Borgarstjórn
B O R G A R S T J Ó R N
Ár 2022, þriðjudaginn 26. apríl, var haldinn aukafundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14:05. Voru þá komin til fundar auk borgarstjóra eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Alexandra Briem, Björn Gíslason, Ellen Jacqueline Calmon, Eyþór Laxdal Arnalds, Hjálmar Sveinsson, Heiða Björg Hilmisdóttir, Jórunn Pála Jónasdóttir, Katrín Atladóttir, Kolbrún Baldursdóttir, Líf Magneudóttir, Marta Guðjónsdóttir, Pawel Bartoszek, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Ragna Sigurðardóttir, Rannveig Ernudóttir, Sabine Leskopf, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Skúli Helgason, Vigdís Hauksdóttir, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir og Örn Þórðarson. Valgerður Sigurðardóttir tók sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 2. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
1. Lagður fram til fyrri umræðu samantekinn ársreikningur A-hluta og samstæðu Reykjavíkurborgar 2021, dags. 22. apríl 2022, ásamt skýrslu fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 22. apríl 2022, greinargerð fagsviða og sjóða A-hluta, dags. 22. apríl 2022, greinargerð B-hluta fyrirtækja, dags. 7. apríl 2022, verkstöðuskýrsla nýframkvæmda, ódags., ábyrgða- og skuldbindingayfirlit, ódags., endurskoðunarskýrsla Grant Thornton vegna endurskoðunar ársreiknings Reykjavíkurborgar 2021, dags. 22. apríl 2022, endurskoðunarskýrsla Grant Thornton varðandi meðferð grænna fjármuna, dags. 19. apríl 2022, bréf endurskoðunarnefndar, dags. 21. apríl 2021 og umsögn endurskoðunarnefndar Reykjavíkurborgar um ársreikning Reykjavíkurborgar 2021, dags. 20. apríl 2022, sbr. 1. lið fundargerðar borgarráðs frá 22. apríl 2022. Einnig lögð fram greinargergerð um innleiðingu kynjaðrar fjárhags- og starfsáætlunar hjá Reykjavíkurborgar, ódags., og yfirlýsingu um stjórnarhætti og ófjárhagslegar upplýsingar, dags. 7. apríl 2022, sbr. 2. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. apríl 2022. FAS22040002
- Kl. 14:25 víkur Pawel Bartoszek af fundinum og Diljá Ámundadóttir Zoëga tekur sæti.
- Kl. 16:11 víkur Diljá Ámundadóttir Zoëga af fundinum og Geir Finnsson tekur sæti með rafrænum hætti.
- Kl. 16:15 víkur Skúli Helgason af fundinum og Dóra Magnúsdóttir tekur sæti.
Samþykkt að vísa ársreikningi Reykjavíkurborgar fyrir árið 2021 ásamt endurskoðunarskýrslum til síðari umræðu sem fer fram á reglulegum fundi borgarstjórnar 3. maí nk.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Ársreikningur Reykjavíkur skilar gríðarlega sterkri niðurstöðu við krefjandi aðstæður. Niðurstaðan er mun sterkari en áætlanir gerðu ráð fyrir, þrátt fyrir mikinn aukakostnað vegna COVID, sérstaklega í skólum og velferðarþjónustunni. Þar sýndi starfsfólk og stjórnendur ótrúlega útsjónarsemi og seiglu og er öllu því fólki þakkað sérstaklega. Borgin brást einnig við COVID með því að auka fjárfestingar. Þar erum við að fjárfesta í innviðum hverfanna okkar og lífsgæðum fyrir borgarbúa, með grænum áherslum í samræmi við græna planið. Þessi ársreikningur staðfestir því ábyrga fjármálastjórn, öflug og rétt viðbrögð við erfiðum aðstæðum, góða frammistöðu starfsfólks og stjórnenda og sterka stöðu borgarsjóðs og samstæðunnar í heild. Það er gott veganesti inn í framtíðina.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2021 sýnir gríðarlega skuldasöfnun, en skuldir samstæðu voru komnar í 407 milljarða um síðustu áramót. Samkvæmt þessu hækkuðu skuldirnar um 24 milljarða á síðasta ári. Tvo milljarða á mánuði. Þetta gerist þrátt fyrir að tekjur hafi hækkað um 17 milljarða. Áfram er tap á rekstri A-hluta og ef ekki væri bókfærður „hagnaður“ af félagslegu húsnæði og álafleiðum væri tap á samstæðunni allri í heild. Samkvæmt samanteknum reikningsskilum borgarinnar eru Félagsbústaðir að skila gríðarlegum hagnaði sem byggist á endurmati á félagslegu húsnæði upp á meira en 20 milljarða. Rétt er að geta þess að heildartekjur Félagsbústaða voru innan við 5 milljarðar króna. Skuldir uxu um nærri fimm milljarða hjá Félagsbústöðum þrátt fyrir meintan hagnað. Þessi framsetning skekkir niðurstöðuna umtalsvert enda er hún verulega umdeild meðal annars innan endurskoðunarnefndar Reykjavíkurborgar sjálfrar. Rétt er að geta þess að eftirlitsnefnd um fjármál sveitarfélaga (EFS) og eftirlitsstofnun ESA hafa gert athugasemdir við þessa framsetningu borgarinnar. Þar er spurningum enn ósvarað. Skuldahlutfall samstæðu borgarinnar er komið í 201%. Þetta hlutfall segir sína sögu og er ljóst að skuldasöfnun og útgjöld borgarinnar eru langt umfram tekjur þrátt fyrir mettekjur af sköttum og gjöldum. Þessi rekstur er því ósjálfbær.
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Ársreikningur dregur upp mynd af stöðu síðasta árs. Nauðsynlegt er að styrkja tekjustofna Reykjavíkurborgar og þar verða fjármagnseigendur að greiða útsvar til sveitarfélagsins eins og launafólk. Borgin verður af milljörðum á ári hverju vegna þess að útsvar er ekki lagt á fjármagnstekjur. Slíkar breytingar geta ekki farið fram nema með lögum frá Alþingi en eru mikið hagsmunamál fyrir íbúa sveitarfélaganna. Þau sem eru aflögufær eiga að greiða til samfélagsins og byrðinni verður að létta af þeim sem geta síst borið hana. Ársreikningurinn sýnir hvaða þætti þarf að bæta líkt og langtímaveikindi sem er liður sem er ávallt til umfjöllunar þegar árið er gert upp. Mikilvægt er að borgin grípi til fyrirbyggjandi aðgerða þar sem hægt er, með bættum launakjörum og starfsaðstæðum. Styrkja þarf innviði okkar líkt og grunnskólana og tryggja þarf að þeir verði gjaldfrjálsir og að börn og skólastarfsfólk fái allan þann stuðning sem á þarf að halda inn í skólana. Einnig þarf að efla strætó en miður er að sjá að vegna neikvæðrar rekstrarniðurstöðu hafi Strætó bs. í framhaldi boðað til niðurskurðar í þjónustuveitingu. Nauðsynlegt er að borgin nýti stöðu sína til að fara í öfluga félagslega húsnæðisuppbyggingu fyrir fólkið sem er í þörf fyrir húsnæði.
Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Ársreikningur Reykjavíkurborgar árið 2021. „Happdrættistekjur“ valda því að samstæðan kemur út í plús – þær eru: Tekjufærsla Félagsbústaða nemur 20,5 milljörðum og hækkun heimsmarkaðsverðs á áli um 40% skapar 6,6 milljarða tekjufærslu. B-hluta fyrirtæki skila borginni 3,8 milljarða arði, uppgreiðsla láns frá Orkuveitu Reykjavíkur til A-hluta eru 3 milljarðar og ábyrgðargjald lána B-hluta til A-hluta 493 milljónir. Veltufé frá rekstri er um 0% en æskilegt hlutfall er 9%. Rekstrargjöld eru 4,9% yfir áætlun og fjárfestingar eru fjármagnaðar með lántöku. Skuldahlutfallið er komið yfir 150% og séu skuldir Orkuveitu Reykjavíkur taldar með þá er skuldahlutfallið hátt í 200%. Reykjavíkurákvæðið um undanþágu orkufyrirtækja fellur úr gildi á þessu ári en COVID-19 ákvæði ríkisstjórnarinnar um undanþágu frá skuldahlutfallinu rennur út 2025. Ekkert bendir til að Reykjavíkurborg nái settu marki um lögbundið skuldahlutfall í langri framtíð því lántökuáætlun á árunum 2022-2026 eru 92 milljarðar. Áætlaðar skuldir borgarsjóðs í árslok 2026 verða 240 milljarðar og samstæðunnar allrar um 430 milljarðar.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Ástæða er til að hafa áhyggjur af fjármálastjórnun og rekstrarstöðu A-hluta borgarsjóðs. Veltufé frá rekstri (það sem er til greiðslu afborgana og til nýfjárfestinga) er einungis rúmlega 300 milljónir króna. Það verður sem sagt að taka lán til að greiða allar afborganir lána og taka lán fyrir öllum nýfjárfestingum. Sú er niðurstaðan þegar heildartekjur A-hluta hafa hækkað um 11% frá fyrra ári. Til að rekstur borgarinnar væri í ásættanlegu jafnvægi þá þyrfti veltufé frá rekstri að vera milli 12 og 13 milljarðar króna. Langtímaskuldir hafa hækkað um 33% milli ára. Afborganir lána og leiguskulda hafa hækkað um 35% milli ára. Heildarskuldir og skuldbindingar hafa hækkað um 17% milli ára. Fjárhagsstaða Strætó bs. er veik. Ofan í kaupið er reynt að bæta fjárhagsstöðu samstæðunnar með bókhaldskúnstum hjá Félagsbústöðum. Verkefni af ýmsu tagi hafa notið ákveðins forgangs, verkefni sem engin brýn þörf er á, meðan grundvallarviðhald skólahúsnæðis og nýbygging leikskóla hefur setið á hakanum sem og þjónusta við börn, eldra fólk og öryrkja. Flokkur fólksins leggur áherslu á að þörf er á grundvallarbreytingu á forgangsröðun verkefna í þágu fólksins og þjónustu við það. Endurskoða verður fjármálastjórn Reykjavíkurborgar ef ekki á að stefna fjárhag borgarinnar í óefni.
2. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 7. og 22. apríl. MSS22010003
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 41.-48. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. apríl:
Stafrænar lausnir eru framtíðin, um það er ekki deilt. Búið er að veita til þjónustu- og nýsköpunarsviðs borgarinnar um 13 milljörðum á 3 árum. Farið hefur verið með fjármagnið af lausung. Ómældu fé hefur verið veitt í ráðgjöf sem ekki er séð hvernig skilaði sér. Þetta er óásættanlegt miðað við nútímakröfur um skilvirkni og árangursstjórnun. Í stað þess að setja þær stafrænu lausnir sem liðka fyrir t.d. umsóknarferlum eins og umsókn um leikskólapláss strax í forgang og hefja samvinnu við Stafrænt Ísland frá upphafi, hefur stór hluti þessa fjármagns farið í að belgja út sviðið sjálft. Hver skrifstofan á fætur annarri hefur verið sett á laggirnar á sviðinu og fjöldi fólks úr einkageiranum ráðið til starfa. Búið er að halda úti tilraunateymum sem miða að því að uppgötva stafrænar lausnir sem víða eru til. Hamast er við að finna upp hjólið. Hér má nefna rafrænar undirskriftir sem enn eru í þróun hjá borginni. Nýtt skjalastjórnunarkerfi hefur verið að malla í þrjú ár en er ekki enn komið í fulla notkun. Flokkur fólksins harmar vinnubrögð af þessu tagi en flokkurinn berst fyrir að börn fái þá þjónustu sem þau þarfnast, að fátækt og efnalítið fólk fái þak yfir höfuðið og mat á diskinn sinn.
3. Lagðar fram fundagerðir mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 7. apríl, skipulags- og samgönguráðs frá 6. apríl, umhverfis- og heilbrigðisráðs frá 20. apríl og velferðarráðs frá 6. apríl. MSS22010217
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 16. lið fundargerðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs:
Bókun vegna svars þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 24. mars 2022, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um félagið I Ráðgjöf slf. Fulltrúi Flokks fólksins hefur lengi gagnrýnt það hversu glannalega þjónustu- og nýsköpunarsvið hefur farið með fjármuni borgarbúa. Það að segja upp reyndu starfsfólki með mikla sérfræðiþekkingu á stafrænum innviðum og þjónustu Reykjavíkurborgar og kaupa í staðinn mun dýrari þjónustu af ytri aðilum er í raun aðför að útsvarspeningum borgarbúa. Það er alveg augljóst að þjónustu- og nýsköpunarsvið hefur tekið ákvarðanir sem hafa haft stóraukinn kostnað í för með sér fyrir Reykjavíkurborg. Í svari sviðsins kemur fram að borgarsjóður hefur þurft að greiða um 740 milljónir í aðkeypta þjónustu fyrir sviðið árið 2021 fyrir þjónustu sem brottreknir starfsmenn sáu um áður. Fulltrúi Flokks fólksins spurði einnig um tengsl sviðsstjóra við fyrirtækið I Ráðgjöf sem þjónustu- og nýsköpunarsvið hefur haft viðskipti við en því er ekki svarað. Það er mat Flokks fólksins að það sé í raun með ólíkindum að fyrirtæki sem tengist stjórnanda/embættismanni hjá Reykjavíkurborg hafi átt viðskipti við sviðið sem viðkomandi embættismaður stýrir.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Fulltrúi Flokks fólksins leggur hér enn eina bókunina fram sem samanstendur af fullyrðingum sem eiga sér ekki stoð í raunveruleikanum. Það sem kemur fram um útboð hefur annað hvort verið útskýrt skriflega eða á fundum sem fulltrúinn hefur setið. Afgangurinn virðist byggja á sögusögnum frá ónefndum sérfræðingum og upplýsingum sem virðast túlkaðar á rangan hátt. Þessi málflutningur er ekki svaraverður og dæmir sig sjálfur.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:
Fulltrúi Flokks fólksins hefur litið í opið bókhald Reykjavíkurborgar og fengið upplýsingar þaðan.
Fundi slitið kl. 16:49
Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð
Alexandra Briem
Dóra Magnúsdóttir Kolbrún Baldarsdóttir
PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 26.4.2022 - Prentvæn útgáfa