Vilt þú vinna við kosningar?

Kosningar

Fjórar manneskjur að vinna við kosningar á kosningabás í Ráðhúsinu

Reykjavíkurborg leitar að fólki til að taka að sér setu í undirkjörstjórnum við forsetakosningarnar sem fram fara 1. júní. Um er að ræða tækifæri fyrir áhugasöm um framkvæmd lýðræðisins til að afla sér nýrrar reynslu í lifandi og skemmtilegu umhverfi.

Íslendingar munu kjósa sér nýjan forseta laugardaginn 1. júní næstkomandi. 25 kjörstaðir verða í Reykjavík, í öllum hverfum borgarinnar og með aðgengi fyrir öll. Þörf er á stórum hópi fólks til setu í undirkjörstjórnum og þegar hafa um 260 Reykvíkingar boðið sig fram til starfa.

Starf í undirkjörstjórn er þjónustustarf sem felur í sér að taka á móti kjósendum, afhenda kjörseðla og halda bókhald um fjölda og kynjaskiptingu kjósenda. Leitað er að jákvæðu, nákvæmu og þjónustulunduðu fólki sem hefur náð 18 ára aldri, á lögheimili í Reykjavík og getur talað og skilið íslensku.

Hvað færð þú fyrir þinn snúð?

Vaktin er mjög löng, hún hefst klukkan átta að morgni og henni lýkur í fyrsta lagi klukkan 23. Kjörstöðum er lokað klukkan 22 og nauðsynlegt er að gera ráð fyrir einni til tveimur klukkustundum í viðbót við uppgjör. Ekki er í boði að taka hluta af vaktinni, nauðsynlegt er að vera á staðnum allan tímann en þú færð matar- og kaffihlé og við bjóðum upp á morgunmat, hádegismat, kaffi og kvöldmat. Launin eru 82 þúsund krónur fyrir skatt.

Áhugasöm geta sent póst á kosningar@reykjavik.is.

Upplýsingar um kjörstaði Reykjavíkur í forsetakosningum 2024.