Borgarráð - Fundur nr. 5685

Borgarráð

Ár 2022, fimmtudaginn 17. nóvember, var haldinn 5685. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:05. Viðstödd voru auk borgarstjóra sem tók sæti á fundinum með rafrænum hætti, Einar Þorsteinsson, Heiða Björg Hilmisdóttir, Hildur Björnsdóttir, Kjartan Magnússon, Magnús Davíð Norðdahl, Sanna Magdalena Mörtudóttir og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Helga Þórðardóttir og Líf Magneudóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ebba Schram, Þorsteinn Gunnarsson og Ívar Vincent Smárason.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

 1. Lagðar fram tillögur borgarstjóra, dags. 15. nóvember 2022, að viðauka við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar vegna fjárfestingaráætlunar A-hluta. Greinargerð fylgir tillögunni.
  Vísað til borgarstjórnar.

  Jón Valgeir Björnsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS22030040

  Fylgigögn

 2. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 15. nóvember 2022, ásamt fylgiskjölum:

  Lagt er til að borgarráð samþykki hjálagt boð, dags. 18. október 2022, frá World Council on City Data um þátttöku í frekari þróun við gagnasöfnun seiglustaðalsins ISO 37123 (Indicators for Resilient Cities) með vísan til hjálagðrar umsagnar sviðsstjóra fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 14. nóvember 2022.

  Samþykkt.

  Þórhildur Ósk Halldórsdóttir og Karen Björk Eyþórsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS22100228

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Árið 2020 samþykkti borgarráð að innleiddir yrðu þrír staðlar sem mæla umhverfislega, samfélagslega og efnahagslega sjálfbærni borgarinnar. Staðlarnir samanstanda af yfir 200 árangursmælikvörðum sem gefa mynd af stöðu borgarinnar hverju sinni með aðstoð alþjóðlegu samtakanna World Council on City Data (WCCD). Niðurstöður gagnasöfnunar gefa færi á að Reykjavík geti borið sig saman við aðrar borgir heims ásamt því að Reykjavíkurborg getur fylgst með eigin þroskaferli og þróun. Platinum viðurkenning WCCD-UN staðfestir þann árangur sem náðst hefur. Mikilvægt er að halda áfram þróun staðlanna hér á landi í samvinnu við Kópavogsbæ, Stafrænt Ísland, Hagstofuna og fleiri aðila.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Fulltrúa Flokks fólksins líst vel á að borgin fari í þá vegferð að lagfæra þá mælikvarða sem hún hefur notast við varðandi eftirfylgni á umhverfislegri, samfélagslegri og efnahagslegri sjálfbærni borgarinnar. Það er alveg ljóst að mikil þörf er á einhverskonar mælanlegum aðhaldsaðgerðum í ljósi þess hversu bág staða borgarsjóðs er orðin. Það væri fróðlegt að sjá hvaða mæla meirihlutinn hefur verið að notast við hingað til sem augljóslega hafa ekki virkað sem skyldi hvað varðar fjárhagsstöðu Reykjavíkurborgar. En það er allavega jákvætt að þarna er um að ræða samstarf Reykjavíkurborgar með Kópavogsbæ, Stafrænu Íslandi og Hagstofunni. Samstarf og samvinna skiptir mestu í þessum málum, m.a. við ríkið og önnur sveitarfélög. Reykjavík á ekki að vera ein á ferð og einangruð í þessum málum enda getur borgin lært mikið af öðrum þegar kemur að þessum málum sem öðrum.

  Fylgigögn

 3. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 15. nóvember 2022, þar sem erindi World Council on City Data varðandi vottun vegna ISO staðla 37120 og 37123 er sent borgarráði til kynningar, ásamt fylgiskjölum.

  Þórhildur Ósk Halldórsdóttir og Karen Björk Eyþórsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS20070002

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Fulltrúa Flokks fólksins líst vel á að borgin fari í þá vegferð að lagfæra þá mælikvarða sem hún hefur notast við varðandi eftirfylgni á umhverfislegri, samfélagslegri og efnahagslegri sjálfbærni borgarinnar. Það er alveg ljóst að mikil þörf er á einhverskonar mælanlegum aðhaldsaðgerðum í ljósi þess hversu bág staða borgarsjóðs er orðin. Það væri fróðlegt að sjá hvaða mæla meirihlutinn hefur verið að notast við hingað til sem augljóslega hafa ekki virkað sem skyldi hvað varðar fjárhagsstöðu Reykjavíkurborgar. En það er allavega jákvætt að þarna er um að ræða samstarf Reykjavíkurborgar með Kópavogsbæ, Stafrænu Íslandi og Hagstofunni. Samstarf og samvinna skiptir mestu í þessum málum, m.a. við ríkið og önnur sveitarfélög. Reykjavík á ekki að vera ein á ferð og einangruð í þessum málum enda getur borgin lært mikið af öðrum þegar kemur að þessum málum sem öðrum.

  Fylgigögn

 4. Lagt fram bréf endurskoðunarnefndar, dags. 3. nóvember 2022, sbr. samþykkt endurskoðunarnefndar frá 31. október 2022 á starfsskýrslu endurskoðunarnefndar Reykjavíkurborgar fyrir starfsárið 2021-2022, ásamt fylgiskjölum.

  Lárus Finnbogason tekur sæti á fundinum undir þessum lið. MSS22110038

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Endurskoðunarnefndin er með sömu ábendingar og á árum áður, að borgaryfirvöld bregðist fljótt við ábendingum nefndarinnar sem settar eru fram hverju sinni. Endurskoðunarnefndin kannaði í nóvember 2021 hvort brugðist hefði verið við athugasemdum hennar og benti könnun til þess að það hefði verið gert, sem eru framfarir ef horft er til fyrri tíma. Reikningsskil Félagsbústaða voru fyrirferðarmikil í störfum endurskoðunarnefndarinnar, einkum mat og framsetning fjárfestingareigna í reikningsskilum Félagsbústaða hf. Flokkur fólksins tekur undir niðurlag skýrslunnar þar sem segir að þessi álitaefni og óvissa þeim tengd hafi haft veruleg áhrif við afgreiðslu ársreiknings Reykjavíkurborgar og tekur einnig undir með nefndinni sem telur nauðsynlegt að þetta mál með Félagsbústaði verði til lykta leitt svo fljótt sem verða má.

  Fylgigögn

 5. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 15. nóvember 2022, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki samkomulagsdrög við lóðarhafa að lóðinni Vagnhöfða 29, ásamt fylgiskjölum.
  Samþykkt.

  Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS22110056

  Fylgigögn

 6. Fram fer kynning á fækkun bensínstöðva og uppbyggingu hleðslustöðva.

  Ívar Örn Ívarsson og Guðmundur B. Friðriksson taka sæti á fundinum undir þessum lið. FAS22010076

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Þegar borgin tók frumkvæði að því í samskiptum við olíufélögin að fækka bensínstöðvum í borgarlandi var markmiðið að flýta þeirri óumflýjanlegu þróun að jarðefnaeldsneyti verður ekki framtíðarorkugjafi hérlendis eða annarstaðar í heiminum. Bensínstöðvar víða í borgarlandinu eru að loka og dælurnar teknar niður til þess að rýma fyrir uppbyggingu íbúða skv. aðalskipulagi Reykjavíkur til 2040. Þessari þróun er fagnað.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Það urðu heilmikil læti í kringum þessa samninga við olíufélögin og enn er ekki ljóst hvort borgin hafi í sumum þessara samninga hreinlega samið af sér. En þróun er vissulega í þá átt að fækka bensínstöðvum í borgarlandi um einhverjar alla vega. Það þurfa að koma mun fleiri hleðslustöðvar og einnig hleðslustöðvar fyrir metan í borgarlandinu.

  Fylgigögn

 7. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 14. nóvember 2022, varðandi fyrirhugaða ferð borgarstjóra til Kaupmannahafnar og Parísar, ásamt fylgiskjölum. MSS22110022

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Borgarstjóri ætlar núna til Kaupmannahafnar og Parísar. Nýlega voru kynntir reikningar borgarinnar og fjárhagsáætlun og aldrei hefur sést svo slæm útkoma. Fjármálastjóri hefur sagt að velta þurfi við hverri krónu. Fulltrúi Flokks fólksins veltir því upp hvort ekki sé sjálfsagt að borgarstjóri gæti hófs í ferðum erlendis og fari aðeins til útlanda í undantekningartilfellum. Eftir COVID eru flestir færir í notkun fjarfunda og svo má notast við streymi þar sem það býðst. Flokkur fólksins minnir á að margt smátt gerir eitt stórt og sárlega vantar að streyma meira fjármagni í beina þjónustu við börn sem dæmi. Á biðlista barna eftir fagþjónustu skóla eru núna 2.048 börn.

  Fylgigögn

 8. Lagður fram dómur Landsréttar í máli nr. 501/2021. MSS21120207

 9. Lögð fram fundargerð aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks frá 3. nóvember 2022. MSS22010025

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. lið: 

  Vegna kynningar viðburðateymis menningar- og ferðamálasviðs á aðgengi að viðburðum Reykjavíkurborgar. Í kynningu kemur fram að salernum fyrir fatlað fólk sé komið fyrir víða um miðborgina á viðburðahátíðum eins og menningarnótt. Þessi setning í kynningunni vakti athygli fulltrúa Flokks fólksins og væri áhugavert að fá að vita nánar um staðsetningar salerna almennt séð. Í kjölfar ábendinga eftir menningarnótt um slakt aðgengi bæði að miðbænum og að salerni t.d. í Hljómskálagarðinum lagði Flokkur fólksins það til að lagst verði yfir lausnir á vandanum til að slík hátíð geti tekið á móti öllum. Fatlað fólk á að geta tekið þátt í hátíðarhöldum eins og ófatlaðir. Vegna aðgengismála að miðbænum benti fulltrúi Flokks fólksins á að forgangsakstur fyrir stæðiskorthafa og akstursþjónustu fatlaðra að jaðri svæðisins dugar ekki til. Þarf ekki að skoða skipulagið frá grunni ef ætlunin er að fatlað fólk geti tekið fullan þátt og með sama hætti og aðrir? Það er einfaldlega mjög erfitt þegar um er að ræða stórt svæði sem er alveg lokað af fyrir bílaumferð.

  Fylgigögn

 10. Lögð fram fundargerð heilbrigðisnefndar frá 10. nóvember 2022. MSS22070029

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 11. lið: 

  Flokkur fólksins fagnar því að lausaganga hunda verði leyfð á Klambratúni. Sjálfsagt er að setja utan um leyfið einhvern ramma en gæta þarf þó þess að skilyrðin séu ekki það íþyngjandi að þau hafi fælingarmátt. Það er auðvitað fráleitt að hundar þurfi að vera skráðir hjá Reykjavíkurborg til að fá að njóta frelsis í borgarlandi á afmörkuðum svæðum í skilgreindan tíma. Með því að tengja heimildina um lausagöngu við skráningu hunds hjá borginni er verið að þvinga eigendur hunda að skrá hundinn. Það liggur fyrir að langflestir hundaeigendur eru ekki að fá neitt fyrir skráningargjaldið, enga þjónustu. Langflestir hundaeigendur þurfa einfaldlega enga þjónustu frá borginni og þess vegna má segja að skráningargjaldið sé bara skattur. Sjálfsagt er að hundaeigendur greiði gjald njóti þeir sérstakrar þjónustu frá borginni. Meirihlutinn þarf að fara að horfast í augu við að skráningargjald hunda er barn síns tíma auk þess sem það er afar ósanngjarnt að hundaeigendur, einir gæludýraeigenda, skuli eiga að greiða gjald fyrir að eiga hund.

  Fylgigögn

 11. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Árbæjar og Norðlingaholts frá 8. nóvember 2022. MSS22010026

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 11. lið: 

  Kynning á frístundastarfi í hverfinu í kjölfar sameiningar frístundastarfs í Austurmiðstöð. Starfsemin sem rekin er í starfsstöðvum í hverfinu er til fyrirmyndar að mati fulltrúa Flokks fólksins en íbúaráðið lýsir áhyggjum af húsnæðisskorti sem blasir við í frístundastarfi í Árbænum. Þar sem ekkert bendir til þess að börnum í hverfinu fækki á næsta áratugnum er mikilvægt að þessi húsnæðisþörf verði leyst með varanlegum hætti. Flokkur fólksins telur mikilvægt að það verði hlustað á þetta ákall íbúa Árbæjar og Norðlingaholts og að íbúar verði jafnframt með í ráðum þegar framtíðarlausnar er leitað.

  Fylgigögn

 12. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Breiðholts frá 2. nóvember 2022. MSS22010027

  Fylgigögn

 13. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Grafarvogs frá 7. nóvember 2022. MSS22010029

  Fylgigögn

 14. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Kjalarness frá 10. nóvember 2022. MSS22010031

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 4. og 7. lið: 

  Tekið er undir bókun íbúaráðs Kjalarness um vonbrigði með að hætta eigi starfsemi bókabílsins. Flokkur fólksins hefur bókað um þetta mál og verið með fyrirspurnir. Verst kemur þessi ákvörðun niður á íbúum á Kjalarnesi en þeir hafa nýtt þessa þjónustu vel. Þar hefur bókabíllinn gegnt hlutverki bókasafns. Flokkur fólksins óskaði upplýsinga um hvernig meirihlutinn hyggst tryggja íbúum á Kjalarnesi aðgang að bókum á svæðinu. Þetta hefði kannski átt að hugsa áður en Bókabíllinn var lagður niður. Þjónustuskerðingin kemur niður á öllum aldurshópum á Kjalarnesi því bækur eru jú eitthvað sem langflestir hafa bæði gagn og gaman af. Liður 7: Undir þessum lið eru drög að erindi íbúaráðs Kjalarness til Vegagerðarinnar og skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar um útfærslu á þjónustu strætó í Kollafirði. Í sumar var stoppistöð á leið 57 lögð niður við Esjurætur. Ákvörðunin kemur mjög illa við íbúa í Kollafirði sem og aðra sem eiga leið að Esjunni. Næsta stöð er uppi á Esjumelum í 700-1000 metra fjarlægð. Flokkur fólksins hefur spurt formlega hvenær opna á stoppistöðina aftur. Hér er verið að leika sér að eldinum.

  Fylgigögn

 15. Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 16. nóvember 2022.
  B-hluti fundargerðarinnar er samþykktur. MSS22060175

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 14. og 26. lið: 

  Reykjavíkurborg er ekki að standa sig nógu vel þegar kemur að umferðaröryggi barna til og frá skóla. Þann 16. nóvember sl. var ekið á á nemenda í 3. bekk í Laugarnesskóla á gangbraut yfir Reykjaveg. Til allrar hamingju virðist barnið hafa sloppið án teljandi meiðsla. Íbúar hafa lengi kallað eftir að betur verði búið að þessari gangbraut til skólans, sett gönguljós, lýsing bætt og gangbrautin færð suður fyrir Kirkjuteig. Til upprifjunar þá var einnig ekið á nemanda skólans á þessum sama stað þann 18. maí síðastliðinn og í lengri forsögu hafa orðið mörg umferðarslys á þessum stað, sum alvarleg. Flokkur fólksins hefur einnig ítrekað farið fram á að hlustað verði á foreldra barna í Vogabyggð. Í júní lagði Flokkur fólksins fram tillögu um að strax yrði hafist handa við að byggja bráðabirgðagöngubrú yfir Sæbraut við gatnamót við Skeiðarvog/Kleppsmýrarveg. Þetta eru sennilega ein hættulegustu gatnamót Reykjavíkur. Vogabyggð er orðin fjölmenn byggð, en þannig er málum háttað að börnin í hverfinu þurfa daglega að fara yfir Sæbrautina til að sækja skóla, frístundir og fleira. Íbúar Vogabyggðar gera kröfu um að borgaryfirvöld standi við áform og gefin loforð um göngubrú. Samkvæmt þinglýstu samkomulagi við lóðarhafa frá 2016-17 mátti gera ráð fyrir göngubrú árið 2019.

  Fylgigögn

 16. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 10 mál. MSS22110004

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 10. lið:

  Í yfirliti um embættisafgreiðslur má sjá að fyrirspurn Flokks fólksins, dags. 10. nóvember 2022, um einkavæðingu er send til skrifstofu borgarstjóra og borgarritara til umsagnar. Fulltrúi Flokks fólksins telur að hún hefði einnig átt að vera send til stjórnar Strætó bs. Fyrirspurnin er eftirfarandi: Hefur Reykjavík í hyggju að styðja einkavæðingu á Strætó? Flokkur fólksins hefur þungar áhyggjur ef áformað er að útvista leiðum Strætó bs. til einkaaðila með þeim afleiðingum að laun verði lækkuð og að einkaaðilar hirði þann launamun í sinn vasa. Óttast er að með útvistun verði þjónustan dýrari og hætta er aukin á að starfsmönnum verði sagt upp. Einnig er fyrirséð að verði reksturinn boðinn út eru teknir frá borginni möguleikar á að hafa t.d. frítt í strætó. Vísað er til slæmrar reynslu af útvistun almenningssamgangna í Bretlandi og Svíþjóð. Flokkur fólksins varar við áformum af þessu tagi og hvetur sveitarfélögin sem eiga Strætó bs.; Reykjavíkurborg, Garðabæ, Hafnarfjarðarbæ, Kópavogsbæ, Mosfellsbæ og Seltjarnarnesbæ að veita nægilegu fé til rekstrarins og standa í fæturna gagnvart ríkinu, sem ekki stóð við loforð um að veita fé til rekstrarins í COVID-19 faraldrinum. Öll þurfum við góðar almenningssamgöngur.

  Fylgigögn

 17. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. MSS22110050

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Veitt er jákvæð umsögn rekstrarleyfis til tveggja staða í miðbænum að þessu sinni, Skólavörðustíg 12 og á Þingholtsstræti 1. Báðir staðirnir eru í umsókn skilgreindir í flokki II skv. 4. gr. laga nr. 85/2007 (umfangslítill áfengisveitingastaður). Hér er vissulega ekki um að ræða bari sem opnir eru til hálf fimm að nóttu. Engu að síður vill fulltrúi Flokks fólksins bóka undir þessum lið um þá alvarlegu stöðu sem er í miðbænum hvað varðar hávaðamengun og fleira sem tengist skemmtanalífi sérstaklega þar sem margir staðir eru þétt saman og hávaðareglugerð ekki fylgt. Hafa þessir tilteknu rekstraraðilar kynnt sér reglugerð um hávaðamengun? Hefur verið rætt við þá um ástandið í miðbænum og kvartanir fjölda íbúa vegna hávaða og skrílsláta í tengslum við skemmtanalífið? Fyrir skemmstu setti Heilbrigðiseftirlitið upp hljóðmæli á horni Bankastrætis og Laugavegar vegna fjölda hávaðakvartana sem hafa borist frá íbúum á svæðinu. Margar kvartanir hafa einnig borist frá Grjótaþorpinu. Skoða þarf að setja upp fleiri mæla til að fylgjast með því hvort það sé verið að fara eftir settum lögum og reglum. Samkvæmt reglugerð má hávaði ekki vera meiri en 95 desíbil. Sé reglum ekki fylgt getur Heilbrigðiseftirlitið takmarkað starfsemina og opnunartíma staðanna. Mikilvægt er að nýta allar heimildar ef reglur eru brotnar.

  Fylgigögn

 18. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn: 

  Í komandi viku fer borgarstjóri í fjögurra daga ferð til Kaupmannahafnar og Parísar ásamt aðstoðarmanni. Óskað er eftir upplýsingum um áætlaðan kostnað Reykjavíkurborgar vegna ferðarinnar. Jafnframt eru ítrekaðar fyrri fyrirspurnir um kostnað vegna ferða borgarstjóra til Barcelona, sem nú stendur yfir, og til Amsterdam í liðnum mánuði, ásamt fylgdarliði, sem enn hafa ekki fengist svör við. 

  Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs. MSS22110022

 19. Áheyrnarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi tillögu:

  Borgarráð samþykkir að fela borgarstjóra að fara í viðræður við ríkið og ná samkomulagi um að Reykjavíkurborg taki að sér að endurhanna stofnbrautir innan borgarinnar sem borgargötur þar sem fjölbreyttir og vistvænir ferðamátar fá enn meira rými. Götur sem kæmu til greina (ekki tæmandi listi) eru Miklabraut, Hringbraut, Kringlumýrarbraut, Sæbraut og Breiðholtsbraut. Markmiðið með því að breyta stofnbrautum og gatnamótum í fallegar og vistvænar borgargötur með öruggum þverunum er að auka öryggi vistvænna og fjölbreyttra ferðamáta og að ná enn hraðar markmiðum Reykjavíkur um kolefnishlutleysi borgarinnar. Til þess þarf m.a. að draga úr eknum kílómetrum og breyta ferðavenjum fólks. Þá þarf að rýna verkefni annarra borga sem hefur tekist vel til að breyta umferðarþungum æðum um borgina í fallegt, heilsusamlegt og nærandi ferðaumhverfi.

  Frestað. MSS22110150

Fundi slitið kl. 11:02

Einar Þorsteinsson Heiða Björg Hilmisdóttir

Magnús Davíð Norðdahl Þórdís Lóa Þórhallsdóttir

Hildur Björnsdóttir Kjartan Magnússon

Sanna Magdalena Mörtudottir