Vöxtur í byggingu nýrra íbúða í Reykjavík

""

Samtals var hafin bygging 646 nýrra íbúða  í Reykjavík ef litið er á útgefin byggingarleyfi á þessu ári frá janúar til júlí.  Íbúðirnar eru flestar í fjölbýli eða 631, tíu íbúðir eru í tvíbýlishúsi og fimm einbýli.

Á árinu 2019 fóru 846 nýjar íbúðir í byggingu og því verða nýbyggingar að öllum líkindum fleiri í ár en í fyrra. Samtals hefur bygging hafist á 5.680 nýjum íbúðum frá ársbyrjun 2015 og er það mesta uppbyggingartímabil nýrra íbúða í Reykjavík í áratugi.

Árið 2018 var metár í byggingu nýrra íbúða í Reykjavík en á því ári hófst bygging á 1.417 íbúðum í Reykjavík skv. útgefnum byggingarleyfum. Heildarfjöldi íbúðaeininga er hátt í 54.000 í borginni í dag.

Mesta samdráttarskeið í byggingu nýrra íbúða í Reykjavík var frá 2009 til 2011 en þá var hafin smíði á samtals 282 íbúðum yfir tímabilið og þar af einungis tíu íbúðir árið 2010.

Nánari upplýsingar um þróun húsnæðismála í Reykjavík