Borgarráð
Ár 2024, fimmtudaginn 21. mars, var haldinn 5739. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:08. Viðstödd voru Dagur B. Eggertsson, Árelía Eydís Guðmundsdóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Hildur Björnsdóttir, Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir, Kjartan Magnússon og Sanna Magdalena Mörtudóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir og Líf Magneudóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ebba Schram, Ívar Vincent Smárason og Þorsteinn Gunnarsson.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 14. mars 2024, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 13. mars 2024 á tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 vegna lóðarinnar að Einarsnesi 36, ásamt fylgiskjölum.
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.Björn Axelsson og Haraldur Sigurðsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. USK24020304
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Stefna Reykjavíkur um kaupmanninn á horninu birtist í aðalskipulaginu. Unnið er að því að þétta byggð til að halda uppi nærþjónustu til að skapa sjálfbær hverfi. Almennt er ekki mikið um að verið sé að breyta hverfiskjörnum og atvinnuhúsnæði í aðra notkun en forsenda fyrir þessari breytingu sem um ræðir er sérstaða þegar kemur að íbúabaklandi á svæðinu en fjöldinn er langtum minni en við aðra kjarna eins og kemur fram í meðfylgjandi gögnum, sér í lagi sker þessi kjarni sig úr í þessum borgarhluta. Þarna hefur rekstur sömuleiðis gengið brösuglega í lengri tíð. Ef aðstæður breytast og svigrúm skapast til að opna þarna aftur atvinnustarfsemi þá verður það áfram heimilt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins samþykkja fyrirliggjandi breytingu á aðalskipulagi vegna Einarsness 36 enda er hún í samræmi við fyrri afstöðu þeirra til málsins, sbr. umfjöllun og atkvæðagreiðslu á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 5. október 2022.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 14. mars 2024, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 13. mars 2024 á tillögu að breytingu á hverfisskipulagi Árbæjar, hverfi 7.3. Selás, vegna lóðarinnar nr. 98 við Selásbraut, ásamt fylgiskjölum. USK23020273
Samþykkt.Björn Axelsson og Haraldur Sigurðsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.
- Kl. 9:19 taka borgarstjóri og Björg Magnúsdóttir sæti á fundinum.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Í tveimur auglýsingarumferðum berast sambærilegar athugasemdir frá fólki og lúta þær að fjölda íbúða, byggingarmagn og aukna umferð. Þolir lóðin þennan íbúðafjölda? Skipulagsfulltrúi hefur svör á reiðum höndum við öllum athugasemdum. Ein innkeyrsla er færð til að koma til móts við athugasemdir/ábendingu en annað stendur óhaggað, þar með uppbygging á lóð og fjöldi bílastæða. Fulltrúa Flokks fólksins finnst sem þetta samráðsferli geti varla verið alvöru því nánast ekkert sem fólk bendir á að þurfi að laga nær fram að ganga. Þannig er það í flestum sambærilegum málum.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 14. mars 2024, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 13. mars 2024 á auglýsingu á tillögu að breytingu á skilmálum deiliskipulags Vogabyggðar 3, ásamt fylgiskjölum. USK24030035
Samþykkt.Björn Axelsson og Haraldur Sigurðsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 7. mars 2024, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 6. mars 2024 á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Slippa- og Ellingsensreits og Vesturbugtar vegna reita 03 og 04, ásamt fylgiskjölum. USK23100159
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins.Björn Axelsson og Haraldur Sigurðsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Hér er verið að samþykkja deiliskipulag fyrir 177 íbúðir við Vesturbugt en mjög jákvæð þróun hefur átt sér stað er varðar skipulag svæðisins meðal annars til að bæta birtuskilyrði með hærri jarðhæðum og létta á inngarði til að skapa skemmtilegra og sólríkara útisvæði. Kvöð um leikskóla fellur út þar sem aðstæður svæðisins eru ekki í takti við staðla Heilbrigðiseftirlitsins.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins eru hlynntir uppbyggingu við Vesturbugt en telja að byggingarmagn sé of mikið miðað við grunnflöt og heildaryfirbragð aðliggjandi byggðar. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja að yfirbragð og fjölbreytileiki gamla Vesturbæjarins eigi að vera ríkjandi á svæðinu en uppbyggingin á reitnum mun einkennast af einsleitum byggingum sem eiga lítið skylt við eldri byggð og byggingarsögu borgarinnar. Íbúðum er fjölgað frá gildandi deiliskipulagi sem þó er einungis átta ára gamalt og var mótmælt harðlega af íbúum á sínum tíma fyrir of mikið byggingarmagn. Mikla furðu vekur að hætt sé við byggingu leikskóla á reitnum þótt mikill skortur sé á leikskólarýmum í gamla Vesturbænum. Lítil áhersla er lögð á opin svæði á reitnum og ekki er gert ráð fyrir sparkvelli eða öðru svæði til íþróttaiðkunar þar eins og borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa ítrekað lagt til í hinu langa skipulagsferli svæðisins. Það er miður að meirihluti Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar skuli vitandi vits ekki nýta þetta tækifæri til að bæta úr miklum skorti á íþróttaaðstöðu í gamla Vesturbænum heldur leggja áherslu á sem þéttasta uppbyggingu. En gamli Vesturbærinn er það íbúðahverfi borgarinnar sem býr við rýrustu íþróttaaðstöðuna þrátt fyrir að þar búi vel á annað þúsund barna og unglinga.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Af hverju er verið að taka ákvörðun um að hætta við byggingu leikskóla? Kvöð um leikskóla er felld niður í nýrri útgáfu. Í fyrra skipulagi var áætlað að hafa leikskóla og gert ráð fyrir leikskólalóð en mikil þörf er á daggæslu á þessu svæði. Mjög erfitt er að fá pláss á leikskólum í miðbæ/Vesturbæ og börnin eru að komast inn 2-3 ára gömul. Þessi viðbót hefði því verið nauðsynleg þegar bæta á enn frekar við íbúafjöldann hér eins og segir í einni athugasemdinni. Öll vitum við að til að geta lifað bíllausum lífsstíl er nauðsynlegt að fá daggæslu í nærumhverfi og þessar íbúðir gera ekki ráð fyrir mörgum bílastæðum svo líklegt er að gert sé ráð fyrir því að fólk sé ekki mikið á bíl. Það er ómögulegt þegar einu daggæsluplássin eru í öðrum bæjarhlutum. Hljóð og mynd fara ekki saman hér hjá meirihlutanum.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 14. mars 2024, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 13. mars 2024 á auglýsingu á tillögu að deiliskipulagi fyrir Elliðaárvog/Ártúnshöfða, svæði 2A, ásamt fylgiskjölum.
Samþykkt.Björn Axelsson, Björn Guðbrandsson, Þráinn Hauksson og Sólveig Sigurðardóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. USK23010195
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Verið er að samþykkja í auglýsingu deiliskipulag fyrir 600 íbúðir á stærsta þróunar- og uppbyggingarsvæði Reykjavíkur í kringum Elliðavog og Ártúnshöfða. Skipulag svæðisins sem er verið að auglýsa er kennt við Ártúnshöfða 2A og afmarkast af núverandi Ártúnshöfða til austurs, Elliðaám til vesturs, Stórhöfða til suðurs og til norðurs af lóðarmörkum við Sævarhöfða 12. Áætlað er að á svæði þessa borgarhluta rísi allt að 8.000 íbúðir sem munu hýsa álíka fjölda íbúa og Grafarvogur eða um 20.000 manns en á sjöfalt minna svæði. Um er að ræða fyrsta hverfi Reykjavíkur sem rís alfarið innan borgarmarkanna. Á svæðinu er gert ráð fyrir þéttri, blandaðri byggð sem gefur kost á búsetu, atvinnu og þjónustu innan hverfis. Jafnframt er gert ráð fyrir skilvirkum tengingum almenningssamgangna með Borgarlínu sem flæðir sem lykilás í gegnum borgarhlutann. Nálægð við strandlengjuna og útivistarsvæði Elliðaárdals skapar svæðinu mikla sérstöðu í borginni.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks samþykkja að setja skipulagið í lögbundið samráðsferli en gera hefðbundna fyrirvara um endanlega afgreiðslu málsins.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 18. mars 2024, ásamt fylgiskjölum:
Lagt er til að borgarráð og eftir atvikum borgarstjórn samþykki hjálagða tillögu nefndar um tilnefningar og kosningar til stjórnar fyrirtækja í eigu Reykjavíkurborgar, dags. 18. mars sl., að skipan fulltrúa Reykjavíkurborgar í stjórn Félagsbústaða hf. Aðalfundur félagsins verður haldinn 26. mars 2024. MSS24030096
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins og leggur fram svohljóðandi bókun:Mikilvægt er að leigjandi Félagsbústaða sitji í stjórn þess en ekki er gert ráð fyrir því í núverandi samþykktum. Leigjandi Félagsbústaða sat í stjórn félagsins á síðasta kjörtímabili sem fulltrúi Sósíalista.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 18. mars 2024, ásamt fylgiskjölum:
Lagt er til að borgarráð samþykki að á aðalfundi Félagsbústaða, sem haldinn verður 26. mars nk., verði tillögur nr. 4 og 5 samkvæmt hjálögðum gögnum, varðandi annars vegar ákvörðun um meðferð og niðurstöðu rekstrarreiknings og hins vegar greiðslur til stjórnarmanna, samþykktar.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins. MSS24030093Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 19. mars 2024, ásamt fylgiskjölum:
Lagt er til að borgarráð staðfesti hjálagða viljayfirlýsingu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Stafræns Íslands og Reykjavíkurborgar, um samræmt verklag sveitarfélaga í byggingarmálum.
Samþykkt. MSS24030089
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Það er ákveðið fagnaðarefni að skilningur sé að myndast á því hagræði, samlegðaráhrifum og auknum þjónustugæðum sem náin samvinna ríkis og sveitarfélaga í stafrænni umbreytingu skilar. Það er þó ekki bara húsnæðis- og byggingamál sem þurfa að vera í náinni samvinnu ríkis og sveitarfélaga heldur svo til öll innleiðing og þróun stafrænna þjónustulausna. Við í Flokki fólksins höfum stöðugt verið að gagnrýna þá einangrunarstefnu sem þjónustu- og nýsköpunarsvið hefur haft í stafrænum málum og er það okkar skylda sem kjörinna fulltrúa að halda því áfram þangað til Reykjavíkurborg fer að átta sig að fullu á mikilvægi slíkrar samvinnu áður en það verður orðið of seint. Reykjavíkurborg er því miður orðin á síðustu metrunum hvað varðar fjármagn í stafræna umbreytingu eftir að þjónustu- og nýsköpunarsvið er búið að eyða rúmlega 20 milljörðum í eitthvað allt annað en það að samhæfa að sem mestu leyti opinbera rafræna þjónustu í samvinnu með ríki og öðrum sveitarfélögum. Stafræn framtíð þjónustulausna hins opinbera hér á Íslandi sem og annars staðar, er á beinni leið til samvinnu og samhæfingar en ekki í þann farveg sem þjónustu- og nýsköpunarsvið Reykjavíkurborgar hefur verið að troða undanfarin ár.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 19. mars 2024, ásamt fylgiskjölum:
Í samræmi við 3. gr. reglugerðar 1248/2018 (sbr. einnig 14 gr. laga nr. 44/1998 m.s.br.) um húsnæðisáætlanir, er lögð fram til samþykktar stafræn útgáfa húsnæðisáætlunar Reykjavíkur sem verður í kjölfarið skilað til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Einnig er lögð fram á ný húsnæðisáætlun Reykjavíkur 2024-2033, sem samþykkt var 21. desember 2023, endurbætt varðandi framsetningu og útlit. Stafræn útgáfa áætlunarinnar byggir í öllu á sömu forsendum og markmiðum og samþykkt áætlun borgarinnar, en er sett fram samkvæmt forskrift og stöðlum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og miðar m.a. að því að auðvelda samanburð á húsnæðisáætlunum milli sveitarfélaga.
Greinargerð fylgir tillögunni. MSS23120067
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.Haraldur Sigurðsson, Óli Örn Eiríksson og Hilmar Hildar Magnúsarson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.
- Kl. 10:10 víkur Hildur Björnsdóttir af fundinum og Marta Guðjónsdóttir tekur þar sæti.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Það er afar mikilvægt að hið opinbera leggi saman krafta sína í þróun stafrænna lausna á sem flestum sviðum. Hér er hafið formlegt samstarf um stafrænar lausnir á sviði byggingarmála en þar hefur Reykjavíkurborg þróað stafræna gátt fyrir byggingarleyfisumsókn sem hefur hlotið afar góðar viðtökur.
Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Um 1.000 manneskjur bíða eftir húsnæði hjá borginni. 675 bíða eftir almennu félagslegu leiguhúsnæði, þar af 154 barnafjölskyldur þar sem biðtíminn er langur. Staðan á leigumarkaði er gríðarlega erfið og margar fjölskyldur og margt fólk kemst ekki einu sinni á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði þrátt fyrir að búa við erfiðar fjárhagslegar og félagslegar aðstæður. Félagsbústaðir hafa ekki náð að kaupa íbúðir í takt við kaupáætlun og sú kaupáætlun gerir ekki einu sinni ráð fyrir því að útrýma biðlistum. Laga verður leigumarkaðinn að þörfum þeirra sem þurfa á öruggu húsnæði á að halda og uppbygging þarf að fara fram á félagslegum forsendum.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Lögð er fram stafræn útgáfa húsnæðisáætlunar Reykjavíkur sem verður í kjölfarið skilað til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Einnig er lögð fram á ný húsnæðisáætlun Reykjavíkur 2024-2033. Segir í gögnum að stafræn útgáfa áætlunarinnar byggi í öllu á sömu forsendum og markmiðum og samþykkt áætlun borgarinnar, en er sett fram samkvæmt forskrift og stöðlum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. En til hvers að hafa þetta á tveimur stöðum spyr Flokkur fólksins? Verkefni Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og borgarinnar skarast. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun er framarlega í stafrænum lausnum og kannski er spurning að láta hana um þessa vinnu sem snýr að yfirliti yfir íbúðir og byggingaframkvæmdir í Reykjavík og að borgin snúi sér að því að ljúka öðrum brýnum lausnum. Einnig mætti skoða að hafa þetta sameiginlegt, að þarna væri samvinna og kostnaði við vinnuna yrði deilt á Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og borgina.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 19. mars 2024, varðandi fyrirkomulag hátíða og viðburða í Reykjavík 2024, þ.e. Vetrarhátíð, Barnamenningarhátíð og Menningarnótt auk hátíðahalda á þjóðhátíðardaginn 17. júní, tendrun friðarsúlu Yoko Ono í Viðey og fjölbreyttrar sumar- og jóladagskrár í miðborginni, ásamt fylgiskjölum. MSS24030091
Eva Bergþóra Guðbergsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Það eru margir áhugaverðir viðburðir í borginni um það er ekki deilt. Það er kannski ofsögum sagt að fólk sé að springa af tilhlökkun eftir að mæta á viðburð í borginni eins og nefnt er í gögnum en ef svo er þá er það dásamlegt. Aðgengismál eru hluti hindrana sem koma í veg fyrir að fólk kemur á viðburði miðborgarinnar. Heyrst hafa raddir fatlaðs fólks um aðgengi að stórviðburðum í miðbæ. Það geta ekki allir nýtt sér Strætó. Framkvæmd stórviðburðar felur í sér hindranir fyrir margt fatlað fólk vegna takmörkunar á aðgengi að svæðinu. Endurskoða þarf framkvæmdina ef jafnræði og jafnrétti á að ríkja í þessum málum. Borgin verður að sýna meiri metnað við skipulagningu viðburða. Ef ákveðið er að loka fyrir bílaumferð inn á ákveðin svæði þá þurfa margir hreyfihamlaðir einstaklingar frá að hverfa sem treysta sér ekki langa vegalengd án bíls. Það verður að hleypa stæðiskorthöfum inn á svæðið og á stæði nálægt viðburðinum, en að sjálfsögðu svo að öryggis sé gætt. Það segir líka í aðgengisstefnu Reykjavíkurborgar að viðburðir borgarinnar séu fyrir öll og mæti fjölbreyttum þörfum og að ætíð sé gætt að aðgengi á skipulögðum viðburðum á vegum borgarinnar og stuðningur sé til staðar.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 19. mars 2024, þar sem skýrsla um Vetrarhátíð 2024 er send borgarráði til kynningar, ásamt fylgiskjölum. MSS24030090
Eva Bergþóra Guðbergsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 21. mars 2024, varðandi ábyrgðargjald Orkuveitu Reykjavíkur á árinu 2024, ásamt fylgiskjölum.
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins.Halldóra Káradóttir og Bjarki Rafn Eiríksson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS24030011
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Eðlilegt er að það kosti Orkuveituna að vera á ábyrgð borgarsjóðs en hækkun á ábyrgðargjaldi lendir á notendum.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 14. mars 2024, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki kaupsamning um sölu á eigninni Hallgerðargata 1, íbúð 109, ásamt fylgiskjölum.
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins. FAS23080004Fylgigögn
-
Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 17. mars 2024, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki leigusamning um húsnæði að Gufunesvegi 25, ásamt fylgiskjölum.
Samþykkt.- Kl. 10:35 tekur Þórdís Lóa Þórhallsdóttir sæti á fundinum og Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir víkur. FAS24030029
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 19. mars 2024, ásamt fylgiskjölum:
Lagt er til að borgarráð samþykki meðfylgjandi samning um viðskiptavakt á eftirmarkaði með skuldabréf Reykjavíkurborgar og samning um fyrirgreiðslu vegna samnings um viðskiptavakt. Reykjavíkurborg mun gera samhljóða samninga til eins árs við Arion banka, Íslandsbanka, Kviku banka og Landsbankann.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins.Halldóra Káradóttir og Bjarki Rafn Eiríksson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS24010029
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Samningur um viðskiptavakt 2024 sem lagður er fram til afgreiðslu. Viðskiptavakt er skilgreind þannig að hún á að bæta verðmyndun á bréfum borgarinnar. Hér er um að ræða samning við óþekktan viðskiptavaka, sem þýða um 59 milljóna útgjöld fyrir borgarbúa og hækkun á þóknun milli ára er 3 milljónir. Í gögnum segir: „Reykjavíkurborg mun gera samhljóða samninga til eins árs við Arion banka, Íslandsbanka, Kviku banka og Landsbankann.“ Sem væntanlega þýðir að kostnaðurinn á þessum lið verður yfir 20 milljóna hækkun. Fulltrúi Flokks fólksins sér ekki betur en að hér sé eitt dæmið enn um ákvarðanir, síendurteknar, um að alltaf megi leita til utankomandi aðila þegar ákvarðanir eru teknar, sama hvað það kostar. Kannski væri nær að ráða einhvern einn aðila til að vera á „skuldabréfavaktinni“. Það myndi alla vega vera hagkvæmara klárlega.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 6. mars 2024, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að hefja útboð á skjala- og eftirlitskerfi fyrir Heilbrigðiseftirlitið, ásamt fylgiskjölum.
Samþykkt.Þröstur Sigurðsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. ÞON23090002
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að loksins sé stafræn umbreyting að ná til Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur. Samkvæmt greinargerð er staða stafrænna mála hjá eftirlitinu algjörlega óásættanleg og vekur það undrun hjá fulltrúanum að ekki sé enn búið að uppfæra kerfi Heilbrigðiseftirlitsins eftir að búið er að eyða rúmlega 20 milljörðum í annað sem að stórum hluta hefði mátt koma síðar.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 5. mars 2024, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að hefja vinnu við verkefnið skilvirkara umhverfi stafrænna lausna, ásamt fylgiskjölum.
Samþykkt.Þröstur Sigurðsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. ÞON23120020
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Flokks fólksins fagnar enn og aftur öllum stafrænum lausnum sem væntanlega munu koma betra skikki á stafræna innviði Reykjavíkurborgar. En á sama tíma, eins og svo oft áður, ætti fyrir löngu verið búið að klára þetta verkefni því ekki hefur vantað að gríðarlegu fjármagni hafi verið veitt til sviðsins. Enn er verið að biðja um meira fjármagn í allskyns innleiðingar eins og á gagnalandslagi en það hefur einmitt oft komið fram í kynningum sviðsins undanfarin ár án þess að mikið hafi skilað sér úr þeirri vinnu hingað til.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 6. mars 2024, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að hefja verkefnið fundarumsjónarkerfi borgarstjórnar, ásamt fylgiskjölum.
Samþykkt.Þröstur Sigurðsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. ÞON22120023
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Flokks fólksins fagnar enn og aftur mögulegum uppfærslum á fundarumsjónarkerfi fyrir borgarstjórn. Um leið vekur það furðu fulltrúans að ekki sé fyrir löngu búið að uppfæra þessi kerfi sem notuð eru á jafn mikilvægum fundum eins og eru í borgarstjórn.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 18. mars 2024, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 13. mars 2024 á tillögu um breytingar á reglum um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg, ásamt fylgiskjölum.
Samþykkt með sex atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn atkvæði borgarráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands.Málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar með vísan til ákvæða 2. mgr. 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.
Rannveig Einarsdóttir, Helga Jóna Benediktsdóttir og Sigrún Skaftadóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið. VEL22110033
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Breytingar á reglum um fjárhagsaðstoð eru mikilvægur liður í því að skýra betur reglurnar sem og að skerpa á því að þær þjóni betur tilgangi sínum í samræmi við lög um félagsþjónustu nr. 40/1991, en markmið þeirra laga er m.a. að styrkja fólk til sjálfshjálpar. Markmið reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð er hér eftir sem áður að virða sjálfsákvörðunarrétt umsækjenda og styðja þá til sjálfshjálpar, virkrar þátttöku og valdeflingar. Reglurnar eru í samræmi við vinnu við virknistefnu Reykjavíkur sem nú er í gangi. Nýlega var upphæð fjárhagsaðstoðar hækkuð og því var ekki farið í endurskoðun á upphæð fjárhagsaðstoðar að undanskildu því að húsbúnaðarstyrkur var hækkaður úr 100.000 kr. í 150.000 kr. Í reglunum er tryggt að hægt sé að falla frá skerðingu fjárhagsaðstoðar vegna barna. Ríkið greiðir meðlag með börnum og því er lagt til að Reykjavík hætti að borga þær greiðslur til ríkisins. Þá var orðalagi og uppsetningu reglna breytt og uppfært. Reglurnar fóru til umsagnar inn á samráðsvef Reykjavíkur og var tekið tillit til umsagna eftir því sem við átti.
Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Fjárhagsaðstoð er fyrir þau sem hafa ekkert annað að leita í og eru upphæðirnar mjög lágar. Skylt er að veita fjárhagsaðstoð til framfærslu einstaklinga og fjölskyldna sem ekki geta séð sér og sínum farborða án aðstoðar. Grunnupphæð fjárhagsaðstoðar fyrir skatt er 239.895 kr. Upphæðirnar eru breytilegar t.a.m. út frá húsnæðisstöðu og sambúðarformi. Erfitt er að sjá hvernig ætlast er til þess að manneskjur komist í gegnum dagana á þessum lágu upphæðum. Í reglum kemur fram að ef umsækjandi mæti ekki í boðað viðtal hjá ráðgjafa eða á boðað námskeið, sé heimilt að skerða grunnfjárhæð til framfærslu um helming. Ef veigamiklar ástæður mæla gegn lækkun grunnfjárhæðar þá er samt sem áður lagt til að heimilt verði að lækka fjárhæð til framfærslu um 15%. Hér er óljóst hvað „veigamiklar ástæður“ þýða og hvernig slíkt verði metið. Þá er einnig áhersla á að það sé hvenær sem er hægt að gera kröfu um að umsækjandi sanni deili á sér með því að sýna skilríki. Fulltrúi Sósíalista telur mikilvægt að inntak reglnanna byggi á stuðningi og fjárhagslegu öryggi fyrir þau sem þurfa á fjárhagsaðstoð að halda, í stað þess að byggja á tortryggni og vantrausti í garð þeirra sem sækja um fjárhagsaðstoð.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Tillaga um breytingar á reglum um fjárhagsaðstoð er á ýmsa vegu til bóta, t.d. er skýrara hvenær eigi að veita lán fremur en styrk. Einnig að heimilt er að veita undanþágu frá tekjum fyrri mánaðar vegna einstaklinga sem eru að ljúka endurhæfingu. Breytingar eru gerðar á viðmiðum um framvísun persónuskilríkja til að sanna á sér deili. Fulltrúi Flokks fólksins hefur nokkrar áhyggjur af málsgreininni „Sanna skal á sér deili innan tveggja virkra daga frá því að umsókn var lögð fram nema lögmæt forföll hamli því, s.s. veikindi eða fötlun.“ Hvernig á að bregðast við ef einstaklingur kemst ekki vegna fötlunar eða dvelur á sjúkrahúsi eða stofnun? Gera á þá breytingu að ef einstaklingur mætir ekki í boðað viðtal, námskeið, staðfestir ekki atvinnuleit eða hafnar vinnu verður grunnfjárhæð skert um 50% en heimild sé að skerða eingöngu um 15% ef viðhlítandi skýringar eða veigamiklar ástæður eru fyrir hendi. Tilgangurinn er augljóslega að hvetja fólk til virkni og að sporna gegn misnotkun á öryggisneti velferðarkerfisins. Það er hins vegar óljóst hver á að meta hversu miklar skerðingarnar eigi að verða. Það er vissulega tilgreint að taka eigi tillit til fjölda barna á framfærslu sem er vel.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 18. mars 2024, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 13. mars 2024 á tillögu um tímabundna framlengingu þjónustusamnings við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið um samræmda móttöku flóttafólks, ásamt fylgiskjölum.
Samþykkt.Helgi Grímsson, Rannveig Einarsdóttir, Dagbjört Ásbjörnsdóttir og Sigþrúður Erla Arnardóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Borgarfulltrúarnir Alexandra Briem, Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir, Friðjón R. Friðjónsson, Helga Þórðardóttir, Sabine Leskopf og Þorvaldur Daníelsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. VEL24030026Fylgigögn
-
Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 19. mars 2024, þar sem minnisblað samhæfingarhóps um móttöku flóttafólks með yfirliti yfir stöðu helstu verkefna er sent borgarráði til kynningar, ásamt fylgiskjölum.
Helgi Grímsson, Rannveig Einarsdóttir, Dagbjört Ásbjörnsdóttir og Sigþrúður Erla Arnardóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Borgarfulltrúarnir Alexandra Briem, Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir, Friðjón R. Friðjónsson, Helga Þórðardóttir, Sabine Leskopf og Þorvaldur Daníelsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS22030128Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 19. mars 2024, ásamt fylgiskjölum:
Lagt er til að borgarráð samþykki hjálagða tillögu sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 15. mars 2024, um að koma á fót skóla- og fjölskyldumiðstöð fyrir börn á leikskóla-, grunnskóla- og framhaldsskólaaldri í kjölfar fjölskyldusameiningar fólks frá Palestínu. Verkefnið er fjármagnað að hluta úr ramma skóla- og frístundasviðs en þörf er á viðbótarfjármagni upp á 13.100.000 kr. Skóla- og frístundasvið mun sækja um styrk frá mennta- og barnamálaráðuneytinu til að mæta þeim viðbótarkostnaði. Muni Reykjavíkurborg þurfa að standa að einhverjum viðbótarkostnaði vegna verkefnisins verður lagður fram viðauki þess efnis þegar upphæðin liggur fyrir.
Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs. MSS24030094
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um einskiptisafslátt af sorphirðugjöldum, sbr. 29. lið fundargerðar borgarráðs frá 17. ágúst 2023. Einnig lögð fram umsögn fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 18. mars 2024.
Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn þremur atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands. MSS23080042Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Vandræði í sorphirðu í Reykjavík á liðnu ári höfðu þær afleiðingar að fjölmargir borgarbúar urðu fyrir verulegri þjónustuskerðingu og óþægindum. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja eðlilegt að veita þeim notendum afslátt af sorphirðugjöldum sem urðu fyrir verulegri þjónustuskerðingu. Enda tíðkast í venjulegum viðskiptum að innheimta ekki full gjöld fyrir þjónustu nema hún hafi verið veitt. Frávísun tillögunnar leiðir í ljós að meirihluti Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar telur eðlilegt að Reykvíkingar greiði full sorphirðugjöld þrátt fyrir umræddan þjónustubrest. Rúmir sjö mánuðir liðu frá framlagningu tillögunnar í borgarráði þar til hún var tekin til afgreiðslu. Slíkur dráttur er óeðlilegur og skýrt dæmi um óvandaða stjórnsýslu í þessu máli.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Bókun Sjálfstæðisflokksins er mjög villandi. Líkt og fram kemur í umsögn fjármála- og áhættustýringarsviðs var beðið með hækkun sorphirðugjalda í samræmi við lög allt síðasta ár á meðan á innleiðingu nýs fyrirkomulags stóð og næstu mánuði þar á eftir. Það jafngildir afslætti af sorphirðugjöldum. Tillögunni var því réttilega vísað frá.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Af bókun meirihlutans má ráða að þrátt fyrir miklar hækkanir sorphirðugjalda í Reykjavík á undanförnum árum, megi borgarbúar þakka fyrir að hafa ekki verið rukkaðir um enn hærri gjöld á árinu 2023 en raunin varð. Virðist það eiga jafnt við um þá sem fengu viðunandi þjónustu og hina fjölmörgu sem urðu fyrir þjónustuskerðingu.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 18. mars 2024, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um gjaldskrá sorphirðu, sbr. 49. lið fundargerðar borgarráðs frá 1. september 2022. MSS22090014
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Hér er verið að svara tæplega tveggja ára gamalli fyrirspurn. Spurt var um gjaldskrárhækkanir og meðaltalshækkun á hvert heimili í sorphirðu fyrir og eftir breytingar sem fyrirhugaðar voru á þeim tíma sem fyrirspurnin var lögð fram. Þessi fyrirspurn er vegna aldurs úrelt en svarið gefur þó mynd af því hvað gjaldskrárhækkun hefur í raun verið mikil síðustu ár, eða 8% milli ára.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar skrifstofu borgarstjórnar, dags. 19. mars 2024, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um sparnað vegna niðurlagningar Borgarskjalasafns, sbr. 46. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. mars 2024. MSS24030048
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Rétt er eins og kemur fram í svari að um þessar mundir liggja fyrir drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um opinber skjalasöfn. Drögin eru ekki komin til þingsins og líklega verður á því töf. Í þeim segir að ef standi til að hætta starfsemi héraðsskjalasafna skuli Þjóðskjalasafni afhent safngögnin á kostnað þess sveitarfélags sem að því stendur. Í 2. gr. b-liðar er kveðið á um að þegar skjöl sveitarfélags séu afhent Þjóðskjalasafni Íslands skuli greiða fyrir móttöku þeirra, vörslu, ráðgjöf um skjalahald og eftirlit samkvæmt gjaldskrá. Með þessu má ætla að ef frumvarpið nær fram að ganga þá séu forsendur meirihlutans fyrir lokun Borgarskjalasafns brostnar þar sem ljóst má telja að flutningur Borgarskjalasafns eða gagna safnsins yfir í Þjóðskjalasafn á eftir að vera kostnaðarsamur. Eins og flestum er í fersku minni kom ákvörðun um niðurlagningu Borgarskjalasafns eins og reiðarslag, nánast úr launsátri. Samráði um frumvarpið lauk fyrir skemmstu og hafa margar athugasemdir borist. Í umsögnum er m.a. lögð áhersla á, þ.m.t. frá vísindasamfélaginu, að ákvörðun um að leggja niður Borgarskjalasafn verði snúið við og þess í stað unnið að því að tryggja örugga skjalavörslu og að lögfesta skyldu sveitarfélaga til að vera aðili að héraðskjalasafni.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 11. mars 2024, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um tekjur af Bragganum, sbr. 43. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. mars 2024. MSS24030046
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins spurði hvaða tekjur Reykjavíkurborg hefur haft af Bragganum síðastliðin t.d. 3-5 ár og hver kostnaðurinn hefur verið á sama tíma auk þess sem óskað var upplýsinga um framkvæmdir á húsinu. Í svari segir að tekjur vegna hluta hússins sem er leigður til Grunnstoðar ehf. voru á árinu 2020 til loka árs 2023 krónur 37.070.540. Kostnaður á sama tíma er meiri en helmingur af þessum tekjum, það eru fasteignagjöld, fráveitugjöld, tryggingar og annað. Segja má að tekjur séu óverulegar eftir allt sem á undan er gengið með braggann sem verður ekki rifjað upp hér. Gott er þó að tekjur eru einhverjar.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð endurskoðunarnefndar frá 11. mars 2024. MSS24010003
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð heilbrigðisnefndar frá 14. mars 2024. MSS24010007
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð íbúaráðs Árbæjar og Norðlingaholts frá 12. mars 2024. MSS24010009
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð íbúaráðs Kjalarness frá 14. mars 2024. MSS24010014
Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðarinnar:
Fulltrúi Sósíalista tekur undir bókun við 1. lið í fundargerðinni en bókunin er svohljóðandi: Íbúaráðið óskar eftir því að haldinn verði opinn íbúafundur þar sem breytingar á aðalskipulagi í Álfsnesi verði teknar til kynningar líkt og gert var varðandi Sundabraut enda er skotsvæðið ekki síður mikilvægt mál í hugum íbúa. Lagt er til að slíkur kynningarfundur færi fram fyrir íbúa áður en athugasemdafrestur er liðinn þann 4. apríl næstkomandi. Sé ekki mögulegt að halda slíkan fund fyrir lok athugasemdarfrests leggur ráðið til að athugasemdarfrestur verði framlengdur svo íbúar hafi tækifæri til senda athugasemdir í kjölfar íbúafundar.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðarinnar:
Íbúaráð Kjalarness óskar eftir að haldinn verði opinn íbúafundur þar sem breytingar á aðalskipulagi í Álfsnesi vegna skotsvæðis verði teknar til kynningar og að slíkur kynningarfundur færi fram fyrir íbúa áður en athugasemdafrestur er liðin þann 4. apríl næstkomandi ella skuli athugasemdarfrestur framlengdur. Á þessum fundi óskaði íbúi eftir að önnur bókun fylgdi með fundargerðinni þar sem fram kæmi að tveimur dögum fyrir fundinn var ekki enn farið að auglýsa hann og ekki á dagskránni að kynning yrði frá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar. Öllu máli skipti að fá sem flesta á fundinn vegna breytinga á aðalskipulagi vegna skotsvæðis. Beiðni um að þessi bókun fylgdi með var hafnað, að slíkt væri ekki leyfilegt. Það sem íbúar þurftu nauðsynlega að vita var að breytingin á aðalskipulagi vegna skotæfingarsvæðisins er nú auglýst aftur og eru þá áður sendar athugasemdir ekki teknar til greina. Senda verður aftur inn athugasemdir á skipulagsgáttina. Flokkur fólksins undrast þessi vinnubrögð í íbúaráðinu og upplifir að vonast hafi verið til að sem fæstir kæmu á fundinn til að umræðan yrði síður þrungin og erfið. Það er mikilvægt fyrir íbúa og landeigendur að koma sjónarmiðum sínum á framfæri í þessu erfiða máli. Íbúaráðið ætti að beita sér af krafti til að upplýsa og hvetja til umræðu um málið.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð íbúaráðs Laugardals frá 11. mars 2024. MSS24010015
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð stjórnar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins frá 16. febrúar 2024. MSS24010026
Fylgigögn
-
Lagðar fram fundargerðir stjórnar Strætó bs. frá 6. og 8. mars 2024. MSS24010030
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 20. mars 2024.
6. liður fundargerðarinnar er samþykktur. MSS24010031Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 4., 10. og 12. lið fundargerðarinnar:
4. mál: Vissulega vill fulltrúi Flokks fólksins gleðjast að betur muni fara um fugla í stærra rými. Hins vegar er nokkuð sláandi hvað fjölga á fuglunum mikið, eða tvöfalda fjöldann. Fulltrúinn getur ekki til þess hugsað að illa fari um hænsnin, nóg er álagið samt fyrir dýrin að vera í aðstæðum sem þessum. Aðrar athugasemdir snúa að lyktarmengun vegna stækkunar Stjörnueggs. Í ljósi þess að óvissa er um áhrif stækkunarinnar telur Umhverfisstofnun rétt að tekið verði tillit til þess við gerð skilmála deiliskipulagsins. Fleiri athugasemdir hafa nú bæst við og er mótmælt að byggja eigi svo stór hús þarna. Bent er á að þarna sé íbúasvæði ekki iðnaðarhverfi. Talað er um hættu á mögulegri vatnsmengun. 10. og 12. mál: Íbúaráð Háaleitis- og Bústaðahverfis hefur verið að leggja fram tillögur um lækkun hámarkshraða á Suðurlandsbraut og að fjölga skuli þverunum á Bústaðavegi. Er íbúaráðið að leggja þetta með til meirihlutann í hverfinu að baki sér? Hafa málin verið rædd á íbúafundum? Íbúaráð þurfa að muna að þau eiga að vinna fyrir fólkið í hverfinu og áður en lagt er til hvort heldur að sem er að lækka eða hækka hámarkshraða eða þrengja götur þarf að liggja fyrir sátt um það í hverfinu. Íbúaráðin eru ekki eyland.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð öldungaráðs frá 13. mars 2024. MSS24010033
Fylgigögn
-
Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls sex mál. MSS24030019
Fylgigögn
-
Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. MSS24030011
Fylgigögn
-
Lagðar fram styrkumsóknir sem borist hafa borgarráði utan umsóknartíma.
Öllum styrkumsóknum er hafnað.
Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins. MSS24010168 -
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:
Á dögunum var í fjölmiðlum fjallað um viðskipti Reykjavíkurborgar við lífstílsverslun sem tengist sviðsstjóra þjónustu- og nýsköpunarsviðs borgarinnar nánum böndum og er rekin frá heimili hans. Borgarráð samþykkir að fela innri endurskoðun Reykjavíkurborgar að ráðast í úttekt á viðskiptunum. MSS24030121
Frestað.
-
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til að borgarráð samþykki að hækka niðurgreiðslu Reykjavíkurborgar hjá einkareknum ungbarnaleikskólum þegar barn nær 18 mánaða aldri, í þeim tilvikum þegar barn er með virka umsókn en fær ekki pláss hjá dagforeldrum eða á borgarreknum leikskóla.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Frestað.- Kl. 12:05 víkur Árelía Eydís Guðmundsdóttir af fundinum.
Fylgigögn
Fundi slitið kl. 12:13
Dagur B. Eggertsson Dóra Björt Guðjónsdóttir
Kjartan Magnússon Marta Guðjónsdóttir
Sanna Magdalena Mörtudottir Þórdís Lóa Þórhallsdóttir
PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð borgarráðs 21.03.2024 - Prentvæn útgáfa