No translated content text
Borgarráð
B O R G A R R Á Ð
Ár 2006, fimmtudaginn 6. apríl, var haldinn 4931. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 11:05. Viðstaddir voru, auk borgarstjóra, Alfreð Þorsteinsson, Árni Þór Sigurðsson, Guðrún Ebba Ólafsdóttir og Stefán Jón Hafstein. Jafnframt sat fundinn Ólafur F. Magnússon.
Fundarritari var Ólafur Kr. Hjörleifsson.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Árbæjar frá 21. mars. R06010009
2. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Grafarvogs frá 14. mars. R06010011
3. Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 29. mars. R06010018
4. Lögð fram fundargerð skipulagsráðs frá 5. apríl. R06010008
B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.
5. Lögð fram fundargerð stjórnar Sorpu bs. frá 27. mars. R06010024
6. Lögð fram fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 31. mars. R06010026
7. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 12 mál. R06030167
8. Lagt fram yfirlit stjórnsýslu- og starfsmannasviðs yfir embættisafgreiðslur umsókna um áfengisveitingaleyfi, dags. í dag, alls 6 mál. R06010117
9. Lagt fram bréf sviðsstjóra skipulags- og byggingarsviðs frá 30. f.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 29. s.m., varðandi breytingu á aðalskipulagi vegna Tónlistarhúss og ráðstefnumiðstöðvar í Austurhöfn. R06010166
Samþykkt.
- Kl. 11.08 taka Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, Hanna Birna Kristjánsdóttir og Ólafur F. Magnússon sæti á fundinum.
10. Lagt fram bréf skipulags- og byggingarsviðs frá 5. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., varðandi breytingu á aðalskipulagi vegna Mýrargötusvæðis. R05100109
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Reykjavíkurlista vísa til bókana fulltrúa sinna í skipulagsráði 5. þ.m.
11. Lagt fram bréf skipulags- og byggingarsviðs frá 5. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., varðandi breytingu á aðalskipulagi vegna reita 1.244.1og 3, Einholt/Þverholt. R06010165
Samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Reykjavíkurlista vísa til bókana fulltrúa sinna í skipulagsráði 5. þ.m.
12. Lagt fram bréf sviðsstjóra skipulags- og byggingarsviðs frá 30. f.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 29. s.m., varðandi auglýsingu á tillögu að breyttu deiliskipulagi við Elliðavað og Búðavað. R05100148
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óska bókað að þeir samþykki auglýsingu með hefðbundnum fyrirvara um endanlega afstöðu.
- Kl. 11.13 tekur Dagur B. Eggertsson sæti á fundinum.
13. Lagt fram bréf byggingarfulltrúa frá 29. f.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., þar sem óskað er eftir heimild borgarráðs til að beita dagsektum til að knýja á um úrbætur á fasteignunum að Andrésbrunni 16 og 18. R06030184
Samþykkt.
14. Lögð fram tillaga stjórnar kirkjubyggingarsjóðs um úthlutanir úr sjóðnum fyrir árið 2006, dags. 24. f.m. R06030168
Samþykkt.
15. Lagður fram ársreikningur Austurhafnar - TR ehf. fyrir árið 2005, ásamt bréfi ríkisendurskoðanda, dags. 31. f.m. R06020037
16. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar yfir styrkumsóknir sem borist hafa borgarráði, dags. í dag. R06010037
Samþykkt að veita endurhæfingar- og stuðningsmiðstöðinni Ljósinu rekstrarstyrk að fjárhæð 500 þkr. Jafnframt samþykkt að veita Félagi yfirmanna eldhúsa heilbrigðisstofnanna á Íslandi styrk að fjárhæð 150 þkr. til þinghalds í Reykjavík.
17. Lögð fram drög að heildarstefnukorti Reykjavíkurborgar fyrir árið 2007, ásamt skilgreiningum, dags. 31. f.m. Jafnframt lagt fram bréf borgarstjóra um málið, dags. 3. þ.m. R05040098
Samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum.
18. Lagður fram kjarasamningur Reykjavíkurborgar og Stéttarfélags íslenskra félagsráðgjafa, dags. 9. f.m. R05090161
Borgarráð staðfestir samninginn fyrir sitt leyti.
19. Lagt fram bréf skrifstofustjóra framkvæmdasviðs frá 3. þ.m. þar sem lagt er til að borgarráð samþykki kauptilboð nánar tilgreindra aðila í byggingarrétt á samtals 104 lóðum í Úlfarsárdal, og jafnframt að 10 einbýlishúsalóðir, sem ekki gengu út, verði boðnar út að nýju. R06040011
Samþykkt með 3 samhljóða atkvæðum.
Árni Þór Sigurðsson óskar bókað að hann sitji hjá við atkvæðagreiðsluna.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Þessi lóðasala sýnir því miður með skýrum hætti slæmar afleiðingar lóðaskorts- og uppboðsstefnu R-listans. Þannig er meðallóðaverð fyrir einbýlishús rúmlega 14 milljónir; fyrir parhús rúmlega 8 milljónir; raðhús rúmlega 10 milljónir; og það sem mestum áhyggjum veldur er mikil hækkun á lóðaverði fyrir íbúð í fjölbýli sem hækkar verulega og er nú komin í 7 milljónir kr. Sú staðreynd mun hækka verð slíkra íbúða verulega og t.d. gera ungu fólki mjög erfitt að fjárfesta í sinni fyrstu íbúð. Allt þetta staðfestir nauðsyn þess að víkja frá þessari stefnu og gefa öllum tækifæri á að byggja og búa í Reykjavík.
Ólafur F. Magnússon óskar bókað:
Þær upphæðir sem greiða þarf fyrir byggingarrétt í Úlfarsárdal eru allt of háar og kalla á að fallið verði frá lóðaútboðsstefnu R-listans.
Borgarráðsfulltrúar Reykjavíkurlista óska bókað:
Lóðaverð í Úlfarsárdal endurspeglar það lóðaverð sem almennt er á verðmæti byggingalóða á höfuðborgarsvæðinu í heild. Útboðsleiðin skilar borginni réttmætum tekjum sem fara til samfélagsverkefna, en enda ekki hjá milliliðum sem þá myndu stinga tekjum af hækkuðu lóðaverði í eigin vasa.
20. Borgarráðsfulltrúar Reykjavíkurlista leggja fram svohljóðandi tillögu:
Í ljósi þess að uppbygging í Úlfarsárdal er nú að hefjast af miklum þrótti, samþykkir borgarráð að deiliskipulagsvinnu við íþróttasvæði Fram í dalnum verði flýtt, svo að taka megi í notkun hluta svæðisins um það leyti er fyrstu íbúarnir flytja í hverfið. R06040011
Samþykkt.
21. Lagt fram bréf skrifstofustjóra framkvæmdasviðs frá 20. f.m. þar sem lagt er til að eigendum Stigahlíðar 45-47 verði úthlutað bílastæðalóð sunnan Hamrahlíðar, gegnt lóðunum nr. 50 og 52 við þá götu, með nánar tilgreindum skilmálum. R05040037
Samþykkt.
22. Lagt fram bréf sviðsstjóra skipulags- og byggingarsviðs frá 4. þ.m. þar sem óskað er eftir 100 mkr. viðbótarfjárveitingu vegna fyrirhugaðrar hugmyndasamkeppni um skipulag Vatnsmýrar. R06010045
Samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum.
Ólafur F. Magnússon óskar bókað:
F-listinn telur nú sem fyrr að hugmyndasamkeppni um skipulag Vatnsmýrarinnar sé út í hött þegar framtíð Reykjavíkurflugvallar er óráðin. F-listinn leggur áherslu á áframhald innanlands-, sjúkra- og öryggisflugs á Reykjavíkurflugvelli í Vatnsmýrinni.
23. Lagt fram bréf aðstoðarsviðsstjóra framkvæmdasviðs frá 30. f.m. varðandi erindi Siglingastofnunar frá 27. febrúar sl. um sjóvarnakafla samgönguáætlunar fyrir árin 2007-2010. R06030005
Samþykkt.
24. Lagt fram bréf skrifstofustjóra framkvæmdasviðs frá 20. f.m. varðandi úthlutun lóðar til Veiðifélagsins Úlfarsár. R06040013
Samþykkt.
25. Lagður fram úrskurður matsnefndar eignarnámsbóta frá 29. f.m. í matsmálinu nr. 9/2005, Reykjavíkurborg gegn Kjartani Gunnarssyni. Jafnframt lagt fram minnisblað skrifstofustjóra lögfræðiskrifstofu stjórnsýslu- og starfsmannasviðs um málið, dags. í dag. R04010121
Hanna Birna Kristjánsdóttir víkur af fundi við meðferð málsins.
26. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 4. þ.m.:
Lagt er til að borgarráð samþykki að Vesturgata 16b - Gröndalshús verði keypt fyrir kr. 13.250.000, - sem er brunabótamat eignarinnar og húsið verði varðveitt í Árbæjarsafni. Þá samþykki borgarráð að verja kr. 19.800.000 til kaupa hússins og flutnings þess af liðnum ófyrirséð. Tekin verði afstaða til fjárveitinga til þess að gera húsið upp í Árbæjarsafni við gerð fjárhagsáætlunar.
Greinargerð fylgir tillögunni. R05010055
Samþykkt.
27. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Reykjavíkurlista:
Lagt er til að borgarráð veiti Námsflokkum Reykjavíkur 2 mkr. aukafjárveitingu á árinu 2006 til að mæta þeirri umframeftirspurn sem orðin er við íslenskukennslu innflytjenda og veita frekari kennslu á vorönn til að ekki þurfi að skrá útlendinga á biðlista eftir íslenskunámi.
Greinargerð fylgir tillögunni. R05080140
Samþykkt.
28. Lögð fram skýrsla viðræðuhóps dómsmálaráðherra, Reykjavíkurborgar og lögreglustjórans í Reykjavík um löggæslu í Reykjavík, dags. 28. f.m. R03060032
Bókun borgarráðs:
Borgarráð fagnar því að samstaða hefur náðst um áherslur borgarstjórnar um aukna og sýnilega löggæslu í öllum hverfum og hvetur til þess að tillögu starfshópsins verði hrint í framkvæmd sem fyrst.
29. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Óskað er eftir upplýsingum um áhrif nýlegra gengisbreytinga á efnahag og rekstur Reykjavíkurborgar, borgarsjóð og samstæðu, vegna yfirstandandi árs. R06040028
30. Lagðar fram stefnur í málum Reykjavíkurborgar og Strætó bs. gegn Keri hf., Olíuverslun Íslands hf. og Skeljungi hf., dags. í dag, þar sem krafist er skaðabóta vegna ólögmæts verðsamráðs félaganna. R06040022
31. Rætt um sölu Orkuveitu Reykjavíkur á raforku til stóriðju. R06040029
Árni Þór Sigurðsson óskar bókað:
Í tilefni af samþykkt stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 30. mars sl. um úttekt á möguleikum OR til að afla raforku til stóriðju í Helguvík, vill undirritaður taka eftirfarandi fram: Það er skoðun mín og félaga minna í VG, að orkuöflun á vegum Orkuveitu Reykjavíkur í þágu álversuppbyggingar og annarrar stóriðju verði að skoða með heildstæðum hætti. Samþykkt var bókun þess efnis á fundi stjórnar OR 1. júni 2005 og er ekki séð að forsendur hennar hafi breyst. Eðlilegt hlýtur að teljast að stefnumarkandi ákvarðanir um orkuöflun til stóriðju verði skoðaðar á vettvangi eigenda Orkuveitunnar, þ.e. Borgarstjórnar Reykjavíkur og þeirra flokka sem þar starfa, en slík umræða hefur ekki farið fram, og er samþykktin því einungis á ábyrgð þeirra sem að henni stóðu. Auk þess er af þessu tilefni ítrekuð sú áhersla Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs að OR verði áfram í eigu almennings. Flokkurinn hefur staðið vörð um Orkuveituna á yfirstandandi kjörtímabili og mun leggja sömu áherslur á því næsta. Þá er og varað við að Orkuveitu Reykjavíkur sé beitt í pólitísku skyni til að halda enn áfram aðgerðum í þágu einhæfra lausna í atvinnumálum sem ógna náttúru, loftslagi og fjölbreyttu atvinnulífi í þessu landi. Ennfremur er ástæða til að minna á að umhverfisráð Reykjavíkur hefur í samþykkt frá 20. mars sl. lýst stuðningi við afstöðu stjórnar Reykjanesfólkvangs til virkjanaáforma innan fólkvangsins, en þar er í meginatriðum lagst gegn tilraunaborunum og virkjunum á svæðinu.
Alfreð Þorsteinsson óskar bókað:
Í tilefni af bókun Árna Þórs Sigurðssonar fulltrúa Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, vill undirritaður taka fram eftirfarandi: Orkuveita Reykjavíkur hefur selt raforku til stóriðju um langt skeið og full samstaða ríkt um þá stefnu innan stjórnar fyrirtækisins, án nokkurra skilyrða hvaða aðila yrði seld raforka í því skyni. Þegar forystumenn verkalýðshreyfingarinnar á Suðurnesjum sendu stjórn Orkuveitunnar bréf 28. mars s.l. þar sem óskað var eftir því, að kannað yrði hvort Orkuveitan gæti tryggt fyrirhuguðu álveri í Helguvík þá orku sem þyrfti, og Hitaveita Suðurnesja gæti ekki útvegað, samþykktu fulltrúar Framsóknarflokks, Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks í stjórninni að verða við erindinu, enda hafði samfélagið á Suðurnesjum orðið fyrir þungu höggi í atvinnumálum. Í því sambandi yrði hugað að eftirtöldum aðtriðum: Mögulegri orkuöflun, flutningsleiðum, verð og hagkvæmni, öflun rannsóknaleyfa, áhrif virkjanaframkvæmda á umhverfi og áhrif framkvæmda í tenglsum við verkefnið á efnahagslífið. Niðurstöður úttektarinnar verði kynntar stjórn og eigendum.
Fulltrúar þeirra flokka, sem standa að Reykjavíkurlistanum, hafa allir lagt áherslu á, að Orkuveita Reykjavíkur yrði áfram í almannaeign. Vinstrihreyfingin - grænt framboð sker sig ekkert sérstaklega úr hvað það varðar. Uppbygging stóriðju hefur haft góð áhrif á atvinnuuppbyggingu á höfuðborgarsvæðinu. Er það ekki síst að þakka virkjunarframkvæmdum Orkuveitunnar á Nesjavöllum og Hellisheiði. Hefur Orkuveitan í hvívetna lagt sig í framkróka að virkja í góðri sátt við náttúruverndarsjónarmið. Umrædd samþykkt í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur varðandi stóriðju í Helguvík er gerð með öllum þeim fyrirvörum sem meirihluti stjórnarinnar taldi að þyrfti að liggja fyrir, áður en endanleg ákvörðun verður tekin.
Ólafur F. Magnússon óskar bókað:
F-listinn leggur áherslu á að Orkuveitan og Landsvirkjun verði áfram í eigu almennings og bendir á að fulltrúar VG í borgarstjórn studdu ekki tillögu F-listans, þar sem lagst var gegn áformum um virkjun jarðvarma í Kerlingarfjöllum.
Fundi slitið kl. 12:00
Stefán Jón Hafstein
Alfreð Þorsteinsson Árni Þór Sigurðsson
Dagur B. Eggertsson Guðrún Ebba Ólafsdóttir
Hanna Birna Kristjánsdóttir Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson