Borgarráð - Fundur nr. 5401

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2016, fimmtudaginn 17. mars, var haldinn 5401. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.05. Viðstödd voru Sigurður Björn Blöndal, Halldór Auðar Svansson, Líf Magneudóttir, Hjálmar Sveinsson, Júlíus Vífill Ingvarsson, Halldór Halldórsson og Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ellý Katrín Guðmundsdóttir, sem staðgengill borgarstjóra, Birgir Björn Sigurjónsson, Hrólfur Jónsson, Hallur Símonarson, Ebba Schram, Ólöf Örvarsdóttir og Linda Sif Sigurðardóttir.

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1. Lagðar fram fundargerðir endurskoðunarnefndar frá 1. og 7. mars 2016. R16010030

2. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Árbæjar frá 8. mars 2016. R16010005

3. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Hlíða frá 10. mars 2016. R16010010

4. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Vesturbæjar frá 10. mars 2016. R16010014

5. Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 11. mars 2016. R16010015

6. Lögð fram fundargerð stjórnar Sorpu bs. frá 4. mars 2016. R16010023

7. Lögð fram fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 29. febrúar 2016. R16010027

8. Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 16. mars 2016. R16010021

B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.

9. Fram fer kynning á fyrirhuguðum upptökum á sjónvarpsþáttunum Borgarstjórinn sem fram fara í Ráðhúsi Reykjavíkur á næstu vikum. R16030125

10. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 10 mál. R16020251

11. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 715/2013. R16030003

12. Lögð fram umsagnarbeiðni sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu til borgarrráðs þar sem óskað er eftir umsögn um umsókn Menntaskólans við Sund, dags. 7. mars 2016, um tækifærisleyfi þann 17. mars 2016 frá kl. 22.00 til 02.00 í tilefni af skóladansleik, ásamt fylgiskjölum. Áður hafði verið veitt jákvæð umsögn til kl. 01.00. R16030003

Samþykkt.

13. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 10. mars 2016, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 9. mars 2016 á auglýsingu á breytingu á deiliskipulagi Saltvíkur á Kjalarnesi, ásamt fylgiskjölum. R14050009

Samþykkt.

14. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagsviðs, dags. 10. mars 2016, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 9. mars 2016 á samkeppnislýsingu, dags. 1. mars 2016, um framtíðarskipulag Gufunessvæðis í Grafarvogi. R13110186

Samþykkt.

15. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 14. mars 2016, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili umhverfis- og skipulagssviði að bjóða út malbikunarframkvæmdir 2016. R16030098

Samþykkt.

Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:

Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina samþykkir tillöguna en telur að fjárhæðin muni ekki nægja. Ástand gatna er mjög slæmt. Þeir fjármunir sem verja á í viðhald gatna í ár eru sambærilegir og á síðasta ári. Það dugði ekki þá og það mun ekki duga nú. Ef það á virkilega að taka á afleiðingum viðhaldsleysis gatna undanfarin ár þá þarf að auka fjármagnið í viðhald og endurnýjun gatna verulega. Annars mun ástandið á næsta ári vera það sama og það er í ár og það var í fyrra.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins ítreka fyrri bókanir sínar og tillögur um að forgangsraða þarf upp á nýtt varðandi viðhald gatna og fulltrúar meirihlutans hafa fellt jafnóðum. Mun hærri fjárhæð þarf til endurnýjunar og viðhalds en þær 650 m.kr. sem ætlaðar eru til verksins árið 2016 auk 60 m.kr. til malbikunar í nýbyggingarhverfum. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa ítrekað lagt til aðra forgangsröðun þar sem ónauðsynlegum framkvæmdum á borð við þrengingu Grensásvegar væri frestað til að auka fjármagn til nauðsynlegs viðhalds. Forgangsröðun meirihluta Samfylkingar, Pírata, Vinstri grænna og Bjartrar framtíðar varðandi gatnaviðhald er með öllu óskiljanleg þeim sem þurfa að nota götur borgarinnar. Frestun viðhalds gatna er fyrir löngu farin að koma í bakið á okkur hjá Reykjavíkurborg.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Mikilvægt er að götur borgarinnar séu í góðu lagi. Óhagstætt tíðarfar, veruleg umferðaraukning og sparnaður í kjölfar hrunsins hafa dregið fram og orsakað bresti í gatnakerfinu en á þessu ári eru settar 710 milljónir króna í malbikunarframkvæmdir og viðgerðir. 500 milljónir fara í malbiksyfirlagnir, 150 milljónir fara í viðgerðir og 60 milljónir fara í malbik í nýbyggingarhverfum. Umfang endurbóta er komið í svipað horf og það var fyrir hrun en þrátt fyrir þetta er ástand gatna víða ekki ásættanlegt. Ljóst er að betur má ef duga skal. Sameiginlegt átak og samræmdar aðgerðir eru nauðsynlegar til að koma gatnakerfinu í viðunandi horf. Leitað hefur verið til Vegagerðarinnar og nágrannasveitarfélaga um að taka saman höndum um undirbúning nauðsynlegs átaks um viðhald og endurnýjun gatnakerfisins á höfuðborgarsvæðinu. Það er mikilvægt framfaraskref. Með því fæst sameiginlegt mat á ástandi og viðhalds- og endurbótaþörf sem og áætlun á grundvelli þess. Í samræmi við stefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga verður skoðuð fjármögnun og eðlileg hlutdeild sveitarfélaganna í tekjustofnum sem verða beinlínis til vegna bílaumferðar og eins aukins álags ferðamanna. Auk þess verður hugað að rannsóknum á gatnagerð, malbikslögnum og væntum endingartíma.

Ámundi Brynjólfsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

16. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 14. mars 2016, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili umhverfis- og skipulagssviði að bjóða út framkvæmdir við endurgerð og lagfæringar á lóðum við leik- og grunnskóla skv. fjárhagsáætlun 2016. R16030102

Samþykkt.

Ámundi Brynjólfsson og Helgi Grímsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

- Kl. 9.50 víkur Ólöf Örvarsdóttir af fundinum.

17. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 10. mars 2016, vegna tillögu skóla- og frístundaráðsfulltrúa Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúa Pírata um að leggja niður skólasafnamiðstöð sem samþykkt var á fundi skóla- og frístundaráðs þann 9. mars 2016, ásamt fylgiskjölum. R16030094

Samþykkt.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja að vinna hefði þurft betur að undirbúningi fyrirliggjandi tillögu og skýra með fullnægjandi hætti hvernig staðið verði að yfirfærslu verkefna Skólasafnamiðstöðvar Reykjavíkur út til skólanna. Athygli er vakin á ályktun fagfólks á skólasöfnum Reykjavíkur þar sem fram kemur að óljóst sé hvernig þeim verkefnum reiðir af, sem Skólasafnamiðstöðin hefur sinnt til þessa. T.d. sé óljóst hver taki að sér umrædd verkefni því ljóst sé að fagfólk á skólasöfnum muni ekki taka þau að sér.

Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

18. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 10. mars 2016, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 9. mars 2016 um að sameina Kamp og Frostaskjól undir einni yfirstjórn, ásamt fylgiskjölum. Einnig er lagt fram bréf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 15. mars 2016. R16030093

Samþykkt.

Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

19. Fram fer kynning á gerð úttektar um Betri Reykjavík og Betri hverfi.

Sjöfn Vilhelmsdóttir og Þorgerður Einarsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið. R16020076

20. Lögð fram svohljóðandi tillaga staðgengils borgarstjóra, dags. 15. mars 2016, ásamt áfangaskýrslu starfshóps um verkefnin Betri Reykjavík og Betri hverfi, dags. 3. mars 2016:

Lagt er til að borgarráð samþykki að stefna að því að framkvæmdapottur Betri hverfa 2016 verði 450 milljónir vegna verkefna sem kosið er um 2016 en koma til framkvæmda 2017.

Greinargerð fylgir tillögunni. R16020076

Samþykkt. 

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.

21. Lagt fram endurrit úr trúnaðarbók borgarráðs frá 10. mars sl. R16030049

Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 9. mars 2016: 

Lagt er til að borgarráð samþykki meðfylgjandi viljayfirlýsingu um samstarfs um uppbyggingu leiguíbúða í Reykjavík. 

Greinargerð fylgir tillögunni.

Samþykkt.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins benda á að margt er enn óljóst varðandi fyrirhugað samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar og ASÍ um byggingu 1000 leiguíbúða þar sem borgin leggur til lóðir. Verkefnið hvílir á því að frumvörp húsnæðisráðherra verði að lögum en þau eru lögð fram í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um átak í húsnæðismálum og líklegt að frumvörpin eigi eftir að taka breytingum. Vinna þarf áhættugreiningu vegna verkefnisins en með því er verið að fara inn á markað sem starfar á samkeppnisgrundvelli. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja áherslu á að málið þarfnast frekari úrfærslu og muni koma aftur fyrir borgarráð og borgarstjórn þegar línur þess skýrast. Þá mun gefast tækifæri til að taka endanlega afstöðu til þess.

Sigurður Björn Blöndal

Sóley Tómasdóttir

Halldór Auðar Svansson

Júlíus Vífill Ingvarsson

Halldór Halldórsson

Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir

Heiða Björg Hilmisdóttir

22. Lagt fram bréf staðgengils borgarstjóra, dags. 14. mars 2016, þar sem lögð eru fram til kynningar drög að erindisbréfi starfshóps um þjónustukönnun meðal borgarbúa. R16030091

- Kl. 11.25 víkur Ebba Schram af fundinum.

23. Lagt fram bréf Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar, dags. 4. mars 2016, varðandi endurgreiðsluhlutfall launagreiðenda á greiddum lífeyri, ásamt fylgiskjölum. Jafnframt er lögð fram umsögn fjármálaskrifstofu Reykjavíkurborgar, dags. 10. mars 2016. R16030056

Samþykkt.

24. Lögð fram svohljóðandi tillaga staðgengils borgarstjóra, dags. 15. mars 2016:

Hjálagt er erindi, dags. 11. janúar 2016, þar sem fram kemur að borgarstjórn Cambridge hafi falið framkvæmdastjóra sínum (e. city manager), Richard C. Rossi, að kanna í samvinnu við Brian Corr, framkvæmdastjóra friðarnefndar Cambridgeborgar (Cambridge Peace Commission), möguleikana á systraborgasamstarfi við Reykjavíkurborg með það að markmiði að efla og styrkja samskipti borganna tveggja. Lagt er til að skrifstofu borgarstjóra og borgarritara verði falið að kanna nánar grundvöll fyrir samstarfi borganna tveggja. 

Greingargerð fylgir tillögunni. Einnig er lögð fram umsögn alþjóðafulltrúa, dags. 14. mars 2016 og erindi Cambridgeborgar, dags. 11. janúar 2016. R16020026

Samþykkt.

25. Lagt fram bréf Knattspyrnusambands Íslands, dags. 10. mars 2016, þar sem óskað er eftir formlegum viðræðum við Reykjavíkurborg um framtíð Laugardalsvallar. R15020197

Borgarráð felur borgarstjóra að skipa starfshóp vegna málsins með fulltrúum skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, íþrótta- og tómstundasviðs, umhverfis- og skipulagssviðs og hverfisráðs Laugardals. 

26. Lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 14. mars 2016, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki úthlutun á lóðinni nr. 9 við Hádegismóa. R16030032

Samþykkt.

27. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um þjónustu við Hlemm og Mjódd, sbr. 33. lið fundargerðar borgarráðs frá 29. janúar 2016. Jafnframt er lögð fram umsögn skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 14. mars 2016. R16010260

Lögð fram svohljóðandi breytingatillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

Frá áramótum hefur húsnæði strætisvagnamiðstöðvanna við Hlemm og í Mjódd verið lokað kl. 18.00 á virkum dögum. Um helgar er Hlemmi lokað kl. 16.00 og Mjódd kl. 18.00. Um er að ræða skerta þjónustu við þá fjölmörgu farþega, sem þurfa nú að bíða utan dyra í kulda og trekki. Í því skyni að bæta þjónustu við strætisvagnafarþega á Hlemmi, samþykkir borgarráð að á framkvæmdatíma vegna breytinga á Hlemmi verði húsið opið fyrir farþegum. Önnur aðstaða verði útbúin fyrir farþega á svæðinu eftir því sem þörf krefur vegna framkvæmdanna. Opnunartími taki mið af því hvenær strætisvagnar ganga. 

Samþykkt.

28. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins minna á að til er ný þjónustukönnun sem framkvæmd er árlega af Capacent Gallup. Í þeirri könnun er öll helsta þjónusta borgarinnar mæld og gerður samanburður við önnur sveitarfélög. Þessa könnun hefur Reykjavíkurborg keypt undanfarin ár en meirihluti borgarstjórnar hefur ákveðið að svo verði ekki vegna ársins 2015. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu til að nýjasta könnunin yrði keypt en sú tillaga var felld af meirihluta Samfylkingar, Pírata, Vinstri grænna og Bjartrar framtíðar. Nú á að framkvæma nýja könnun af hálfu Reykjavíkurborgar, væntanlega til að fá fram betri niðurstöðu en hefur verið í árlegum könnunum Capacent Gallup. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lýsa yfir furðu yfir þessum vinnubrögðum meirihlutans og óska eftir upplýsingum um áætlaðan kostnað við að framkvæma sérstaka þjónustukönnun. R16010269

29. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

Veggjakrot hefur stóraukist að undanförnu. Einkanlega hefur það verið áberandi í miðborginni en einnig í öðrum hverfum þar sem lítið hefur verið um slíkt fram til þessa. Hvað er verið að gera til að stemma stigu við veggjakroti? Með hvaða hætti er fylgst með stöðunni og ástandi þeirra fasteigna og svæða sem helst verða fyrir barðinu á kroti? Hvernig er samstarfi háttað við lögreglu, rekstraraðila og hagsmunasamtök? R16030126

30. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn: 

Aksturssamningum 430 borgarstarfsmanna var sagt upp í upphafi síðasta árs. BHM brást hart við og krafðist þess að uppsagnir yrðu dregnar til baka enda aðgerðin einhliða kjaraskerðing að mati bandalagsins. Ekkert samráð var haft við starfsmenn. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks gagnrýndu aðgerðina sem var illa undirbúin og fálmkennd. Hálfu ári síðar óskuðu þeir eftir upplýsingum um áhrif uppsagnanna. Spurt var: Hafa uppsagnirnar haft áhrif á samgönguvenjur starfsmanna? Hafa þeir komið með almenningsvögnum eða hjólandi til vinnu, eins og að var stefnt? Hver er sparnaðurinn af uppsögnum aksturssamninga? Hefur notkun leigubíla og bílaleigubíla aukist eða útgjöld aukist af öðrum ástæðum? Svar borgarstjóra, sem barst mánuði síðar, var að ekki væri hægt að meta áhrifin, sem er merkilegt svar út af fyrir sig. Spurningarnar eru af þessum ástæðum lagðar fram að nýju og svara óskað við þeim. R15020238

Fundi slitið kl. 11.55

Sigurður Björn Blöndal

Halldór Auðar Svansson Líf Magneudóttir

Hjálmar Sveinsson Halldór Halldórsson

Júlíus Vífill Ingvarsson Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir