No translated content text
Borgarráð
B O R G A R R Á Ð
Ár 2008, fimmtudaginn 4. september, var haldinn 5039. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.35. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Björk Vilhelmsdóttir, Dagur B. Eggertsson, Júlíus Vífill Ingvarsson, Óskar Bergsson, Svandís Svavarsdóttir og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson.
Fundarritari var Ólafur Kr. Hjörleifsson.
Þetta gerðist:
1. Lagðar fram fundargerðir hverfisráðs Grafarholts og Úlfarsárdals frá 20. og 27. ágúst. R08010010
2. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Hlíða frá 26. ágúst. R08010012
3. Lagðar fram fundargerðir hverfisráðs Miðborgar frá 28. maí og 28. ágúst. R08010015
4. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Vesturbæjar frá 27. ágúst. R08010016
5. Lögð fram fundargerð skipulagsráðs frá 3. september. R08010024
B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.
6. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 5 mál. R08090005
7. Borgarráð samþykkir að Ólafur Örn Haraldsson taki sæti í stjórn Reykjanesfólkvangs í stað Ástu Þorleifsdóttur. Varamaður verði sem fyrr Dofri Hermannsson. R07100316
8. Borgarráð samþykkir að Júlíus Vífill Ingvarsson og Svandís Svavarsdóttir taki sæti í samstarfsnefnd um svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins f.h. Reykjavíkurborgar. R06100241
9. Borgarráð samþykkir að eftirtaldir skipi stýrihóp um búsetuúrræði fyrir eldri borgara: Jórunn Frímannsdóttir, formaður, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, Óskar Bergsson, Björk Vilhelmsdóttir og Svandís Svavarsdóttir. R06060131
10. Lagt fram bréf Þórhildar Elínar Elínardóttur frá 28. f.m. þar sem hún óskar lausnar úr skólanefnd Skóla Ísaks Jónssonar frá og með 1. október. R07010249
Samþykkt að Ingvar Sverrisson taki sæti Þórhildar.
- Kl. 9.40 tekur Kjartan Magnússon sæti á fundinum.
11. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 28. f.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 27. s.m., varðandi auglýsingu á tillögu að breytingu á aðalskipulagi vegna fyrirhugaðrar slökkvistöðvar við Stekkjarbakka. R07010203
Samþykkt.
12. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 28. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 27. s.m., varðandi auglýsingu á tillögu að breyttu deiliskipulagi Elliðaárdals vegna nýrrar slökkvistöðvar við Stekkjarbakka. R07010203
Samþykkt.
13. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 28. f.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 27. s.m., varðandi deiliskipulag reits 1.182.3, Kárastígsreits austur, sem afmarkast af Skólavörðustíg, Frakkastíg og Kárastíg. R08060035
Samþykkt.
14. Borgarráð samþykkir að eftirtaldir aðilar taki sæti í starfshópi um gerð siðareglna fyrir kjörna fulltrúa, sbr. 24. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. ágúst sl.: Magnús Þór Gylfason, formaður, Gísli Marteinn Baldursson, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, Dagur B. Eggertsson og Svandís Svavarsdóttir. R07060032
15. Lögð fram að nýju umsögn skrifstofustjóra borgarstjórnar frá 22. f.m. varðandi umsókn rekstraraðila veitingastaðarins Café Loki, Lokastíg 28, um heimild til áfengisveitinga, þar sem lagst er gegn því að heimildin verði veitt. Jafnframt lagt fram bréf umsækjanda, dags. 6. s.m. R08070004
Björk Vilhelmsdóttir víkur af fundi við afgreiðslu málsins.
Umsögn skrifstofustjóra borgarstjórnar samþykkt.
16. Lagt fram svar borgarstjóra, dags. í dag, við fyrirspurn Ólafs F. Magnússonar varðandi minnisblað frá fjármálaskrifstofu, sbr. 25. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. ágúst sl. R08080073
17. Lagt fram svar borgarstjóra, dags. í dag, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Samfylkingar og Vinstri grænna varðandi laxveiði borgarfulltrúa, sbr. 27. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. ágúst sl. R08080088
18. Lagt fram svar borgarstjóra, dags. í dag, við fyrirspurn Ólafs F. Magnússonar varðandi atkvæðagreiðslu um framtíð Reykjavíkurflugvallar, sbr. 28. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. ágúst sl. R08010121
19. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar frá 3. þ.m. varðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna og Samfylkingar um kjörgengisskilyrði varamanns í borgarráði, sbr. 29. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. ágúst sl. R08010159
Vísað til forsætisnefndar.
- Kl. 10.30 tekur Ólafur F. Magnússon, áheyrnarfulltrúi F-lista, sæti á fundinum.
20. Lagður fram árshlutareikningur Sorpu bs. fyrir fyrstu sex mánuði ársins 2008. R08030006
21. Lögð fram yfirlýsing og bókun stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga varðandi fjármálaleg samskipti og verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga frá 22. f.m., sbr. bréf sviðsstjóra rekstrar- og útgáfusviðs Sambandsins frá 27. s.m. R08080095
22. Lagt fram bréf sviðsstjóra velferðarsviðs frá 28. f.m., sbr. samþykkt velferðarráðs 27. s.m., varðandi endurgjaldslaus not fatlaðra framhalds- og háskólanema af Ferðaþjónustu fatlaðra í Reykjavík veturinn 2008-2009. R08090008
Samþykkt.
23. Lagður fram þjónustusamningur félags- og tryggingamálaráðuneytisins, Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra í Reykjavík og Reykjavíkurborgar um þjónustu við geðfatlaða, dags. 28. f.m., ásamt yfirlýsingu félags- og tryggingamálaráðuneytisins og Reykjavíkurborgar um sama efni, dags. s.d., sbr. einnig bréf sviðsstjóra velferðarsviðs, dags. 1. þ.m. R08090009
Samþykkt.
Bókun borgarráðs:
Borgarráð fagnar samningi Reykjavíkurborgar og félagsmálaráðuneytisins um þjónustu við geðfatlaða. Samningurinn markar mikilvæg tímamót í nærþjónustu við þessa einstaklinga, veitir þeim nauðsynlegan stuðning til sjálfstæðis og lífsgæða, samhliða því að Reykjavíkurborg tekst á hendur aukna ábyrgð í þessum mikilvæga málaflokki.
- Kl. 10.45 víkur Óskar Bergsson af fundi og Guðlaugur G. Sverrisson tekur þar sæti.
24. Lagður fram dómur Héraðsdóms frá 2. júlí sl. í máli nr. E-515/2007 Reykjavíkurborg, Kópavogsbær, Seltjarnarneskaupstaður, Bragi Sigurjónsson, Orkuveita Reykjavíkur og Þorsteinn Hjaltested gegn íslenska ríkinu. Jafnframt lögð fram bréf Páls Arnórs Pálssonar hrl. frá 28. f.m. og 22. júní 2006 varðandi málið. R03120021
25. Lagt fram samkomulag Sjúkraliðafélags Íslands og Reykjavíkurborgar frá 27. f.m. um sátt í máli félagsins á hendur Reykjavíkurborg, ásamt bréfi borgarlögmanns, dags. 28. s.m. R08070003
Borgarráð samþykkir samkomulagið fyrir sitt leyti.
26. Lagt fram bréf fulltrúa skrifstofustjóra framkvæmda- og eignasviðs frá 2. þ.m., þar sem lagt er til að borgarráð afturkalli úthlutun á lóð nr. 15 við Iðunnarbrunn. R06040011
Frestað.
27. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. í dag:
Borgarráð samþykkir að fela sviðsstjórum ÍTR og menntasviðs að vinna tillögur að úrlausn þess vanda sem hefur skapast vegna manneklu á frístundaheimilum og vegna aðstöðumála í skólum borgarinnar. Leita skal leiða til að efla og samþætta störf viðkomandi sviða auk skóla og frístundaheimila. Ennfremur að kannaðar verði fjölbreyttari lausnir varðandi rekstur frístundaheimila, svo sem með samstarfi við félagasamtök, íþróttafélög og aðra.
Greinargerð fylgir tillögunni. R08090018
Frestað.
28. Ólafur F. Magnússon, áheyrnarfulltrúi F-lista, óskar bókað vegna 16. liðar fundargerðarinnar:
Vegna svars borgarstjóra við fyrirspurn minni um minnisblað fjármálasviðs frá 8. júlí 2008 um hugsanlegar aðgerðir vegna þeirrar tekjuskerðingar sem Reykjavíkurborg stendur frammi fyrir vil ég taka fram eftirfarandi:
Þó að minnisblaðið hafi ekki verið lagt fram hefur verið staðfest að slíkar aðgerðir hafi verið til umræðu innan borgarkerfisins. Öllum má vera ljóst að slíkar aðgerðir gætu falið í sér lækkun launaútgjalda hjá borginni sem myndi bitna á þjónustunni við borgarbúa, einkum í velferðarþjónustunni. Slíkar aðgerðir gætu reynst óhjákvæmlegar ef vikið er frá þeirri forgangsröðun í málefnasamningi fráfarandi meirihluta F-lista og Sjálfstæðisflokks að verja velferðarþjónustuna í borginni með því að forgangsraða í hennar þágu. Fyrirætlanir um stórar nýframkvæmdir sem hvorki er gert ráð fyrir í 3 ára fjárhagsáætlun né í málefnasamningi fráfarandi meirihluta F-lista og Sjálfstæðisflokks ógna slíkri forgangsröðun. Það liggur fyrir að borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins vill m.a. beita sér fyrir milljarða nýframkvæmdum á borð við stokk frá sjávarútvegshúsinu við Sæbraut að Ánanaustum sem ekki er innan áðurnefndrar fjárhagsáætlunar eða í forgangsröðun samkvæmt málefnasamningi fráfarandi meirihluta. Einstaklingar í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins hafa einnig beitt sér fyrir öðrum útgjöldum og annarri forgangsröðun en þeirri sem setur velferðarþjónustuna í borginni í forgang. Forsenda slíkrar forgangsröðunar er styrk og aðhaldssöm fjármálastjórn borgarinnar sem undirritaður hefur lagt ríka áherslu á. Undirritaður vill ítreka að hann hefur hvergi greint rangt frá þessum málum né öðrum á vettvangi borgarstjórnar og vill ekki sitja undir ásökunum um annað. Er m.a. vísað til dylgna um annað þar sem hann er jafnvel sagður „síljúgandi“. Einnig er lögð áhersla á að borgarfulltrúum fráfarandi meirihluta mátti vera fullkunnugt um efni umrædds minnisblaðs, sérstaklega oddvita borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokks og núverandi borgarstjóra. Það hefur komið í hlut annarra en undirritaðs að leka trúnaðargögnum úr borgarráði til fjölmiðla, eins og hefur verið lenska í borgarráði frá því að undirritaður kom aftur til starfa í borgarstjórn 1. desember 2007. R08080073
29. Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Fulltrúar Samfylkingarinnar höfðu frumkvæði að ítarlegri umfjöllun borgarráðs um Breiðavíkurskýrsluna svonefndu í byrjun mars sl. Í kjölfarið sameinaðist borgarráð um neðangreinda samþykkt:
Borgarráð samþykkir í tilefni skýrslu um könnun á starfsemi Breiðavíkurheimilisins 1952-1979:
1. Að haft verði samráð við Breiðavíkursamtökin um viðbrögð og næstu skref Reykjavíkurborgar í kjölfar Breiðavíkurskýrslunnar.
2. Að könnuð verði staða undirbúnings á frumvarpi forsætisráðherra vegna Breiðavíkurskýrslunnar.
3. Að samantekt verði gerð um viðbrögð stjórnvalda, og sveitarfélaga sérstaklega, í sambærilegum málum sem upp hafa komið á undanförnum árum á Norðurlöndum.
4. Að lagt verði mat á það hvort Reykjavíkurborg telji tilefni til að kanna frekar starfsemi á öðrum heimilum og úrræðum barnaverndaryfirvalda, fyrr og nú.
Óskað er upplýsinga um stöðu málsins og afdrif samþykktarinnar. R07020046
30. Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna óska bókað vegna 19. liðar fundargerðarinnar:
Vafamál er að varafulltrúi Framsóknarflokksins sé kjörgengur til borgarráðs. Þetta kemur fram í svari sem skrifstofustjóri borgarstjórnar leggur fram í borgarráði í dag. Í svarinu kemur fram að hann telur óljóst hvort gerð séu strangari kjörgengisskilyrði í borgarráði en í aðrar nefndir og ráð borgarinnar og telur að skýrar þurfi að kveða upp úr með þau í samþykktum. Jafnframt telur hann að færa megi rök að því að varamaður í borgarráði þurfi að minnsta kosti að vera varaborgarfulltrúi. Umræddur fulltrúi sat í morgun sinn fyrsta fund í borgarráði en hann er jafnframt formaður stjórnar Orkuveitunnar, Guðlaugur Sverrisson. Guðlaugur skipaði 14. sæti á framboðslista Framsóknarflokksins í síðustu borgarstjórnarkosningum. Borgarráð er framkvæmdastjórn Reykjavíkurborgar þar sem haldnir eru fundir vikulega um meginmál í rekstri og stefnumótun borgarinnar. Þar eiga samkvæmt sveitarstjórnarlögum sæti kjörnir fulltrúar enda brýnt að þeir sem þar sitja hafi ríkt umboð frá kjósendum og almenningi. Það er sannarlega ekki til þess fallið að auka virðingu borgarstjórnar að meirihlutinn láti það óátalið að umræddur varamaður sitji við borð framkvæmdastjórnar borgarinnar þrátt fyrir fyrirliggjandi efasemdir.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óska bókað vegna sama liðar:
Eins og kemur fram í umsögn skrifstofustjóra borgarstjórnar leikur enginn vafi á því að viðkomandi fulltrúi uppfyllir almenn kjörgengisskilyrði í nefndir og ráð borgarinnar. Á meðan ekki er kveðið með skýrum hætti á um strangari kjörgengisskilyrði varamanna í borgarráði, hljóta hin almennu skilyrði að gilda. Að öðru leyti verður þessi umræða um samþykktir borgarinnar tekin upp á vettvangi forsætisnefndar. R08010159
Fundi slitið kl. 11.25
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson
Björk Vilhelmsdóttir Dagur B. Eggertsson
Guðlaugur G. Sverrisson Júlíus Vífill Ingvarsson
Kjartan Magnússon Svandís Svavarsdóttir