Móta á framtíðarsýn fyrir Vísindaheima í Háskólabíói, sem yrði fullburða vísindasetur opið almenningi. Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Einar Þorsteinsson borgarstjóri skrifuðu undir viljayfirlýsingu þessa efnis í dag.
Byggt á góðri reynslu
Byggt verður á góðri reynslu af Vísindasmiðju Háskóla Íslands, sem hefur tekið á móti um 36 þúsund grunnskólanemum, auk hópa framhaldsskólanema og leikskólabarna frá því hún var opnuð í Háskólabíói í mars 2012. „Reynsla síðustu 12 ára hefur sýnt að mikil þörf og áhugi er fyrir gagnvirku, lifandi vísindasetri,“ segir í viljayfirlýsingunni.
„Mér finnst afar mikilvægt að efla aðstöðu fyrir börn og fjölskyldur þeirra þar sem hægt er að fræðast um undraheima vísindanna og njóta samveru. Erlendis sjáum við víða afar glæsileg vísindasöfn sem þjóna bæði almenningi og skólum borganna. Við settum okkur það markmið í upphafi kjörtímabilsins að stjórna borginni útfrá hagsmunum barna – og það að búa til framtíðarsýn fyrir vísindasetur er klárlega í þeim anda,“ segir Einar Þorsteinsson borgarstjóri.
Starfshópur um Vísindaheima
Sameiginlegur starfshópur hefur verið myndaður og eru helstu verkefni hans tíunduð í erindisbréfi:
- Gera áætlun um mögulega uppbyggingu Vísindaheima og hvernig mætti skipta uppbyggingunni í áfanga.
- Gera tillögur um hvaða starfsemi fari einkum fram í Vísindaheimum.
- Kortleggja og leita til samstarfsaðila sem hafa áhuga á að taka þátt í uppbyggingu Vísindaheima í Háskólabíói.
- Gera drög að rekstrarlíkani fyrir Vísindaheima og áætlun um mögulegan kostnað við hvern áfanga, bæði varðandi breytingar á húsnæði og uppbyggingu tækjabúnaðar.
Starfshópinn skipa: Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri miðlægrar stjórnsýslu HÍ; Guðrún Jónsdóttir Bachmann, Vísindasmiðju HÍ; Ingibjörg Gunnarsdóttir, aðstoðarrektor vísinda við HÍ; Eyjólfur B. Eyjólfsson, forstöðumaður Nýmenntar við Menntavísindasvið HÍ; Hulda Hallgrímsdóttir, verkefnastjóri atvinnu- og borgarþróunar á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara; og Arndís Steinþórsdóttir, skrifstofustjóri grunnskólamála á skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar.
Efla áhuga á vísindum
„Ég fagna samstarfi við Reykjavíkurborg um þetta mikilvæga verkefni. Við vinnum ötullega að því að efla áhuga á vísindum og erlendar fyrirmyndir hafa sýnt að verkefni eins og Vísindaheimar skipta þar miklu máli. Hér byggjum við á grunni öflugra samfélagsverkefna sem HÍ heldur úti og kemur að, þ.á m. Vísindasmiðjunnar, Háskóla unga fólksins, Vísindavefsins, LEGO-keppninnar og Nýsköpunarkeppni grunnskólanna. Við hlökkum til að vinna að því að gera öfluga Vísindaheima að veruleika,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.
Tengt efni: