að svo fá tæki duga ekki til þegar mikla snjókomu gerir í 136.000 manna borg.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

Bæta þarf vetrarþjónustu í Reykjavík og endurskoða fyrirkomulag hennar til að hún mæti betur þörfum borgarbúa í sístækkandi borg. Í því skyni hefur stýrihópur verið að störfum síðan 5. október. Mun hópurinn skoða verkefnið út frá öllum hliðum. Til greina kemur að fjölga tækjum, breyta fyrirkomulagi samninga, og breyta verklagi á fjölförnum stöðum þar sem snjóhryggir myndast og hefta aðgengi að almenningssamgöngum og grunnþjónustu borgarinnar. Einnig er til skoðunar að borgin sinni stærri hluta snjóruðnings beint. Mikilvægt er að upplýsingagjöf sé skýr og væntingar í samræmi við áætlanir. Til mikils er að vinna að vanda vel til verka, en hér er um að ræða brýna grunnþjónustu við borgarbúa og mikilvæga öryggisinnviði.

Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun: 

Sósíalistar telja að best fari á því að borgin dragi úr milliliðum í kerfinu og eftirlitinu sem því fylgir og kaupi eigin tæki og ráði starfsfólk beint, eins og áður var gert. Hljóð og mynd fara ekki saman hjá meirihlutanum, þar sem talað er um mikilvægi almenningssamgangna og gangandi vegfarenda. Á sama tíma er mokað fyrir strætóskýlin og snjóskaflar þvera göngustíga. Það á ekki að koma á óvart að það snjói á Íslandi og borgin á að geta gert betur. Flækjustigið er orðið of mikið því boðleiðirnar eru svo langar, því að milliliðir sjá um moksturinn. Í staðinn væri betra að Reykjavík sjálf sæi um moksturinn og hefði þannig betri stjórn á aðgerðum. Hreyfihamlaðir, foreldrar með börn og aldraðir eiga skilið að geta komist leiða sinna. Borgin á að geta gert betur.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Snjóhreinsun þarf að ganga snurðulaust. Bæta þarf þjónustu í húsagötum. Auka þarf afköst, breyta fyrirkomulagi, vinnulagi og fjárfesta í tækjum. Þetta mun kosta aukið fjármagn og þess vegna þarf meirihlutinn að hagræða og spara á sviðum sem ekki snerta fólk beint. Í fyrstu lotu er e.t.v. nægilegt að ryðja 60-80% af breidd húsagötu og láta ruðninga vera á götunni, ekki ryðja upp á gangstéttir, hvað þá fyrir innkeyrslur. Ef innkeyrslur eru opnar skapast svæði til að mætast á bíl á meðan að ruðningar eru enn á götunni. Ef rutt er upp á gangstétt þarf annað tæki að koma og ryðja aftur út á götuna. Úrsalt er ódýrasta saltið og sjálfsagt að nota það og spara það ekki. Í útboðslýsingu þarf að koma skýrt fram til hvers er ætlast. Til eru teikningar af öllum götum og þarf verktaki að vita af þeim þannig að hann sjái hvert best er að ýta ruðningum. Stytta á upplýsingaferla milli þátttakanda í ferlinu öllu. Bæta þarf hönnun saltkassa þannig að úrkoma komist ekki í þá, annars verður saltið fljótt ill mokanlegt. Saltgeymslur eru kapítuli út af fyrir sig. Borgin á ekki þessar geymslur en borgin greiðir fyrir viðhald þeirra og endurgerð.

3.    Fram fer umræða um baráttuna gegn spilakössum.

-    Kl. 14:40 víkur Þórdís Lóa Þórhallsdóttir af fundinum og Pawel Bartoszek tekur sæti. MSS23010057

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Fulltrúi Flokks fólksins lagði til árið 2021 að Reykjavíkurborg endurskoðaði reglur og samþykktir borgarinnar með það að markmiði að minnka rekstur spilakassa. Tillagan var felld. Reykjavík getur takmarkað rekstur spilakassa og hefur ýmsar heimildir til að setja reglur sem gætu komið í veg fyrir áframhaldandi rekstur spilakassa í borginni eða í það minnsta dregið úr slíkri starfsemi. Lögreglusamþykkt Reykjavíkur kveður m.a. á um að enginn megi reka leiktækjastað eða þess háttar starfsemi gegn borgun nema með leyfi lögreglustjóra að fenginni umsögn velferðarsviðs Reykjavíkurborgar. Jafnvel þótt engar reglur hafi verið settar um rekstur spilakassa þá eru í gildi ýmsar samþykktir sem hægt er að breyta og gera ítarlegri kröfur til rekstraraðila. Spilafíkn veldur samfélagslegum skaða. Þrátt fyrir það eru reknir spilakassar í Reykjavík. Þörf umræða um hvort rétt sé að banna rekstur spilakassa hefur skapast fyrir tilstilli Samtaka áhugafólks um spilafíkn sem hafa staðið fyrir átakinu lokum.is.

4.    Fram fer umræða um ofbeldi og vopnaburð ungmenna og áhrif samfélagsmiðla.

-    Kl. 15:45 víkur Jórunn Pála Jónasdóttir af fundinum og Birna Hafstein tekur sæti. MSS23010058

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Aukning hefur verið á ofbeldi á meðal barna og ungmenna í Reykjavík. Einnig hefur færst í aukana að ungt fólk taki myndskeið af ofbeldi sem farið hafa um samfélagsmiðla eins og eldur í sinu. Það vekur ugg hvað stór hópur barna er tilbúinn að dreifa slíku myndefni. Ungmenni sem beitir ofbeldi af ásetningi líður ekki vel. Grunnþörfum barna þarf að sinna. Barn á ekki að þurfa að óttast að vera heimilislaust eða að fá ekki nóg að borða. Börn þurfa stöðugleika, festa rætur í félagslegu umhverfi, mynda vinatengsl og stunda nám meðal jafningja ef barn á að þrífast. Börn sem beitt eru ofbeldi eiga á hættu að skaðast og koma út í lífið full af reiði og biturleika og með brotna sjálfsmynd. Flokkur fólksins kallar eftir að borgarstjórn vakni til lífsins og sinni þessu mikilvæga verkefni. Orð eru til alls fyrst en huga þarf að aðgerðum og aðferðafræði. Hlutverk borgarstjórnar er að styðja betur við skólasamfélagið og foreldra með fræðslu og snemmtækri íhlutun. Stytta verður biðlista. Nú bíða 2048 börn eftir faglegri aðstoð hjá Reykjavíkurborg.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

Auknar fréttir af ofbeldi hjá ungmennum er mikið áhyggjuefni og við því þarf að bregðast. Viðamikil úttekt á stöðu ofbeldisvarnarmála hjá Reykjavíkurborg er í vinnslu af hálfu óháðs aðila og er væntanleg nú á fyrstu mánuðum nýs árs. Úttektin er unnin að frumkvæði mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs Reykjavíkurborgar. Þegar sú úttekt liggur fyrir verður hægt að taka ákvörðun um vænleg og skynsamleg næstu skref borgarinnar til þess að vinna að öruggara samfélagi fyrir borgarbúa.

5.    Fram fer umræða um loftgæði í Reykjavík í kringum áramót.
MSS23010059

-    Kl. 16:07 víkur Kolbrún Baldursdóttir af fundinum og Helga Þórðardóttir tekur þar sæti. 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Fulltrúi Flokks fólksins hefur ítrekað rætt loftgæði á síðasta kjörtímabili og lagði m.a. til að borgarráð samþykkti að hvetja borgarbúa til að styrkja starf björgunarsveita án þess að kaupa flugelda. Tillagan var felld seint m.a. af VG sem þá sat í meirihluta. Mikið svifryk hefur mælst í loftinu um áramót af völdum flugelda. Mengun frá flugeldum er vandamál. Svifryk frá flugeldum er talið varasamt og heilsuspillandi. Bent hefur verið á af ýmsum sérfræðingum að loftmengun af völdum flugelda hafi neikvæð áhrif á þá sem fyrir henni verða, sérstaklega viðkvæma hópa. Björgunarsveitir hafa treyst á sölu flugelda við tekjuöflun, en styrkja má þær þótt flugeldar séu ekki keyptir. Tvöfaldur gróði felst í því, styrkja starfsemi björgunarsveita sem sinna mikilvægu björgunarstarfi og á sama tíma taka ákvörðun um að menga ekki andrúmsloftið. Flokkur fólksins lagði fram aðra tillögu um þessi mál nú fyrir síðustu áramót og barst þá umsögn. Í umsögn er ljóst að ekki á að gera neitt. Málið er að það þarf að finna leiðir til að fá fólk til að draga úr kaupum á flugeldum á sama tíma og tryggt sé að slysavarnafélögin fái fjármagn til að halda úti sínu góða starfi.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

Samkvæmt nýlegri ársskýrslu umhverfisstofnunar Evrópu má rekja allt að 80 dauðsföll á Íslandi árlega til svifryks, sérstaklega smágerðs svifryks. Stærsti orsakavaldurinn í svifryksmengun almennt eru nagladekk og því ákaflega mikilvægt að koma á hvötum til þess að draga úr notkun þeirra. Stjórnvöld gætu t.d. dregið úr álögum á harðkorna-, skelja- eða loftbóludekk. Enn fremur þarf að halda áfram að fræða almenning um hvaða dekk henta best við hvaða aðstæður en margt bendir til að í mörgum tilvikum séu ökumenn á nagladekkjum þar sem önnur tegund gæti hentað betur. Þá færi vel á því að leita leiða í samstarfi við bílaleigur og tryggingafélög, til að skoða það með hvaða hætti megi draga úr hvötum til þess að nota nagladekk þegar önnur nýtast jafn vel. En þegar kemur að smágerðu svifryki eru flugeldar stór orsakavaldur, sérstaklega í kringum áramót, og mikilvægt að skoða það með hvaða hætti borgin getur stuðlað að því að draga úr fíngerðu svifryki í lofti.

6.    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

Lagt er til að ráðist verði í umbætur á skiptistöðinni í Mjódd í því skyni að bæta aðstöðu strætisvagnafarþega. Um fjórar milljónir farþega fara árlega um stöðina og er því um að ræða fjölförnustu umferðarmiðstöð landsins. Að lágmarki verði ráðist í eftirfarandi umbætur: 1. Kvöldopnun: Biðstöðin verði opin farþegum á kvöldin á meðan strætisvagnar ganga. 2. Gæsla í biðsalnum verði aukin og salernisþrifum komið í lag. 3. Sætum í biðsal verði fjölgað og þau löguð, sem fyrir eru. Biðsalurinn verði gerður hlýlegri, t.d. með uppsetningu listaverka. MSS23010060

Vísað til borgarráðs.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins harma að svo sjálfsagðri tillögu skuli enn einu sinni vera vísað til skoðunar í rangölum borgarkerfisins. Rekja má upphaf málsins til janúar 2016 þegar borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu til að skiptistöðin í Mjódd yrði opin farþegum öll kvöld á meðan strætisvagnar ganga. Tillagan var felld í júní 2017 af þáverandi vinstri meirihluta. Í október 2022 tóku borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins málið upp og lögðu á ný til úrbætur á skiptistöðinni í Mjódd í því skyni að bæta aðstöðu strætisvagnafarþega. Tillagan var kynnt ítarlega fyrir borgarfulltrúum á borgarstjórnarfundi 15. nóvember og sýndar myndir, sem sýndu svo ekki var um villst að brýn þörf er á að ráðast í kvöldopnun skiptistöðvarinnar, bæta húsbúnað, auka eftirlit og koma salernisþrifum í lag. Vonir stóðu til að ráðist yrði í sáraeinfaldar úrbætur, eins og t.d. kvöldopnun skiptistöðvarinnar, áður en köldustu mánuðir vetrarins gengju í garð. Þær vonir hafa ekki ræst og tillagan hrakhraufast nú um borgarkerfið eins og fyrr án sýnilegrar niðurstöðu.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

Borgin tók við rekstri biðstöðvar í Mjódd árið 2015, en þá stóð til að bjóða rýmið fyrir rekstur sem færi saman með biðstöð, svosem mathallar, eins og gefist hefur vel á Hlemmi. Því miður gekk ekki þá að finna samstarfsaðila um slíkan rekstur og hefur borgin verið með samning við þjónustuaðila um rýmið síðan. Ljóst er að það fyrirkomulag hefur ekki gengið vel og tími til kominn að skoða málið aftur. Mögulega má gera aðra atlögu að því að finna rekstraraðila, en ef ekki þarf að endurskoða með hvaða hætti þessi mikilvæga samgöngumiðstöð er rekin. Málinu er vísað til borgarráðs þar sem það verður rætt nánar og ákvörðun tekin um næstu skref.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Flokkur fólksins tekur undir ábendingar sem tengjast strætó í Mjódd en þær fjalla um aðgengi að strætósamgöngum almennt séð í Mjódd. Þörf er á umbótum. Bókað hefur verið í íbúaráði um aðgengi frá aðalbyggingu í strætó í hjólastól. Taka þarf niður kant við húsið sjálft, eyjuna þar sem strætó stoppar beggja megin við og líka eyjarnar tvær sem tengjast göngustíg og gangbraut upp í Álfabakka. Margt er hægt að segja um aðstæður biðsalar strætó í Mjódd. Árið 2019 lagði Flokkur fólksins fram tillögu um að biðsalurinn í Mjódd verði opinn lengur en til klukkan 18 á kvöldin eða eins lengi og vagnar Strætó ganga. Í salnum þarf að vera viðunandi aðstaða, næg sæti og aðgengileg salernisaðstaða. Nefnt hefur verið að þarna þyrfti að vera læst hjólageymsla. Það myndi nýtast t.d. farþegum sem koma lengra að, þ.m.t. frá nágrannasveitarfélögum. Umbætur á þessum stað eru liður í að gera almenningssamgöngur að fýsilegri kosti. Sannarlega má skoða aukna gæslu og auka hreinsun salerna. Varla kostar mikið að fjölga sætum og gera salinn hlýlegri.

7.    Lögð fram fundargerð forsætisnefndar frá 30. desember. MSS23010061

8.    Samþykkt að taka kosningu í skóla- og frístundaráð á dagskrá.
Lagt er til að Rannveig Ernudóttir taki sæti í skóla- og frístundaráði í stað Elísabetar Guðrúnar Jónsdóttur.
Samþykkt. MSS22060048

9.    Samþykkt að taka kosningu í umhverfis- og skipulagsráð á dagskrá.
Lagt er til að Rannveig Ernudóttir taki sæti sem varamaður í umhverfis- og skipulagsráði í stað Elísabetar Guðrúnar Jónsdóttur.
Samþykkt. MSS22060046

10.    Samþykkt að taka kosningu í stafrænt ráð á dagskrá.
Lagt er til að Rannveig Ernudóttir taki sæti í stafrænu ráði í stað Elísabetar Guðrúnar Jónsdóttur og að Magnús Davíð Norðdahl taki sæti varamanns í ráðinu í stað Rannveigar.
Samþykkt. MSS22060158

11.    Samþykkt að taka kosningu í innkaupa- og framkvæmdaráð á dagskrá.
Lagt er til að Kristinn Jón Ólafsson taki sæti í innkaupa- og framkvæmdaráði í stað Elísabetar Guðrúnar Jónsdóttur og að Rannveig Ernudóttir taki sæti varamanns í stað Kristins.
Samþykkt. MSS22060064

12.    Samþykkt að taka kosningu í aðgengis- og samráðsnefnd um málefni fatlaðs fólks á dagskrá.
Lagt er til að Rannveig Ernudóttir taki sæti í aðgengis- og samráðsnefnd um málefni fatlaðs fólks í stað Elísabetar Guðrúnar Jónsdóttur og að Magnús Davíð Norðdahl taki sæti varamanns í stað Rannveigar. Jafnframt er lagt til að Unnur Þöll Benediktsdóttir verði formaður ráðsins.
Samþykkt. MSS22060053

13.    Samþykkt að taka kosningu í íbúaráð Breiðholts á dagskrá. 
Lagt er til að Alexandra Briem taki sæti sem varamaður í íbúaráði Breiðholts í stað Elísabetar Guðrúnar Jónsdóttur.
Samþykkt. MSS22060056

Fundi slitið kl. 17:06

Magnea Gná Jóhannsdóttir

Trausti Breiðfjörð Magnússon    Aðalsteinn Haukur Sverrisson