Borgarráð
Ár 2022, fimmtudaginn 20. janúar, var haldinn 5652. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn með rafrænum hætti og hófst kl. 09:03. Eftirtaldir borgarráðsfulltrúar auk borgarstjóra tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 2. málsl. 4. mgr. 44. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar sbr. 3. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Skúli Þór Helgason, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Líf Magneudóttir, Marta Guðjónsdóttir, Hildur Björnsdóttir og Valgerður Sigurðardóttir. Einnig sátu fundinn með rafrænum hætti áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti: Þorsteinn Gunnarsson, Pétur Krogh Ólafsson og Hulda Hólmkelsdóttir.
Fundarritari var Ívar Vincent Smárason.
Þetta gerðist:
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 12. janúar 2022, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 12. janúar 2022 á auglýsingu á tillögu að deiliskipulagi Guðríðarstígs 6-8, ásamt fylgiskjölum. USK22010062
Samþykkt.Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 12. janúar 2022, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 12. janúar 2022 á umsókn um breytingu á deiliskipulagi reits 1.174.1 vegna lóðanna nr. 98A, 100 og 100A við Hverfisgötu, ásamt fylgiskjölum. USK22010063
Samþykkt.Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 12. janúar 2022, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 12. janúar 2022 á auglýsingu á tillögu að deiliskipulagi Safamýri – Álftamýri vegna lóðarinnar nr. 2 við Starmýri, ásamt fylgiskjölum. USK22010061
- Kl. 9:11 tekur Ebba Schram sæti á fundinum með rafrænum hætti.
Samþykkt.
Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 12. janúar 2022, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 12. janúar 2022, á yfirliti verkefnis og hlutverks vinnuhóps um yfirferð umsókna til Húsverndarsjóðs Reykjavíkurborgar 2022, ásamt fylgiskjölum. USK22010064
Samþykkt.Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Styrkveitingar eru vandasamar og mikilvægt er að hópurinn sé vel skipaður. Þarna eru taldir upp þrír embættismenn og ættu kjörnir fulltrúar að vera allavega fjórir að mati fulltrúa Flokks fólksins.
Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 18. janúar 2022, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki úthlutun lóðar og sölu byggingarréttar vegna sjö íbúða við Brekknaás 6. MSS21120307
Samþykkt.Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 18. janúar 2022, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki úthlutun lóðar og sölu byggingarréttar fyrir allt að 115 íbúðir við Gjúkabryggju 6. MSS21120306
Frestað.Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 18. janúar 2022, ásamt fylgiskjölum:
Lagt er til að borgarráð samþykki hjálögð samningsmarkmið Reykjavíkurborgar um uppbyggingu á nýjum uppbyggingarsvæðum.
Greinargerð fylgir tillögunni. MSS21120050
Samþykkt með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.Málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar með vísan til ákvæða 3. mgr. 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja að hér sé um íþyngjandi markmið að ræða sem leitt geti til hækkunar á húsnæðisverði.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Gott mál að liðka til að hægt sé að breyta og auka húsnæði í grónum hverfum með það í huga að hverfin virki sem félagslegar einingar, með verslunum og almennri þjónustu. Það mun þá gerast í samráði við íbúa og það verða þeir sem koma með hugmyndir og tillögur. Þetta er allt annað en að koma með mótaðar hugmyndir um einhverja gerð húsa, oftast blokkir sem settar verða inn í rótgróið hverfi. En þegar farið er af stað með slíka skipulagsvinnu þarf að taka tillit til innviða svo sem: er nóg af leikskólaplássum, bílastæðum, hjólastæðum, grænum svæðum og samgönguæðum? Notast ætti einmitt við þessa hugmyndafræði við mótun hverfaskipulags. Við gerð hverfaskipulags Háaleitis og Bústaða varðandi þéttingu við Bústaðaveg er t.d. lítið um fjölbreytileika, hvað þá að gera hafi átt mikið til að byggja upp góðan staðaranda og varðveita yfirbragð byggðar. Nú liggur fyrir bókun meirihluta í skipulags- og samgönguráði um að frá þeim þéttingaráformum skuli fallið. Hvað varðar annað eru íbúar skildir eftir á flæðiskeri og mega búast við að áfram verði þrengt að grónum hverfum borgarinnar ef þessi meirihluti situr áfram við völd.
Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 17. janúar 2022, ásamt fylgiskjölum:
Lagt er til að borgarráð staðfesti hjálagt samkomulag Reykjavíkurborgar við Malbikunarstöðina Höfða hf. um brottflutning á Sævarhöfða 6-10 á Ártúnshöfða í Reykjavík. MSS21120154
Samþykkt með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn tveimur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
Málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar með vísan til ákvæða 3. mgr. 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Reykjavík hefur ekki reynst fýsilegur kostur fyrir atvinnurekstur á höfuðborgarsvæðinu og flytja fyrirtæki og stofnanir í stórum stíl aðsetur sitt til nágrannasveitarfélaga. Ekkert hefur verið aðhafst til að stöðva þann flótta. Atvinnulóðir eru af skornum skammti og fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði ósamkeppnishæfir. Það sýnir best þann vanda sem Reykjavík stendur frammi fyrir að fyrirtæki í eigu borgarinnar þurfi nú að leita á náðir annarra sveitarfélaga eftir atvinnulóð undir sína starfsemi.
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Reykjavíkurborg er ekki í færum um að halda sínum eigin fyrirtækjum innan borgarmarkanna. Malbikunarstöðin Höfði flýr í Hafnarfjörð og mengar þar bæjarbúum til armæðu. Eina rétta í stöðunni var að rífa stöðina og leggja hana niður, enda á samkeppnismarkaði og búnaðurinn ónýtur. Flutningurinn og uppbyggingin í Hafnarfirði verður lánadrifin og á mjög óhagstæðum vöxtum sem sýnir slakt lánshæfismat Reykjavíkur þar sem borgin er eigandi fyrirtækisins. Flutningurinn hlýtur að hlaupa á hundruðum milljóna auk kaupa lóðarinnar í Hafnarfirði. Það er forkastanlegt að á sama tíma og niðurrif og flutningur stöðvarinnar á sér stað skuli vera veitt söluheimild malbikunarstöðvarinnar. Hvers vegna eiga Reykvíkingar að standa að 3-5 milljarða uppbyggingu nýrrar stöðvar í Hafnarfirði sem á svo að selja þegar hún er fullbúin til einhverra vildarvina? Reykjavíkurborg er sveitarfélag en ekki byggingarfélag.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Flokks fólksins á erfitt með að meta samkomulag um brottflutning Malbikunarstöðvarinnar Höfða. Ljóst er að sumt er gagnlegt fyrir borgina eins og það að fá strax afnot af lóðinni, en óvíst er að mati Flokks fólksins hvort að annað geti leitt til kostnaðar eins og frágangur á lóð vegna niðurrifs bygginga. Ef horft er til greinar 6.1 segir þar að „í samræmi við gr. 1.5. starfsleyfis Malbikunarstöðvarinnar Höfða hf., sem er útgefið 27. mars 2019 og gildir til 31. desember 2022, skal Malbikunarstöðin Höfði hf., við stöðvun rekstrar, ráðstafa á viðurkenndan hátt öllum úrgangi, efnum, útbúnaði, tækjum, rekstrarsvæði, geymum, lögnum og menguðum jarðvegi.“ Þetta er vissulega gott en hversu tryggt er þetta ákvæði? Verður t.d. tryggt ef af sölu Höfða verður að kaupaðili samþykki að taka á sig kostnað vegna mögulegrar hreinsunar jarðvegs á Sævarhöfða?
Valgerður Sigurðardóttir víkur af fundinum undir þessum lið.
Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 17. janúar 2022, ásamt fylgiskjölum:
Lagt er til að borgarráð samþykki að fjármála- og áhættustýringarsviði verði falið að meta kosti þess og galla að selja Malbikunarstöðina Höfða hf. Leitað verði til óháðra ráðgjafa vegna verkefnisins.
Greinargerð fylgir tillögunni. MSS22010174
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Fyrir liggur að Reykjavíkurborg og Malbikunarstöðin Höfði hf. hafa gert með sér samkomulag um brottflutning Malbikunarstöðvarinnar Höfða hf. frá Sævarhöfða 6-10 vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á nýju 20 þúsund manna íbúðahverfi á Ártúnshöfða og við Elliðaárvog. Malbikunarstöðin Höfði hf. hefur keypt lóð á iðnaðarsvæði við Álfhellu í Hafnarfirði fyrir starfsemi sína. Samkvæmt meirihlutasáttmála núverandi borgarstjórnarmeirihluta var lögð áhersla á að leggja Malbikunarstöðinni Höfða fyrst til nýja lóð og kanna í kjölfarið kosti og galla þess að selja fyrirtækið. Hér er því lagt til að borgarráð samþykki að fjármála- og áhættustýringarsviði verði falið að meta kosti þess og galla að selja Malbikunarstöðina Höfða hf. Leitað verði til óháðra ráðgjafa vegna verkefnisins.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Sjálfstæðismenn hafa ítrekað lagt til að Malbikunarstöðin Höfði verði seld á þessu og síðasta kjörtímabili en þær tillögur hafa alltaf verið feldar af meirihlutanum. Nú í lok kjörtímabilsins á að skoða mögulega sölu á fyrirtækinu, þessi tillaga sem nú kemur frá meirihlutanum er því ekki trúverðug. Framleiðsla malbiks getur seint talist til þeirrar grunnþjónustu sem Reykjavíkurborg ber skylda til þess að reka. Líkt og Samtök iðnaðarins hafa bent á þá þarf ekki borg til þess að reka malbikunarstöð. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks vonast til þess að gengið verði í það strax að selja fyrirtækið.
Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Standa þarf vörð um fyrirtæki í eigu sveitarfélaga og tryggja þarf að fyrirtæki sem þjóna íbúum sveitarfélaganna verði ekki seld.
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Reykjavíkurborg er ekki í færum um að halda sínum eigin fyrirtækjum innan borgarmarkanna. Malbikunarstöðin Höfði flýr í Hafnarfjörð og mengar þar bæjarbúum til armæðu. Eina rétta í stöðunni var að rífa stöðina og leggja hana niður, enda á samkeppnismarkaði og búnaðurinn ónýtur. Flutningurinn og uppbyggingin í Hafnarfirði verður lánadrifin og á mjög óhagstæðum vöxtum sem sýnir slakt lánshæfismat Reykjavíkur þar sem borgin er eigandi fyrirtækisins. Flutningurinn hlýtur að hlaupa á hundruðum milljóna auk kaupa lóðarinnar í Hafnarfirði. Það er forkastanlegt að á sama tíma og niðurrif og flutningur stöðvarinnar á sér stað skuli vera veitt söluheimild malbikunarstöðvarinnar. Hvers vegna eiga Reykvíkingar að standa að 3-5 milljarða uppbyggingu nýrrar stöðvar í Hafnarfirði sem á svo að selja þegar hún er fullbúin til einhverra vildarvina? Reykjavíkurborg er sveitarfélag en ekki byggingarfélag.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Flokks fólksins leggur áherslu á að Reykjavíkurborg sinni grunnþjónustu við borgarbúa vel. Fulltrúi Flokks fólksins telur að Malbikunarstöðin Höfði sé ekki hluti af grunnþjónustu og styður því að þessi þjónusta verði seld og fjármagn sem fæst úr slíkri sölu verði nýtt í grunnþjónustu eins og að fækka biðlistum barna. Fulltrúi Flokks fólksins telur hins vegar að standa hefði mátt betur að þessum sölumálum. Af hverju var ekki leitast við að selja þessa þjónustu áður en að hún var flutt í Hafnarfjörðinn? Mögulegur kaupandi hefði hugsanlega séð tækifæri í samnýtingu við rekstur sinn, ætti lóð og byggingar o.s.frv. Með því að flytja reksturinn til Hafnarfjarðar er þegar búið að ráðstafa a.m.k. 700 milljónum í þessa flutninga auk þess sem fyrirhugað er tap hjá fyrirtækinu og þar m.a. vísað til taps vegna kostnaðar við flutninga. Þetta þýðir að við sölu fyrirtækisins þarf að fá a.m.k. 700-800 milljónum meira en ef að fyrirtækið hefði verið selt fyrir flutninga. Að sjálfsögðu hefði verið hægt að meta hvort að mögulegt söluverð hefði verið ásættanlegt og metið hagstætt áður en farið væri í að samþykkja flutninga fyrirtækisins.
Valgerður Sigurðardóttir víkur af fundinum undir þessum lið.
Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.Fylgigögn
-
Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 17. janúar 2022, um úthlutun úr minningarsjóði Gunnars Thoroddsen. MSS22010173
Fylgigögn
-
Lagt fram trúnaðarmerkt mánaðarlegt rekstraruppgjör A-hluta Reykjavíkurborgar, janúar-nóvember 2021, dags. 18. janúar 2022. FAS22010007
Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.
-
Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 20. janúar 2022, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki útgáfuáætlun vegna skuldabréfaútboða á tímabilinu janúar til maí 2022. FAS22010028
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Lántökuheimildirnar fyrir árið 2022 eru virkjaðar á þessum fundi. Lánsheimild upp á 20 milljarða = 20.000 milljónir. Hver ætlar að halda því fram að rekstur Reykjavíkur sé í lagi? Jú borgarstjóri. Minnt er á að til stendur að skuldsetja borgina um tæpa 100 milljarða á næstu 5 árum. Það er til viðbótar við þá 153 milljarða sem borgarsjóður skuldar í dag. Áætlaðar skuldir borgarsjóðs í árslok 2022 verða 173 milljarðar.
Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 13. janúar 2022, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki leigusamning um tímabundin afnot af hluta af aðstöðu á Laugardalsvelli, ásamt fylgiskjölum. FAS22010043
Samþykkt.Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf íþrótta- og tómstundasviðs, dags. 12. janúar 2022, sbr. samþykkt menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 10. janúar 2022 um styrkveitingar ráðsins 2022, ásamt fylgiskjölum. MSS22010181
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu, dags. 18. janúar 2022, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki tillögur starfshóps um framtíðarskipulag og framkvæmd jafnréttisskimunar og jafnréttismats, ásamt fylgiskjölum. Einnig lögð fram umsögn fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 3. janúar 2022. MSS21120042
Samþykkt.Anna Kristinsdóttir og Sigríður Finnbogadóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.
Fylgigögn
-
Lögð fram auglýsing um skrá yfir þau störf hjá Reykjavíkurborg sem undanþegin eru verkfallsheimild, dags. 20. janúar 2022, og auglýsing um skrá yfir þau störf hjá Reykjavíkurborg sem heimild til verkfalls nær ekki til, dags. 20. janúar 2022. MOS22010006
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 5. janúar 2022, sbr. samþykkt innkaupa- og framkvæmdaráðs þann 14. desember 2021 á tillögu að breytingu á innkaupareglum Reykjavíkurborgar, ásamt fylgiskjölum. MSS21120080
Vísað til borgarstjórnar.Halldóra Káradóttir og Jóhanna Eirný Hilmarsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.
Fylgigögn
-
Lagt fram trúnaðarmerkt svar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 18. janúar 2022, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um flutning Malbikunarstöðvarinnar Höfða í Hafnarfjörð, sbr. 38. lið fundargerðar borgarráðs frá 18. nóvember 2021. MSS21120261
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Ítarlegt svar liggur fyrir við fyrirspurnum Sjálfstæðisflokksins um flutning Malbikunarstöðvarinnar Höfða í Hafnarfjörð en svörin eru trúnaðarmál og koma aldrei fyrir augu borgarbúa. Fyrirtækið er á samkeppnismarkaði og starfsemi þess undanþegin gildissviði upplýsingalaga nr. 140/2012 sbr. úrskurð forsætisráðuneytisins dags. 10. jan. 2020. Þetta staðfestir enn frekar hvað fyrirtæki eins og Höfði verandi á samkeppnismarkaði á ekki að vera í eigu borgarinnar né önnur fyrirtæki sem eru undir sama hatt sett.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 7. janúar 2022, við framhaldsfyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um ljósastýringu á höfuðborgarsvæðinu og tvö útboð tengd umferðarljósum, sbr. 41. lið fundargerðar borgarráðs frá 6. maí 2021. USK22010013
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Þetta svar er standard bull og útúrsnúningar eins og við var að búast frá umferðardeild Reykjavíkur og starfandi samgöngustjóra. Eftir að stýritölva/MSU var keypt 2005 hafa allar uppfærslur á vél- og hugbúnaði verið keyptar án löglegra útboða. Nú síðast 2019 fyrir tugi milljóna. Kerfið hefur verið uppfært á einokunarmarkaði því öðrum aðilum en einokunaraðilanum var ekki gefið tækifæri á að bjóða í ljósastýringabúnað borgarinnar á árunum 2005-2019 vegna þess að búnaðurinn var lokaður og ekki aðgengilegur öðrum. Á árunum 2019 til 2021 fóru fram nokkur útboð á búnaði sem átti að geta tengst MSU án vandkvæða. Í öllum tilfellum barst bara tilboð frá umboðsaðila MSU. Í ljósi þessa, hvernig getur umferðardeild komið með fullyrðingu sem þessa „Það liggur ljóst fyrir að búnaður frá mismunandi framleiðendum á markaði getur tengst og átt í samskiptum við MSU“? Af hverju hafa þá ekki borist tilboð frá fjölda framleiðenda? Það að það hafi borist boð frá öðrum aðila í síðasta útboði segir ekkert um hvort búnaðurinn sé aðgengilegur eða hafi verið aðgengilegur. Það hefur ekki komið eitt orð frá umferðardeild til innkauparáðs um að ganga eigi að tilboði lægstbjóðanda í útboði 15311, því er svar umferðardeildar bara útúrsnúningur.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar innri endurskoðunar og ráðgjafar, dags. 14. janúar 2022 við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um fjölda kvartana til umboðsmanns borgarbúa/innri endurskoðunar, sbr. 32. lið fundargerðar borgarráðs frá 2. desember 2021. IE21120003
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Flokks fólksins heldur að það hafi verið mistök að leggja af embætti umboðsmanns borgarbúa í þeirri mynd sem það var. Fólk veit ekki enn að hægt er að kvarta yfir málum og hvar eigi þá að gera það. Það þarf að kynna hið nýja fyrirkomulag mikið betur. Málum hefur fækkað og einmitt vegna einhvers misskilnings og skort á upplýsingum. Hefði ekki þurft að undirbúa allt þetta betur? Segir í svari að lengi hafi staðið til að hafa fræðslu en það hafi ekki verið hægt vegna COVID. Sárlega vantar stóra og mikla kynningu á þessari breytingu. Ýmsar ástæður eru raktar fyrir fækkun mála en fulltrúa Flokks fólksins finnst það liggja nokkuð ljóst. Hlutverkið sem umboðsmaður borgarbúa hafði hefur einfaldlega ekki náðst að virka inn á skrifstofu innri endurskoðunar. Ekki vegna þess að starfsfólk þar sé ekki að standa sig vel heldur er hlutverkið nú tengt embætti/skrifstofu en ekki persónu en umboðsmaður borgarbúa var sérlega vinsæll og liðlegur í þjónustu sinni. Ástæða er einnig eins og réttilega kemur fram að umboðsmaður borgarbúa aðstoðar einstaklinga ekki lengur við gerð skjala vegna málskots til æðra stjórnvalds.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að farið verði í útboð vegna raforkukaupa og LED-ljósavæðingar, sbr. 25. lið fundargerðar borgarráðs frá 11. nóvember 2021. Einnig lögð fram umsögn borgarlögmanns, dags. 5. janúar 2022. MSS22010099
Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Í kjölfar fundar borgarráðs þann 11. nóvember 2021, þar sem greining borgarlögmanns á úrskurðum kærunefndar útboðsmála nr. 17/2020 var kynnt, hófst undirbúningur að útboðum um kaup á raforku og útskiptingu og uppsetningu LED-ljósa í Reykjavík. Unnið er að undirbúningi útboða og verða samningar boðnir úr að lokinni þarfagreiningu og gerð útboðsgagna. Tillögunni er því vísað frá þar sem vinna er þegar hafin og er borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins fullkunnugt um það.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um uppbyggingu í skólamálum í Grafarvogi, sbr. 24. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. október 2021. Einnig lögð fram umsögn skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 18. janúar 2022. MSS22010050
Tillagan er felld með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Þær breytingar sem gerðar hafa verið á skipulagi við auða lóð sem stendur norðan við bílastæði Borgarholtsskóla í Grafarvogi á reit 93 hefur verið mótmælt t.d. af skólameistara Borgarholtsskóla. Síðan skólinn byggðist hefur þessi lóð verið ætluð til stækkunar á skólanum í skipulagi og hefur það verið ósk skólastjórnenda. Nú er þörf fyrir það að stækka skólann og efla það mikilvæga starf sem þar fer fram. Uppbygging á iðnnámi er mikilvæg og Borgarholtsskóli sá eini sem kennir t.d bíliðn. Til þess að geta haldið áfram kennslu í því námi verður að stækka skólann og koma fyrir nýjum skála þar sem hægt er að kenna viðgerðir á þeim bílum sem hafa verið að ryðja sér til rúms og munu hjálpa okkur við orkuskipti, tvinn- og rafbílum. Það er því undarlegt að núna standi til að byggja upp hjúkrunarheimili á reitnum. Uppbygging hjúkrunarheimila er mikilvæg en víða er hægt að koma þeim fyrir í Grafarvogi, t.d. mætti skoða svæðið þar sem Eir er með sína starfsemi í húsahverfinu. Þar á frekari uppbygging hjúkrunarheimila mun frekar heima.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Í aðalskipulagi Reykjavíkur til 2040 er uppbygging íbúðarhúsnæðis í forgangi á svæðum sem njóta nálægðar borgarlínu og hágæða almenningssamgangna og/eða nálægðar við öfluga atvinnukjarna. Nýir reitir fyrir íbúðir í Staðahverfi eru því ekki í forgangi og eðlilegra að gera ráð fyrir uppbyggingu þeirra þegar komið er fram á síðari hluta tímabils aðalskipulagsins. Að framansögðu er ljóst að forsendur hafa ekki breyst, hvorki gagnvart því að opna Korpuskóla að nýju né vegna uppbyggingar hjúkrunarheimilis við hlið skólans samkvæmt skipulagi. Því er lagt til að tillagan verði felld.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um utanaðkomandi ráðgjöf við rekstur Reykjavíkurborgar, sbr. 33. lið fundargerðar borgarráðs frá 9. desember 2021. MSS21120127
Tillagan er felld.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Flokks fólksins lagði til að fengin yrði utanaðkomandi ráðgjöf til að fara yfir rekstur Reykjavíkurborgar. Tillagan er felld. Meirihlutinn vill kaupa alls konar ráðgjöf og hefur eytt tugum milljóna í ráðgjöf fyrir stafrænar lausnir. En meirihlutanum hugnast ekki að fá ráðgjöf við að reka Reykjavíkurborg. Illa gengur að finna fé til að veita öfluga grunnþjónustu. Víða í borginni er ekki verið að fara vel með fjármagn og meirihlutinn gæti nýtt sér utanaðkomandi ráðgjöf í því sambandi. Skoða þarf sárlega meðhöndlun fjármagns hjá þjónustu- og nýsköpunarsviði en þar eru sterkar vísbendingar um að ekki hafi verið farið vel með fjármagn m.a. því eytt í margvíslega ráðgjöf sem hvergi sést hvar skilar sér sem og tilraunir á ónauðsynlegum snjallverkefnum. Fjármálastjórn Reykjavíkurborgar veldur áhyggjum. Veltufé frá rekstri í A-hluta er neikvætt á árinu 2021 og einungis er gert ráð fyrir að það verði um 1,9% af heildartekjum á árinu 2022. Ljóst er að ekki gengur að reka Reykjavíkurborg á yfirdrætti og því ætti að huga að því hvort að ekki þurfi yfirferð á rekstri Reykjavíkurborgar. Oft sjá betur utanaðkomandi augu.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Meirihlutinn tekur undir að mikilvægt er að áhersla borgarinnar sé á öfluga grunnþjónustu. Ekki er hægt að taka undir að sterkar vísbendingar séu fyrir því að þjónustu- og nýsköpunarsvið sé skoðað sérstaklega. Yfirsýn yfir fjármál borgarinnar er góð enda eru greinargóð mánaðaruppgjör lögð fyrir borgarráð með greinargerðum og sundurliðunum þar sem hvert svið er rýnt sérstaklega. Allar aðdróttanir um annað er partur af einelti og ofstæki borgarfulltrúans gegn stafrænni umbreytingu. Tillagan er felld.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:
Það er nú fokið í flest skjól hjá meirihlutanum þegar hann bregst við gagnrýni Flokks fólksins með því að tala um eineltistilburði og ofstæki þegar verið er að gagnrýna gegndarlausa sóun fjármagns hjá ÞON. Sviðið hefur þanist út og eytt hefur verið tugum milljóna í ráðgjöf sem ekki sést hvernig nýtist. Fjölda starfsmanna hefur verið sagt upp störfum og ekki sýnt fram á hagkvæmni eða ávinning af þeim uppsögnum. Þróunar- og tilraunastarfsemi hefur verið í gangi sem væri borgin hugbúnaðarfyrirtæki á einkamarkaði. Hvar eru allar afurðirnar? Fulltrúi Flokks fólksins reynir eftir bestu getu að fylgjast með og vakta meðhöndlun fjármagns borgarinnar sem er hans skylda. Fleiri hafa tekið undir gagnrýni Flokks fólksins og spurt spurninga. Málið er greinilega ofurviðkvæmt hjá meirihlutanum sem reynir að berja fulltrúa Flokks fólksins niður með ljótum orðum. Meirihlutinn er hvattur til að láta af hóplyndi og meðvirkni í þessu máli. Ef innri endurskoðun fullyrðir að áhyggjur séu óþarfar mun fulltrúi Flokks fólksins leggja málið til hliðar, nema nýjar vísbendingar berist auðvitað. Gagnrýni hefur ekki beinst að mánaðauppgjöri en opið bókhald mætti vera skýrara, þar skortir sundurliðanir. Fulltrúi Flokks fólksins heldur áfram að vakta þessi mál og leita sér ráðgjafar með gagnrýni sína eftir því sem fram vindur.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð fjölmenningarráðs frá 13. desember 2021. MSS22010107
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð innkaupa- og framkvæmdaráðs frá 6. janúar 2022. MSS22010006
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð íbúaráðs Árbæjar og Norðlingaholts frá 11. janúar 2022. MSS22010026
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð íbúaráðs Breiðholts frá 3. janúar 2022. MSS22010027
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. lið fundargerðarinnar:
Í Breiðholti þarf að skoða sérstaklega áþreifanlegan skort á atvinnu- og nýsköpunartækifæri í þessu annars stóra hverfi. Ekki er séð ef horft er til hverfisskipulags að atvinnutækifærum sé gert hátt undir höfði. Eitthvað verður um atvinnutækifæri í hverfiskjörnum en það dugar skammt í svo mannmörgu hverfi. Almennt eru frekar fáar atvinnustoðir í hverfum og ímynd borgarinnar er óljós þegar kemur að atvinnuuppbyggingu í hverfum. Huga þarf fyrir alvöru að kolefnisspori í tengslum við atvinnuuppbyggingu. Stefnan ætti að vera að samræmi verði á milli fjölda atvinnutækifæra og fjölda íbúa í sérhverju hverfi.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð íbúaráðs Grafarvogs frá 5. janúar 2022. MSS22010029
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. lið fundargerðarinnar:
Íbúar Grafarvogs hafa um hríð gagnrýnt vegtengingar á Gufunessvæði og að ekki sé auðvelt að búa þar án bíls því að of langt sé að ganga að strætóstoppistöð. Svona atriði þarf að laga sem fyrst.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð íbúaráðs Laugardals frá 10. janúar 2022. MSS22010032
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. lið fundargerðarinnar:
Það vantar meira samtal við foreldra og skýrari tímalínu fyrir hverja sviðsmynd fyrir sig. Þreyta er komin í íbúa vegna tafa þessara mála. Fjölmargar spurningar liggja í loftinu og hefur fulltrúi Flokks fólksins lagt sumar þeirra fram formlega. Þær eru m.a. eftirfarandi: Spurt er hvort stefnt sé að því að nýta nýjan þjóðarleikvang fyrir íþróttakennslu og æfingar. Og ef svo er verður börnunum þá tryggður forgangur að ásættanlegri aðstöðu? Fram hefur komið að í framhaldi af kynningarfundi 1. desember sem var rafrænn hafi aðilum verið boðið að senda senda inn umsagnir um tillögur skýrslunnar. Skilafrestur á umsögnum er 1. febrúar 2022. Spurt er hvort allir foreldrar viti af þessum skilafresti. Spurt er einnig um hvort kostnaðargreining á þeim sviðsmyndum sem um ræðir liggi fyrir um framtíðarskipan skóla í Laugarnes- og Langholtshverfi. Á það er minnt að ástæðan fyrir fyrirhuguðum breytingum er hvað er fjárhagslega best og faglegast að gera í stöðunni.
Fylgigögn
-
Lagðar fram fundargerðir neyðarstjórnar Reykjavíkur frá 10., 12., 14. og 17. janúar 2022. MSS22010059
-
Lagðar fram fundargerðir stjórnar SORPU bs. frá 26. nóvember og 20. desember 2021. MSS21120161
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 5. lið fundargerðarinnar frá 20. desember 2021:
Um nýfallinn dóm í máli ÍAV gegn SORPU. Enn og aftur þarf að greiða skaðabætur fyrir embættismannaafglöp. Sorpa er dæmd til að greiða Íslenskum aðalverktökum, ÍAV, tæpar 90 milljónir króna vegna útboðs sem fólst í því að reisa gas- og jarðgerðarstöð á Álfsnesi. Sorpa braut lög um opinber innkaup þegar fyrirtækið samþykkti að ganga til samninga við Ístak. Stjórn SORPU ber á þessu ábyrgð og þarf að axla hana. Í stjórn er ekki gerð nein krafa um að stjórnarmenn hafi reynslu eða þekkingu á þessum málum og spyr fulltrúi Flokks fólksins hvort það tengist ekki röð mistaka sem átt hafa sér stað hjá fyrirtækinu í gengum allt kjörtímabilið.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 7. janúar 2022. MSS22010019
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 7. lið fundargerðarinnar:
Fulltrúi Flokks fólksins hefur mótmælt hækkun á verði ungmennakorta í gjaldskrá Strætó enda ljóst að hækkunin muni hafa mest áhrif á börn sem búa við fátækt og erfiðar félagslegar aðstæður. Margir treysta á þjónustu Strætó til að komast til og frá skóla og vinnu. Ungmennaráð Hafnarfjarðar hefur tjáð sig opinberlega um þessar hækkanir og er þeim mótmælt harðlega. Með breytingunni hækkaði verðið á árskorti fyrir ungmenni 12-17 ára úr 25.000 í 40.000 krónur, eða um 60%. Umboðsmaður barna hefur einnig sent bréf á Strætó bs. vegna nýtilkominna breytinga á verðskrá fyrirtækisins. Í bréfi umboðsmanns kemur fram að honum hafi meðal annars borist ábending frá foreldri sem hafi þrjú ungmenni á framfæri og þurfi nú að borga 120.000 krónur fyrir almenningssamgöngur barna sinna. Að greiða slíka upphæð er ekki á færi allra foreldra, síst einstæðra foreldra, foreldra í láglaunastörfum og foreldra utan vinnumarkaðar. Þá er einnig ljóst að í þó nokkrum tilvikum eru það ungmennin sjálf sem þurfa að standa straum af kostnaði vegna strætóferða og því mun umrædd hækkun koma sér afar illa fyrir þann hóp.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 12 mál. MSS22010041
Fylgigögn
-
Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. MSS22010057
- Kl. 10:58 víkur Skúli Helgason af fundi og Heiða Björg Hilmisdóttir tekur sæti með rafrænum hætti.
Fylgigögn
-
Lögð fram drög að erindisbréfi, dags. 11. ágúst 2021, um samhæfingu og samþættingu á mörkun Reykjavíkurborgar. MSS22010188
- Kl. 11:45 víkur Dóra Björt Guðjónsdóttir af fundi.
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Reykjavíkurborg er sveitarfélag en ekki skemmtistaður eða stjórnmálasamtök. En eitthvað þurfa þessir 10-12 upplýsingafulltrúar í Ráðhúsinu að gera. Sveitarfélög eru þjónustustofnanir og eiga að þjónusta íbúa með lágum prófíl en ekki standa í einhverjum fíflagangi. Hér er boðuð enn frekari „hipp og kúl“ sókn inn á samfélagsmiðla til kynningar á borginni, það eru jú kosningar í nánd. Því hef ég lagt fram eftirfarandi fyrirspurn: Hvað hefur Reykjavíkurborg greitt til erlendra vefmiðla á borð við Facebook, Google og annarra veitna fyrir auglýsingar á árunum 2019, 2020 og 2021?
Eva Bergþóra Guðbergsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. Einnig taka sæti með rafrænum hætti borgarfulltrúarnir Diljá Ámundadóttir Zoëga, Elín Oddný Sigurðardóttir, Pawel Bartoszek, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir og Rannveig Ernudóttir. Einnig tekur sæti á fundinum með rafrænum hætti Svanborg Sigmarsdóttir.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:
Í upphafi þessa árs stóð til að greiða starfsfólki leikskóla 75.000 króna launaauka ef það fengi vin eða ættingja til starfa á leikskóla í 3 mánuði eða lengur. Hefur borgin eða svið borgarinnar áður stuðst við slíkt kerfi til að leitast við að fá starfsfólk til starfa? Hefur stjórnendum og/eða yfirmönnum staðið til boða slíkur launaauki eða sambærilegur? Eða er þetta í fyrsta skipti sem slík hugmynd kemur fram innan borgarinnar? MSS22010220
Vísað til umsagnar mannauðs- og starfsumhverfissviðs.
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:
Fulltrúi sósíalista hefur sent út sambærilega fyrirspurn vegna tímabilsins janúar 2018-september 2019 og spyr því út í tímabilið eftir það. Hvað hafa margar innheimtukröfur verið sendar út frá 13. september 2019 til dagsins í dag, frá Gjaldheimtunni ehf. annars vegar og Momentum ehf. hins vegar, vegna skuldar borgarbúa við Reykjavíkurborg? Hversu mörg innheimtubréf hafa verið send út í milliinnheimtu og undir hvaða einingaverð féllu þau? Hversu mörg símtöl hafa verið hringd vegna innheimtu og lendir allur sá kostnaður á þeim sem standa í skuld við borgina? Hversu margar skuldir hafa farið í löginnheimtu? Lendir sá kostnaður allur á þeim sem skuldar? Hvað hafa mörg löginnheimtubréf verið send út vegna skuldar borgarbúa við Reykjavíkurborg? Hvaða kröfur er helst um að ræða, skipt eftir þjónustuþáttum? MSS22010233
Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:
Lagt er til að unnið verði með íbúum í vistvæna þorpinu Gufunesi að betri samgöngum sem henta þeirra þörfum. Samgöngum í og úr hverfinu er mjög ábótavant en eina gönguleiðin þaðan í strætó er kílómetra langur grýttur og óupplýstur vegslóði. Reykjavíkurborg hefur boðið upp á pöntunarþjónustu sem er aðeins í boði á ákveðnum tíma og þarf að panta með löngum fyrirvara. MSS22010221
Frestað.
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:
Óskað er eftir að Reykjavíkurborg kalli eftir svarbréfi sem samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið sendi til ESA vegna uppgjörsreglna borgarinnar vegna uppgjörsaðferða Félagsbústaða, en áður hafði ráðuneytið fengið frest til að svara erindinu. Bréf ESA er að finna á þessari slóð:
https://reykjavik.is/sites/default/files/skjol_borgarstjornarfundur/5_1_request_for_information_regarding_the_interpretation_and_application_of_ias_in_iceland_1232956.pdf. Upphaflega var ráðuneytinu gert að svara erindinu fyrir 15. nóvember sl. en fékk frest til 29. nóvember. Svarfrestur er því löngu liðinn og því undarlegt að borgarráði hafi ekki borist svarið. MSS22010222 -
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:
1. Hvað kostar forritun umferðarljósastýritölvunnar MSU árlega og hver framkvæmir þá vinnu?
2. Liggur fyrir samningur með föstum verðum á þeirri þjónustu og var það boðið út? (Ef ekki, af hverju ekki?)
3. Getur „þriðji aðili“ tekið að sér þá vinnu – verkfræðistofur eða aðrir framleiðendur en SIEMENS?
4. Nú liggur fyrir að MSU er tölva er staðsett í Borgartúni og því er spurt af hverju er ekki farið inn á 21. öldina og búnaðurinn hafður í skýjum?
Óskað er eftir að fyrirspurninni verði svarað í síðasta lagi 20. febrúar nk. MSS22010223Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:
Ítrekuð er beiðni frá borgarráðsfundi 9. desember sl. um að allar fundargerðir samninganefndar Reykjavíkur við olíufélögin vegna lóðaafhendingar borgarinnar til olíufélaganna verði lagðar fyrir borgarráð. Í beiðninni frá 9. desember var óskað eftir að þær yrðu lagðar fyrir borgarráðsfund sem haldinn var 16. desember en þær hafa ekki enn borist. MSS21120126
Vísað til umsagnar samninganefndar við rekstraraðila og lóðarhafa eldsneytisstöðva í Reykjavík um uppbyggingu á ýmsum lóðum.
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins:
Hvað hefur Reykjavíkurborg greitt til erlendra vefmiðla á borð við Facebook, Google og annarra veitna fyrir auglýsingar á árunum 2019, 2020 og 2021? MSS22010238
Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Í byrjun árs 2022 er boðuð 31% hækkun á gjaldskrá SORPU. Það er viðbót við ársgamla hækkun upp á um 24%. Ýmsar ástæður liggja sjálfsagt á bak við slíka ákvörðun og er það ekki efni fyrirspurnar. Í ljósi svo mikilla hækkana er spurt hvort að jafnframt hafi verið sett fram aðhaldskrafa á stjórnendur SORPU. Slíkt er ekki að sjá ef fréttir um SORPU eru réttar. Þar er talað um að ráðnir hafi verið inn 3 nýir sérfræðingar hjá SORPU, sérfræðingur í fræðslu og miðlun, verkefnisstjóri hringrásarhagkerfis og verkefnisstjóri á skrifstofu framkvæmdastjóra. Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir því að lögð verði fram skýrsla sem útskýrir hvers vegna þörf er á þessum stöðugildum, sérstaklega þegar haft er í huga að fyrir eru hjá fyrirtækinu samskipta- og þróunarstjóri, sérfræðingur í öryggis- og gæðamálum, sérfræðingur í sjálfbærni og innkaupa- og verkefnisstjóri auk mannauðsstjóra. Einnig er spurt: Hefur stjórnarformaður SORPU og stjórn kynnt sér hvernig þessum málum er háttað hjá öðrum stórum úrgangsmeðhöndlurum og hvort þessi verkefni séu eins mannfrek þar? MSS22010224
Vísað til umsagnar stjórnar SORPU bs.
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um skráningu hunda eftir að málaflokkurinn færðist frá heilbrigðiseftirliti borgarinnar yfir til íþrótta- og tómstundaráðs. Ákveðið var að áfram skyldi innheimt skráningar- og eftirlitsgjald af hundaeigendum þrátt fyrir að verkefnum hundaeftirlitsmanna hafi snarfækkað. Óskað er eftir tölulegum upplýsingum og samanburðarupplýsingum um þessar skráningar. Hversu margir hundar hafa verið skráðir eftir flutning málaflokksins og fjöldi skráninga borinn saman við skráningar hunda síðustu fjögur ár. Óskað er upplýsinga um hvernig þjónusta er veitt nú, eðli hennar og umfang og hversu margir hundar/hundaeigendur hafa þegið þjónustu frá ÍTR og hvernig sú þjónusta er frábrugðin þeirri sem var. MSS22010226
Vísað til umsagnar íþrótta- og tómstundasviðs.
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Skráningargjald er 11.900 kr., eftirlitsgjald, 9.900 kr., og handsömunargjald, sleppi hundurinn, kr. 30.200. Fulltrúi Flokks fólksins spyr: Hversu margir hundar hafa verið handsamaðir frá því að málaflokkurinn færðist yfir til ÍTR? Hvernig hefur samvinna og samráð gengið við hagsmunasamtök hundaeigenda? Er einhver fræðsla fyrir hundaeigendur í boði hjá ÍTR? MSS22010234
Vísað til umsagnar íþrótta- og tómstundasviðs.
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Í framhaldi af svari skóla- og frístundasviðs við fyrirspurnum fulltrúa Flokks fólksins um sviðsmyndir um framtíðarskipan skóla í Laugarnes- og Langholtshverfi hafa vaknað fleiri spurningar. Umræðu um íþróttahúsið er oftast þvælt saman við umræðu um nýjan þjóðarleikvang og þá virðist eiga að nýta hann fyrir íþróttakennslu og æfingar. Það má deila á það fyrirkomulag því reynslan hefur sýnt að íþróttaiðkun barnanna þarf endurtekið að víkja úr húsunum fyrir íþróttakeppnum, tónleikum og allskonar viðburðum í Laugardalshöll. Fulltrúi Flokks fólksins spyr þess vegna hvort stefnt sé að því að nýta nýjan þjóðarleikvang fyrir íþróttakennslu og æfingar. Og ef svo er verður börnunum þá tryggður forgangur að ásættanlegri aðstöðu? Þörfin er brýn, aðstaðan er löngu sprungin og þolinmæði íbúa í hverfinu að þrotum komin. MSS22010237
Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Fram kemur í svari við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um sviðsmyndir um framtíðarskipan skóla í Laugarnes- og Langholtshverfi að haldinn var kynningarfundur með skólaráðum skólanna, foreldrafélögum og fleirum hagsmunaaðilum hinn 1. desember 2021. Fundur var rafrænn og segir í svari að í framhaldi af fundinum var aðilum boðið að senda inn umsagnir um tillögur skýrslunnar. Skilafrestur á umsögnum er 1. febrúar 2022. Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvort þessar upplýsingar hafi örugglega borist til allra foreldra og annarra sem málið varðar. MSS22010237
Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.
-
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvort fyrir liggi kostnaðargreining á þeim sviðsmyndum sem um ræðir um framtíðarskipan skóla í Laugarnes- og Langholtshverfi. Á það er minnt að ástæðan fyrir fyrirhuguðum breytingum er hvað er fjárhagslega best og faglegast að gera í stöðunni. MSS22010237
Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
GAJA, gas- og jarðgerðarstöð er ónothæf og óljóst hvenær hún opni aftur. SORPA hefur tapað málaferlum við byggingarverktaka upp á 90 milljónir, hækkað gjaldskrána úr öllu hófi og þurft að greiða fyrrum framkvæmdastjóra háar skaðabætur. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til stjórnarformaður sem nú er fulltrúi Reykjavíkurborgar sé valinn að nýju og fenginn verði aðili sem hafi til þess bæra sérmenntun/þekkingu af málefnum og verkefnum SORPU sem og langvarandi reynslu og umfram allt skilning á þessum málum. Finna þarf aðila sem kann að hlusta á ráðleggingar annarra, varnaðarorð ef því er að skipta og hafi þá gæfu til að bera að sækja þekkingu sem er til staðar meðal annarra þjóða sem ýmist hafa verið farsæl í þessum málum eða hafa þurft að súpa seyðið af mistökum. Af mistökum annarra má allt eins læra eins og af eigin mistökum. Hjá SORPU hefur verið gerð röð mistaka sem koma nú illilega niður á borgarbúum. Vert er að skoða að Reykjavíkurborg stígi út úr samkeppnisrekstri sem þessum og bjóði hann þess í stað út. Ekki er að sjá að þessi rekstur gangi vel og sé íbúum Reykjavíkur hagkvæmur, undir stjórn bs.-kerfisins. MSS22010235
Frestað.
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Lagt er til að skoða leiðir til að draga úr kostnaði við veitingar á fundum borgarráðs og borgarstjórnar. Þeir fundir sem hér um ræðir eru oft langir, sá fyrri stundum í 5 tíma og síðari í allt að 10 tíma. Reykjavíkurborg skipti við Múlakaffi þangað til í desember sl. en Kokkarnir veisluþjónusta hafa tekið við eftir niðurstöðu útboðs. Gróflega má sjá í opnu bókhaldi að greiðslur til Múlakaffis eru um það bil 10 til 15 milljónir á mánuði sem deilast niður á ólíkar starfseiningar. Á móti þessum útgjöldum koma tekjur af sölu matarskammta til starfsmanna í mötuneytum sem fulltrúi Flokks fólksins hefur ekki upplýsingar um hvað eru miklar. Í þessari tillögu er horft til tveggja tegunda funda, borgarráðs og borgarstjórnar. Í borgarráði mætti láta duga morgunverðarhlaðborð og sleppa hádegisverði þótt fundir fari fram yfir hádegi. Mikilvægt er að gera nákvæma talningu á hverjir eru mættir á fundinn (staðfund) og munu njóta veitinganna svo sporna megi við að afgangur verði mikill og þar með matarsóun. Í borgarstjórn þegar fundir eru í allt að 10 tíma er mikilvægt að hafa staðgóðan kvöldverð en til að draga úr kostnaði mætti taka nákvæmari skráningu á fjölda þeirra sem borða kvöldmat, borgarfulltrúar/starfsmenn. Þá verður minna um afganga og minna um matarsóun. MSS22010236
Frestað.
Fundi slitið klukkan 12:05
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Heiða Björg Hilmisdóttir
Líf Magneudóttir Marta Guðjónsdóttir
Hildur Björnsdóttir