Árleg vitundarvakning um öryggi í sundlaugum Reykjavíkur hefst á sunnudaginn, 21. janúar. Vitundarvakningin er haldin í nafni Guðna Péturs Guðnasonar, starfsmanns velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, sem lést í Sundhöll Reykjavíkur.
Þann 21. janúar 2021 lést Guðni Pétur Guðnason, stuðningsfulltrúi á velferðarsviði, í Sundhöll Reykjavíkur. Hann var í vinnunni, í sundi með skjólstæðingi sínum sem bjó í búsetukjarnanum að Flókagötu. Eftir fund foreldra hans, Guðna Heiðars Guðnasonar og Sigrúnar Drífu Annieardóttur, með borgarstjóra og sviðsstjóra velferðarsviðs og í kjölfar víðtæks undirbúnings og samráðs, samþykkti borgarráð að fara í umfangsmeiri aðgerðir en verið hefur varðandi öryggismál í sundlaugum. Voru samþykktar 13 tillögur þar að lútandi. Tillögurnar fólu meðal annars í sér víðtækari aðgerðir en opinberir aðilar, svo sem umhverfis- og auðlindaráðuneytið og Vinnueftirlitið, kveða á um. Þannig yrðu til dæmis endurskoðaðar og uppfærðar verklagsreglur og ákvörðunarréttur forstöðumanna til að draga úr þjónustu eða takmarka fjölda gesta rýmkaður. Þá yrði nafn Guðna Péturs tengt vitundarvakningu um öryggismál í sundlaugum borgarinnar, 21. janúar ár hvert.
Opið hús og öryggisbúnaður kynntur
Vitundarvakningin fer nú fram í fyrsta sinn og hefst hún með opnu húsi í Sundhöll Reykjavíkur á sunnudaginn klukkan 14-16. Þar munu gestir geta kynnt sér og prófað þann öryggisbúnað sem notaður er í sundlaugum og við neyðaræfingar starfsfólks. Sá dagur er upphaf öryggisviku í sundlaugunum þar sem innleidd verður ný námslína fyrir laugarverði en þar er lögð áhersla á öryggi og gæði vatns. Ráðstefna verður haldin fyrir öryggisverði og öryggistrúnaðarmenn og lýkur öryggisvikunni með opnu húsi í Grafarvogslaug laugardaginn 27. janúar kl. 14-16, þar sem gestir geta prófað öryggisbúnað sem notaður er við björgun í sundlaugum.
Reykjavíkurborg rekur átta sundlaugar. Þær eru Árbæjarlaug, Breiðholtslaug, Dalslaug, Grafarvogslaug, Klébergslaug, Laugardalslaug, Sundhöll Reykjavíkur og Vesturbæjarlaug. Sameiginleg sundlaug með Kópavogsbæ í Fossvogsdal er í undirbúningi og aðrar á áætlun. Hér eftir sem hingað til verður unnið í sundlaugunum með öryggi gesta að leiðarljósi svo upplifun þeirra verði sem best þegar þeir heimsækja laugarnar til leikja, heilsuræktar og slökunar og þeir upplifi þær áfram sem líkamlega, andlega og félagslega heilsulind.