Borgarráð - Fundur nr. 5703

Borgarráð

Ár 2023, fimmtudaginn 27. apríl, var haldinn 5703. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:00. Viðstödd voru auk borgarstjóra Einar Þorsteinsson, Heiða Björg Hilmisdóttir, Hildur Björnsdóttir, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Trausti Breiðfjörð Magnússon og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir og Líf Magneudóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ebba Schram, Ívar Vincent Smárason og Þorsteinn Gunnarsson.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

 1. Lagður fram að nýju trúnaðarmerktur ársreikningur A-hluta og samstæðu Reykjavíkurborgar 2022, ódags., sbr. 1. lið fundargerðar borgarráðs frá 22. apríl 2023, ásamt skýrslu fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 13. apríl 2023, greinargerð fagsviða og sjóða A-hluta og greinargerð B-hluta fyrirtækja, dags. 13. apríl 2023, verkstöðuskýrsla nýframkvæmda, ódags., samantekt yfir breytingar á fjárhagsáætlun 2022, dags. 13. apríl 2023, greinargerð um innleiðingu kynjaðrar fjárhags- og starfsáætlunar hjá Reykjavíkurborg, ódags., og ábyrgða- og skuldbindingayfirlit, dags. 13. apríl 2023. Jafnframt er lögð fram endurskoðunarskýrsla Grant Thornton vegna endurskoðunar ársreiknings Reykjavíkurborgar 2022, dags. 27. apríl 2023, og umsögn endurskoðunarnefndar Reykjavíkurborgar um ársreikning Reykjavíkurborgar 2022, dags. 24. apríl 2023.

  -    Kl. 9:14 tekur Alexandra Briem sæti á fundinum.

  Ársreikningur borgarsjóðs (A-hluta) og samstæðureikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2022 hefur verið undirbúinn af fjármála- og áhættustýringarsviði í samræmi við ákvæði 61. greinar sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Lagt er til að ársreikningi verði vísað til fyrri umræðu í borgarstjórn.
  Samþykkt.

  Halldóra Káradóttir, Erik Tryggvi Striz Bjarnason, Sigurrós Ásta Sigurðardóttir, Fjóla Þorgerður Hreinsdóttir, Hallur Símonarson, Lárus Finnbogason, Sturla Jónsson og Davíð Arnar Einarsson taka sæti á fundinum undir þessum lið. FAS23020020

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Verðbólga, hækkandi vextir og vanfjármögnun á málaflokki fatlaðs fólks hefur áhrif á ársreikning Reykjavíkurborgar fyrir árið 2022. Vegna rekstrarhalla og þessara erfiðu aðstæðna í ytra efnahagsumhverfi fór Reykjavíkurborg í umtalsverðar aðgerðir strax síðasta haust. Brugðist var við með samdrætti í fjárfestingum og þar með lántökuþörf, gjaldskrár voru leiðréttar í ljósi verðbólgu og samræmdar reglur settar um ráðningar til að gæta aðhalds á því sviði. Fimm ára áætlun fyrir árin 2023-2027 sem samþykkt var í borgarstjórn 6. desember sl. tekur með sama hætti mið af erfiðri stöðu. Borgin er þó jafnframt í örum vexti. Haldið verður áfram að fjárfesta í uppbyggingu nýrra íbúðahverfa, viðhaldi og nýbyggingum fyrir grunn- og leikskóla og stafrænni umbreytingu á þjónustu borgarinnar. Fjármálastefna Reykjavíkurborgar 2023-2027 var samþykkt samhliða fjárhagsáætlun síðasta haust en í henni er lögð áhersla á að hallarekstri og erfiðum aðstæðum í alþjóðlegu efnahagsumhverfi verði mætt með vexti þróttmikils borgarsamfélags til lengri tíma en með markvissum aðgerðum í rekstri og samdrætti í fjárfestingum miðað við áætlanir síðustu ára til skemmri tíma. Með markvissum aðgerðum í rekstri er stefnt að jákvæðri niðurstöðu A-hluta frá 2025.

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Samkvæmt útreikningum borgarinnar mun núna taka 257 ár að greiða niður allar skuldir A-hlutans miðað við að öllum fjárfestingum verði hætt og rekstur óbreyttur. Þetta er útfrá vaxtarstigi síðasta árs sem gefur vísbendingar um í hvað stefnir í ár. Þá hefur hallarekstur A-hlutans nú náð nýjum botni og nemur 15,6 milljörðum en til samanburðar er áætlað að ný Þjóðarhöll eigi að kosta 14 milljarða. Hlutfall langtímaskulda af eigin fé hefur núna náð tæpum 130%. Ytri endurskoðendur flagga því svo sérstaklega að skv. fjárhagsáætlun 2023-2026 mun samstæða borgarinnar ekki uppfylla fjárhagsleg viðmið sem sett eru í sveitarstjórnarlögum á komandi árum. Skuldaviðmið í árslok 2022 fer yfir 150% hámarkið í 158% fyrir A- og B-hluta. Einnig er nefnt að ef tekið er mið af viðmiðum eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga þarf rekstrarniðustaða fyrir afskriftir A-hluta árið 2023 að nema 10,8 ma.kr. en núverandi fjárhagsáætlun gerir bara ráð fyrir 5,8 m.kr. afgangi og mun því ekki uppfylla fjárhagsleg viðmið eftirlitsnefndarinnar.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Eftir að hafa rýnt gögn og hlustað á kynningu telur fulltrúi Flokks fólksins að bæði fjármálaóráðsía og slök fjármálastjórn séu meðal þess sem hrjáir borgina hvað mest um þessar mundir. Það liggur í augum uppi að kostnaðareftirlit hlýtur að vera lítið með tilliti til þess að það er því sem næst ekkert veltufé frá rekstri. Fulltrúa Flokks fólksins finnst það ansi ódýrt að kenna samningum um þjónustu við fatlaða um slaka stöðu borgarinnar. Hvað með önnur sveitarfélög t.d. í því sambandi s.s. Akureyri? Óttast er mjög að rekstur A-hlutans stefni í vandræði innan fárra ára ef ekki verður tekið á eyðslu í ónauðsynleg verkefni. Ekkert veltufé er frá rekstri, sívaxandi skuldir, gríðarlegar fjárfestingar á þenslutímum þegar fjárfestingar eru hvað óhagstæðastar. Sívaxandi þungi afborgana langtímalána eru borgaðar með nýrri lántöku, veltufjárhlutfall fer lækkandi og nálgast 1. Engir peningar eftir af rekstrinum til að greiða afborganir lána. Afborganir lána eru fjármagnaðar með nýjum lántökum. Það endar bara á einn veg ef ekki verður úr bætt, gjaldþrot. Hækkandi skuldir og hækkandi afborganir lána, spírall sem einungis mun versna ef ekkert breytist. Ekki gengur að einblína á samstæðuna. A-hlutinn er kjölfestan og lífæð borgarinnar. 

  Áheyrnarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Á einhvern hátt var það táknrænt að borgin væri snævi þakin sama dag og ársreikningur Reykjavíkur var lagður fram. Þó það væri vissulega bjart í borginni þá var líka kalt og frost eins og þessi ársreikningur ber með sér. Niðurstaða hans kallar á umfangsmikla endurskoðun á útgjaldahlið borgarinnar samhliða ýmiss konar aðhaldsaðgerðum og margvíslegum samdrætti og frestun verkefna. Eins er það mikið áhyggjuefni að enginn áhugi virðist vera á skuldabréfaútboði Reykjavíkur en meirihlutinn hefði getað tekið í taumana á síðasta ári og lækkað skuldahlutfall borgarinnar markvisst sem hefði þá lækkað ávöxtunarkröfuna sem gerð er til borgarinnar sem hefði þá gert það gerlegt að gefa út skuldabréf á ásættanlegum kjörum. Það hefði forðað Reykjavík frá þeim vandræðagangi sem fylgir því að hætta við útgáfu skuldabréfa. Hins vegar er allt í skötulíki og meirihlutinn veldur ekki vandanum sem rekstur Reykjavíkur stendur frammi fyrir. Vinstri græn ítreka eins og áður að í komandi viðbrögðum við ársreikningi er mikilvægt að forgangsraða í þágu velferðar, menntunar og umhverfisins og fyrir fólk í viðkvæmri stöðu. Það sem eftir stendur er að ef ekkert er gert er skammt að bíða þess að borgin verði ógjaldfær með tilheyrandi skerðingum á almannaþjónustu.

  Fylgigögn

 2. Lögð fram að nýju yfirlýsing um stjórnarhætti og ófjárhagslegar upplýsingar, dags. 13. apríl 2023, sbr. 2. lið fundargerðar borgarráðs frá 13. apríl 2023.
  Vísað til borgarstjórnar.

  Halldóra Káradóttir, Erik Tryggvi Striz Bjarnason, Sigurrós Ásta Sigurðardóttir, Fjóla Þorgerður Hreinsdóttir, Hallur Símonarson, Lárus Finnbogason, Sturla Jónsson og Davíð Arnar Einarsson taka sæti á fundinum undir þessum lið. FAS23040003

  Fylgigögn

 3. Lögð fram skýrsla um stöðu grænna skuldabréfa 2022, unnin af KPMG, dags. 12. apríl 2023, ásamt fylgiskjölum.

  Halldóra Káradóttir, Erik Tryggvi Striz Bjarnason, Sigurrós Ásta Sigurðardóttir, Fjóla Þorgerður Hreinsdóttir, Hallur Símonarson, Lárus Finnbogason, Sturla Jónsson og Davíð Arnar Einarsson taka sæti á fundinum undir þessum lið. FAS23040024

  Fylgigögn

 4. Lagt fram bréf eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga, dags. 28. febrúar 2023, varðandi fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2023. Einnig lögð fram umsögn fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 24. apríl 2023.
  Vísað til borgarstjórnar.

  Halldóra Káradóttir, Erik Tryggvi Striz Bjarnason, Sigurrós Ásta Sigurðardóttir, Fjóla Þorgerður Hreinsdóttir, Hallur Símonarson, Lárus Finnbogason, Sturla Jónsson og Davíð Arnar Einarsson taka sæti á fundinum undir þessum lið. MSS23030001

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:  

  Í umsögn sviðsstjóra fjármála- og áhættustýringarsviðs er rætt um áhrif óstöðugleika í efnahagslífinu (Úkraínustríðið, vaxtahækkanir og verðbólgu). Spurningar vakna við lestur umsagnarinnar. Rekstrarafkoma verður neikvæð á árunum 2023 og 2024 en áætlað er að hún verði jákvæð frá og með árinu 2025. En hvert er áætlað samanlagt tap borgarsjóðs á þeim árum þar til rekstrarafkoma verður jákvæð? Miðað er við að veltufé frá rekstri verði 7,5% af heildartekjum á árinu 2025. Viðmiðið er almennt 9,0% af heildartekjum til að jafnvægi ríki milli rekstrar annars vegar og afborgana lána og kostnaðar við fjárfestingar hins vegar. Af hverju er ekki miðað við 9,0% í framlagðri áætlun? Hvað vantar mikla fjármuni upp á að reksturinn skili ásættanlegu veltufé frá rekstri á þeim árum sem það tekur að ná settu markmiði? Hvað þarf að taka mikið aukalega af lánum á því tímabili þegar lántaka er yfir 70% af fjárfestingum þar til endanlegu markmiði er náð? Leggja verður fram trúverðuga aðgerðaáætlun hvað varðar rekstur borgarinnar, sölu eigna, fyrirhugaða lántöku og fjárfestingar sem svar við bréfi eftirlitsnefndar. Í slíkri aðgerðaáætlun verður að setja fram sundurliðuð töluleg markmið varðandi einstaka þætti hennar svo hægt sé að leggja mat á hverjum tíma á hvernig gengur að framfylgja framlagðri aðgerðaáætlun. 

  Fylgigögn

 5. Lagt fram minnisblað fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 24. apríl 2023, varðandi áhrif COVID-19 á rekstur sviða Reykjavíkurborgar á árunum 2020-2022.

  Halldóra Káradóttir, Erik Tryggvi Striz Bjarnason, Sigurrós Ásta Sigurðardóttir, Fjóla Þorgerður Hreinsdóttir, Hallur Símonarson, Lárus Finnbogason, Sturla Jónsson og Davíð Arnar Einarsson taka sæti á fundinum undir þessum lið. FAS23040021

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Covidfaraldurinn kom flatt upp á alla og ekkert var við ráðið. Allir borgarfulltrúar voru sammála um að allt þyrfti að gera til að létta róðurinn hjá borgarbúum á meðan pestin geisaði. Óhætt er að segja að vel hafi til tekist á flestum sviðum en áhrif COVID-19 á rekstur Reykjavíkurborgar eru heilmikil. En um smápeninga er að ræða ef það er borið saman við það gríðarmikla fjármagn sem sett hefur verið í stafræna vegferð. Áfram heldur þensla á því sviði þrátt fyrir að viðvörunarljós blikki. Eins mikilvæg og hin stafræna vegferð er þá merkir það ekki að sóa eigi peningum út í loftið eða í einhvern leikaraskap. Skort hefur á að stafræn verkefni hafi verið vel skilgreind og tímasetningar staðist. Það er því frekar ódýrt að fjármála- og áhættustýringarsvið borgarinnar og meirihlutinn séu að reyna að fela fjármálavandann á bak við COVID. Ef betur hefði verið farið með fjármagn síðustu ár hefði borgin verið ágætlega undirbúin fjárhagslega til að takast á við COVID. Einnig er það einkennilegt að málefni fatlaðs fólks séu tekin alveg sérstaklega fyrir og þeim kennt um mikinn hallarekstur Reykjavíkurborgar. Forsvarsmenn Reykjavíkurborgar tóku fullan þátt í samningum um yfirfærslu á málefnum fatlaðs fólks til sveitarfélaganna á sínum tíma og bera því ábyrgð á stöðu málsins.

  Fylgigögn

 6. Lögð fram tillaga borgarstjóra að viðauka við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2023, dags. 25. apríl 2023. Greinargerð fylgir tillögunni.
  Vísað til borgarstjórnar.

  Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. FAS23010016

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Lagt er til að fjárheimildir menningar- og íþróttasviðs hækki um 18.000 þ.kr. vegna siglinganámskeiða í Siglunesi. Þessu fagnar fulltrúi Flokks fólksins sem lagði mikla áherslu á að hætt yrði við að loka Siglunesi. Halda á áfram því góða starfi en starfsemi Sigluness er einstök enda er þar ekki rekið hefðbundið íþróttastarf. Iðkendur stunda ekki æfingar, keppa ekki og þar er engin afreksstefna. Þar fá öll börn, og sér í lagi þau sem ekki finna sig í hefðbundnu afreksstarfi íþróttafélaganna, að finna kröftum sínum farveg til að eflast og þroskast á jafningjagrundvelli.

  Fylgigögn

 7. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 25. apríl 2023, ásamt fylgiskjölum:

  Lagt er til að borgarráð samþykki yfirfærslu á eigendahlutverki styrkjaverkefnis Reykjavíkurborgar frá fjármála- og áhættustýringarsviði til þjónustu- og nýsköpunarsviðs.

  Greinargerð fylgir tillögunni.
  Samþykkt.
  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

  Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið og Ólöf Marín Úlfarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS22030033

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Lagt er til að samþykkt verði að færa eigendahlutverk styrkjaverkefnis Reykjavíkurborgar frá fjármála- og áhættustýringarsviði til þjónustu- og nýsköpunarsviðs og að 50% stöðugildi fylgi verkefninu en kostnaðaráætlun er um 7,5 m.kr. á ársgrundvelli. Ekkert lát er á ofmati á þessu sviði og að það taki við æ fleiri verkefnum. Minna er horft á hvernig verkefnin ganga. Sviðið er orðið að einu völundarhúsi og útstreymi verkefna/afurða sviðsins líklegt til að tefjast enn frekar. Seinagangur og skortur á eftirfylgni hafa valdið bæði ama og pirringi hjá starfsfólki og borgarbúum. Fulltrúi Flokks fólksins sér ekki að verkefninu sé betur borgið hjá þjónustu- og nýsköpunarsviði sem varla stendur undir ábyrgð á sínum eigin verkum. Hafa ber í huga að sett var á laggirnar heilt ráð til að reyna að ná stjórn á stafrænum verkefnum borgarinnar og innri málefnum. Í gögnum sem fylgja málinu segir: „Þjónustu- og nýsköpunarsvið hefur yfir að ráða mannauð, þekkingu og tæknilausnum sem nýst geta til þess að koma verkefninu áfram milliliðalaust“. Reynslan sýnir að þessu er í raun þveröfugt farið.

  Fylgigögn

 8. Fram fer kynning á skýrslu starfshóps um áhrif byggðar og framkvæmda á flug- og rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar, dags í apríl 2023.

  Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið og Glóey Helgudóttir Finnsdóttir og Sigurður Örn Jónsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. USK23040041

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Það er ánægjulegt að skýrsla starfshóps innviðaráðherra og allra hagaðila skuli leiða til þeirrar niðurstöðu að uppbygging geti hafist í Nýja Skerjafirði að teknu tilliti til mótvægisaðgerða vegna áhrifa byggðarinnar á vindafar. Reykjavíkurborg, Isavia og innviðaráðuneytið skila sameiginlegri tilkynningu um niðurstöðuna og hafist verður handa við að færa flugvallargirðingu og jarðvegsskipti á svæðinu.

 9. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 12. apríl 2023, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 12. apríl 2023 á tillögu að breytingu á deiliskipulagi 1. áfanga Nýja Skerjafjarðar, ásamt fylgiskjölum.
  Samþykkt með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar; Pírata og Viðreisnar gegn tveimur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
  Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

  Málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar með vísan til ákvæða 2. mgr. 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.

  Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið og Glóey Helgudóttir Finnsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. SN210810

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Hér er verið að samþykkja breytingu á deiliskipulagi sem var frestað eftir athugasemdir innviðaráðuneytis á vormánuðum í fyrra. Fyrir liggur nú ítarleg skýrsla um áhrif byggðarinnar í Nýja Skerjafirði á flugvöllinn og niðurstaðan er sú að ekki sé þörf á að hætta við uppbyggingu hverfisins. Þó þurfi að huga að mótvægisaðgerðum vegna vindafars til þess að tryggja rekstaröryggi flugvallarins eins og gert er með áréttingu í samþykktu deiliskipulagi. Ný byggð í Skerjafirði er mikilvægur þáttur í öflugri húsnæðisuppbyggingu. Byggðin verður græn og styður við öflugt mannlíf. Hér er um að ræða tiltölulega litlar breytingar á því sem áður var samþykkt en í tillöguna hafa verið færðar mótvægisaðgerðir sem bent er á í skýrslunni að væru skynsamlegar. Mikilvægt er enda að halda til haga að við uppbyggingu húsa, gróðursetningar eða annars sem haft getur áhrif á vindafar sé litið til niðurstöðu skýrslu starfshóps um Skerjafjörð, ásamt skýrslu hollensku flug- og geimferðastofnunarinnar, og þess gætt að áhrif á vindafar séu innan marka og að gætt sé að mótvægisaðgerðum þar sem þess er þörf. Það er afar ánægjulegt að þessi uppbygging geti nú farið í gang af fullum krafti.

  Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Ekki er hægt að samþykkja þessa tillögu. Í henni er lagt til að svokallað hagkvæmt húsnæði verði byggt í Nýja Skerjafirði. Miðað við áætlanir um söluverð á íbúðunum er ljóst að þetta er ekki hagkvæmt húsnæði. Eins og staðan er núna er áætlað söluverð á hvern fermetra varla lægra en á markaðsverði, en verðið mun hækka eftir því sem á líður í takt við vísitölu byggingarkostnaðar. Álagning á hvern fermetra er u.þ.b. 150% miðað við byggingarkostnað. Uppbygging til að tryggja þurfandi íbúum þak yfir höfuðið á ekki að vera tækifæri til að innheimta okurhagnað. Lágmark er að þegar borgin veiti félagi sem þessu ívilnanir til húsnæðisbyggingar, sé krafa um hámarksálag á söluverði miðað við byggingarkostnað íbúða. 

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Fyrir liggur niðurstaða starfshóps sem innviðaráðherra skipaði til að meta áhrif nýrrar byggðar í Skerjafirði á flug- og rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar. Það er mat hópsins að byggðin muni að óbreyttu þrengja að og skerða nothæfi Reykjavíkurflugvallar vegna breytinga á vindafari. Starfshópurinn telur þó ekki þörf á að hætta við byggingarhugmyndir í Nýja Skerjafirði og bendir á mögulegar mótvægisaðgerðir. Til viðbótar hefur umhverfis- og skipulagssvið bætt við 17 mótvægisaðgerðum vegna vindafars, margar hverjar umfangsmiklar Allar þessar mótvægisaðgerðir munu kosta sitt. Eftir er að sjá hvað mikið fjármagn hefur tapast í alls konar teikniverkefni/verkfræðilega og tæknilega vinnu sem unnin hefur verið og er byggð á eldri uppbyggingaráformum en sem er ekki hægt að notast við vegna breytinga sem gera þarf í ljósi mótvægisaðgerðanna. Fulltrúi Flokks fólksins hefur alltaf sagt að farið var of geyst í uppbygginguna í ljósi óöryggis með flugvöllinn. Margt af því sem liggur á teikniborðinu er afar umdeilt. Þótt hér sé verið að fjalla um 1. áfanga þar sem fjaran kemur ekki við sögu þá vonandi verða landfyllingar endurskoðaðar enda eru náttúrulegar fjörur orðnar fátíðar í Reykjavík.

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokks taka undir áhyggjur umsagnaraðila, til að mynda athugasemdir Isavia um hindrunarfleti, áhyggjur af því að mengaður jarðvegur berist í búsvæði fugla og almenn áhrif á lífríki og náttúru. Þá vekja fulltrúarnir athygli á því að með breytingunni er fallið frá áformum um hjúkrunarrými á svæðinu, en ekki er hægt að taka undir slíka breytingu nú þegar mikill skortur er á hjúkrunarrýmum í borginni. Eins er ljóst að stóraukið byggingarmagn á svæðinu mun hafa umtalsverð áhrif á umferð um hverfið. 

  Fylgigögn

 10. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 25. apríl 2023, varðandi bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara um úthlutun lóðar og sölu byggingarréttar við Einarsnes 130, sbr. 27. lið fundargerðar borgarráðs frá 5. maí 2022 og 11. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 21. júní 2022, ásamt fylgiskjölum. MSS22050005

  Fylgigögn

 11. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 21. apríl 2023, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 19. apríl 2023 á tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir Spöngina, einingu H, vegna hjúkrunarheimilis við Mosaveg, ásamt fylgiskjölum.
  Samþykkt.
  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðiflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

  Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. SN220067

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að hjúkrunarheimili rísi við Mosaveg í Reykjavík og ítrekar mikilvægi þess að ekki verði frekari tafir á því verkefni. Miðað við þann fjölda sem bíður á Landspítalanum eftir að komast á hjúkrunarheimili með samþykkt færni- og heilsumat, er mikilvægt að nýtt hjúkrunarheimili rísi í Reykjavík. Lýsing á breytingunni er skilgreind í gögnum. Heimildum til uppbyggingar á svæðinu er breytt þannig að í stað íþróttahúss og sundlaugar verði heimilt að byggja 3-5 hæða hjúkrunarheimili með allt að 145 rýmum og tengdri þjónustu. Möguleg tenging inn á lóð Borgarholtsskóla úr norðri er færð til samhliða skilgreiningu lóða. Settir eru sérskilmálar fyrir uppbygginguna. Í þessu sambandi er vert að draga hér fram erindi íbúaráðs hverfisins þar sem vakin er athygli á nauðsyn þess að borgin tryggi eina framhaldsskóla Grafarvogs nægt byggingarland til framtíðar. Síaukin aðsókn er á námsbrautir skólans í verk- og listnám, sem um leið kallar á mikið sérútbúið kennslurými.

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja mikilvægt að hjúkrunarheimilum í Reykjavík verði fjölgað. Jafnframt skal minnt á að Borgarholtsskóli hefur lengi horft til lóðarinnar til framtíðaraukningar og þróunar. Mikilvægt er að Reykjavíkurborg tryggi eina framhaldsskóla Grafarvogs, sem jafnframt er einn fjölmennasti framhaldsskóli landsins, nægt byggingaland til framtíðar. Síaukin aðsókn er að verk- og listnámsbrautum skólans, sem kallar á sérútbúið kennslurými. Þar sem nemendur skólans koma hvaðanæva að af höfuðborgarsvæðinu er mikilvægt að hafa nægilegt framboð bílastæða við hann.

  Fylgigögn

 12. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 24. apríl 2023, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að fara í útboð vegna endurnýjunar á umferðarljósum 2023, ásamt fylgiskjölum. Kostnaðaráætlun 2 er 160 m.kr.
  Samþykkt.
  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

  Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK23040061

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Fulltrúi Flokks fólksins fagnar allri endurnýjun á umferðarljósum. Ekki veitir af. Þess er vissulega vænst að farið sé vel með það fé sem nota á í verkið til að hægt sé að laga enn fleiri umferðarljós. Umferðarljós eru nátengd almennu umferðaröryggi í borginni. Séu umferðarljós í ólestri þá eru einnig auknar líkur á að einhverjir fari á svig við umferðarlög. Fulltrúi Flokks fólksins hefur ítrekað lagt til undanfarin fjögur ár að farið verði yfir allar ljósastýringar í borginni og erfiðustu gatnamótin verði löguð með ýmsum leiðum sem margoft hefur verið bent á. Fulltrúi Flokks fólksins hefur einmitt nýlega spurt hvort skipulagsyfirvöld séu með hugmyndir varðandi ljósastýringar sem létt gætu á umferðarþunga. Í svari kom fram að sífellt sé verið að leita leiða til að auka umferðaröryggi og bæta flæði umferðar. Fyrir akandi borgarbúa lítur hins vegar út sem ekkert sé verið að gera. Það er alltaf sama umferðarteppan, sömu kvartanirnar og ábendingar sem fólk sendir inn. Hvernig má það vera að enginn verði var við þær úrbætur sem lýst er í svari? Það vantar ákveðinn kraft í þessa vinnu, bið og seinagangur er aldrei til góðs.

  Fylgigögn

 13. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 24. apríl 2023, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki húsaleigusamning vegna Hringrautar 121, 4. hæð, ásamt fylgiskjölum.
  Samþykkt.

  Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS23040023

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

  Það er mjög mikilvægt að ríkið, Reykjavíkurborg og önnur sveitarfélög starfi þétt saman í því að taka vel á móti umsækjendum um alþjóðlega vernd. Hér er um að ræða leigu á Hringbraut 121, yfirleitt kallað JL-húsið, sem nýtt verður til að hýsa fólk á flótta í samstarfi við ríkið, en gert er ráð fyrir að kostnaður sé greiddur af ríkinu.

  Fylgigögn

 14. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 25. apríl 2023, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili að selja einbýlishús við Hraunberg 15, ásamt fylgiskjölum.
  Samþykkt.
  Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS22030039

  Fylgigögn

 15. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 3. mars 2023, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki drög að leigusamningi um leigu á atvinnuhúsnæði við Bakkastaði 77, húsnæði leikskólans Bakka, ásamt fylgiskjölum.
  Samþykkt.
  Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

  Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS23030008

  Fylgigögn

 16. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 25. apríl 2023, ásamt fylgiskjölum og trúnaðarmerktum fylgiskjölum:

  Lagt er til að borgarráð samþykki hjálagða samninga við Sameyki – stéttarfélag í almannaþjónustu, Sjúkraliðafélag Íslands, Eflingu – stéttarfélag, Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, Rafiðnaðarsamband Íslands og Stéttarfélag tölvunarfræðinga með vísan í hjálagt bréf frá formanni samninganefndar, dags. 24. apríl 2023.

  Samþykkt.
  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. MOS23040009

  Fylgigögn

 17. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 24. apríl 2023, ásamt fylgiskjölum:

  Lagt er til að skrifstofu borgarstjóra og borgarritara verði falið að hefja viðræður við GN Studios og True North annars vegar og Vesturport ehf hins vegar um lóðarvilyrði vegna þróunar á atvinnuhúsnæði undir skapandi greinar í Gufunesi. Lóðirnar verði seldar á markaðsvirði. Niðurstöður viðræðnanna verði lagðar fyrir borgarráð til samþykktar.

  Greinargerð fylgir tillögunni.
  Samþykkt.
  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins.

  Óli Örn Eiríksson og Hulda Hallgrímsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS23020028

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

  Mikilvægt er að lóðasamningar verði gerðir á markaðsforsendum og að gætt verði að því að uppbyggingin komi ekki í veg fyrir bestu legu Sundabrautar.

  Fylgigögn

 18. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 24. apríl 2023, ásamt fylgiskjölum:

  Lagt er til að borgarráð feli skrifstofu borgarstjóra og borgarritara að auglýsa eftir samstarfsaðilum og hugmyndum vegna þróunar lífsgæðakjarna fyrir eldri borgara í Reykjavík. Með lífsgæðakjarna er átt við húsnæðisuppbyggingu fyrir aldraða sem er með fjölbreytt framboð af þjónustu í nærumhverfinu. Niðurstöður auglýsingarinnar verða nýttar við að móta umgjörð um auglýsingu á lóðum borgarinnar undir slík verkefni. Ef aðilar svara auglýsingunni með hugmyndir um þróun á eigin lóðum þá verður einnig hægt að hefja viðræður við þá sem verða lagðar fyrir borgarráð. Drög að auglýsingunni eru hjálögð.

  Greinargerð fylgir tillögunni.
  Samþykkt.

  Óli Örn Eiríksson og Hulda Hallgrímsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS22040200

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Hér er samþykkt að óska eftir hugmyndum að þróun lífsgæðakjarna í borginni, í samræmi við óskir Landsambands eldri borgara, húsnæðisstefnu Reykjavíkurborgar og samstarfssáttmála meirihluta borgarstjórnar. Lögð er áhersla á fjölbreytt búsetuform. Eignaríbúðir, búseturéttaríbúðir, leiguíbúðir og jafnvel hjúkrunaríbúðir eða hjúkrunarheimili í bland við annað íbúðahúsnæði fyrir aðra aldurshópa. Þannig væri hægt að tryggja áhugavert og aðlaðandi umhverfi þar sem tækifæri eru til að mynda félagsleg tengsl og stuðla að öryggi um leið og ólíkum þörfum er mætt.

  Fylgigögn

 19. Lagt fram yfirlit yfir styrkumsóknir til borgarráðs vegna ársins 2023.

  Samþykkt að veita Borgarblöðum ehf. styrk að fjárhæð kr. 1.000.000 vegna útgáfu Breiðholtsblaðsins og Vesturbæjarblaðsins.
  Samþykkt að veita Skrautás ehf. styrk að fjárhæð kr. 1.500.000 vegna útgáfu Grafarvogs-, Grafarholts- og Árbæjarblaðsins.
  Samþykkt að veita Neytendasamtökunum styrk að fjárhæð kr. 1.000.000 vegna verkefnisins aðstoð við neytendur.
  Samþykkt að veita Borgarkórnum styrk að fjárhæð kr. 750.000 vegna starfsemi kórsins.
  Samþykkt að veita Veraldarvinum, félagasamtökum, styrk að fjárhæð kr. 500.000 vegna verkefnisins hreinsum strönd og græðum lönd.
  Samþykkt að veita Hjólafærni á Íslandi styrk að fjárhæð kr. 500.000 vegna reksturs félagsins.
  Samþykkt að veita Með oddi og egg styrk að fjárhæð kr. 500.000 vegna útgáfu hverfablaðsins Laugardalur, Háaleiti og Bústaðir.
  Samþykkt að veita Með oddi og egg styrk að fjárhæð kr. 500.000 vegna útgáfu hverfablaðsins Miðborg og Hlíðar.
  Samþykkt að veita Golfklúbbi borgarstarfsmanna styrk að fjárhæð 750.000 vegna starfsemi golfklúbbsins.
  Samþykkt að veita Snorrasjóði, sjálfseignarstofnun, styrk að fjárhæð kr. 1.000.000 vegna Snorraverkefnisins.
  Samþykkt að veita Akrílmálun fyrir eldri borgara styrk að fjárhæð kr. 323.000 vegna framhaldsnámskeiðs undir yfirskriftinni sveitin mín.
  Samþykkt að veita Iceland Noir bókmenntafélagi styrk að fjárhæð kr. 1.000.000 vegna Iceland Noir bókmenntahátíð 2023.
  Öðrum styrkumsóknum er hafnað.
  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
  Heiða Björg Hilmisdóttir víkur af fundi við afgreiðslu málsins. MSS22110168

 20. Lagt fram trúnaðarmerkt minnisblað borgarlögmanns, dags. 24. apríl 2023, um málaferli Reykjavíkurborgar. MSS23010233

 21. Lagt fram bréf mennta- og barnamálaráðuneytisins, dags. 19. apríl 2023, þar sem óskað er eftir tilnefningu í stýrihóp verkefnanna barnvæn sveitarfélög og réttindaskóli og frístund.
  Samþykkt að tilnefna Soffíu Pálsdóttur og Harald Sigurðsson í stýrihópinn. MSS23040157

  Fylgigögn

 22. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 25. apríl, ásamt fylgiskjölum:

  Lagt er til að borgarráð samþykki hjálagða beiðni stjórnar Strætó bs., dags. 22. mars 2023, um endurútboð á akstri almenningsvagna til átta ára með heimild til framlengingar í tvö ár.

  Samþykkt með sex atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn atkvæði borgarráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands.

  Málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar með vísan til 2. mgr. 48 gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar. MSS23040163

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Lýst er útboði á kaupum og rekstri strætisvagna, þá aðallega rafmagnsvagna. Hér er um mikilvæga framkvæmd að ræða og ekki ástæða til að vera á móti slíku. Þó verður að segjast að það er eins og strætisvagnar sem eru sítengdir rafmagni séu ekki til, en svo er ekki. Víða í Evrópu má sjá slíka vagna. Þeir hafa vissulega þann ókost að þeir geta aðeins verið á föstum leiðum, en á móti kemur að þeir þurfa ekki að flytja með sér þunga rafgeyma því rafmagn er notað beint, sem er ódýrasta rafmagnsnýtingin.

  Fylgigögn

 23. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 25. apríl 2023, ásamt fylgiskjölum:

  Lagt er til að borgarráð samþykki að fela umhverfis- og skipulagssviði í samráði við velferðarsvið, skóla- og frístundasvið og mannréttindaskrifstofu að taka til umfjöllunar og eiga viðræður við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið um óskir þess um staðsetningu á Skjólgörðum, búsetuúrræði fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd, sbr. meðfylgjandi erindi. Í undirbúningnum felst meðal annars að kalla fram stöðumat stjórnvalda og spár um móttöku flóttafólks, ólík búsetuúrræði og framtíðarsýn um þjónustu og hvaða hlut þau tímabundnu búsetuúrræði, Skjólgarðar, sem óskað er samstarfs um eiga í heildarmyndinni. Þá setji Reykjavíkurborg fram sýn á þann aðbúnað og umhverfi sem þarf að tryggja, bæði skipulagslega, félagslega og varðandi þjónustu til að uppbygging búsetuúrræðanna verði farsæl. Leitað verði þekkingar og fordæma innan lands og utan.

  Greinargerð fylgir tillögunni. 
  Samþykkt. MSS23040111

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

  Í kjölfar aukins fjölda flóttafólks frá Úkraínu og öðrum ríkjum til landsins samþykkir borgarráð hér að fela umhverfis- og skipulagssviði, í samráði við velferðarsvið, skóla- og frístundasvið og mannréttindaskrifstofu, að taka til umfjöllunar og eiga viðræður við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið um óskir þess um staðsetningu á Skjólgörðum, búsetuúrræði fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd. Mikilvægt er að tryggja að uppbygging búsetuúrræðanna verði farsæl, bæði skipulagslega og félagslega, og mikilvægt að leita þekkingar og fordæma innan lands og utan.

  Fylgigögn

 24. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 24. apríl 2023, þar sem drög að erindisbréfi samningateymis Reykjavíkurborgar vegna uppbyggingar blandaðrar byggðar íbúðar- og atvinnuhúsnæðis í Keldnalandi og Keldnaholti eru send borgarráði til kynningar. MSS22040189

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Hér er um að ræða eina stærstu framkvæmd í uppbyggingu borgarinnar svo nú er eins gott að vanda til verka. Þegar svona stór og mikilvæg verkefni eru boðin út, á að setja eins fáar kvaðir á úrvinnslu og unnt er. Allar kvaðir virka íþyngjandi á hugarflug og úrvinnslu hönnuða. Þess vegna á ekki að taka fram hversu margir eigi að fá vinnu í hverfinu eða hversu margir eigi að búa þar. Sú tillaga sem gerir ráð fyrir flestum íbúum mun skora hátt hjá dómnefndum. Benda má á að stórir vinnustaðir eru sunnan Grafarvogs og þá má stækka. Keldnaland tengist vel öðrum hverfum og það ber að nýta. Hafa ber í huga að þetta svæði er skjólsælasta svæðið í borginni sem enn er óbyggt. Þar munu margir vilja búa. Gæta þarf þess að útboðið lendi ekki í kæru vegna útboðsgalla.

  Fylgigögn

 25. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Grafarholts og Úlfarsárdals frá 19. apríl 2023. MSS23010029

  Fylgigögn

 26. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Kjalarness frá 19. apríl 2023. MSS23010032

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðarinnar: 

  Fulltrúi Flokks fólksins vill draga fram bókun íbúaráðsins í máli sem varðar aðalskipulag Reykjavíkur 2040 – skotæfingasvæði á Álfsnesi, verklýsingar og drög að tillögu. Í bókuninni er óskað eftir fundi með starfshópi um framtíðarlausn á uppbyggingu og staðsetningu fyrir skotíþróttir sem allra fyrst vegna algjörs skorts á samráði við íbúa um málið. Sláandi er að lesa í þessari bókun að þótt breytingin sé fyrirhuguð tímabundið þar til önnur lausn á málinu finnist, þá hefur málið verið til umfjöllunar og svæðið opið til skotæfinga með hléum lengi eða frá árinu 2008 eins og segir í bókuninni. Fulltrúi Flokks fólksins hefur einmitt haft áhyggjur af þessu tímabundna í málinu og lagði fram svohljóðandi bókun í mars 2023: „Flokkur fólksins óttast að hér verði ekki um að ræða til skemmri tíma heldur mögulega til lengri tíma því með þessari verklýsingu getur skotæfingarsvæðið þess vegna verið þarna um aldur og ævi. Það mun vissulega byggjast á Sundbraut og þeim iðnaði sem mögulega er stefnt að stilla upp þarna.“

  Fylgigögn

 27. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Vesturbæjar frá 17. apríl 2023. MSS23010036

  Fylgigögn

 28. Lögð fram fundargerð stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 27. mars 2023. MSS23010018

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 5. lið fundargerðarinnar: 

  Fulltrúi Flokks fólksins mótmælir harðlega að hækka eigi laun stjórnarmanna Orkuveitu Reykjavíkur. Fram kemur í fundargerðinni að starfskjaranefnd Orkuveitu Reykjavíkur leggur til við stjórn að þóknun stjórnarmanna hækki um 7,5% og nemi 210.647 krónum á mánuði. Laun stjórnarformanns skulu nema tvöföldum launum stjórnarmanna. Hér er um siðlausa aðgerð að ræða þegar horft er til efnahagsástandsins í samfélaginu og hversu margir líða skort. Nær væri að lækka laun stjórnarmanna og ef tillaga kæmi um að lækka laun borgarfulltrúa á meðan svo illa árar, myndi fulltrúi Flokks fólksins kvitta undir það. Við eigum að sýna samstöðu og ef eitthvað réttlæti er til í borginni þarf að hækka verulega bætur og lægstu laun fólks svo þeir allra verst settu geti átt hér sómasamlegt líf. Minnumst þess að stór hópur bágstaddra er á leigumarkaði þar sem hann greiðir jafnvel 80% af ráðstöfunartekjum sínum í leigu.

  Fylgigögn

 29. Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 26. apríl 2023.
  5. liður fundargerðarinnar er samþykktur. MSS23010011

  Fylgigögn

 30. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 17 mál. MSS23040004

  Fylgigögn

 31. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. MSS23040022

  Fylgigögn

 32. Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi tillögu:

  Lagt er til að borgarráð samþykki að bjóða formanni Samtaka leigjenda á fund borgarráðs til að kynna nýja skýrslu Samtaka leigjenda um stöðuna á leigumarkaði.

  Greinargerð fylgir tillögunni. MSS23040238
  Frestað.

  Fylgigögn

 33. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum í kjölfar auglýsingar frá því í byrjun apríl 2023 þar sem þjónustu- og nýsköpunarsvið óskar eftir þróunarstjóra og tæknistjóra stafrænna lausna. Óskað er upplýsinga um hvaða þróun það eru nákvæmlega sem nýr þróunarstjóri á að stýra og hvort fyrir liggi nákvæmar verk- og tímaáætlanir varðandi þá þróun/þróanir. Hver eru verkefni tæknistjóra stafrænna lausna? Hvaða stafrænu lausnir eru það nákvæmlega sem heyra undir þennan tæknistjóra? Hvernig hefur þróunar- og tæknistýringu stafrænna lausna verið háttað áður en ákveðið var að auglýsa eftir fólki í þessar stöður? Óskað er nánari skýringa á ákveðnu atriði sem talið er upp í hlunnindalista auglýsingarinnar, að sviðið bjóði m.a. upp á „sálrænt öryggi og skapandi menningu“, hvað er nákvæmlega átt við með þessu? Að lokum er spurt hvort þau atriði sem nefnd eru hér að ofan, séu komin frá mannauðs- og starfsumhverfissviði og hvort öllu starfsfólki Reykjavíkurborgar sé boðið upp á „sálrænt öryggi og skapandi menningu“ eða er þetta eitthvað sem eingöngu er í boði fyrir starfsfólk þjónustu- og nýsköpunarsviðs?

  Vísað til meðferðar stafræns ráðs. MSS23040239

 34. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Hvað hafa margir grunnskólar í Reykjavík sýnt verkefninu kveikjum neistann áhuga og hafa haft samband við skóla- og frístundasviðs vegna þess? Kveikjum neistann er rannsóknar- og þróunarverkefni sem Grunnskóli Vestmannaeyja tekur þátt í og hefur verið í gangi með nemendum í bráðum tvö ár. Þau Hermundur Sigmundsson prófessor við NTNU og HÍ og Svara Þ. Hjaltalín sérkennari og læsisfræðingur eiga veg og vanda af verkefninu sem er í umsjá Rannsóknarseturs um menntun og hugarfar við HÍ. Markmið kveikjum neistann er metnaðarfullt. Eitt af þeim er að 80-90% barna teljist læs við lok 2. bekkjar og er árangur mældur út frá einföldu stöðumati sem nefnist LÆS. Kennt er eftir hljóðaaðferðinni, eftirfylgni er góð og einstakir þjálfunartímar þar sem öll börnin fá réttar áskoranir. Stundatöflu hefur verið breytt, dagurinn einfaldaður, hreyfing aukin og settir inn ástríðutímar sem vekja gríðarlega lukku. Fulltrúi Flokks fólksins hefur lagt það til í borgarstjórn að skóla- og frístundasvið skoði að innleiða þetta verkefni í reykvíska grunnskóla en tillagan fékk ekki hljómgrunn. Um er að ræða gott verkefni sem er líklegt að skili árangri.

  Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs. MSS23040240

 35. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Nú liggur fyrir niðurstaða starfshóps sem innviðaráðherra skipaði til að meta áhrif nýrrar byggðar í Skerjafirði á flug- og rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar. Það er mat hópsins að byggðin muni að óbreyttu þrengja að og skerða nothæfi Reykjavíkurflugvallar vegna breytinga á vindafari. Starfshópurinn telur þó ekki þörf á að hætta við byggingarhugmyndir í Nýja Skerjafirði og bendir á mögulegar mótvægisaðgerðir. Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga hvað þessar mótvægisaðgerðir kosta og hvað mikið fjármagn hefur tapast í teikniverkefni/verkfræðilega og tæknilega vinnu sem unnin hafa verið byggð á eldra skipulagi en sem er ekki hægt að notast við vegna breytinga sem gera þarf í ljósi mótvægisaðgerðanna? Margar þessara mótvægisaðgerða eru nokkuð umfangsmiklar. USK23040041

Fundi slitið kl. 12:50

Einar Þorsteinsson Alexandra Briem

Heiða Björg Hilmisdóttir Hildur Björnsdóttir

Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir Trausti Breiðfjörð Magnússon

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð borgarráðs 27.4.2023 - Prentvæn útgáfa