Vogabyggð breytist í íbúðahverfi

Atvinnumál Fjármál

""

Vogabyggð austan Sæbrautar verður breytt í íbúða- og atvinnusvæði samkvæmt deiliskipulagstillögu sem er í vinnslu. Svæðið er í dag eingöngu atvinnusvæði en eftir breytingar verður fjórðungur húsnæðis ætlaður atvinnustarfsemi.   Gert er ráð fyrir 1.100 íbúðum í hverfinu eftir breytingar.

Breytingin kallar á endurbyggingu á öllum innviðum hverfisins og á það sér ekki fordæmi í Reykjavík að endurbyggja og breyta svo stóru svæði sem hér um ræðir. Reykjavíkurborg hefur kynnt þessi áform um breytingu á skipulagi og fyrirkomulag á uppbyggingu fyrir lóðarhöfum innan hverfisins.

Í upphafi árs var sérstökum starfshópi hjá borginni falið að vinna að uppbyggingu hverfisins og hefur hann fengið umboð borgarráðs til að semja við lóðarhafa á grundvelli fyrirliggjandi deiliskipulagstillagna og samningsramma.

Verðmætari lóðir

Deiliskipulagstillagan gerir ráð fyrir auknu byggingarmagni á svæðinu.  Íbúðarhúsnæði verður á flestum lóðum og heildarbyggingarmagn um 155.000 m  fyrir þær 1.100 íbúðir sem áætlað er að byggja. Atvinnuhúsnæði verður á um 56.000 m.

Þessi uppbygging og breytt nýting mun auka verðmæti lóðanna verulega. Vegna mikils kostnaðar við uppbyggingu innviða hverfisins er áformað að semja við lóðarhafa um fyrirkomulag uppbyggingar og þátttöku þeirra. Í samþykkt borgarráðs áskilur Reykjavíkurborg sér rétt til að hefja ekki framkvæmdir við uppbyggingu hverfisins fyrr en lóðarhafar sem ráða yfir 70% af nýju byggingarmagni á viðkomandi svæði hafa skuldbundið sig til þátttöku og að ráðast í uppbyggingu á sínum lóðum.   Lóðarleigusamningar á svæðinu eru alls 50 og lóðarhafar um 140 talsins.

Kröfur um fjölbreytni og gæði

Við uppbyggingu hverfisins verða höfð að leiðarljósi samningsmarkmið Reykjavíkurborgar fyrir endurbyggingu eldri hverfa sem samþykkt voru í borgarráði í nóvember sl. en þau eru:

  • Fjölbreytileiki í stærð og gerð íbúða
  • Gæðasvæði og gott umhverfi
  • Góð nýting lands
  • Stofnkostnaður innviða sé greiddur með fjármunum af uppbyggingunni
  • Sérstakar fjárhæðir séu til listsköpunar
  • 20 – 25% íbúða séu leigu-, búsetu- og stúdentaíbúðir
  • Kaupréttur Félagsbústaða sé að 5% íbúða

Í síðasta lagi 1. nóvember á að liggja fyrir hvort nægilegur fjöldi  lóðarhafa vilji taka þátt í endurbyggingu Vogabyggðar. 

Nýr skóli gangi samningar eftir

Breytingarnar á hverfinu kalla á framkvæmdir við gerð gatna, torga, stíga, nýrra stofnlagna, strandstíga, útsýnis- og göngupalla, landfyllinga og grjótvarna. Auk þess er gert ráð fyrir göngubrú og stíflu við Háubakkatjörn, brú yfir Naustavog, færslu á Kleppsmýrarvegi og færslu á skólpdælustöð. Verði hverfinu breytt í íbúðahverfi með 1.100 íbúðum kallar það á byggingu grunn- og leikskóla, en gert er ráð fyrir að ráðist verði í slíka framkvæmd samhliða uppbyggingu íbúða. Frumkostnaðaráætlun fyrir uppbyggingu innviða hverfisins nemur tæpum 5 milljörðum.

Hverfið í heild afmarkast af Kleppsmýrarvegi, Sæbraut og Súðarvogi, en því er skipt í fimm svæði til að auðvelda vinnslu skipulags og samninga.

  • Vogabyggð 1: Gelgjutangi. Deiliskipulag í vinnslu
  • Vogabyggð 2: Norðurtangi. Deiliskipulag í vinnslu
  • Vogabyggð 3: Miðsvæði. Deiliskipulag í vinnslu
  • Vogabyggð 4: Suðursvæði.
  • Vogabyggð 5: Naustavogur.

Í þessum mánuði eru áformaðir frekari fundir með lóðarhöfum á svæðum 1 – 3. Kynningargögn frá fyrri fundum með lóðarhöfum og samþykkt borgarráðs er aðgengileg á vefsíðunni  Vogabyggð – uppbygging