Borgarráð - Fundur nr. 5714

Borgarráð

Ár 2023, fimmtudaginn 7. september, var haldinn 5714. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:09. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Einar Þorsteinsson, Alexandra Briem, Heiða Björg Hilmisdóttir, Hildur Björnsdóttir, Kjartan Magnússon, Pawel Bartoszek og Trausti Breiðfjörð Magnússon. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir og Stefán Pálsson. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Diljá Ragnarsdóttir, Ebba Schram, Ívar Vincent Smárason og Þorsteinn Gunnarsson.
Fundarritari var Bjarni Þóroddsson.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 30. ágúst 2023, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 30. ágúst 2023 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir Laugaveg 176, ásamt fylgiskjölum.

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK23030175

    Fylgigögn

  2. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 7. september 2023, þar sem tilkynnt er að á fundi borgarstjórnar þann 5. september 2023 hafi verið samþykkt að Pawel Bartoszek tæki sæti í borgarráði í stað Þórdísar Lóu Þórhallsdóttir. Jafnframt var samþykkt að Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir tæki sæti sem varamaður í ráðinu í stað Pawels. MSS22060043

    Fylgigögn

  3. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 5. september 2023, ásamt fylgiskjölum:

    Meðfylgjandi greining, hugmyndir og tillögur um haftengda upplifun og útivist í Reykjavík draga fram að fjölmörg sóknarfæri eru fyrir hendi fyrir haftengda upplifun sem hafa það að markmiði að auka lífsgæði borgarbúa og stuðla að bættri lýðheilsu. Lagt er til að borgarráð samþykki að farið verði í frekari undirbúningsvinnu við gerð haftengdrar upplifunar og útivistar í Reykjavík í samræmi við meðfylgjandi greiningu og skýrslu starfshóps um haftengda upplifun og útivist í Reykjavík, dagsett í júní sl. Skýrslan og meðfylgjandi minnisblað verði sent til umfjöllunar menningar- og íþróttaráðs og umhverfis- og skipulagsráðs sem taki tillögur að aðgerðum á þeim ellefu svæðum sem starfshópurinn fjallar um til umfjöllunar, meti hugmyndirnar og forgangsraði þeim með áherslu á aðgerðir sem nái til margra með sem lægstum tilkostnaði. Þá er lagt til að aðgerðaáætlun verði vísað til undirbúnings fjárfestingaráætlunar fyrir árið 2024 og til næstu tíu ára og gerðar fjárhagsáætlunar á viðkomandi sviðum. Skýrslan ásamt minnisblaði um hafnarsvæði verði einnig send til umfjöllunar stjórnar Faxaflóahafna og verði borgarstjóra falið að fylgja málinu eftir og þeim hugmyndum sem þar koma fram.

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Samþykkt.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. Rebekka Guðmundsdóttir, Hilmar Hildar Magnúsarson, Steinþór Einarsson og Harpa Þorsteinsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. USK22090017

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fjölmörg sóknarfæri eru fyrir hendi þegar kemur að uppbyggingu á haftengdri upplifun og útivist við strandlengjuna í Reykjavík, en í skýrslunni eru svæði sem henta fyrir ýmiss konar haftengda upplifun kortlögð. Stefnumótun um haftengda upplifun hefur að markmiði að auka lífsgæði borgarbúa með því að þróa fjölbreyttar leiðir til að njóta strandarinnar og hafsins og gera sjóinn og ströndina aðgengilegri fyrir öll. Með hverju verkefni sem hér er lagt til verður Reykjavík betri borg, meiri útivistar- og náttúruborg, meiri heilsuborg og meiri lífsgæðaborg.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Borgarstjóri leggur til að farið verði í frekari undirbúningsvinnu við gerð haftengdrar upplifunar og útivistar í Reykjavík í samræmi við meðfylgjandi greiningu og skýrslu starfshóps um haftengda upplifun og útivist í Reykjavík. Fulltrúi Flokks fólksins finnst þessi tillaga ekki nógu trygg. Svo virðist sem eyðileggja eigi fleiri fjörur. Þessu til áréttingar segir sem dæmi að „huga þurfi að ákveðnum svæðum þegar kemur að aðgengismálum s.s. Nauthólsvík, Nýi Skerjafjörður, Ægisíða, Laugarnes og Bryggjuhverfi og að aðgengi fyrir alla þýði að gerðar verði landfyllingar, varnargarðar, malbikaðir stígar“. Og þetta er allt á kostnað náttúrunnar. Hvað með friðlýsingu strandlengjunnar? spyr fulltrúi Flokks fólksins. Í gögnum má finna setningu eins og „Svæðið er framtíðarlandfylling“. Á þessu orðalagi má sjá að fjörur eru ekki virtar. Á það er minnst að landfyllingar eru ekki í þágu lifandi náttúru sem til lengdar er verðmætasta upplifun borgarbúa. Allt sem er manngert virðist í tísku nú og ef það er ekki manngert þá er það bara álitið hallærislegt. Þetta er slæm þróun að mati fulltrúa Flokks fólksins. Hvert er verið að stefna með viðhorfi sem þessu?

    Fylgigögn

  4. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 5. september 2023, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgar- og atvinnuþróunarteymi á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara verði falið að kanna raunhæfni hugmyndar um að Parísarhjóli verði komið fyrir í tilraunaskyni til nokkurra ára á Miðbakka í samræmi við hugmynd í minnisblaði starfshóps um haftengda upplifun og útivist við útisvæði Faxaflóahafna. Í minnisblaðinu koma fram ýmiss konar hugmyndir að haftengdri upplifun og útivist við hafnarsvæðið sem borgarstjóri mun fylgja eftir en sérstök ástæða er til að setja hugmynd um Parísarhjól í farveg. Eðlilegt er að það verkefni verði hugsað á viðskiptalegum grunni, án fjárútláta borgarinnar eða hafnarinnar en jafnframt mikilvægt að hugað verði að útfærslu almennings- og leiksvæða á Miðbakka samhliða uppsetningu slíks hjóls, reynist hugmyndin raunhæf. Ljóst er að umtalsvert flækjustig getur fylgt framkvæmdinni og útfærslu hennar og ljóst að hafa þurfi víðtækt samráð um það og vinna nauðsynlega greiningu og vinnu sameiginlega af Reykjavíkurborg og Faxaflóahöfnum, en Miðbakki er á hafnarsvæði.

    Samþykkt.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. Rebekka Guðmundsdóttir, Hilmar Hildar Magnúsarson, Steinþór Einarsson og Harpa Þorsteinsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. USK22090017

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks samþykkja málið á þeirri forsendu að hvorki Reykjavíkurborg né Faxaflóahafnir beri nokkurn kostnað af framkvæmd eða rekstri Parísarhjólsins. Einungis verði um einkaframkvæmd að ræða og verkefni rekið af einkaaðilum.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Í þessari skýrslu birtist sama vandamálið, það er eins og öll mál verði að leysa með landfyllingu. Parísarhjól er skemmtileg hugmynd en er nauðsynlegt að fara í fyllingar til að finna því stað? Nóg er komið af eyðileggingu á fjörum. Með landfyllingu þar sem setja á afþreyingartæki mun verða að malbika stíga og gera gönguleiðir til að hafa aðgengi fyrir alla. Mynd af landfyllingu við Klettagarða er sérlega óaðlaðandi og þar sést hvernig fara á með fjöru sem er full af lífríki. Flokkur fólksins dregur hér fram eldri bókun við erindisbréf starfshóps um greiningu á tækifærum til haftengdrar upplifunar fyrir almenning í Reykjavík og sjá má að þar kveður heldur betur við annan tón: „Fulltrúa Flokks fólksins finnst ánægjulegt að sjá að loksins er hugsað um fjörur, án þess að moka yfir þær með landfyllingu.“ En í gögnum segir að „strandlengja Reykjavíkur er dýrmæt eign okkar allra, bætt aðgengi að henni hefur í för með sér meiri möguleika til haftengdrar upplifunar og útivistar.“ Vonandi verður landfyllingum hætt hér með.

    Fylgigögn

  5. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 5. september 2023, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að Reykjavíkurborg taki þátt í yfirlýsingu Eurocities um inngildingu loftslagsaðgerða í menningarviðburðum sem ber heitið Call for Action – for low carbon and more inclusive culture. Samkvæmt umsögn menningar- og íþróttasviðs er talið að yfirlýsingin falli vel að áherslum nýrrar menningarstefnu og gæti verið henni til framdráttar en yfirlýsingunni er ætlað að sýna fram á pólitískan vilja til aðgerða á sviði menninga og lista innan evrópskra borga. Yfirlýsingin verður undirrituð á Eurocities Culture Forum í Birmingham í október en jafnframt verður hægt að undirrita yfirlýsinguna rafrænt.

    Samþykkt. MSS23080037

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Gott er að skoða alla þætti samfélagsins þegar kemur að því að bæta loftgæði og tryggja réttlát umskipti. Fulltrúi Sósíalista ítrekar mikilvægi þess að ráðist verði á rót vandans. Umhverfisváin, eyðilegging náttúru af mannavöldum, loftslagsbreytingar og mengun eru afleiðing kapítalismans, þess að skammtímahagnaðarkrafa auðstéttarinnar hefur fengið að ráða ferðinni án afskipta opinberra aðila eða stjórnvalda. Sú hætta sem vofir því yfir samfélögunum er alræði auðvaldsins. Auðvaldið ætti ekki að hafa óheftan aðgang að löggjafanum og opinberri stefnumótun, heldur þarf að tryggja í staðinn aðkomu almennings að eðlilegri stefnumótun sem öll framtíð hans hvílir á. Lífsgæðum og neyslu sem umhverfið má við þarf að vera deilt jafnt út til allra samfélagsstiga. Reykjavík á sömuleiðis að hafa metnað umfram það að hljóta græna stimpla á framkvæmdir sínar, nú þarf að snúa sér að aðgerðum og fækka yfirlýsingum.

    Fylgigögn

  6. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 4. september 2023, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki áframhaldandi samstarf um framkvæmd rannsóknarinnar Reykjavík Index á Íslandi til þriggja ára í samræmi við meðfylgjandi samningsdrög. Heildarkostnaðurinn við rannsóknina þessi þrjú ár er 2.655 þ.kr. eða 885.000 kr. pr. ár og verður fjármagnaður af kostnaðarstað 09204. Fyrir liggur að Heimsþing kvenleiðtoga verður haldið árlega á Íslandi til ársins 2025.

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Samþykkt. MSS23080065

    Fylgigögn

  7. Lagt fram bréf innri endurskoðunar og ráðgjafar, dags. 29. ágúst 2023, varðandi úrskurð Persónuverndar um vinnslu persónuupplýsinga í framkvæmd á sálfélagslegu áhættumati við greiningu á starfsumhverfi, ásamt fylgiskjölum. MSS23060224

    Fylgigögn

  8. Lagt fram svar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 5. september 2023, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um skipan í starfshóp innviðaráðuneytisins vegna áhrifa nýrrar byggðar í Skerjafirði á flug- og rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar, sbr. 38. lið fundargerðar borgarráðs frá 13. júlí 2023. MSS23070052

    Fylgigögn

  9. Lögð fram fundargerð fjölmenningarráðs frá 29. ágúst 2023. MSS23010024

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 5. lið fundargerðarinnar:

    Undir þessum lið fer fram kynning velferðarsviðs á stöðu útlendinga sem synjað er um alþjóðlega vernd. Hörmuð er sú staða sem komin er upp í málefnum hælisleitenda sem synjað hefur verið um alþjóðlega vernd. Það er mat Flokks fólksins í borgarstjórn að málaflokkurinn sé á ábyrgð ríkisins sem gera þarf ráðstafanir til að tryggja þessum hópi þak yfir höfuðið og framfærslu á meðan þau eru hér á landi. Brýnt er að skýrt sé kveðið á um hvað taki við eftir að einstaklingi er synjað um alþjóðlega vernd og grunnþjónusta fellur niður.

    Fylgigögn

  10. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Breiðholts frá 30. ágúst 2023. MSS23010028

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. lið fundargerðarinnar:

    Lögð eru fram drög að umsögn íbúaráðs Breiðholts um skipulagslýsingu fyrir Norður-Mjódd. Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir bókun þar sem lýst er yfir vonbrigðum yfir því að reit M12 í aðalskipulaginu sé skipt upp með þessum hætti og hefði viljað að allt svæðið væri unnið sem ein heild. Fulltrúi Flokks fólksins hefur ekki beinlínis áhyggjur af hæð íbúðarhúsa akkúrat þarna. Skuggavarp beinist að hraðbraut. En hver verður fjöldi íbúða og hvar á borgarlínustöð á svæðinu að vera? Margt er enn óljóst í þessu. Fulltrúi Flokks fólksins skorar á skipulagsyfirvöld að taka tillit til athugasemda sem berast og vinna þetta verkefni sem önnur í góðri sátt við íbúa og umhverfi.

    Fylgigögn

  11. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Háaleitis- og Bústaðahverfis frá 29. ágúst 2023. MSS23010031

    Fylgigögn

  12. Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 6. september 2023.

    9. liður fundargerðarinnar er samþykktur. MSS23010011

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðarinnar:

    Aðalskipulagsbreyting, Sundabraut. Um þennan lið má segja að það er áríðandi að klára hönnunarvinnu Sundabrautar sem fyrst. Dráttur á að ákvarða legu Sundabrautarinnar mun tefja aðra uppbyggingu. Svo þarf að árétta að ekki má skerða gæði strandarinnar og grunnsævis. Þess vegna þarf að byggja brýr en alls ekki landfyllingar. Sérkennilegt er að Hafrannsóknarstofnun sé ekki umsagnaraðili (ekki með á lista yfir umsagnaraðila) en þar eru rannsóknir á líffræði sjávar stundaðar, þar á meðal göngur fiska upp í ár og læki. Mestu hagsmunir borgarinnar með tilkomu Sundabrautar eru góð tenging milli Vogahverfis og Grafarvogs. Engum blöðum er um það að fletta að gera skal brú frekar en göng til að bæði gangandi og hjólandi geti nýtt brúna. Brú, fallega hönnuð, á þessum stað getur verið glæsileg, og gert aðkomu að Reykjavík virðulega. Tenging við Geldinganesið er mikilvæg enda klárlega framtíðaruppbyggingarsvæði.

    Fylgigögn

  13. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 16 mál. MSS23090015

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun undir 16. lið yfirlitsins:

    Mikilvægt er að tryggja að félagsmiðstöðvar verði áfram í nærumhverfi íbúa.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 16. lið yfirlitsins:

    Þessi liður lýtur að félagsmiðstöðinni í Hraunbæ 105. Neyðarkall barst borgarráði nýlega frá eldri borgurum í Árbæjarhverfi vegna síendurtekinna hótana um að félagsmiðstöð hverfisins að Hraunbæ 105 verði lokað og breytt í skrifstofu eins og fram kemur í bréfinu. Segir enn fremur að í húsinu sé mjög fullorðið fólk, meðalaldur 84 ár. Flestir nota göngugrindur og stafi. Þetta fólk getur engan veginn sótt félagsmiðstöð utan hverfis. Í Hraunbæ 105 fer fram fjölbreytt starf og er staðsetningin hentug, tengdar tvær byggingar fyrir eldri borgara. Sárlega er beðið um stuðning okkar í borgarráði og beiðni um að þessi félagsmiðstöð fái að standa eldri borgurum til boða. Fulltrúi Flokks fólksins styður það heilshugar og skorar á aðra í borgarráði og borgarstjóra að gera slíkt hið sama.

    Fylgigögn

  14. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. MSS23090013

    Fylgigögn

  15. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 30. ágúst 2023, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 29. ágúst 2023 á tillögu um flutning á heimastöð Skólahljómsveitar Árbæjar og Breiðholts, ásamt fylgiskjölum.

    Samþykkt.

    SFS22080267

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Mikilvægt er að tryggja að góðar almenningssamgöngur séu á milli svæðanna til að tryggja að börn úr ólíkum borgarhlutum komist auðveldlega á heimastöð skólahljómsveitarinnar.

    Fylgigögn

  16. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 30. ágúst 2023, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 29. ágúst 2023 á tillögu að breytingu á reglum um þjónustu félagsmiðstöðva, ásamt fylgiskjölum.

    Samþykkt með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands.

    Málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar með vísan til 2. mgr. 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.

    SFS23010164

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks telja að starfsemi félagsmiðstöðva geti haft ríkt forvarnargildi. Sparnaðurinn af styttingu opnunartímans er rýr og næg tækifæri annars staðar í borgarkerfinu til að spara álíka fjárhæð. Einnig verður ekki séð að sveitarfélagið hafi haft samráð við ungmennaráð um þetta málefni en það var skylt, sbr. 2. ml. 2. mgr. 11. gr. æskulýðslaga nr. 80/2007. Að lokum skal þess getið að á veturna er útivistartími 13-16 ára lengri en til kl. 22:00, sbr. 1. mgr. 92. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Á fundi skóla- og frístundaráðs þann 12. júní 2023 var lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa ungmennaráðs Árbæjar og Holta: Lagt er til að borgarstjórn hætti við að stytta opnunartíma í félagsmiðstöðvum og sé í samskiptum við ungmennaráð borgarinnar áður en teknar eru ákvarðanir um frístundastarf unglinga. Fulltrúi Sósíalista tekur heilshugar undir tillögu fulltrúa ungmennaráðs um að ekki eigi að stytta opnunartíma í félagsmiðstöðvum og að borgaryfirvöld verði að eiga í samskiptum við ungmennaráð um fyrirhugaðar breytingar. Þá hafa einnig Samfés, landssamtök félagsmiðstöðva og ungmennahúsa, ungmennaráð Samfés og fulltrúaráð Samfés skorað á Reykjavíkurborg að endurskoða ákvörðun um skerðingu á opnunartíma félagsmiðstöðva. Það var gert í áskorun sem birtist í desember árið 2022 þegar hagræðingartillögur meirihlutaflokkanna í borginni voru kynntar. Í þeirri áskorun var fjallað um mikilvægi þess að auka við það öfluga og faglega forvarnarstarf sem fer fram í starfi félagsmiðstöðvanna. Fulltrúi Sósíalista tekur heilshugar undir það og getur ekki samþykkt tillögu sem felur í sér skerðingu á þjónustu við ungmenni.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Skóla- og frístundaráð ákvað styttan opnunartíma á félagsmiðstöðvum borgarinnar á fundi 12. júní 2023. Flokkur fólksins er mótfallinn þessari styttingu. Félagsmiðstöðvar borgarinnar gegna mikilvægu hlutverki í mótun ungmenna. Flokkur fólksins óttast að svona hagræðingaraðgerð muni kosta samfélagið meira þegar til lengri tíma er litið. Starfsemi félagsmiðstöðva hefur ríkt forvarnargildi. Sparnaðurinn af styttingu opnunartíma er rýr og næg tækifæri annars staðar í borgarkerfinu til að spara álíka fjárhæð. Þessari ákvörðun hefur verið mótmælt af fleirum, þ.m.t. hagsmunasamtökum.

    Áheyrnarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Vinstri grænna telur óráð að grípa til þeirrar sparnaðaraðgerðar að kroppa í mikilvæga starfsemi félagsmiðstöðva unglinganna í borginni með skertum opnunartíma. Hlutverk félagsmiðstöðvanna er mikilvægt í samfélaginu og unglingarnir í Reykjavík hafa talað skýrt gegn þessum áformum.

    Fylgigögn

  17. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 5. september 2023:

    Lagt er til að borgarráð heimili fjármála- og áhættustýringarsviði, eignaskrifstofu, að hefja söluferli á eign Reykjavíkurborgar að Varmahlíð 1, Perlunni, auk tveggja vatnstanka sem eru í eigu Reykjavíkurborgar. Fasteignanúmer F2032823, F2505273 og F2505274.

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja til að afgreiðslu málsins sé frestað.

    Tillagan er felld með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Viðreisnar og Pírata gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands.

    Tillagan er samþykkt með 5 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Hildar Björnsdóttur borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins gegn atkvæði borgarráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands.

    Kjartan Magnússon borgarráðsfulltrúi Sjálfstæðisflokksins situr hjá við afgreiðslu málsins

    Málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar með vísan til 2. mgr. 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS23090001

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Árið 2012 keypti Reykjavíkurborg Perluna, sem á þeim tíma var í talsverðum rekstrarvanda. Í kjölfar kaupanna auglýsti borgin fasteignina til leigu, fékk inn trygga leigutaka og hefur nú snúið við rekstri hússins, úr tapi yfir í traustar tekjur. Það er því orðið tímabært að kanna möguleika á sölu. Samþykkt er að óskað verði sérstakrar umsagnar Orkuveitu Reykjavíkur og að skilgreindar verði kvaðir um aðgengi almennings að Perlunni, sbr. núverandi leigusamning. Gögn málsins verði lögð fyrir borgarráð til samþykktar áður en formleg skref verði stigin í söluferlinu.

    Kjartan Magnússon borgarráðsfulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Undirritaður styður að Perlan verði sett í söluferli. Hins vegar geri ég alvarlega athugasemd við þá ákvörðun að láta tvo vatnsgeyma fylgja með fyrr en þeirri spurningu hefur verið svarað með skýrum og rökstuddum hætti hvort not verði fyrir geymana í framtíðinni vegna hitaveitumiðlunar í almannaþágu. Afhendingaröryggi hitaveitunnar til borgarbúa er algert forgangsmál enda voru geymarnir byggðir á sínum tíma í þeim tilgangi að þeir gætu þjónað veitustarfsemi til framtíðar í ört vaxandi borg. Í áliti um málið frá 2013 kemur fram að ef fyrirætlanir um þéttingu byggðar í vesturhluta borgarinnar gangi eftir, t.d. með byggingu nýs Landspítala, verði það æskilegt, ef ekki óhjákvæmilegt í þágu afhendingaröryggis hitaveitunnar, að taka a.m.k. einn vatnsgeymi til viðbótar í notkun fyrir framrásarvatn. Einnig þarf að hafa í huga mikilvægt hlutverk hitaveitugeymanna þegar alvarlegar bilanir verða í kerfinu. Endurnýjun og viðhald kerfisins hefur verið í lágmarki á undanförnum árum og því má búast við því að slíkum bilunum fjölgi. Fullnægjandi miðlun heits vatns hefur ítrekað staðið tæpt á undanförnum árum og heitavatnsskortur því verið yfirvofandi í kuldaköstum. Óábyrgt er að setja umrædda geyma í söluferli fyrr en ýmsum áleitnum spurningum í málinu hefur verið svarað.

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Eftir að Reykjavíkurborg tók við rekstri Perlunnar af Orkuveitu Reykjavíkur árið 2013 hafa leigutekjur rekstraraðila skilað henni umtalsverðum tekjum. Því skýtur það skökku við að nú hyggist borgin einkavæða bygginguna, sem er jafnframt eitt af kennileitum hennar. Sósíalistar vilja að borgin haldi áfram að fá tekjur af starfsemi eins og þeirri sem rekin er í Perlunni. Með áframhaldandi einkavæðingarblæti meirihlutans rýrna tekjur borgarinnar til lengri tíma litið, með tilheyrandi niðurskurði á þjónustu og hækkandi gjaldskrám íbúa. Á sama tíma er ljóst að endurskoða þarf það gjald sem rukkað er fyrir þau sem sækja sér þjónustu Perlunnar. Þar má nefna kaffihús Perlunnar, þar sem rukkaðar eru mjög háar upphæðir fyrir mat og drykk. Það er borginni til ósóma að standa fyrir okri.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Selja á Perluna sennilega vegna slæmrar fjárhagsstöðu borgarinnar. Fulltrúa Flokks fólksins finnst slæmt að það eigi að selja Perluna þar sem núna skilar hún loks umtalsverðum tekjum til borgarinnar. Auðvitað er gagnlegt að skoða hvað fæst fyrir Perluna. Stærð hússins og tanka er um 5.800 fermetrar og er fasteignamat 3.942.440.000 krónur. Söluferli er eðlilega háð þeim fyrirvara að eðlilegt verð fáist fyrir eignirnar. Mikilvægt að borgin selji ekki Perluna á einhverri brunaútsölu vegna bágrar fjárhagsstöðu.

    Áheyrnarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Vinstri grænna setur mikla fyrirvara við áform um að bjóða Perluna til sölu. Áður en nokkur slík skref eru tekin þarf að tryggja tvennt. Í fyrsta lagi þarf að afla nákvæmra upplýsinga um áhrifin á orkuöryggi borgarinnar. Þegar seinni heitavatnstankurinn var tekinn undir aðra starfsemi komu fram varnaðarorð um að það kynni að leiða til heitavatnsskorts við verstu aðstæður. Þeim var svarað með því að nýr tankur yrði reistur innan skamms en hann hefur aldrei litið dagsins ljós. Í öðru lagi þyrfti að skilgreina fyrir fram þær kvaðir sem fylgja myndu kaupunum. Perlan er eitt mikilvægasta kennileiti og aðdráttarafl ferðamanna í Reykjavík og borginni getur ekki staðið á sama um eðli þeirrar starfsemi sem þar er rekin. Tryggja þarf áframhaldandi aðgang almennings að mannvirkinu til frambúðar þótt það kynni að skipta um eigendur.

    Fylgigögn

  18. Lagður fram árshlutareikningur Reykjavíkurborgar fyrir janúar-júní 2023 ásamt greinargerð fagsviða og sjóða A-hluta, dags. 7. september 2023, og greinargerð B-hluta fyrirtækja, dags. 7. september 2023, skýrslu fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 7. september 2022, verkstöðuskýrslu nýframkvæmda fyrir janúar-júní 2023 og umsögn innri endurskoðunar, dags. 4. september 2023.

    Halldóra Káradóttir, Erik Tryggvi Striz Bjarnason, Frans Páll Sigurðsson, Sigurrós Ásta Sigurðardóttir, Lárus Finnbogason og Helgi Grímsson taka sæti á fundinum undir þessum lið. Hallur Símonarson og Óli Jón Hertervig taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS23080007

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Árshlutareikningur sýnir jákvæðan viðsnúning í A-hluta: auknar tekjur vegna fjölgunar borgarbúa, lítils atvinnuleysis og fjölgunar á vinnumarkaði, veltufé frá rekstri styrkist og staða handbærs fjár er sterk. Borgin er að vaxa út úr vanda síðustu ára með auknum tekjum og aðhaldi í rekstri. Halli í málaflokki fatlaðs fólks heldur áfram að hafa áhrif á stöðuna en viðræður standa enn yfir við ríkið um leiðréttingu á þessu og fjármögnun málaflokksins. Verðbólga og ytri aðstæður á markaði lita niðurstöðu samstæðunnar í heild en undirliggjandi rekstur er sterkur.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks ítreka áhyggjur sínar af versnandi fjárhag borgarinnar. Rekstrarniðurstaða A- og B-hluta reyndist neikvæð um 6,7 ma.kr. á fyrstu sex mánuðum ársins, sem var 12,8 m.kr. lakari niðurstaða en áætlun gerði ráð fyrir. Samkvæmt fjárhagsáætlun borgarinnar átti samstæða borgarinnar að skila ríflega átta milljarða afgangi á árinu 2023. Var það ekki síst vegna væntrar afkomu tveggja stærstu dótturfélaga borgarinnar, Félagsbústaða og Orkuveitu Reykjavíkur. Samkvæmt fjárhagsáætlun borgarinnar fyrir árið 2023 átti matsbreyting á fjárfestingaeignum Félagsbústaða að skila tæpum 7,6 milljörðum króna á yfirstandandi ári. Reyndin er sú að á fyrstu sex mánuðum ársins nemur matsbreyting einungis 580 milljónum króna. Að sama skapi var áætluð afkoma Orkuveitu Reykjavíkur á árinu 2023 ríflega 13,3 milljarðar króna. Reyndin er sú að Orkuveita Reykjavíkur tapaði 795 milljónum króna á fyrstu sex mánuðum ársins. Til að bíta höfuðið af skömm meirihlutans voru verðbólguforsendur ársins í fjárhagsáætlun 2023 4,9 prósent. Nú er ljóst að sú forsenda er strax fallin um sjálfa sig. Jafnframt hafa skuldir borgarsjóðs hækkað á einungis sex mánuðum, frá ársbyrjun til júníloka, um tæpa tuttugu milljarða króna (19.668.266.000) og skuldir samstæðu borgarinnar um tæpa 33 milljarða króna (32.567.704.000).

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Árshlutareikningur borgarinnar á fyrri hluta árs gefur til kynna mun lakari niðurstöðu en áætlað var, eða um tæpa 13 milljarða króna. Í stað þess að reksturinn sé jákvæður um 6 milljarða er raunin sú að hann er neikvæður um 6,7 milljarða. Þessar niðurstöður eru sláandi. Á síðustu árum hefur meirihlutinn lagt áherslu á aðgerðir sem rýra tekjurnar. Má þar nefna lækkun fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði, óháð því hvort um stór eða lítil fyrirtæki er að ræða. Á verðlagi ársins 2021 verður borgin þannig af 450 m.kr. á hverju ári. Þessar upphæðir telja þegar til lengri tíma litið og auka á hallareksturinn. Nýjasta dæmið er síðan áætlun meirihlutans um sölu á Perlunni, eign sem skilar borginni umtalsverðum tekjum á ári. Áframhaldandi einkavæðingar og sölur arðbærra eigna munu rýra tekjur borgarinnar, með tilheyrandi hallarekstri. Jafnframt bitnar slíkt illa á borgarbúum sem greiða fyrir hallarekstur borgarinnar, með hækkandi gjaldskrám og niðurskurði á þjónustu.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fjárhagur borgarinnar heldur áfram að versna. Áætlanir standast ekki og er sama hvert litið er. Samhliða þessu hafa skuldir borgarsjóðs hækkað. Nú er verðbólgan vonandi á niðurleið en engu að síður er ekkert á vísan að róa í þeim efnum. Áfram þarf borgin að rýna í hvernig hægt er að spara án þess að það komi niður á þjónustu við fólk og velferð borgarbúa. Forgangsröðun skiptir hér höfuðmáli og það þarf að gera í þágu fólksins og sérstaklega barnanna. Á nýafstöðnu farsældarþingi voru kynntar sláandi niðurstöður um vanlíðan barna og hróp þeirra á faglega aðstoð. Hjálp kostar. Til að geta hjálpað öllum þeim börnum sem bíða aðstoðar þarf eitthvað annað undan að láta. Þetta er verkefni meirihlutans sem einn hefur stjórn á fjármagni borgarsjóðs og hvernig því er útdeilt.

    Áheyrnarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:

    Áfram heldur hallarekstur Reykjavíkurborgar að aukast undir stjórn Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar og við blasir að verkefnið er þeim ofvaxið. Haldið er áfram á sömu braut með tilheyrandi niðurskurði í grunnþjónustu og hækkunum gjaldskráa þar sem síst skyldi. Áheyrnarfulltrúi Vinstri grænna ítrekar að brýnt sé að koma fjármálum Reykjavíkurborgar á réttan kjöl og endurskoða þá fjármálastefnu sem nú er í gildi. Stjórnmálamenn skulda þeim sem verst standa í samfélaginu að fara vel með fjármuni því það er forsenda þess að skapa öflugt velferðarsamfélag jöfnuðar og velsældar. Hins vegar blasir við að þeir stjórnmálamenn sem halda um stjórnartaumana í borginni stendur á sama um slíka sýn og eru tregir við að grípa í taumana og forgangsraða í þágu velferðar og menntunar.

    Fylgigögn

  19. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 5. september 2023, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að meðfylgjandi gjaldskrár Reykjavíkurborgar verði hækkaðar um 3,6% frá og með 1. október 2023.

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Vísað til borgarstjórnar.

    Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. FAS23010019

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Árið 2021 samþykkti meirihlutinn í Reykjavík að lækka fasteignaskatta flatt á atvinnuhúsnæði. Skipti þá engu um hvort stór eða lítil fyrirtæki væri að ræða. Sú lækkun kostaði borgarbúa 450 m.kr. á verðlagi þess árs. Á sama tíma, og á árunum eftir, sjáum við að borgin ákveður að draga úr halla, sem myndast hefur m.a. vegna þessarar lækkunar á atvinnuhúsnæði með því að hækka gjaldskrár á íbúa sem hafa hvað minnst á milli handanna. Í þessu birtast áherslur meirihluta borgarstjórnar skýrt. Það er í lagi að auka taprekstur borgarinnar með því að lækka álögur á atvinnuhúsnæði, en það kemur ekki til greina þegar í boði er að styðja við íbúa sem þurfa á þjónustunni að halda. Gjöld á þau efnaminni eru hækkuð á meðan gjöld á hin efnameiri eru lækkuð. Tilfærsla auðs sem eykur ójöfnuð, í boði borgarstjórnar.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins mótmælir öllum gjaldskrárhækkunum sem koma beint og óbeint við pyngju þeirra sem minnst mega sín. Nú stefnir meirihlutinn á að hækka gjaldskrár um 3,6% frá og með 1. október 2023. Hækkun gjaldskráa mun þess utan fara beint út í verðlagið og hafa áhrif á verðbólguhorfur. Reykjavíkurborg þarf að huga að fjölskyldum í borginni og barnafólki og í borginni eru margir sem finna fyrir þessum hækkunum. Hækka á gjaldskrár sem dæmi á frístundaheimilum, á sumarnámskeiðum, máltíðir í grunnskólum, skólahljómsveitum og leikskólum og námsgjald.

    Áheyrnarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Vinstri grænna telur flatar gjaldskrárhækkanir Reykjavíkurborgar misráðnar. Þriðja gjaldskrárhækkunin á innan við ári veltir byrðum á bök heimilanna og ýtir undir verðbólgu. Einkum eru Vinstri græn andsnúin hverjum þeim hækkunum sem snúa að starfsemi grunn- og leikskólanna í borginni enda ófrávíkjanleg stefna flokksins að skólanám barna og unglinga skuli vera ókeypis.

    Fylgigögn

  20. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 5. september 2023:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að skipa þriggja manna nefnd til að rýna ráðningar á vegum sviða og starfsstaða Reykjavíkurborgar og fylgja eftir tímabundnum ráðningarreglum. Nefndin fundi vikulega og afgreiði umsóknir um ráðningar frá sviðum og miðlægum skrifstofum. Nefndin gefi út leiðbeiningar sem stuðli að gagnsærri og skilvirkri framkvæmd.

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Samþykkt.

    Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. MSS23090016

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúa Flokks fólksins líst vel á hlutverk þessarar nefndar. Hlutverk hennar er að finna leiðir til að draga úr nýráðningum og skoða á móti hvernig megi skipuleggja betur þau störf sem fyrir eru þannig að skilvirkni verði meiri. Ráðningarmálin í borginni fram til þessa eru eins og frumskógur. Þegar draga átti úr ráðningum í sparnaðarskyni var eins og aukning yrði á þeim á sumum sviðum, þvert gegn boðaðri stefnu um sparnað. Nýlega var sem dæmi ráðinn enn einn mannauðsstjóri á tilteknu sviði. Fyrir voru einir 8 mannauðsráðgjafar. Þetta skýtur skökku við þegar ekki hefur verið til fjármagn til að bæta kjör leikskólastarfsfólks. Á leikskólum sárvantar að ráða í fjölmörg stöðugildi. Launakostnaður er stærsti útgjaldaliður borgarinnar.

    Fylgigögn

  21. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Lagt er til að strætisvagnatengingar milli Reykjavíkur og Kópavogs verði bættar með því að vestari hluti Vesturhlíðar verði lagfærður og gerður að svokallaðri strætógötu, þar sem einungis yrði heimilaður akstur strætisvagna og neyðarbifreiða. Með slíkri aðgerð væri unnt að bæta strætisvagnatengingar við Háskólann í Reykjavík og aðra starfsemi í Nauthólsvík, sem lengi hefur verið kallað eftir. Borgarstjóra er falið að hefja viðræður við Strætó bs. um málið og hefja undirbúning að viðeigandi skipulagsbreytingum.

    Frestað. MSS23090045

  22. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:

    Óskað er eftir samningi Reykjavíkur við núverandi leigutaka í Perlunni. Viðkomandi leigutaki hefur þróað Perluna sem áhugaverðan áfangastað í Reykjavík og hefur algjör viðsnúningur orðið fjárhagslega eftir að fasteignin komst í eignarhald Reykjavíkurborgar og standa leigutekjur nú vel undir kostnaði og skila umtalsverðum tekjum árlega. Því er óskað eftir yfirliti um leigutekjur Reykjavíkur frá því að samningurinn var gerður, hvern mánuð fyrir sig. 

    Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs. FAS23090001

  23. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:

    Hvað er Reykjavíkurborg að greiða til Terra og fyrir hvaða þjónustu? Óskað er eftir sundurliðun. Eru fleiri verkefni sem Reykjavíkurborg greiðir félaginu fyrir en að tæma grenndargáma? Ef svo er, hvaða verkefni eru það og hverjar eru upphæðirnar sem greiddar hafa verið hingað til á þessu ári? Greiðir Reykjavík fleiri fyrirtækjum fyrir sorphirðu? Ef svo er, hvaða fyrirtækjum? Jafnframt er þá óskað eftir sömu sundurliðun vegna þess fyrirtækis/fyrirtækja.

    Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs. MSS23090047

  24. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:

    Hvað hefur SORPA greitt fyrirtækinu Terra háar fjárhæðir síðastliðið ár vegna sorphirðu? Þá er átt við öll þau verkefni sem Terra sinnir fyrir SORPU. Eru fleiri fyrirtæki sem SORPA greiðir fyrir sorphirðu? Ef svo er, hvaða fyrirtæki eru það og hversu háar fjárhæðir greiðir SORPA viðkomandi fyrirtæki/fyrirtækjum?

    Vísað til umsagnar SORPU bs. MSS23090047

  25. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Á nýafstöðnu farsældarþingi voru kynntar niðurstöður íslensku æskulýðsrannsóknarinnar sem lögð var fyrir grunnskólanemendur í vor. Sjötta hver stúlka í 10. bekk grunnskóla hefur orðið fyrir alvarlegri kynferðislegri áreitni af hálfu fullorðins. Innan við helmingur þeirra sagði öðrum frá. Þetta er meðal þess sem kom fram í nýrri rannsókn á líðan barna og unglinga. Einnig kom fram að 30-44% barna eru döpur og allt að 56% með kvíða. Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvernig skóla- og frístundasvið hyggist bregðast við þessari bláköldu staðreynd. Skýrt kom einnig fram hjá börnunum sem rætt var við sem og í rannsóknarniðurstöðum að börn vilja hitta fagaðila, sálfræðinga þ.m.t. Þau vilja fá tækifæri til að ræða sín mál beint við fagfólk. Í ljósi langs biðlista eftir fagfólki hjá skólaþjónustu, nú um 2.550 börn, spyr fulltrúi Flokks fólksins hvernig skólayfirvöld hyggjast bregðast við þessum niðurstöðum. Á að láta börn í mikilli vanlíðan bara bíða áfram og biðlistann lengjast með viku hverri? Aukin vanlíðan barna í Reykjavík eru ekki ný tíðindi og hafa verið margrædd í borgarstjórn og þar með talið að börn vilji beinan og óheftan aðgang að fagfólki. Unglingarnir sjálfir, unglingaráðin, hafa ítrekað sent sjálf inn tillögur um að fá greiðari aðgang að sálfræðingum skóla og að skólasálfræðingar séu ávallt staðsettir í skólunum sjálfum.

    Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs. MSS23090040

  26. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Nú liggur fyrir að dagforeldrum fækkar. Hyggst skóla- og frístundasvið gera betur við dagforeldrastéttina til að freista þess að halda stéttinni við? Dagforeldrar hafa mátt þola ýmislegt að hálfu borgarinnar síðustu ár. Þegar haldið var að verkefnið Brúum bilið væri að raungerast og börn að komast inn á ungbarnaleikskóla var dagforeldrastéttinni nánast útrýmt. Fulltrúi Flokks fólksins telur að dagforeldrum hafi ofboðið framkoma síðasta meirihluta. Aðeins einn hefur sótt um rekstrarleyfi sem dagforeldri í Reykjavík þrátt fyrir átak borgarinnar og heldur dagforeldrum áfram að fækka. Gera þarf betur fyrir þessa stétt. Árið 2022 var ákveðið að hækkun kæmi á niðurgreiðslu til dagforeldra vegna barna hjá dagforeldrum. Hækkunin er óveruleg, 3.220 kr., en hækkunin er hjá giftum/sambúðarfólki með vistun í 8,5 tíma. Í raun var þetta nánasarleg hækkun og eins og margir hafa orðað það, dugði hún ekki fyrir einni pizzu. Fulltrúi Flokks fólksins taldi, miðað við umræðu í ágúst og september í fyrra, að meiri hækkun myndi koma, einhver krónutala sem skipti sköpum í lífi fjölskyldna sem þarfnast sárlega þjónustu dagforeldra.

    Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs. SFS23060023

  27. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvort skóla- og frístundasvið hyggist auka fræðslu í skólum um ofbeldi meðal barna. Fræðsla um áhrif og afleiðingar ofbeldis getur skipt sköpum í lífi barns. Það er mat fólks að ofbeldi hafi verið normalíserað. Fulltrúi Flokks fólksins hefur verið með umræðu og tillögur sem lúta að því að ná utan um vaxandi vopnaburð ungmenna og hvernig Reykjavíkurborg getur reynt að spyrna fótum við þeim vanda. Börn þurfa aðstoð ef þeim líður illa en einnig fræðslu og foreldrar þurfa ekki síður fræðslu. Kennarar þurfa fræðslu og stuðning til að styrkja sig í hvernig þeir eiga að taka á ofbeldismálum sem upp kunna að koma í skólastofunni. Einnig spyr fulltrúi Flokks fólksins hvort ekki þurfi að auka og dýpka fræðslu í skólum um heimilisofbeldi og hvernig börn, foreldrar og kennarar geti brugðist við komi vísbendingar um að barn sé beitt ofbeldi af einhverju tagi af jafnaldra eða á heimili sínu. Tölurnar eru sláandi. 15% unglingsstúlkna í 10. bekk grunnskóla hefur verið nauðgað af jafnaldra og 17% verið beittar kynferðisofbeldi af hálfu fullorðins eins og fram kom á farsældarþingi. Meirihluti þeirra sem hafa orðið fyrir ofbeldi sagði engum frá.

    Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs. MSS23090041

Fundi slitið kl. 12:12

Einar Þorsteinsson Alexandra Briem

Heiða Björg Hilmisdóttir Hildur Björnsdóttir

Kjartan Magnússon Pawel Bartoszek

Trausti Breiðfjörð Magnússon

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð borgarráðs 07.09.2023 - Prentvæn útgáfa