Aðgengis- og samráðsnefnd í málefnum fatlaðs fólks - Fundur nr. 13

Aðgengis- og samráðsnefnd í málefnum fatlaðs fólks

Ár 2020, þriðjudaginn 9. júní, var haldinn 13. fundur aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12.48. Fundinn sátu: Þorkell Heiðarsson, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Egill Þór Jónsson, Ingólfur Már Magnússon, Andri Valgeirsson, Björgvin Björgvinsson og Hanna Björk Kristinsdóttir. Fundinn sátu einnig Anna Kristinsdóttir og Tómas Ingi Adolfsson, sem ritaði fundargerð.

Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 230/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðarákvæðis sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011: Bergþór Heimir Þórðarson og Lilja Sveinsdóttir. Þórdís Linda Guðmundsdóttir frá velferðarsviði sat jafnframt fundinn með fjarfundabúnaði.

Þetta gerðist:

 1. Lagt er fram bréf til fagráða frá skrifstofu borgarstjórnar, dags. 3. júní 2020, um samþykkt borgarstjórnar á tillögu um framlengingu á heimild til frávika frá skilyrðum sveitarstjórnarlaga vegna neyðarástands í sveitarfélagi varðandi notkun á fjarfundabúnaði.

  Fylgigögn

 2. Fram fer umræða um göngugötur í miðborginni.

  Rebekka Guðmundsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

  Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Farið er í framkvæmd göngugatna þrátt fyrir mikla andstöðu rekstraraðila og meirihluta íbúa Reykjavíkur. Þá er einnig gerð athugasemd við samráðsleysi við útfærslu göngugatna. Í umsögnum rekstraraðila er ljóst að margt er aðfinnsluvert varðandi aðkomu og aðgengi. Rekstrarumhverfi í miðborginni hefur versnað mikið og þarf borgin frekar að létta undir með rekstaraðilum og vinna í góðri samvinnu. Áralöng barátta fatlaðs fólks fyrir því að geta keyrt P-merkta bíla skilaði loks árangri þegar nýju umferðarlögin tóku gildi. Þar segir: „Umferð vélknúinna ökutækja um göngugötu er óheimil. Þó er umferð vélknúinna ökutækja akstursþjónustu fatlaðra, handhafa stæðiskorta fyrir hreyfihamlaða heimil“ Á fundi skipulags- og samgönguráðs þann 3. júní 2020 var hins vegar lagt fram minnisblað Reykjavíkurborgar vegna umferðarlaganna þar sem Reykjavíkurborg óskar eftir því að það verði í höndum sveitarfélagsins hvort undanþágur verði veittar frá banni við að aka vélknúnum ökutækjum á göngugötu. Verði Alþingi að óskum Reykjavíkurborgar er um að ræða afturför áralangra baráttu fatlaðs fólks. Verði öllum áformum um göngugötur að veruleika verður vegarkaflinn frá Hlemmi niður á Lækjartorgi lokaður, ein lengsta göngugata í Evrópu. Því er hætta á að aðgengi hreyfihamlaðra verði verulega skert í miðborg Reykjavíkur. 

  Fulltrúar Samfylkingar og Pírata leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

  Göngugötur snúast um að auka aðgengi allra. Með auknu rými, römpum inn í verslanir, leiðilínum í götum og fleiri P-merktum stæðum er verið að opna miðbæinn öllum sem þangað vilja koma.

  Fylgigögn

 3. Fram fer umræða um aðgengisúttekt á Ráðhúsi Reykjavíkur.
  Aðgengis- og samráðsnefnd óskar eftir því að tillögur úr skýrslunni verði kostnaðarmetnar og kostnaðarmat liggi fyrir haustið 2020.
  Samþykkt.

  Fylgigögn

 4. Fram fer umræða um aðgengi að kjörstöðum í Reykjavík.
  Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu er falið að semja bréf á viðeigandi aðila þar sem mikilvægi aðgengis að kjörstöðum fyrir alla er ítrekað. Til hliðsjónar verði sendur gátlisti um aðgengismál fyrir alla kjörstaði.
  Samþykkt.

 5. Fram fer umræða um launafyrirkomulag fulltrúa í aðgengis- og samráðsnefnd.

  Aðgengis- og samráðsnefnd leggur fram svohljóðandi bókun:

  Aðgengis- og samráðsnefnd í málefnum fatlaðs fólks beinir því til forsætisnefndar að launakjör nefndarfólks séu samræmd með tilliti til annarra nefnda og ráða og stöðu nefndarinnar í stjórnkerfinu sem fastanefndar, svo að tryggt sé að jafnræðis sé gætt.

 6. Lögð er fram fyrirspurn, dags. 9. júní 2020, frá aðgengis- og samráðsnefnd um stöðu á tillögu um skráningu og betri umgjörð á undanþágum og undanþágubeiðnum vegna aðgengis fyrir fatlað fólk.
  Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.
  Samþykkt.

Fundi slitið klukkan 14:28

Dóra Björt Guðjónsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
adgengis_og_samradsnefnd_0906.pdf