Borgarráð - Fundur nr. 5646

Borgarráð

Ár 2021, fimmtudaginn 18. nóvember, var haldinn 5646. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:03. Viðstödd voru auk borgarstjóra Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Eyþór Laxdal Arnalds og Hildur Björnsdóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði með vísan til heimildar í 2. málsl. 4. mgr. 44. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar sbr. 3. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Heiða Björg Hilmisdóttir, Líf Magneudóttir og Valgerður Sigurðardóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Þorsteinn Gunnarsson, Theodór Kjartansson og Ívar Vincent Smárason.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 16. nóvember 2021, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð heimili að Reykjavíkurborg sæki formlega um að vera ein af 100 kolefnishlutlausum snjallborgum Evrópu árið 2030.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R21110116
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Reykjavík er í fararbroddi á alþjóðavísu í loftslagsmálum. Það er á þeim forsendum sem óskað er eftir því að verða ein 100 snjallra kolefnishlutlausra borga. Borgin getur bæði lært af öðrum og miðlað sinni þekkingu til annarra borga. Næstu skref eru að ljúka við umsókn eftir frekari leiðbeiningar frá Evrópusambandinu.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Meirihlutinn leggur til að borgarráð heimili að Reykjavíkurborg sæki formlega um að vera ein af 100 kolefnislausum snjallborgum Evrópu árið 2030. Þetta ber keim af oflæti. Verkefnið er kallað siglingakort! Af hverju þarf að spyrða saman kolefnishlutleysi og snjallvæðingu sem er sá þáttur í borginni þar sem sóun virðist vera dyggð. Og SORPA og Strætó taka þátt, en hvorugt þessara bs.-fyrirtækja stendur vel og ættu þau að einbeita sér að því að taka til í eigin ranni, eða hvað? En þarna kemur þó fram að rafmagn megi nota í almenningssamgöngum, sem er gott. En það hlýtur að vera mikil bjartsýni að Reykjavíkurborg verði ein af 100 kolefnishlutlausum borgum árið 2030, hvað sem það þýðir. Áður hefur verið stefnt að kolefnishlutleysi, sem er ágætis stefna.

    -    Kl. 9.09 tekur borgarstjóri sæti á fundinum. 

    Fylgigögn

  2. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 16. nóvember 2021, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að fjárfestinga- og áhættustýringasviði Reykjavíkurborgar í samstarfi við B-hlutafélög borgarinnar verði falið að fylgja eftir tillögum starfshóps um græn innkaup þegar kemur að fyrirkomulagi, verkefnum og umbótum hvað varðar græn innkaup, græna sjálfbæra og félagslega fjármögnun og skuldabréfaútgáfu og önnur græn fjármál Reykjavíkurborgar og fyrirtækja í eigu borgarinnar sbr. greinargerð starfshópsins. Í því felst að innleiða endurbætt ferli frá þörf til fjármögnunar með það að markmiði að tryggja grænni innkaup og huga að fjármögnun grænna verkefna strax á undirbúningsstigi, að tryggja að upplýsingakerfin haldi utan um þau verkefni sem falla undir græna skuldabréfaumgjörð til að auðvelda gagnaöflun og gegnsæi, að skoða nánar hvort verkefni borgarinnar séu frekar til þess fallin að falla undir samfélagslega skuldabréfaumgjörð heldur en græna skuldabréfaumgjörð og að Reykjavíkurborg setji fram áherslur sem leiða til sjálfbærari innkaupa í innkaupastefnu Reykjavíkurborgar sem yrði fylgt eftir með útfærðri aðgerðaáætlun með mælanlegum markmiðum. Jafnframt að fjármálasvið Reykjavíkurborgar standi að reglubundnum samráðsfundum um græn fjármál og innkaup með B-hlutafélögunum þar sem farið verði yfir nýjungar á sviðinu, hvernig áfram megi vinna með útgáfu grænna skuldabréfa, samfélagslegra skuldabréfa og aðra sjálfbæra skuldabréfaútgáfu. Tengt samráðinu verði lagt mat á stöðuna í fjárfestingaráætlun borgarinnar og B-hlutafélaganna á fundi þar sem allir aðilar koma að og upplýsingum deilt um mögulega sjálfbæra fjármögnun eftir því sem aðstæður leyfa og tilefni er til. Áfram verði unnið að því að móta hvernig Reykjavíkurborg geti verið í fremstu röð við græn fjármál og græn innkaup og leitað fyrirmynda frá fremstu borgum í Evrópu.

    Greinargerð fylgir tillögunni. R21110118
    Samþykkt. 
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Græn innkaup, græn félagsleg fjármögnun og græn fjármál eru hluti af því stóra verkefni að Reykjavík verði kolefnishlutlaus. Hér er verið að tryggja að mælanleg markmið verði sett ásamt útfærðri aðgerðaráætlun. Til að tryggja það verða haldnir reglulegir samráðsfundir um græn fjármál og innkaup með B-hlutafélögunum þar sem farið verði yfir nýjungar á sviðinu, hvernig áfram megi vinna með útgáfu grænna skuldabréfa, samfélagslegra skuldabréfa og aðra sjálfbæra skuldabréfaútgáfu.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Innkauparáð Reykjavíkurborgar var nýverið stækkað og eflt. Ráðið vinnur nú að nýrri innkaupastefnu sem byggir á grænum gildum. Þeirri vinnu er ekki lokið og því skýtur skökku við að farið sé framhjá ráðinu. Eins er hér um að ræða óljósar tillögur þó tilgangurinn sé góður.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Lagðar eru fram tillögur starfshóps um græn innkaup, græna, sjálfbæra og félagslega fjármögnun og önnur græn fjármál. Hugtakið „grænn og grænt“ hefur verið notað óspart síðustu misseri um nánast hvað sem er. Það er vissulega tímabært að hugtakið ,,græn“ verði skilgreint því svo sannarlega eru til mismunandi skilgreiningar á grænu og alls konar skilningur hefur verið lagður í hvað átt er við með grænu þessu og grænu hinu. Eiginlega eru lítil takmörk á því hvað sett hefur verið undir græna planið. Annað dæmi eru sjálfbær innkaup og vita fæstir hvað verið er að vísa í nákvæmlega. Fulltrúi Flokks fólksins óttast að margt í þessari umræðu fari ofan garðs og neðan. „Grænt“ er tískuhugtak og mjög sennilega ofnotað, því slegið fram í tíma og ótíma og þá eiga allir að hugsa að á ferðinni sé „eitthvað gott“. Liður 7.4. heitir innkaupastefna til grænkunar. Er gert ráð fyrir að allir skilji hvað hér er átt við?

    Fylgigögn

  3. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, 15. nóvember 2021, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að skipa Lóu Birnu Birgisdóttur sviðsstjóra mannauðs- og starfsumhverfissviðs og Tómas Inga Adolfsson sérfræðing á mannréttindaskrifstofu í stjórn Jafnlaunastofu sf., ásamt því að skipa Halldóru Gunnarsdóttur jafnréttisráðgjafa á mannréttindaskrifstofu sem varamann í stjórn til eins árs í samræmi við 7. gr. sameignarfélagssamning Sambands íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborgar um Jafnlaunastofu sem undirritaður var þann 5. nóvember sl. R21110008

    Samþykkt.

    Fylgigögn

  4. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 16. nóvember 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 10. nóvember 2021, á kynningu á lýsingu að deiliskipulagi fyrir borgarlínu frá Steinahlíð að Katrínartúni, ásamt fylgiskjölum. R21110137
    Samþykkt með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. 

    Málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar með vísan til ákvæða í 2. mgr. 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Umrædd skipulagslýsing frá Steinahlíð og alla leið að Katrínartúni er undanfari deiliskipulags fyrsta áfanga borgarlínu. Borgarlínan mun skapa hágæða grænan valkost í ferðamátum á höfuðborgarsvæðinu. Skipulag og samgönguinnviðir geta mótað venjur íbúa að miklu leyti en auk þess er mikilvægt að hið opinbera axli sína ábyrgð í því að skapa samgönguinnviði sem draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Sá kafli sem hér um ræðir gegnir lykilhlutverki í því að borgarlínan í heild sinni verði hágæða BRT-kerfi. Mikilvægt er að leggja ríka áherslu á þau gæðaviðmið í deiliskipulagsvinnunni framundan. Við leggjum mikla áherslu á að borgarlínan eigi að njóta forgangs þegar kemur að plássnotkun, í borgarrými og við gatnamót. Um leið og þessum mikilvæga áfanga er fagnað er því starfsfólki sem unnið hefur að þessu stóra verkefni þakkað.

    Eyþór Laxdal Arnalds og Valgerður Sigurðardóttir, borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Með þessari breytingu verður þrengt verulega að Suðurlandsbraut sem mun þyngja umferð og dreifa henni inn í aðrar götur og lengja ferðatíma borgarbúa. Jafnframt mun aðgerðin við Suðurlandsbraut lengja ferðatíma á milli hverfa og raska rekstrarumhverfi þeirra sem eru með starfsemi við Ármúla og Síðumúla. Þessar róttæku breytingar munu hafa þau áhrif að umferð sem nú fer um Suðurlandsbraut mun flytjast annað og auka umferðarþunga á Miklubraut og Sæbraut auk annara gatna. Þá liggja fyrir hugmyndir um að leggja Sæbraut og Miklubraut í stokk, sem mun taka mörg ár í framkvæmd og þarf umferð að fara annað á meðan. Úr því að meirihlutinn hefur í hyggju allar þessar framkvæmdir væri eðlilegra, umferðarlega séð, að byrja á stokkaframkvæmdum áður en farið er í að þrengja að einni helstu samgönguæð borgarinnar milli austur- og vesturhluta sem Suðurlandsbraut er. Eins liggja enn ekki fyrir endanleg drög að 1. áfanga borgarlínu, eingöngu frumdrög og því ekkert sem kallar á þessar þrengingar sem hér eru lagðar fram. Rétt væri að skoða aðrar útfærslur á sérrýmum sem þrengja ekki að almennri umferð enda mikilvægt að stórbæta samgöngur í Reykjavík, ekki síst almenningssamgöngur.

    Hildur Björnsdóttir, borgarráðsfulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Mikilvægt er að vinna samgöngusáttmála framgang en hann boðar byltingu í samgöngum höfuðborgarsvæðisins. Sáttmálinn var undirritaður af sveitastjórum Sjálfstæðisflokks í nágrannasveitarfélögum og formanni Sjálfstæðisflokks sem fjármálaráðherra. Borgarlína er einn mikilvægur liður samgöngusáttmála, ásamt göngu- og hjólastígum, stofnvegaframkvæmdum og ljósastýringum. Engin framkvæmdanna er hafin yfir gagnrýni og mikilvægt að gefa svigrúm fyrir lifandi umræðu. Þá er lykilatriði að framkvæmdirnar allar verði útfærðar með hagkvæmni og skilvirkni að leiðarljósi. Breytingar á Suðurlandsbraut munu fyrirséð vekja úlfúð meðal fjölda borgarbúa og eru ekki til þess fallnar að fjölga fylgismönnum borgarlínu. Þvert á móti ýta þær undir óþarfa menningarstríð í samgöngumálum. Fulltrúinn telur mikilvægt að vinna að samgöngumálum höfuðborgarsvæðisins í góðri sátt við fólk og fyrirtæki. Tímasetning skipulagslýsingar er hins vegar ekki til þess fallin að skapa slíka sátt enda fyrirséð að breytingarnar munu ýta undir neikvæða umræðu um Borgarlínu. Ekki verður séð að skipulagslýsingin þurfi að liggja fyrir svo snemma í ferlinu. Betur færi á því að kynna lýsinguna þegar vinna við einkaframkvæmd Sundabrautar er hafin og fyrirhugaðar stokkalausnir samgöngusáttmála eru langt á veg komnar. Undirstrikar fulltrúi Sjálfstæðisflokks mikilvægi þess að borgarstjórn verði leiðandi í yfirvegaðri umræðu um samgöngumál höfuðborgarsvæðisins og leggi á það áherslu að skapa sátt um fyrirhugaðar framkvæmdir.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Samgöngur eiga að vera fyrir alla – ekki bara suma. Fjölbreyttir samgöngumátar eru framtíðin. Draumsýnin um borgarlínu er gífurleg fjárhagsleg skuldbinding fyrir íslenska ríkið án þess að nokkur ávinningur sé tryggður fyrir samfélagið. Ekki hefur farið fram þjóðhagfræðileg greining á verkefninu og hafa fræðimenn bent á að verkið standist enga skoðun. Rekstrarþátturinn er skilinn eftir og eins vagnakaup og hvaða orkutegund verður notuð til að knýja vagnana. Slíkt er óásættanlegt ábyrgðarleysi. Áður en lengra er haldið er ljóst að fjármálaráðherra verður að óska umsagnar Ríkisábyrgðasjóðs á verkefninu í heild sinni en fyrstu áætlanir eru 120 milljarðar. Fjárhagsleg ábyrgð þessari svokölluðu borgarlínu er á ábyrgð sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og ríkisins. Fari sveitarfélag í þrot fellur það í fang ríkisins. Sú er nákvæmlega hættan með Reykjavíkurborg núna en nýjar lántökur á árinu 2021 eru 36 milljarðar. Mjög líklegt er að þetta óuppfyllta kosningaloforð Samfylkingarinnar í Reykjavík lendi allt að lokum í fangi ríkisins og skuldsetji komandi kynslóðir til langrar framtíðar.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Efast má um að lýsing á fyrirhugaðri borgarlínu sé nákvæm þegar sagt er „að byggt verði upp nýtt hágæðakerfi almenningssamgangna, Borgarlína, sem flytur fjölda fólks á milli helstu kjarna og valinna þróunarsvæða.“ Auk þess verði kerfi strætisvagna „aðlagað að og samþætt við leiðarkerfi borgarlínunnar, þótt strætisvagnar og önnur farartæki sem þjóna almenningssamgöngum eiga að njóta forgangs“. Að leggja sérakreinar, þar sem þeim verður við komið, sem hafa forgang á ljósastýrðum gatnamótum, segir ekki að þetta sé hágæðakerfi. Í raun er þetta gamaldags kerfi, enn eru vagnar á ferð sem nota jarðefnaeldsneyti, en nýjungin felst í því að akreinum fyrir aðra akandi umferð fækkar. Ekki er hugsað um nýjungar í ferðatækni svo sem léttlestir á teinum tengdum rafmagni, stundum fyrir ofan aðra umferð stundum fyrir neðan, og sem ekki skerða aðra umferðarmöguleika, nokkuð sem borgir í nágrannalöndum hafa innleitt eða eru að innleiða. Reykjavík er sem nátttröll í þessu samhengi. Svona áætlanir hafa engin áhrif á losun gróðurhúsalofttegunda eða leggja grunn að markmiði stjórnvalda um kolefnishlutleysi Íslands árið 2040. Bílar halda áfram að aka þessar götur og þeim mun jafnvel fjölga þrátt fyrir komu borgarlínu. 

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    -    Kl. 9:29 víkur Eyþór Laxdal Arnalds af fundinum. 

    Fylgigögn

  5. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 7. október 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 6. október 2021 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Hlíðarenda vegna reita G, H og I, ásamt fylgiskjölum. R21110138
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Hér er verið að breyta atvinnulóðum í íbúðarhúsalóðir. Til stóð að reisa hótel á einum þessara reita en í stað hótels munu rísa íbúðir.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    -    Kl. 9:32 tekur Marta Guðjónsdóttir sæti á fundinum.

    Fylgigögn

  6. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 5. nóvember 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 3. nóvember 2021 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi hesthúsabyggðar á Hólmsheiði, ásamt fylgiskjölum. R21110069
    Samþykkt. 

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Fylgigögn

  7. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 12. nóvember 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 12. nóvember 2021 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir Grafarlæk - Stekkjarmóa - Djúpadal, ásamt fylgiskjölum. R21110139
    Samþykkt. 

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Fylgigögn

  8. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 12. nóvember 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 10. nóvember 2021 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi svæðis 5 í Vogabyggð, ásamt fylgiskjölum. R21110140
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja ríka áherslu á að fullt samráð verði haft við Hafrannsóknarstofnun og Veiðimálastofnun vegna lengingar á hafnargarði við smábátahöfnina í Elliðaárvogi með tilliti til áhrifa á laxagengd í Elliðaánum.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Skipulagsyfirvöld kynna breytingar sem felast m.a. í að stækka og dýpka smábátahöfn og ýmist fjarlægja, stækka eða lengja hafnargarða. Ef horft er til náttúru og náttúrulegs umhverfis þá er verið að skerða þetta strandsvæði og umhverfi árósa smátt og smátt. Þessi svæði eru einna mikilvægustu hlutar af náttúru við Reykjavík. Ferill skipulagsyfirvalda er að skerða lítið í einu, einingar sem ekki er tekið eftir en að lokum verður umhverfið allt annað en náttúrulegt. ,,Lítil“ landfylling hér og þar, aðeins fleiri bryggjur o.s.frv. en að að lokum er allt umhverfið manngert og þá er vísast sagt að planta eigi í einhver beð og það stuðli að líffræðilegri fjölbreytni og náttúran megi vel við una. Fram kemur sem mótrök frá skipulagsyfirvöldum að þetta sé manngert fyrir og með þessu sé verið að auka og bæta aðgengi til útivistar. En ekki er tiltekið að það að njóta óspilltrar náttúru er líka upplifun. Útivist er ekki bara tæknifyrirbrigði, í góðum skóm og flottum galla og á flottri skútu.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Fylgigögn

  9. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 12. nóvember 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 10. nóvember 2021 á tillögu um reglur um notkun stöðureita í Reykjavík og gjaldtöku, ásamt fylgiskjölum. R21110136
    Samþykkt.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Skrifstofa samgöngustjóra og borgarhönnunar leggur til að skipulags- og samgönguráð samþykki meðfylgjandi reglur um notkun stöðureita í Reykjavík og gjaldtöku. Gott er að áhersla er lögð á að stæðin verði vel merkt sem gjaldskyld svæði, en á því hefur stundum verið misbrestur, einkum þegar aðrar framkvæmdir standa yfir. Tækniþróun hefur vissulega orðið á gjaldtöku en samt sem áður á ekki að gera ráð fyrir að allir geti nýtt sér nýjustu tækni við greiðslu. Fyrir marga eru þessir mælar flóknir og ekki allir treysta sér til að nota símaapp til að greiða fyrir bílastæði. Þannig er komið, sem margar kannanir hafa sýnt, að eldra fólk, Íslendingar sem búa utan miðbæjar koma hreinlega ekki lengur niður í bæ. Þetta er sorgleg þróun. Fyrir kynslóðina sem nú er komin yfir sextugt var miðbærinn vinsæll hér áður og þótti skemmtilegur heim að sækja.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Fylgigögn

  10. Lögð fram tillaga borgarritara, dags. 15. nóvember 2021, um úthlutun úr Miðborgarsjóði 2021, ásamt trúnaðarmerktum fylgiskjölum. R21090123
    Samþykkt. 

    Jón Halldór Jónasson og Björg Jónsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Fylgigögn

  11. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 9. nóvember 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að hefja nýtt söluferli á Grandagarði 2 og byggingarrétti, ásamt fylgiskjölum. R21110081
    Samþykkt. 

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Fylgigögn

  12. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 15. nóvember 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki drög að kaupsamningi og drög að leigusamningi vegna Hafnarhússins, ásamt fylgiskjölum. R18050053
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Vakin er athygli á því að yfir 95% kaupverðsins á að greiða á næsta kjörtímabili og er þ.a.l. skuld borgarsjóðs 2,1 milljarði hærri vegna þessara kaupa. Það er greinilega ekki til króna í kassanum til að greiða fyrir þetta enda verður þessi skuld greidd með láni á næsta kjörtímabili.

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Fylgigögn

  13. Lagt fram bréf menningar- og ferðamálsviðs, dags. 16. nóvember 2021, sbr. samþykkt menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 8. nóvember 2021 á tillögu að framlengingu á samningi um rekstur Borgarleikhússins frá 2022-2024, ásamt fylgiskjölum. R18050158
    Samþykkt. 

    Huld Ingimarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    -    Kl. 10.00 tekur Eyþór Laxdal Arnalds sæti á fundinum á ný og Marta Guðjónsdóttir víkur af fundi.

    Fylgigögn

  14. Lagður fram dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-7772/2020.  R20110220

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Reykjavíkurborg hefur valdið stórskaða gagnvart rekstraraðilum við Hverfisgötu og Laugaveg með framkvæmdum og framkvæmdaleysi. Þótt dómari hafi komist að því að þetta hafi ekki verið ólögmæt og saknæm framkvæmd, breytir það ekki þeirri staðreynd að hún er gjörsamlega ólíðandi og hefur valdið ómældu tjóni rekstraraðila í miðborginni.

  15. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 10. nóvember 2021, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 9. nóvember 2021 á tillögu varðandi leyfi fyrir tímabundna kennslu í 6. og 7. bekk fyrir Hjallastefnan grunnskólar ehf., ásamt fylgiskjölum. R21110109
    Samþykkt.

    Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Fylgigögn

  16. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 9. nóvember 2021, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 9. nóvember 2021 á tillögu um breytingu á skipuriti sviðsins samhliða innleiðingu verkefnisins betri borg fyrir börn, ásamt fylgiskjölum. R21060073
    Samþykkt.

    Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Fylgigögn

  17. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 15. nóvember, sbr. samþykkt á sameiginlegum fundi skóla- og frístundaráðs og velferðarráðs frá 10. nóvember 2021 á tillögu um innleiðingu verkefnisins betri borg fyrir börn, ásamt fylgiskjölum. R21060073
    Samþykkt. 
    Jafnframt er skrifstofu borgarstjóra og borgarritara falið að gera tillögu til borgarráðs um fyrirkomulag nafnasamkeppni um heiti á þjónustumiðstöðvum í borgarhlutunum fjórum. 

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Samstarf velferðarráðs og skóla- og frístundaráðs í þágu barna í borginni hefur verið meira og þéttara undanfarin misseri en dæmi eru um áður, með það að markmiði að bæta og samþætta þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra. Verkefnið betri borg fyrir börn er mikilvægasta birtingarmynd þessa samstarfs, þar sem ábyrgð og kröftum er beint út í borgarhlutana til styrkingar á nærþjónustu og sömuleiðis til að auka dreifstýringu í skólastarfi. Þannig er bein þjónusta við börn og foreldra færð inn í samfélagið, nær vettvangi barnsins og jafnframt styrkist samstarf skóla-, frístunda- og velferðarþjónustu við börn og fjölskyldur.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Tillaga meirihlutans er að innleiða verkefnið betri borg fyrir börn í öll þjónustuhverfi borgarinnar. Fulltrúa Flokks fólksins finnst erfitt að treysta á árangursmat meðal annars vegna þess að matsaðilar voru allir innanbúðar og hallaði þar á suma hópa. Foreldrar og börn voru ekki spurð um árangur. Tilraunatímanum er ekki lokið auk þess sem covid setti strik í reikninginn. Ef horft er til þjónustu við skólabörn eins og þeirrar sem börn bíða eftir hjá skólaþjónustu þá sér ekki högg á vatni. Ekki er séð að staðan sé neitt betri í Breiðholti en í öðrum hverfum. Biðlistinn í Breiðholti telur nú 285 börn, í Grafarvogi/Kjalarnesi 206 börn, í Árbæ/Grafarholti 278 og í Vesturbæ 203 börn. Því er velt upp hvað liggi á að tilkynna innleiðingu þessa verkefnis í önnur hverfi þegar árangur er ekki skýrari en raun ber vitni. Fulltrúi Flokks fólksins óttast um að jafnvel þótt allt það starfsfólk sem kemur að málum sé að vinna stórkostlegt starf sé meirihlutinn í borginni meira að skreyta sig vegna komandi kosninga. Hugsunin og hugmyndin að baki verkefninu er góð og auðvitað styður fulltrúi Flokks fólksins innleiðingu eins og allt annað sem hjálpað getur börnum og foreldrum þeirra.

    Helgi Grímsson og Regína Ásvaldsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

    Fylgigögn

  18. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 16. nóvember 2021, varðandi áhrif innleiðingar Hlöðunnar, nýs upplýsingastjórnunarkerfis Reykjavíkurborgar, á fundi borgarráðs. R21110068

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins lýsir samúð með starfsfólki skrifstofu borgarstjórnar vegna tafa á innleiðingarfasa Hlöðunnar. „Hlaðan“ var keypt fyrir um þremur árum síðan og er nú fyrst í einhvers konar innleiðingarfasa. Fulltrúi Flokks fólksins hefur lagt fram fyrirspurnir um kostnað vegna tafa á innleiðingu Hlöðunnar, en fátt hefur verið um svör. Það væri fróðlegt að vita hvort skipulagðar prófanir á þeim kerfum sem komu til greina hafi átt sér stað á vegum þjónustu- og nýsköpunarsviðs (ÞON) áður en Hlaðan var keypt? Fulltrúi Flokks fólksins kom ítrekað inn á forgangsröðun verkefna í borgarstjórn 16. nóvember sl. þegar lögð var fram tillaga um breytingu á skipuriti og innra skipulagi ÞON. Fylkið svokallaða átti að vera svona „forgangsröðunarkerfi“. Var Hlaðan ekki sett í forgang í fylkinu? Og ef svo var af hverju er hún nú fyrst þremur árum seinna mögulega að líta dagsins ljós? Á sama tíma og miklum fjármunum er varið í uppfærslur á sorphirðu- og viðburðadagatali sem hvor tveggja hafa verið til á vefjum borgarinnar í langan tíma, hefur innleiðing nauðsynlegra vinnukerfa eins og Hlöðunnar setið á hakanum. Áherslan hefur verið á hugmyndasmiðjur og tilraunaeldhús í stað þess að verja kröftum þessa sviðs í verkefni sem raunverulega skipta máli?

    Fylgigögn

  19. Lagt fram svar SORPU bs., dags. 11. nóvember 2021, við fyrirspurn borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um stýrihóp eigenda SORPU, myglu í burðarvirki GAJA og nýja brennslustöð, sbr. 9. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 21. september 2021. R21090180

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fram kemur að stýrihópur eigenda sem var formlega skipaður til að fylgjast með framkvæmdum og framvindu GAJA, hinn 25. okt. 2013, hefur ekki fundað síðan 17. mars 2017. Vel að merkja frá því á síðasta kjörtímabili. Á þeim tíma hafa komið upp mörg stórmál varðandi framúrkeyrslu verksmiðjunnar. Verksmiðjan hefur ekki virkað sem skyldi og skilar frá sér úrgangi en ekki moltu. Nú síðast kom í ljós að húsið sjálft, glænýtt, er myglað. Loks kemur fram að niðurstöður um nýja brennslustöð og kostnað við hana liggja ekki fyrir en þær áttu að liggja fyrir í lok septembermánaðar sl.

    Fylgigögn

  20. Lagt fram svar mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu, dags. 15. nóvember 2021, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um kostnað við Hverfið mitt, sbr. 33. lið fundargerðar borgarráðs frá 14. október 2021. R21100228

    Fylgigögn

  21. Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 5. nóvember 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um íbúðauppbyggingu á reitum Festis hf. og byggingarrétt, sbr. 54. lið fundargerðar borgarráðs frá 30. september 2021. R21090279

    Fylgigögn

  22. Lagt fram svar SORPU bs., dags. 19. október 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um útflutning SORPU bs. á úrgangi, sbr. 56. lið fundargerðar borgarráðs frá 30. september 2021. R21090297

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    SORPA flytur úr landi sorp. Er það öll umhverfisstefnan sem meirihlutinn er sífellt að státa sig af? Rekstur SORPU og GAJU er víst í algjörum ólestri og félagið væri tæknilega gjaldþrota ef ekki hefðu komið til stórfelld fjárframlög frá eigendum félagsins, aukin lántaka og hækkun gjaldskrár. Frá og með árinu 2016 til og með árinu 2020 flutti SORPA út um 63.000 tonn af pappír, pappa og plasti til Svíþjóðar og hefur það kostað 160 milljónir. Þar að auki hefur SORPA ekki nákvæmar tölur yfir kolefnisfótspor við útflutning endurvinnsluefna. Það er mjög ámælisvert því Reykjavíkurborg er nýbúin að samþykkja nýja umhverfisstefnu.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Útflutningur á sorpi er óaðlaðandi tilhugsun. Ekki á að þurfa að flytja neitt út sem rotnar í jörðu eða er hægt að endurnýta. Vandamálið er plast og spilliefni. Samt vill SORPA fá allt sorp í plasti, glærum plastpokum og þá poka þarf síðan væntanlega að flytja út. Tekið er undir klúður GAJU sem átti að taka við öllum úrgangi af höfuðborgarsvæðinu og framleiða hágæðamoltu og metangas. Framkvæmdakostnaður fór langt fram úr áætlun. GAJU var lýst sem töfrabragði, geta tekið blandað sorp og gert úr því hágæða moltu. Blása átti plasti frá og veiða málma úr sorpinu með segli sem ná aðeins járni en t.d ekki álpappír. Niðurstaðan er plastmenguð molta með þungmálmum og gleri, langt yfir viðmiði. Og áfram er metani brennt á báli í stað þess að nýta það. SORPA getur kannski staðið undir afborgunum lána en gera þarf ráð fyrir töluverðri lántöku, yfir 200 milljónum. Á sama tíma á að fjárfesta fyrir 559 milljónir. Lausafjárstaða er slæm. Gert er ráð fyrir að skammtímaskuldir séu 667 milljónir króna á sama tíma og veltufjármunir séu 320 milljónir. Það þýðir að veltufjárhlutfallið sé undir 0,5. Framundan bíður greiðsla á miklum dráttarvöxtum.

    Fylgigögn

  23. Lagt fram svar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 16. nóvember 2021, við framhaldsfyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um stuðning Bloomberg Philantropies við stafræna umbreytingu Reykjavíkurborgar, sbr. 32. lið fundargerðar borgarráðs frá 12. ágúst 2021. R20080035

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Þetta er á engan hátt fullnægjandi svar því hið opinbera getur ekki og má ekki taka við erlendu gjafafé á grunni sveitarstjórnarlaga. Reykjavíkurborg er að taka við 300 milljónum frá samtökunum Bloomberg Philanthropies. Með móttöku þessa fjármagns eru erlendir aðilar að skipta sér af og hafa áhrif á innanborgar- og innanríkismál. Slík lagaheimild er ekki til staðar sbr. umræður um slíkt þegar ESB-umsóknin var lögð inn og reynt var að koma fjármagni að utan í kynningaráróður fyrir sambandið hér á landi. Borgarfulltrúi Miðflokksins hefur þegar sent samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu erindi þar sem um þessi mál er upplýst og verið er að bíða viðbragða þaðan.

    Fylgigögn

  24. Lagt fram svar mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu, dags. 15. nóvember 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um auglýsingakostnað vegna verkefnisins Hverfið mitt 2021, sbr. 20. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. október 2021. R20050238

    Fylgigögn

  25. Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 8. nóvember 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um kostnað við að rífa Toppstöðina, fyrri kostnað og fyrirhugaðan kostnað, sbr. 46. lið fundargerðar borgarráðs frá 30. september 2021. R21090281

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Landsvirkjun átti á sínum tíma Toppstöðina í Elliðaárdal. Reykjavíkurborg og Landsvirkjun komust að samkomulagi 2008 um að húsið yrði rifið á sama tíma og borgin yfirtók þrjár lóðir í Elliðaárdal, þar á meðal þá sem Toppstöðin stendur á. Málshátturinn æ sér gjöf til gjalda á vel við hér. Kostnaður Reykjavíkurborgar vegna Toppstöðvarinnar við Rafstöðvarveg frá árinu 2008 til dagsins í dag eru rúmar 240 milljónir. Það eru miklir peningar fyrir útsvarsgreiðendur í Reykjavík. Ekki hafa fengist viðunandi skýringar á því hvers vegna húsið hafi ekki verið rifið. Áætlað er að leggja 200 milljónir í húsið á árinu 2022 en minnt er á að mikið asbest er í húsinu.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Samkvæmt svari er gert ráð fyrir 200 m.kr. í fjárfestingu í Toppstöðinni (áætlun fyrir árið 2022). Áætlað var á sínum tíma að rífa Toppstöðina sem hefði og er enn góður kostur. Réttast er að rífa bygginguna og byggja nýja sem hægt væri að klæðskerasauma að framtíðarverkefnum. Toppstöðin hefur ekki verið talin merkileg bygging. Um er að ræða hús, stálgrindarhús sem auðvelt er að rífa. Þarna er auk þess asbest sem þarf að fjarlægja með ærnum kostnaði, sama hvað gert verður við húsið. Hér er lag að reisa fallega byggingu á einstaklega góðum stað þar sem aðstaða yrði fyrir t.d. jaðaríþróttir.

    Fylgigögn

  26. Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 8. nóvember 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um náðhús í Nauthólsvík, sbr. 46. lið fundargerðar borgarráðs frá 19. nóvember 2020. R17080091

    Fylgigögn

  27. Lögð fram fundargerð aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks frá 4. nóvember 2021. R21010023

    Fylgigögn

  28. Lögð fram fundargerð fjölmenningarráðs frá 8. nóvember 2021 R21010020

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. lið fundargerðarinnar:

    Lögð fram aðgerðaáætlun Reykjavíkurborgar gegn ofbeldi. Á fundi mannréttindaráðs 11. nóvember sl. gerði fulltrúi Flokks fólksins athugasemd við umsögn um aðgerðaáætlun Reykjavíkurborgar gegn ofbeldi vegna þess að ekki er minnst einu orði á einelti í aðgerðaáætluninni en einelti er ein birtingarmynd af ofbeldis. Í kjölfarið var ákveðið að bæta við eftirfarandi: Einelti er ein birtingarmynd ofbeldis og mikilvægt er að ávarpa það í aðgerðaáætlun Reykjavíkurborgar og leggja til að eineltisáætlanir séu uppfærðar og aðgengilegar og með þeim sé virkt eftirlit.

    Fylgigögn

  29. Lögð fram fundargerð innkaupa- og framkvæmdaráðs frá 11. nóvember 2021. R21010004

    Fylgigögn

  30. Lögð fram fundargerð innkaupa- og framkvæmdaráðs frá 11. nóvember 2021. R21010024

    Fylgigögn

  31. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Kjalarness frá 11. nóvember 2021. R21010029

    Fylgigögn

  32. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Laugardals frá 8. nóvember 2021. R21010030

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 4. lið fundargerðarinnar:

    Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því sem fram kemur í lið 4 að samþykkt er að veita Götubita ehf. styrk að upphæð kr. 200.000 vegna verkefnisins Götubiti á jólum. Einnig samþykkt að veita Laugalæk ehf. styrk að upphæð kr. 245.000 vegna verkefnisins Litlu jólin í Kaffi Laugalæk - fjölskylduskemmtun. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að gera þurfi meira af nákvæmlega svona löguðu í fleiri hverfum. Það sárvantar veitingastaði í mörg hverfi og kaffihús þannig að íbúar hverfisins þurfi ekki alltaf að fara annað langi þá að fara út að borða eða fá sér kaffi á kaffihúsi. Vonandi eiga fleiri íbúaráð eftir að ræða sambærileg mál fyrir sín hverfi.

    Fylgigögn

  33. Lagðar fram fundargerðir neyðarstjórnar Reykjavíkurborgar frá 9. og 15. nóvember 2021. R21010069

    Fylgigögn

  34. Lögð fram fundargerð öldungaráðs frá 8. nóvember 2021. R21010022

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. lið fundargerðarinnar:

    Fulltrúi Flokks fólksins fagnar vissulega hverju skrefi í átt til réttlætis og lýðræðis sem er að eldra fólk ráði því sjálft hvenær það vill fara af vinnumarkaði. Um þetta var rætt í upphafi kjörtímabils og nú er komið að lokum tímabilsins og það eina sem gert hefur verið er að setja á laggirnar þennan hóp og þetta er samt eitt af því sem stendur í meirihlutasáttmálanum. Fulltrúi Flokks fólksins lagði tillögu fram 2019 um sveigjanleg starfslok. Öldungaráð vísaði tillögunni frá þá. Eitt aðalmál Flokks fólksins er að eldri borgarar og öryrkjar sem treysta sér til að vera á vinnumarkaði geti það án skerðinga. Sveitarfélagi er ekki skylt að fylgja almannatryggingalögum þegar kemur að skerðingum og getur því bætt kjör þessa hóps með því að taka sjálfstæða ákvörðun í þeim efnum. Sveigjanleikinn er allra hagur og borgaryfirvöld geta með virkum hætti stuðlað að því að hann verði sem mestur. Kjarasamningar gefa heimild til að óska eftir undanþágu til eins árs í einu, en með sérstöku leyfi borgarstjóra. Árið 2016 kom út skýrsla í tengslum við aldursvænar borgir og þá voru lagðar til ýmsar leiðir að sveigjanlegum starfslokum. Vegferðin hófst fyrir meira en 6 árum en er enn á byrjunarreit hjá þessum meirihluta.

    Fylgigögn

  35. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 5 mál. R21110002

    Fylgigögn

  36. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. R21110001

    Fylgigögn

  37. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Hefur farið fram samráð við viðbragðsaðila vegna fyrirhugaðrar þrengingar Suðurlandsbrautar svo sem slökkvilið höfuðborgarsvæðisins og lögreglu varðandi neyðarakstur?  R21110137

    Vísað til umsagnar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara.

  38. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    1. Hver er áætlaður kostnaður við flutning Malbikunarstöðvarinnar Höfða á nýja lóð í Hafnarfirði, að teknu tilliti til en ekki takmarkað við: flutning fastafjármuna, frágang á núverandi lóð, uppsetningu á nýrri lóð, annan kostnað sem kann að falla til?
    2. Hvernig verða flutningar Malbikunarstöðvarinnar Höfða í Hafnarfjörð fjármagnaðir? Er fyrirhugað að Reykjavíkurborg gangist í ábyrgðir fyrir félagið í þessu samhengi?
    3. Hverjar eru skýringar þess að Höfði skilaði neikvæðri rekstrarniðurstöðu á síðasta uppgjörsári? Er fyrirhuguð betri rekstrarniðurstaða fyrir árið 2021?
    4. Munck á Íslandi var með rekstur á nýrri lóð Malbikunarstöðvarinnar Höfða en þurfti að leggja niður starfsemi vegna verkefnaskorts. Hefur verið kannað hvaða áhrif flutningar á nýja lóð munu hafa á rekstur og afkomu Malbikunarstöðvarinnar Höfða til lengri tíma?
    5. Nú er ný lóð Höfða í Hafnarfirði töluvert minni en sú lóð sem Höfði hefur starfað á hingað til. Mun breytingin hafa áhrif á rekstur félagsins?
    6. Er ný staðsetning Malbikunarstöðvarinnar Höfða í Hafnarfirði hugsuð sem langtímastaðsetning fyrir félagið?
    7. Tveir stærstu útboðsaðilar á malbikunarmarkaði eru Vegagerðin og Reykjavíkurborg, sem er jafnframt eigandi Malbikunarstöðvarinnar Höfða. Í úttekt Viðskiptaráðs um malbiksborgina Reykjavík árið 2017 kom fram að Höfði var valinn í 73% af útboðum Reykjavíkurborgar um malbiksyfirlagningu á árunum 2008-2016. Athugun á útboðum árin 2017-2020 leiðir svo í ljós að hlutdeild Höfða hefur aukist enn frekar, í 91% — í eitt skipti af ellefu vann annað fyrirtæki þess háttar útboð á vegum borgarinnar. Í útboðum Vegagerðarinnar á tímabilinu 2017-2020 var gengi Malbikunarstöðvarinnar Höfða langt frá því að vera jafn gott, en fyrirtækið virðist aðeins hafa reynst hlutskarpast í einu útboði á vegum Vegagerðarinnar á tímabilinu. Hvað útskýrir þessar hagfelldu útboðsniðurstöður fyrir Malbikunarstöðina Höfða í útboðum borgarinnar?
    8. Kom til álita að selja Malbikunarstöðina Höfða í stað þess að leggja í kostnaðarsama flutninga? R21110193

    Vísað til umsagnar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara.

  39. Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Bent hefur verið á að börn séu send heim nánast daglega vegna skorts á starfsfólki á leikskólanum Jöklaborg, sem og á öðrum leikskólum vegna skorts á starfsfólki. Þetta skapar stöðu sem foreldrar geta ekki brugðist við, ekki allir geta stokkið fyrirvaralaust úr vinnu til að sækja börn sín og efnaminna fólk hefur ekki færi á því að taka leyfi frá vinnu til að mæta þessari stöðu. Um er að ræða fyrsta stig menntunar fyrir börn. Hvernig hefur verið unnið í því að bæta stöðuna? Hvenær mega foreldrar og börn þeirra vænta bættrar stöðu?  R21110192

    Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs. 

  40. Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Hvernig sinnir borgin eftirlitshlutverki sínu varðandi gæði í skólastarfi leik- og grunnskóla hjá sjálfstætt starfandi skólum innan Reykjavíkur? Hvernig er brugðist við ef fáir eða enginn er með menntun á sviði sem tengist skólamálum eða er með leyfisbréf?  R21110191

    Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

  41. Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Hvernig er verklagið og aðgerðaráætlunin varðandi það þegar trúnaðarmenn starfsfólks á leik- og grunnskólum senda inn ábendingar eða kvartanir til skóla- og frístundasviðs? Hvernig er unnið úr þeim?  R21110190

    Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

  42. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Lagt er til að Reykjavíkurborg upplýsi að frá og með árinu 2024 muni útboð borgarinnar sem snúa að aðkeyptum leigubílaakstri eða bílaleigubílum ávallt miða við að bifreiðar þurfi að vera knúnar umhverfisvænu eldsneyti. Þar með verði hagsmunaaðilar upplýstir með góðum fyrirvara. Ýmsar stofnanir hafa þegar tekið þetta ákvæði upp. Meirihlutinn í Reykjavíkurborg hefur lagt áherslu á vistvænan ferðamáta og því ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að samþykkja þetta strax. Mikilvægt er að Reykjavíkurborg sýni hér frumkvæði og framsýni og sé í fararbroddi í umhverfismálum. Athugið að ekki er hér átt við aðkeyptan akstur stærri flutningabíla eða sérhæfðra ökutækja eins og ferðaþjónustu fatlaðra, strætó, götusópa o.s.frv. þar sem umhverfisvæn úrræði eru tæpast til. R21110184

    Frestað.

  43. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Lagt er til að stofnanir og fyrirtæki Reykjavíkurborgar skrifi undir Hreinn, 2 og 3. https://analytics-eu.clickdimensions.com/cn/azxai/greenorkuskipti Stofnanir og fyrirtæki sem geta notað vistvænar bifreiðar ættu að skrifa undir þessa yfirlýsingu. Í henni kæmi fram að slíkt tæki gildi í seinasta lagi árið 2025. Miða ætti við að allar bifreiðar hjá viðkomandi stofnun eða fyrirtæki verði því vistvænar árið 2025 verði slíku komið við. Slík undirritun yfirlýsingar myndi sjá til þess að nýjar bifreiðar verði ekki keyptar nema þær standi undir því að vera vistvænar. Skilaboð Reykjavíkurborgar væru hér skýr. Með þessu væru gefin 3 ár til að skipta út þeim bifreiðum sem þegar hafa verið keyptar og óhagkvæmt væri að skipta strax út. Forsendur þess að við náum Parísarsamkomulaginu eru orkuskipti í samgöngum. Reykjavíkurborg má ekki láta sitt eftir liggja í því brýna umhverfismáli. Mikilvægt er að Reykjavíkurborg sé í fararbroddi í umhverfismálum og sýni þar frumkvæði og framsýni. R21110187

    Frestað.

  44. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Nú er staðan þannig á mörgum leikskólum að börn eru send heim heim nánast daglega vegna skorts á starfsfólki og þetta er með öllu óásættanlegt. Í fyrsta lagi þá á þetta að vera fyrsta stig menntunar fyrir börnin og með þessu er verið að svíkja þau um hana. Í öðru lagi er ekki hægt að ætlast til þess að foreldrar stökkvi fyrirvaralaust úr vinnu til að sækja börnin sín. Í þessum málum ríkir ófremdarástand. Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvað skóla- og frístundasvið er að gera í málinu, ef eitthvað. Hefur verið skoðað hvað áhrif þetta hefur á foreldra og stöðu þeirra í vinnum sínum? Orlofsdagar rétt duga fyrir sumarfríi og þá á eftir að gera ráð fyrir skipulagsdögum. Ekki öll heimili búa svo vel að vera með tvo foreldra sem skipta þessu á milli sín og efnaminna fólk hefur bara alls ekki efni á að fjölga þeim dögum sem það er frá vinnu. Fulltrúa Flokks fólksins finnst þetta ólíðandi ástand fyrir foreldra og börnin og hlýtur ekki síður að vera erfitt fyrir starfsfólkið. R21110188

    Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs. 

    -    Kl. 11.05 víkur Hildur Björnsdóttir af fundinum. 

Fundi slitið klukkan 11:06

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Heiða Björg Hilmisdóttir

Dóra Björt Guðjónsdóttir Líf Magneudóttir

PDF útgáfa fundargerðar
borgarrad_1811.pdf