Borgarráð - Fundur nr. 5698

Borgarráð

Ár 2023, fimmtudaginn 9. mars, var haldinn 5698. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:05. Viðstödd voru, auk borgarstjóra,  Einar Þorsteinsson, Alexandra Briem, Heiða Björg Hilmisdóttir, Hildur Björnsdóttir, Marta Guðjónsdóttir, Trausti Breiðfjörð Magnússon og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Kolbrún Baldursdóttir og Líf Magneudóttir sem tók sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 2. málsl. 4. mgr. 44. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar sbr. 3. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Bjarni Þóroddsson, Diljá Ragnarsdóttir, Ebba Schram og Þorsteinn Gunnarsson.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 6. mars 2023, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út framkvæmdir ársins 2023 við endurgerð og endurbætur á alls sjö lóðum við leik- og grunnskóla, ásamt fylgiskjölum.

    Samþykkt.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið ásamt Ámunda Brynjólfssyni sem tekur sæti á fundinum með rafrænum hætti. USK23030043

    Fylgigögn

  2. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 7. mars 2023, þar sem erindisbréf starfshóps um betri rekstur og afkomu bílastæðahúsa Bílastæðasjóðs er sent borgarráði til kynningar, ásamt fylgiskjölum. MSS23020131

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Í tillögum sem samþykktar voru 1. desember 2022 um hagræðingaraðgerðir var tillaga sem snéri að bættum rekstri og afkomu bílastæðahúsa Bílastæðasjóðs. Þær tillögur eru í samræmi við samstarfssáttmála Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar að endurskoða eigi bílastæðastefnuna, bæta þjónustu Bílastæðasjóðs og beita virkri verðstýringu. Einnig tengist málið samþykktri ferðamálastefnu Reykjavíkurborgar frá 2020 þar sem kveðið er á um sjálfbæra ferðaþjónustu ásamt því að í nýsamþykktri atvinnu- og nýsköpunarstefnu frá 2022 er kveðið á um aukið samstarf og samtal borgar og atvinnulífs. Hér er verið að taka þessi verkefni áfram og stofna starfshóp sem mun uppfæra eldri greiningar, koma með tillögur að bættum rekstri og afkomu bílastæðahúsa Bílastæðasjóðs, tillögur að bættri nýtingu bílastæðahúsa, bættri þjónustu og innleiðingu á virkri verðsstýringu. Mikilvægt er að gott samstarf sé við hótel og bílaleigur. Einnig á að skoða breytingar á bílastæðagjöldum og gjaldskrám, sólarhringsþjónustu með stafrænni umbreytingu og breyttri nýtingu og jafnvel úthýsingu eða sölu einstakra húsa að hluta eða í heild. Hópurinn mun hafa samráð við hagaðila.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Flokkur fólksins hefur oft bent á að hægt væri að bæta nýtingu bílastæða og sérstaklega að nýta þau að næturlagi því að betra er að hafa bíla í bílahúsum frekar en á götunni. Nefndar hafa verið leiðir t.d. að veita meiri hjálp og upplýsingar til þeirra sem eru ekki öruggir með sig í bílahúsum. Oft er erfitt að rata um þau og enga aðstoð að fá. Næturgjald ætti að vera lágt eða jafnvel ekkert og húsin opin allan sólarhringinn. Það er synd að byggja bílastæðahús/kjallara og fullnýta ekki. Í nóvember 2022 lagði Flokkur fólksins til að bílastæði í bílastæðahúsum borgarinnar verði gjaldfrjáls á nóttum. Rökin voru m.a. að bílastæðaskortur er vaxandi vandamál í miðborg Reykjavíkur. Íbúar borgarinnar finna fyrir þeim skorti en lítið bólar á úrræðum til úrlausnar á vandanum. Á sama tíma rekur Reykjavíkurborg sex bílastæðahús með yfir þúsund bílastæðum. Bílastæðahúsin eru alls ekki nógu vel nýtt yfir daginn heldur. Gjaldskylda í bílastæði fellur niður á kvöldin en gjaldskylda er allan sólarhringinn í bílastæðahúsum. Til að stemma stigu við bílastæðavanda miðborgarinnar er því lagt til að það verði gjaldfrjálst að leggja í bílastæðahús á nóttunni, nánar tiltekið milli kl. 22:00 og kl. 8:00. 

    Fylgigögn

  3. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 6. mars 2023, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki meðfylgjandi samkomulag Reykjavíkurborgar, Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, Ríkislögreglustjóra og Neyðarlínunnar ohf. um kaup, uppsetningu og rekstur á öryggismyndavélakerfi í miðborg Reykjavíkur.

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Samþykkt með sex atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn atkvæði borgarráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands.

    Málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar með vísan til 2. mgr. 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar. MSS23030024

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Hér er um að ræða mikilvægt samkomulag milli Reykjavíkurborgar, Neyðarlínunnar, Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Ríkislögreglustjóra um rekstur og stýringu á öryggismyndavélum í borgarlandi. Staðsetning myndavéla er ákveðin af Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í samráði við Reykjavíkurborg og Ríkislögreglustjóra. Það skiptir máli að ganga ekki of langt í eftirliti með borgurum og að í þeim tilvikum þar sem eftirlit er talið algjörlega nauðsynlegt sé ábyrgð á aðgangi og vörslu gagna mjög skýr og afmörkuð. Samkvæmt þessu samkomulagi verða gögnin varðveitt hjá Ríkislögreglustjóra. Reykjavíkurborg setur upp og rekur myndavélarnar þar sem nauðsynlegt þykir en hefur ekki aðgang að upptökum. Það er mikilvægt að skýrar reglur gildi um varðveislu upptaka og aðgang að þeim og að það sé samkvæmt verklagi sem tryggir persónuverndarsjónarmið og einstaklingsfrelsi í ljósi þess að notkun þeirra er í vissum aðstæðum óhjákvæmileg. 

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Sósíalistar geta ekki samþykkt vöktun á almenningi sem nýtir stjórnarskrárvarinn rétt sinn til mótmæla. Það er óhugsandi að samþykkja aukið myndavélaeftirlit í þessum tilgangi.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins er ekki ósáttur við þetta samkomulag enda tilbúinn að ganga býsna langt til að tryggja öryggi borgaranna og gesti borgarinnar. Flokkur fólksins hefur viljað sjá slíkar myndavélar þar sem börn stunda nám og leik, t.d. á skilgreindum leiksvæðum barna. Það er þekkt að þeir sem vilja skaða börn leita iðulega á staði og á svæði sem finna má börn. Börnin í borginni verða að geta verið örugg á leiksvæðum. Í Reykjavíkurborg eru hvergi myndavélar á leiksvæðum barna svo vitað sé. Þetta á jafnt við um leiksvæði sem eru eldri sem og nýuppgerð. Það hefur færst í vöxt að stofnanir grípi til þess að setja upp öryggismyndavélar og er það ekki að ástæðulausu. Vissulega kemur myndavél ekki í veg fyrir að glæpur sé framinn en myndavél hefur fælingarmátt og gerist eitthvað er hægt að skoða atburðarás í myndavél og hver var aðili/aðilar í málinu. Mörg dæmi eru um að öryggismyndavélar hafi komið að mjög góðu gagni við að upplýsa mál.

    Fylgigögn

  4. Lagður fram dómur Landsréttar, dags. 3. mars 2023, í máli nr. 652/2021. MSS21120186

    Fylgigögn

  5. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 7. mars 2023:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að Erna Guðmundsdóttir, lögfræðingur, taki sæti í kjaranefnd í stað Ingu Bjargar Hjaltadóttur. Jafnframt er lagt til að Ólafur Darri Andrason verði formaður nefndarinnar.

    Vísað til borgarstjórnar. MSS22060065

    Fylgigögn

  6. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 1. mars 2023, um álagningu fasteignagjalda 2023. FAS23010032

    Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Síðastliðið sumar var kynnt nýtt fasteignamat fyrir árið 2023, sem hækkaði heildarmat fasteigna í Reykjavík um rúm tuttugu prósent milli ára. Þetta er umtalsvert meiri hækkun en áætlanir borgarinnar gerðu ráð fyrir, en þær gerðu ráð fyrir 6,6% hækkun. Hækkanir á fasteignamati leiða óhjákvæmilega til skattahækkana á heimili og fyrirtæki. Um áramót varð hvert meðalheimili í Reykjavík því fyrir um 20 þúsund króna skattahækkun og atvinnulíf fyrir þriggja milljarða skattahækkun árlega. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks sögðu frá upphafi, eina skynsamlega viðbragð sveitarfélags við hækkuninni vera samsvarandi lækkun skattprósentu – enda kostar það borgina ekki meira að þjónusta fasteignaeigendur þó fasteignamat hafi hækkað. Fulltrúarnir harma því að tillögum þeirra um lækkun fasteignagjalda í Reykjavík hafi verið hafnað við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2023, en nágrannasveitarfélög ákváðu öll að bregðast við hækkuðu fasteignamati með samsvarandi lækkun fasteignagjalda.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Gjöld borgarbúa til sameiginlegs reksturs eru ákvörðuð af lögum en hægt er að gefa afslátt. Undir núverandi stjórn borgarinnar er ekki annað hægt en að hafa allt í botni. Annars blasti gjaldþrot við Reykjavíkurborg. Svona er staðan í rekstri borgarinnar undir stjórn síðasta og þessa meirihluta.

    Fylgigögn

  7. Lagt fram bréf mannauðs- og starfsumhverfissviðs, dags. 23. febrúar 2023, varðandi niðurstöður greiningar á kynbundnum launamun hjá Reykjavíkurborg í október 2022, ásamt fylgiskjölum. MOS22020006

    Lóa Birna Birgisdóttir, Harpa Hrund Berndsen, Elín Blöndal og Ævar Þórólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Reykjavíkurborg hefur unnið markvisst að því að eyða launamun kynjanna undanfarin ár meðal annars með innleiðingu starfsmats og stofnun Jafnlaunastofu. Mikill árangur hefur náðst og nú er leiðréttur launamunur fólks í a.m.k. 70% starfshlutfalli er 0,3% hærri meðal kvenna en konur eru með 0,2% lægri laun ef horft er til launa alls starfsfólks. Launamunur að teknu tilliti til ríkisfangs þróast líka í rétta átt en þegar launamunur hefur verið leiðréttur er fólk með erlent ríkisfang með 1,2% lægri laun en fólk með íslenskt ríkisfang.

    Fylgigögn

  8. Lagt fram bréf mannauðs- og starfsumhverfissviðs, dags. 6. mars 2023, varðandi uppfærðar siðareglur starfsfólks Reykjavíkurborgar, ásamt fylgiskjölum.

    Samþykkt. MOS23010005

    Lóa Birna Birgisdóttir og Auður Björgvinsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Fylgigögn

  9. Lagt fram bréf menningar- og íþróttasviðs, dags. 28. febrúar 2023, varðandi samning til tveggja ára við Skáksamband Íslands vegna Reykjavíkurskákmóts, ásamt fylgiskjölum.

    Samþykkt. ITR23020048

    Eiríkur Björn Björgvinsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Fylgigögn

  10. Fram fer umræða um málefni Borgarskjalasafns. 

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Samkvæmt greiningu sem liggur fyrir er þörf á töluverðri uppbyggingu innviða til þess að standa undir kröfum nútíðar og framtíðar um gagnageymd og gagnaöryggi borgarinnar. En einnig til að tryggt sé að hætt verði að safna metrum af skjalaskápum af gögnum á pappír. Þessi ákvörðun snýst um umhverfið, um betri nýtingu fjármagns, um húsnæði og um mannauð. Mikil samlegðaráhrif felast í því að Þjóðskjalasafn taki að sér þetta mikilvæga gagnageymdarhlutverk og styrki þá um leið grundvöll Þjóðskjalasafns til þess að bæta sína innviði, frekar en að margir aðilar séu hver í sínu horni að byggja upp sams konar gagnaver, slíkt er hvorki umhverfisvænt né fjárhagslega skynsamlegt. Verkefni sem snúa að menningarmiðlun verða flutt til Borgarsögusafns, Borgarbókasafns eða annarra viðeigandi menningarstofnana Reykjavíkurborgar og þar er tækifæri til að auka og bæta aðgengi borgarbúa að menningararfi borgarinnar. Starfshópur sem vann fyrirliggjandi tillögur var skipaður starfsfólki víðsvegar úr borgarkerfinu, þar á meðal var borgarskjalavörður. Hópurinn átti víðtækt samráð og fékk til viðtals starfsfólk af þjónustu- og nýsköpunarsviði, menningar- og ferðamálasviði, Borgarskjalasafni og Þjóðskjalasafni, þar á meðal þjóðskjalavörð. Í ljós kom í því samtali að samskonar þróun á sér nú stað allt í kringum okkur á Norðurlöndunum. Framundan er vandað samráð við ráðherra málaflokksins, Þjóðskjalasafn og aðra um framtíðartilhögun.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Sósíalistaflokks Íslands og áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Varðandi þær veigamiklu stjórnsýslubreytingar sem hér um ræðir er mikilvægt að ekki ríki óvissa um framhaldið. Mikilvægt er að starfsfólk Borgarskjalasafnsins haldi sinni stöðu næstu fjögur árin óski þeir þess, enda mikilvægt að ekki myndist upplýsingagjá komi til flutnings safnsins. Mikilvægt er að þekking á safnkosti safnsins haldi sér við allar breytingar sem kunna að verða á starfsemi þess og að ekki ríki óvissa um hvernig þjónustu, varðveislu skjala og eftirlitshlutverki safnsins verði háttað. Koma þarf í veg fyrir að jafn mikilvægri stofnun verði ekki komið í meira uppnám en orðið er. 

  11. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 6. mars 2023, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 1. mars 2023 á breytingu á reglum um félagslegt leiguhúsnæði, ásamt fylgiskjölum.

    Samþykkt. VEL23020071

    Rannveig Einarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. 

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Hér eru lagðar til breytingar varðandi tekju- og eignamörk um félagslegt leiguhúsnæði, þar sem verið er að hækka þau mörk. Fulltrúi sósíalista telur almennt að víkka þurfi út reglur um félagslegt leiguhúsnæði svo að þær nái til fleiri þar sem margt fólk er í slæmri fjárhagslegri og félagslegri stöðu en uppfyllir samt sem áður ekki skilyrðin um veitingu félagslegs leiguhúsnæðis.

    Fylgigögn

  12. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 6. mars 2023, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 1. mars 2023 á breytingu á reglum Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning, ásamt fylgiskjölum.

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

    Rannveig Einarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. VEL23020072

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Hér er verið að leggja til hækkun á húsnæðisstuðningi sem er mjög mikilvægt fyrir leigjendur þar sem leiguverð er gríðarlega hátt og leigjendur margir gjörsamlega að sligast. Fulltrúi sósíalista fagnar því að verið sé að falla frá því að umsækjendur þurfi að endurnýja umsókn á 12 mánaða fresti. Leigjendur hafa áður þurft að gera slíkt þrátt fyrir að ekkert hafi breyst í þeirra stöðu. Fulltrúi sósíalista telur að ráðast þurfi að rót vandans sem er hagnaðardrifið húsnæði sem gerir það að verkum að leigjendur greiða allt of hátt verð fyrir húsnæði. Á meðan ekki er til nægt félagslegt húsnæði þarf að mæta leigjendum með húsnæðisstuðningi. Hér eru lagðar til breytingar sem þýða að greiðslur sérstaks húsnæðisstuðnings takmarkast við að húsnæðiskostnaður leigjenda að teknu tilliti til samanlagðra húsnæðisbóta og sérstaks húsnæðisstuðnings sé að lágmarki 50.000 en áður var það 40.000. Gert er ráð fyrir að 618 notendur muni fá lægri greiðslur vegna hækkunar á lágmarki húsnæðiskostnaðar. Mikilvægt er að reglur um húsnæðisstuðning nái utan um öll sem eru í viðkvæmri stöðu og greiða hátt hlutfall af ráðstöfunartekjum sínum í leigu. Þá er einnig mikilvægt að hægt sé að fá greiðslur aftur í tímann ef eðlilegar ástæður liggja þar að baki.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Flokkur fólksins fagnar því að verið sé að hækka sérstakan húsnæðisstuðning. Umræddar breytingar eru í samræmi við reglugerðarbreytingu á reglugerð nr. 1200/2016 um húsnæðisbætur sem tók gildi þann 1. janúar 2023 og fól í sér að grunnfjárhæðir húsnæðisbóta voru hækkaðar auk þess sem frítekjumörk voru hækkuð. Þetta er bráðnauðsynleg aðgerð fyrir leigjendur sem margir hverjir eru að bugast vegna hás leiguverðs. Jafnframt fagnar Flokkur fólksins því að nú þurfa leigjendur ekki endurnýja umsókn á 12 mánaða fresti ef ekkert hefur breyst í þeirra högum. Þessi breyting er til hagsbóta fyrir notendur og vinnusparnaður fyrir starfsfólk.

    Fylgigögn

  13. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 6. mars 2023, varðandi þjónustusamning við Stígamót, ásamt fylgiskjölum.

    Samþykkt.

    Rannveig Einarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. VEL22110124

    Fylgigögn

  14. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 5. desember 2022, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 30. nóvember 2022 á tillögu um hækkun á fjárheimildum velferðarsviðs vegna samninga um notendastýrða persónulega aðstoð, ásamt fylgiskjölum. Jafnframt er lögð fram umsögn fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 28. febrúar 2023.

    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

    Rannveig Einarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. VEL22110265

    Fylgigögn

  15. Lagt fram svar sviðsstjóra fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 1. mars 2023, við fyrirspurn um sértækar aðgerðir fyrir efnalítið fólk og niðurgreiðslu sálfræðiþjónustu vegna barna, sbr. 30. lið fundargerðar borgarráðs frá 10. mars 2022. MSS22030099

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fyrirspurnirnar voru lagðar fram í október 2022 og varðar sértækar aðgerðir fyrir efnalítið fólk og niðurgreiðslu sálfræðiþjónustu vegna barna. Á þessum tíma mældist verðbólga um 6,0%. Nú þegar svar loksins berst er verðbólgan yfir 10%. Efnahagsvandræði hafa aukist bæði í borginni og almennt í samfélaginu. Vísað er í nýja skýrslu Barnaheilla þar sem fram kemur að 13,1% barna búa við fátækt á Íslandi samanborið við 12,7% árið á undan. Tilfinninga- og félagsleg líðan barna hefur versnað mikið í Reykjavík samkvæmt rannsóknum. Það verður að fara að gera eitthvað í þessum biðlistamálum í Reykjavík. Búið var að setja fjármagn í það sem klúðraðist að nýta. Börn eiga einfaldlega ekki að þurfa að bíða eftir aðstoð. Ýmislegt hefur vissulega verið gert og má nefna breytingar á fjárhagsaðstoð þar sem foreldrum sem eru verst settir er tryggð fjárhagsaðstoð til greiðslu á leikskólagjöldum, frístund, skólamáltíðum og hjá dagforeldrum, sbr. 10. gr. reglnanna. Fleira er tiltekið sem allt er ágætt en aðstæður eru óvenju erfiðar og meira þarf því að koma til. Þessi mál hafa ekki verið sett í almennilegan forgang sem er verulega ámælisvert.

    Fylgigögn

  16. Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsvið, dags. 9. mars 2023, um hagræðingu af sameiningu menningar- og ferðamálasviðs og íþrótta- og tómstundasviðs, sbr. 33. lið fundargerðar borgarráðs frá 21. júlí 2022. MSS22070137

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Ástæða fyrir þessari fyrirspurn var að það kom ekki nægjanlega fram í kynningu hver yrði hagræðingin heldur segir aðeins að á innleiðingartíma verði unnið að nánari fjárhagslegri greiningu á tækifærum til hagræðingar sem felast í sameiningu sviðanna. Því dugar það skammt að fjármálastjóri segi fulltrúa Flokks fólksins að leita svara í kynningunni. Í raun og veru kom afar lítið fram um kostnað og virtist vera mikil óvissa í þeim efnum. Til dæmis var ekkert sagt um mögulegan aukakostnaður sem tengist þessari sameiningu. Rennt er blint í sjóinn með allt of margt í þessu sambandi að mati Flokks fólksins. Það sem þó kom fram er að sameining mun hafa í för með sér útgjöld og þar sem verið er að sameina til að hagræða þá vekur slíkt orðalag áhyggjur. Búið er t.d. að ráða hönnuði sem öllu jafna kalla á mikil útgjöld. Mörg dæmi eru um að „svona vegferð“ beri með sér fyrirsjáanlega hagræðingu og sparnað en síðan hefst „þensla“ í kringum hið nýja verkefni. Þegar upp er staðið verður sparnaður enginn. Fyrir liggur að fjárhagur borgarinnar er kominn á heljarþröm eins og fjármálastjóri veit hvað best.

    Fylgigögn

  17. Lögð fram fundargerð fjölmenningarráðs frá 28. febrúar 2023. MSS23010024

    Fylgigögn

  18. Lögð fram fundargerð innkaupa- og framkvæmdaráðs frá 2. mars 2023. MSS23010005

    Fylgigögn

  19. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Breiðholts frá 1. mars 2023. MSS23010028

    Fylgigögn

  20. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Háaleitis og Bústaða frá 28. febrúar 2023. MSS23010031

    Fylgigögn

  21. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Miðborgar og Hlíða frá 27. febrúar 2023. MSS23010035

    Fylgigögn

  22. Lagðar fram fundargerðir stjórnar Strætó bs. frá 6. janúar og 24. febrúar 2023. MSS23010021

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Liður 1 í fundargerð frá 6. janúar. Flokkur fólksins fagnar því að næturstrætó mun fara aftur af stað. Liður 5 í fundargerð 24 febrúar. Fara á í útboð á akstri Strætó. Fram kemur að útboðsgögn eru að verða tilbúin og stefnt að því að auglýsa útboðið um miðjan mars. Flokkur fólksins hefur áður bókað um áhyggjur sínar um að útvista eigi akstri Strætó. Flokkur fólksins spyr hvort það sé í samræmi við stefnu eigendanna. Flokkur fólksins hefur varað við útvistun og eru nokkrar ástæður nefndar. Ef horft er til reynslu er hætta á lækkun launa og að einkaaðilar hirði þann launamun í sinn vasa. Einnig hefur reynslan sýnt í alltof mörgum tilfellum að þjónustan verði dýrari en ekki betri fyrir vikið. Ef reksturinn verður boðinn út er útilokað að borgin hafi þann kost að hafa frítt í strætó eins og talað hefur verið um að skoða. Vísað er til slæmrar reynslu af útvistun almenningssamgangna í Bretlandi og Svíþjóð.

    Fylgigögn

  23. Lagðar fram fundargerðir stjórnar SORPU bs. frá 24. janúar og 14. febrúar 2023. MSS23010016

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. lið í fundargerðinni frá 14. febrúar:

    Stjórn SORPU bókar „að fela framkvæmdastjóra að hefja undirbúning að lokun forvinnslulínunnar í móttöku- og flokkunarstöðinni.“ Þetta er með eindæmum. Hér er milljarður farinn í súginn. Við þessu var margsinnis varað. Vísað er í eina af bókunum Flokks fólksins í þessu máli frá 2021 þar sem varað er við þessu kerfi. „Spurningar vöknuðu fyrst vegna GAJU sorp- og jarðgerðarstöðina 2016. GAJA átti að taka við öllum úrgangi af höfuðborgarsvæðinu og framleiða hágæða moltu og metangas. GAJU var lýst sem töfrabragði, geta tekið blandað sorp og gert úr því hágæða moltu. Blása átti plast frá og veiða málma úr sorpinu með segli. Niðurstaðan er plastmenguð molta með þungmálmum og gleri, mengun langt yfir viðmiði. GAJU ævintýrið var bara draumsýn sem kostað hefur borgarbúa ómælt fé.“ Nú er ballið búið og til að toppa allt eru orð framkvæmdastjóra sem segir „að mistök hafi verið gerð þegar ákveðið var að kaupa flokkunarkerfi sem vitað var að myndi ekki skila af sér nothæfri moltu.“ Takið eftir! Vitað var að flokkunarkerfið myndi ekki skila af sér nothæfri moltu.. Hver kaupir rándýrt flokkunarkerfi sem vitað er að skilar ekki nothæfu hráefni til moltugerðar? Það gerði SORPA.

    Fylgigögn

  24. Lagðar fram fundargerðir samstarfsnefndar skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins frá 15. febrúar og 1. mars 2023. MSS23010019

    Fylgigögn

  25. Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 8. mars 2023.

    6. liður fundargerðarinnar er samþykktur. MSS23010011

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 7. lið fundargerðarinnar: 

    Flokkur fólksins ræður af fundargerðinni að stefnumótun SORPU hafi verið í skötulíki en þar segir: „Stjórn SORPU bs. felur framkvæmdastjóra að hefja vinnu við stefnumótun SORPU í samstarfi við stjórn. Stjórn felur framkvæmdastjóra að leita tilboða hjá ráðgjöfum við stefnumótun og kynna á næsta fundi stjórnar SORPU.“ SORPA er ekki nýtt fyrirtæki og því er undarlegt að vinna þurfi nú að stefnumótun og leita til ráðgjafarfyrirtækja. Síðan kemur fram að greiða þurfi Ölfusi fyrir að nota Bolaöldur sem urðunarstað. „Samkomulag er í höfn um að SORPA greiði tiltekna fjárhæð til Ölfuss fyrir notkun á landi árið 2022 og geri í kjölfarið samkomulag við verktaka á svæðinu og landeiganda um framhald rekstrar í Bolaöldum“. Þetta þarf að skýra. Er verið að greiða háar upphæðir til annars sveitarfélags eingöngu vegna þess að landsvæðið er innan lögsögu þess sveitarfélags? Eða er verið að greiða fyrir einhverja þjónustu og framkvæmdir? Hver er þessi kostnaður? Fram kemur að semja eigi við landeiganda og það er skiljanlegt. Gott væri að það kæmi fram í fundargerðum hvernig staðið er að útflutningi á brennanlegum úrgangi, ver sé kostnaður við hann og hvort stefnt sé að því að nota þennan úrgang innanlands sem orkugjafa.

    Fylgigögn

  26. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 18 mál. MSS23020106

    Fylgigögn

  27. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. MSS23020163

    Fylgigögn

  28. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Hvenær munu viðræður við ríkið hefjast vegna mögulegs flutnings Borgarskjalasafns til Þjóðskjalasafns? Hverjir munu fara fyrir viðræðunum við ríkið?  ÞON23010028

  29. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Hvernig verður starfsemi Borgarskjalasafnsins háttað næstu fjögur árin? ÞON23010028

  30. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Mikilvægt er að starfsfólk Borgarskjalasafnsins haldi sinni stöðu næstu fjögur árin enda mikilvægt að ekki myndist upplýsingagjá komi til flutnings safnsins. Mikilvægt er að þekking á safnkosti safnsins haldi sér við allar breytingar sem kunna að verða á starfsemi þess. 1. Munu borgarskjalavörður og starfsmenn Borgarskjalasafnsins halda sinni stöðu næstu fjögur árin? 2. Hvernig verður þjónustu- og eftirlitshlutverki safnsins háttað næstu fjögur árin? ÞON23010028

  31. Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Mun borgarlína þurfa að draga úr þjónustu og tíðni ferða ef svipað áfall gengur yfir okkur og í COVID faraldrinum? Þá urðu áföll í tekjum Strætó og í kjölfarið varð að fækka ferðum og skera niður. Þyrfti að skera niður tíðni ferða eða þjónustu borgarlínu ef við yrðum fyrir efnahagsáfalli, líkt og COVID-19 hafði á rekstur Strætó þegar skera þurfti niður? Eru einhverjar áætlanir eða samningar í kortunum um hvernig þjónusta borgarlínu skuli tryggð ef efnahagsáfall eða önnur áföll dynja yfir okkur? MSS23030067

  32. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Flokkur fólksins leggur til að óháður aðili verði fenginn til að rannsaka stórfelld mistök fyrri stjórnar SORPU. Ein þeirra er móttökuflokkunarstöðin í Álfsnesi sem ákveðið hefur verið að loka. Milljarður er farinn í súginn. Varað var rækilega við að þessi framkvæmd myndi aldrei ganga en á það var ekki hlustað. Þáverandi stjórn lofaði vindflokkunarvélina Kára í hástert og út úr ferlinu kæmi moltunarhæft lífrænt efni. Fjölmargir, þ.m.t. fulltrúi Flokks fólksins, bentu á að það væri útilokað að hreinsa lífrænan úrgang með þessari tækni. Það lá fyrir, svona fyrir flestum alla vega, að molta sem unnin er úr blandaðri tunnu geti aldrei orðið söluhæf. Nú orðar framkvæmdastjóri SORPU þetta þannig að viðurkennt er að það hafi verið mistök að kaupa flokkunarkerfi sem vitað var að myndi ekki skila af sér nýtingarhæfu efni. Hver kaupir kerfi sem hann veit að mun ekki virka? Þetta ferli þarf að rannsaka til hlítar.

    Frestað. MSS23030056

  33. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarráð samþykki að gera úttekt á verklagi hjá þjónustu- og nýsköpunarsviði og hvernig vinnuháttum hefur verið háttað þar innandyra sl. 3-4 ár og hverju þeir fjármunir hafa skilað? Jafnframt er lagt til að til verksins verði fengið annað greiningarfyrirtæki en KPMG. Þjónustu- og nýsköpunarsvið hefur haft til ráðstöfunar yfir þrjá milljarða undanfarin þrjú ár til að koma stafrænum lausnum á í borgarkerfinu. Innri endurskoðun hefur á áætlun sinni úttekt á stafrænni innleiðingu og er fyrirhugað að klára hana á þessu ári en ekki er víst að hún taki á öllum þáttum.

    Frestað. MSS23030058

  34. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Í verkefninu betri borg fyrir börn hafa verið sett á laggirnar svokölluð lausnarteymi í skólum til að fækka beiðnum til sálfræðinga. Teymin vinna þó ekki með börnunum heldur aðeins starfsfólki. Flokkur fólksins spyr hverjir eru í þessum teymum og hvernig er vinnu þeirra háttað. Óskað er lýsingu á vinnu slíks teymis t.d. yfir vikutíma. Einnig er spurt hverjir sinna þá foreldrum og börnunum ef sálfræðingar eru staðsettir á miðstöðvunum en ekki í nærumhverfi barnanna. MSS23030036

  35. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fram hefur komið í lýsingu á verkefninu betri borg fyrir börn að starfsfólk skóla sé ánægt með verkefnið betri borg fyrir börn (BBB) og „deildir“ séu það líka. Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvernig var sú niðurstaða fengin og hvað felst í því að segja að deildir séu ánægðar. Einnig er spurt um hvort rætt hafi verið við foreldra um verkefnið og þeir spurðir um reynslu þeirra af verkefninu. MSS23030036

  36. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir því að fá upplýsingar um árangursmælingar á sérkennslu í grunnskólum Reykjavíkur. Miklu fé er varið til sérkennslu á hverju ári, nálægt fimm milljörðum, sem er hið besta mál. Í ljósi þess þarf að spyrja hvort framkvæmd sérkennslu sé vel skilgreind og einstaklingsmiðuð og hvort hún skili viðunandi árangri og heildarsýn. Hætt er við því að afleiðing þess að skólar verði ekki rýndir með faglegum og vísindalegum hætti, verði um fátt annað en hálfkák að ræða og ekki fáist heildarmynd af árangri sérkennslunnar. Samkvæmt upplýsingum frá skóla- og frístundasviði stendur ekki til að framkvæma miðlægar árangursmælingar á sérkennslu en það getur haft það í för með sér að samanburður á milli skóla verður örðugri. Þess í stað á að styðjast við sérstaka handbók fyrir deildarstjóra stuðningsþjónustu í leikskólum, grunnskólum og frístundastarfi. Óskað er eftir upplýsingum um það hvort og hvernig skóla- og frístundasvið mun halda utan um notkun handbókarinnar, fylgjast með því hvort og hvernig henni er fylgt og hverjar niðurstöðurnar verði. MSS23030036

  37. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Kynnt hefur verið skýrsla frá KPMG um Borgarskjalasafn þar sem lagt er til að staða safnsins geti ekki verið óbreytt. Í kjölfarið lagði borgarstjóri fram tillögu um að leggja niður safnið sem samþykkt var af meirihlutanum 7. mars. Flokkur fólksins óskar upplýsinga um kostnað við gerð þessarar skýrslu. Spurt er einnig: Komu önnur greiningarfyrirtæki til greina  eða var rætt við önnur greiningarfyrirtæki um úttekt á Borgarskjalasafni? Var útboð? ÞON23010028

  38. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Ítrekað hefur komið fram að Borgarskjalasafn hafi ekki fengið umbeðnar fjárveitingar til að þróa starfsemi safnsins áfram. Benda má á að heildarrekstrarkostnaður safnsins er innan við 200 milljónir króna á ári og launakostnaður undir 100 milljónum. Flokkur fólksins óskar upplýsinga um eftirfarandi: A. Hvað veldur því að safnið hafi ekki getað þróast áfram? B. Af hverju var ekki séð til þess að safnið gæti haldið úti vefnum eins og önnur fyrirtæki/ starfsstaðir/einingar á vegum borgarinnar sem sinna beinni þjónustu við fólkið? ÞON23010028

  39. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Hvað hefur KPMG unnið mikið fyrir Reykjavíkurborg sl. 5 ár? Óskað er eftir lista yfir verkefni og kostnað við hvert og eitt þeirra. Hafa fleiri greiningarfyrirtæki unnið sambærileg verkefni fyrir Reykjavík sl. 5 ár og ef svo er hver eru þau og hvað hefur þeim verið greitt fyrir? MSS23030060

  40. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um af hverju Borgarskjalasafn heyri undir sviðsstjóra þjónustu- og nýsköpunarsviðs (ÞON) í skipuriti borgarinnar. Spurt er hvort það sé rétt staðsetning í skipuriti í ljósi þess að að þjónustu- og nýsköpunarsvið ætti að vera svið sem styður við aðrar stofnanir borgarinnar en á ekki að vera valdastofnun. Undir þetta sjónarmið er t.d. tekið í nýrri skýrslu KPMG um framtíðarskipulag Borgarskjalasafns en þar segir: „Til að safnið geti sinnt lögbundnu eftirlitshlutverki sínu þarf að tryggja sjálfstæði þess gagnvart stjórnendum borgarinnar. Óhæði safnsins er lykilatriði í eftirliti með skjalamyndun og skjalavörslu. Má ætla að núverandi staðsetning í skipuriti, undir þjónustu- og nýsköpunarsviði (ÞON), hafi áhrif á sjálfstæði safnsins. Þar sem ÞON ber ábyrgð á skjalavörslu borgarinnar þá er í raun bæði eftirlit skjalavörslu og framkvæmd skjalavörslu á höndum sama aðila. Ein leið til að auka sjálfstæði væri að færa safnið í skipuriti til t.d. innri endurskoðunar svo hægt sé að draga skýrari línur milli framkvæmdar skjalavörslu og eftirlits með skjalavörslu.“ ÞON23010028

  41. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Í skýrslu KPMG kemur ekkert fram um hvort eða þá hvernig Þjóðskjalasafnið sé í stakk búið til að taka við Borgarskjalasafni eins og stefnt er að sbr. tillögu borgarstjóra um niðurlagningu safnsins. Þá vakna ýmsar spurningar hjá fulltrúa Flokks fólksins. A. Vill Þjóðskjalasafnið taka við Borgarskjalasafninu? B. Hafa átt sér stað einhverjar viðræður um þau mál? C. Hvert er kostnaðarmat Þjóðskjalasafnsins og menntamálaráðherra á slíku verkefni? D. Hvað þyrfti Reykjavíkurborg að greiða í meðgjöf með Borgarskjalasafninu við slíkan tilflutning? E. Er nægilegt að menntamálaráðherra sé sent bréf þess efnis að frá og með einhverjum degi sé Borgarskjalasafn á ábyrgð Þjóðskjalasafns hvort sem það vill eða vill ekki? ÞON23010028

  42. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fram hefur komið í skýrslu KPMG um Borgarskjalasafn að rafræn vistun skjala hjá Reykjavíkurborg sé ekki sem skyldi né kerfisbundin notkun rafrænnar skjalavistunar. Fulltrúi Flokks fólksins hefur upplýsingar um að árið 2016 hófu sum sveitarfélög markvissa rafræna skjalaskráningu, s.s. að tryggja að starfsfólk stjórnsýslunnar hjá þeim sveitarfélögum notaði ONE systems við skjalaskráningu. Síðan eru liðin tæp sjö ár. A. Af hverju eru rafræn skjalavistunarmál ekki betur komin hjá borginni en komið hefur fram? B. Hver ber ábyrgð á því, pólitíkin eða þjónustu- og nýsköpunarsvið? Óskað er útskýringa. MSS23030057

  43. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Í 3. lið fundargerðar SORPU frá 24. janúar kemur eftirfarandi fram: „Samkomulag er í höfn um að SORPA greiði tiltekna fjárhæð til Ölfuss fyrir notkun á landi árið 2022 og geri í kjölfarið samkomulag við verktaka á svæðinu og landeiganda um framhald rekstrar í Bolaöldum“. Þetta þarf að skýra að mati Flokks fólksins. Er verið að greiða háar upphæðir til annars sveitarfélags eingöngu vegna þess að landsvæðið er innan lögsögu þess sveitarfélags? Eða er verið að greiða fyrir einhverja þjónustu og framkvæmdir? Hver er þessi kostnaður? Fram kemur að semja eigi við landeiganda og það er skiljanlegt. MSS23030059

Fundi slitið kl. 11:05

Einar Þorsteinsson Alexandra Briem

Heiða Björg Hilmisdóttir Hildur Björnsdóttir

Marta Guðjónsdóttir Trausti Breiðfjörð Magnússon

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir